Melbourne

Friday, December 30, 2005

Ég bráðna

Paniikk!!! Litla barnið mitt er að byrja í skóla eftir mánuð og stanslaust detta mér í hug litlir hlutir sem hún á eftir að læra áður en ég sleppi af henni hendinni út í lífið; reima skó, skeina, opna plastfilmur, fernur og alls kyns innpökkuð matvæli (svo hún geti nú komist klakklaust í gegnum nestispakkann) og hundrað litlir hlutir í þessa átt. Barnið er komið í stíft æfingarprógram ekki síst þar sem mamman vill helst að hún sé komin af stað í íslenskum lestri áður en hún fer að læra þetta á ensku. Við sitjum því hérna morgun eftir morgun og reimum skó og stautum okkur í gegnum Við lesum - Ása á ól, Ari má fá fána. Verð nú samt að monta mig af litlu fjögurra ára dömunni minni sem er næstum orðin læs!

Svo er hún líka svo góð þessi elska, getur ekki gert flugu mein og vill engan særa. Í morgun útskýrði hún fyrir mér með miklu handapati hvernig fléttur Maggie á leikskólanum væri með og eftir að mamman hafði eftir bestu getu reynt að gera eins leit hún í spegilinn, greinilega ósátt við árangurinn og sagði: "mamma, veistu, þetta er bara ekki minn stíll!!" Ein að fara fínt að þessu!

Hitinn annars að baka okkur hér á suðurhvelinu. 37 gráður í Melbourne í dag, Guði sé lof að við búum við ströndina því innar í fylkinu er 44 stiga hiti! Fórum aðeins í smá göngutúr í dag, vel birgðar af vatni, sólaráburði og derhúfum. Ekki vorum við nú búnar að vera lengi á róluvellinum þegar barnið bað um að fá að fara heim, henni væri of heitt! Mér skilst að allt stefni í heitasta desembermánuð í Melbourne frá upphafi mælinga.

Lágum bara á ströndinni um jólin, ekkert annað að gera í þessu veðri. Hitinn hefur ekki farið niður fyrir 30 gráður síðan á jóladag. Fórum á Elwood beach með Inku og Kim á annan í jólum og Brighton beach á þriðjudeginum með Vanessu, mömmu hennar og bróður. Ástralinn er löngu búinn að afgreiða þessi jól sem hitta svona á helgi. Fyrir hvern frídag sem ber upp á helgi bætist einn frídagur við vikuna - svo í stað jóladags sem var á sunnudegi var þriðjudagurinn frídagur hér. Að sama skapi er frí á mánudag í stað nýársdags sem ber upp á sunnudegi. Eitthvað til eftirbreytni fyrir Íslendinga.

Spáin fyrir gamlársdag er 42 gráður og sól! Hér safnast fólk saman í miðbænum á gamlárskvöld og gera fróðir menn ráð fyrir 500 þúsund manns í bænum annað kvöld - nærri tvöföld íslenska þjóðin takk fyrir! Við erum enn að gera upp við okkur hvort við eigum að treysta okkur í þetta kaos með barnið en erum jafnvel að hugsa um að slá til. Hver veit hvort við eigum eftir að eiga annað gamlárskvöld í Melboure, best að upplifa hlutina meðan völ er á. Ástralir eru líka svo fjölskylduvænir að fyrri flugeldasýningin er klukkan 21:15 svo við gætum komið okkur heim eftir það og skálað í kampavíni heima í heiðardalnum á miðnætti (þ.e.a.s. ef við verðum ekki föst í biðröð eftir lest eða sporvagni). Þið gerið ykkur grein fyrir því að í 11 klukkustundir munum við fjölskyldan lifa á öðru ári en þið, hehehe!

Ég verð að viðurkenna, ég veit að þið trúið mér ekki, að pínkulítill hluti (en bara pínkupínulítill) saknar kuldans, óveðursins og myrkursins á Íslandi - held ég sé að verða skrýtin - í minningunni eru íslenskir vetur bara soldið rómó og kósý. Sakna þess reyndar EKKERT að keyra í hálku verð ég að segja.

Jæja, best að halda áfram matarundirbúningi fyrir morgundaginn. Var að enda við að gera lax- og rækjuréttinn sem er ómissandi á gamlárskvöld. Gleymdi auðvitað að afþýða rækjurnar áður en ég byrjaði. Því var fljótbjargað, út á svalir fóru rækjurnar og þiðnuðu á augabragði. Svona svipað og þegar maður er að baka á Íslandi og notar svalirnar til að snöggkæla matinn!

Við andfætlingar óskum ykkur öllum gleði og farsældar á komandi ári.

Knús
Unnur Gyða

Sunday, December 25, 2005

Eitt gullkorn

Verð að bæta við einu gullkorni sem valt upp úr Thelmu Kristínu fyrr í kvöld. Við vorum að borða afganginn af möndlugrautnum og Maron sagði við þá stuttu: "Veistu að þessi grautur er kominn frá langömmu þinni. Hún hét Anna og dó þegar pabbi var bara þriggja ára". Þá varð daman ansi hugsi stutta stund og sagði svo: "En pabbi, þá hlýtur hann að vera orðinn soldið gamall"!!!!!!!!!!

Tuesday, December 20, 2005

Gleðileg jól!!

Góðan daginn og gleðilega hátíð!!

Bestu jólakveðjur til ykkar allra!! Sitjum hér í 30 stiga hita og reynum eftir fremsta megni að hafa það jóló! Það hefur nú tekist ótrúlega vel verð ég að segja. Skreyttum gervijólatréð á Þorláksmessu og á eftir fengum við okkur ekta jólasíld úr Ikea!! Fékk meira að segja uppskrift af sósunni hjá Torfa meistara, drukkum góðan bjór með og þetta náði bara að kveikja í manni smá jólastemningu.

Aðfangadagur í gær.. honum var að mestu leyti eytt í eldhúsinu. Ég held við höfum ofsalega gott af því að vera svona þrjú hérna og þurfa sjálf að hugsa um allt sem viðkemur jólunum. Ég komst t.d. að því að ég hef aldrei brúnað kartöflur eða gert möndlugraut.. maður labbar bara á milli jólaboða eins og kóngur alla jólahátíðina og lætur næstu kynslóð um eldamennskuna. Sendum ástarþakkir í Logafoldina fyrir bókina góðu með jólauppskriftunum. Hefðum líklega ekki komist í gegnum daginn án hennar!

Thelma Kristín fór til læknis um miðjan daginn og lét taka af sér gifsið. Fyrir þá sem ekki vita brákaði daman á sér hægri úlnlið fyrir tveimur vikum. Var að dansa uppi á hól sem endaði í lágum vegg. Hoppaði og skoppaði og datt svo á endanum niður, með hendina undir sér. Við biðum í 5 tíma á barnaspítalanum eftir lækni og fengum þá að vita að beinið í hægri úlnlið væri brákað, sama hendi og í fyrra. Við grínumst með það hér að við séum að gera könnun á bráðamóttökum í hinum ýmsu löndum! Lundur á hiklaust vinninginn eins og er, þar fékk daman voða nett gifs rétt yfir úlnliðinn og gat alveg notað hendina. Eftir 10 daga klipptum við það sjálf af henni. Hér var settur á hana þvílíkur hlunkur, hef sjaldan séð annað eins. Hálft gifst eins og í Svíþjóð (nema hér var það sett undir handlegginn en ofan á hann í Svíþjóð) en núna náði það upp fyrir olnboga og svo var settur fatli og allar græjur. Þetta var svo stórt að ég bað læknana um að klippa af þessu eftir á af því ég sá fram á að geta ekki klætt barnið í bol næstu vikurnar! Svo festur þeir ekkert á milli þumals og vísifingur svo öll drulla fór bara beint inn í gifsið og þegar á leið var daman bara farin að hreyfa hendina inni í gifsinu og teygja hana út úr því ef hún þurfti að nota hendina!!!! Svíar vinna tvímælalaust samanburðinn í þetta sinn. Höfum líka haft orð á því að sem betur fer er Thelma Kristín alltaf að slasa sig í sitt hvoru landinu, fengjum líklega heimsókn frá félagsþjónustunni annars!

En alla veganna, gifsið var tekið í gær þrátt fyrir að læknirinn hafi mælt með 3 vikum!! Mamman var komin með nóg af þessu djóki, gifsið var ekki að gera neitt gagn! Borðuðum svo þessa dýrindis máltíð, graflax (sem mín gróf sjálf ligga ligga lái!), kalkúnabringu með brúnuðum kartöflum og waldorfsalati og svo möndlugraut a la tengdó á eftir. Allt heppnaðist þetta með ólíkindum vel og við vorum algerlega sprungin á eftir eins og tilheyrir á þessum degi. Bjargvættur jólanna að þessu sinni er Anna Ólöf sem sendi okkur malt og appelsín!! Knús og kossar Anna... þetta var punkturinn yfir i-ið í gær. Við varla snertum á hvítvíninum... það stóðst ekki samanburð.

Það kom svo loksins að því, eftir langa bið hjá sumum, að gjafirnar voru teknar upp. Ýmislegt skemmtilegt hafðist upp úr krafsinu og þökkum við innilega fyrir okkur. Áttum sem sagt alveg yndislegan aðfangadag hér á suðurhveli þrátt fyrir að jólastemningin hafi verið lítil framan af.

Ástralinn er annars doldið fyndinn þegar kemur að jólaundirbúningi. Jólin hér eru alls ekki jafn heilög og hátíðleg eins og hjá okkur, þetta er meira upphafið á sumarfríinu, tími til að fara í sumarbústað eða á ströndina og detta reglulega í'ða! Samt er svo ótrúlega skondið að jólaskraut og annað vísar að miklu leyti í snjó og kulda... sem er svo langt frá áströlskum jólum að það hálfa væri yfirdrifið. Hér, eins og annars staðar, syngur fólk bara "let it snow, let it snow" og "Frosty the snowman" eins og ekkert sé.

Við vorum líka dugleg að hlusta á íslensk jólalög til að koma okkur í jólaskap. Landafræðikunnáttan hjá þeirri stuttu greinilega komin langt fram úr því sem eðlilegt getur talist hjá 4ra ára barni. Þegar hún syngur "Gekk ég yfir sjó og land" býr hún sko ekki á Klapplandi heldur í Frakklandi... og ekki á Hlælandi heldur á Tælandi!!!

Annars var nóg að gera hjá okkur á aðventunni. Við hjónin fórum á tónleika með Emilíönu Torrini í lok nóvember. Þeir voru alveg frábærir og skemmtum við okkur alveg konunglega enda höfum við mikið hlustað á diskinn hennar. Hittum þarna íslenska stelpu sem var að ferðast um heiminn ásamt kærastanum sínum. Hittum þau nokkrum sinnum á meðan þau dvöldu í Melbourne - alltaf gaman að hitta Íslendinga.

Talandi um tónleika. Við eigum miða á U2 25. mars nk. Maron keypti síðustu miðana og var svo framsýnn að hann keypti 3 auka miða - fyrstur kemur fyrstur fær!

Svo er skólaundirbúningur búinn að vera í fullum gangi. Lokahnykkurinn á Ready Set Go prógramminu fór fram um mánaðarmótin með rosa náttfatapartýi. Nokkrum dögum seinna var svo tilkynnt um kennara og bekkjaskipan og vorum við hæstánægð með árangurinn. Thelma Kristín er í bekk með næstum öllum krökkunum sem koma af hennar leikskóla og Inku finnsku líka. Hún fékk líka langreynslumesta kennarann, hana Thess sem er deildarstjóri yfir öllum 5 ára bekkjunum. Reyndar er hennar bekkur eini bekkurinn sem ekki er í sama húsnæði og hinir 5 ára bekkirnir.. þau eru í húsnæði með 6 og 7 ára krökkunum. En fyrir vikið fá þau stóra tvöfalda stofu sem verið er að gera upp núna í sumarfríinu svo þetta verður í góðu lagi.

Jólaball var haldið á leikskólanum í síðustu viku. Krakkarnir héldu tónleika og sungu allt frá "Jingle Bells" yfir í "What shall we do with the drunken sailor"!! og jólasveinninn mætti og gaf öllum börnunum gjafir. Thelma Kristín fékk þennan fína "dress up" kjól. Jólasveinninn hefur greinilega séð hvað er skemmtlegast að gera á leiksólanum. Það var svolítið sérstakt að öll börnin fengu mismunandi gjafir, oftast tengt áhugasviði hvers og eins ... sýnir vel hversu starfsfólkið er meðvitað um áhuga barnanna - þau hafa greinilega gefið sveinka vísbendingar.

Talandi um jólasveina. Thelma Kristín var með þetta fína "show and tell" í leikskólanum um daginn þar sem hún fór með myndir af íslensku jólasveinunum í skólann og sagði krökkunum frá þeim bræðrum. Mér skilst að þetta hafi gengið alveg ljómandi vel hjá henni, hún hafi talað í 10 mínútur og haldið athygli allra barnanna á meðan.

Þeir fundu svo leiðina úr Esjunni alla leiðina til Ástralíu bræðurnir og meira að segja ástralski sveinninn leit við á jólanóttina. Haldiði að það sé munur að geta haldið í tvær hefðir og fengið það besta af báðum!

Höfum það sem sagt alveg ljómandi gott hérna megin. Gúffum í okkur kræsingum og liggjum í sólinni. Thelma Kristín fór sem betur fer til tannlæknisins fyrir hátíðarnar. Við héldum jafnvel að hún væri komin með fyrstu holuna, hún kvartaði yfir einni tönninni. Hún var nú með það alveg á hreinu að fyrst hún væri bara með eina holu hlyti hún að vera stór.. því Karíus og Baktus þyrftu jú báðir að koma rúmunum sínum fyrir í einni holu! En sem betur fer var þetta engin hola, Karíus og Baktus heimilislausir og daman klár í jólanammið!

Sendum bestu jóla- og nýársóskir heim á Klakann. Hugsum stíft til ykkar þessa dagana. Ástarþakkir fyrir allar jólagjafirnar og kortin.

Lofa að setja inn jólamyndir á myndasíðuna MJÖG fljótlega.

Knús
Unnur

Tuesday, December 13, 2005

Ferðaframhaldssagan, 6. kafli

17. nóvember

Sátum í rólegheitum í þessum fína morgunmat á hótelinu og spáðum í spilin. Að lokum var ákveðið að skipta liði; hinir hraustu og huguðu Maron, Kiddi og Snorri ákváðu að klífa Harbour Bridge en við hin, sem kjósum heldur hið ljúfa líf ákváðum að fara með lyftu upp í Sydney towers og njóta sama útsýnis.

Hófum þó leikinn á kaffibolla niðri í Rocks (gamla hverfinu) áður en leiðir skildu. Við Svanfríður, Thelma Kristín og Kristján röltum í gegnum bæinn áleiðis að turninum mikla.


Thelma Kristín með Sydney Tower í baksýn



Þegar við komum að miðasölunni sáum við fljótlega að það var miklu sniðugra að fara upp á annan veitingastaðanna í hádegismat og sitja þar og njóta útsýnisins í stað þess að borga sig upp með lyftunni annars vegar og kaupa svo hádegismat á kaffiteríunni (sem ekki snerist eins og veitingastaðurinn)hins vegar.

Pöntuðum því þetta fína buffet og tókum lyftuna upp í 250 m. háan turninn. Ferðin tók um 40 sekúndur. Urðum sko ekki fyrir vonbrigðum þegar við komum upp, ofsalega fínn veitingastaður sem snerist, eins og Perlan, með milljón dollara útsýni. Maturinn var heldur ekki af verri endanum, kokkar hlóðu á diskana ostrum, krókódílum, kengúrum, kameldýrum og öðru góðgæti! Heyrði konu við hliðina á mér spyrja hvort þau væru ekki með snákinn í dag, en nei, því miður, ekki í dag!! Kokkarnir voru greinilega ekki vanir því að börn kæmu í hlaðborðið en reyndu sitt allra besta við að benda okkur á það sem börnum gæti mögulega þótt gott. Þegar ég kom aftur að borðinu til þeirra í aðra umferð fóru þeir strax að bjóðast til að steikja handa henni franskar eða kjúklinganagga en ég afþakkaði pent enda daman hæstánægð með hakkabuff og pasta (og fannst meira að segja krókódíllinn góður). Þarna sátum við svo lungan úr deginum, sötruðum freyðivín og horfðum niður á Sidney. Reyndum af mesta mætti að koma auga á hetjurnar okkar í hvert sinn sem við "sigldum" fram hjá brúnni en við sátum svo hátt fyrir ofan þær að það var ómögulegt að bera kennsl á strákana.

Thelma Kristín .. og pabbi og co í baksýn!!


Gengum svo niður í Darling Harbour og vorum jafnvel að hugsa um að kíkja á sædýrasafnið, sem ku vera eitt það besta í heimi... Thelma fann allaveganna hann Nemo sinn í gjafabúðinni.



Við vorum hins vegar að renna út á tíma. Strákarnir voru komnir niður af brúnni og sátu víst og gæddu sér á kengúrupizzu! Brúarklifið hafði tekist vel en eitthvað reyndu nú hetjurnar að gera lítið úr þeim líkamlegu átökum sem ferðin krafðist. Ákváðum að hittast uppi á hóteli þar sem við þurftum að sækja farangurinn áður en við héldum út á flugvöll. Svo varð úr en þegar við báðum starfsfólkið í lobbyinu að panta fyrir okkur stóran leigubíl kom í ljós að það var allt of löng bið eftir slíku farartæki og við yrðum bara að taka tvo venjulega. Við héldum út á götu og byrjuðum að flauta. Ekki leið á löngu þar til við höfðum stoppað einn bíl. Ekki man ég alveg hvernig það kom til en allt í einu var líka þarna 8 manna bíll með bílstjóra.. hvergi merktur sem leigubíll sem bauðst til að skutla okkur út á völl fyrir 10 dollara á mann. Áður en við vissum af vorum við komin upp í bíl og sátum svo og nöguðum neglurnar á leiðinni út á völl, hálfsmeyk um að bílstjórinn og vinur hans í farþegasætinu væru kannski félagar Osama bin Laden eða eitthvað þaðan af verra. Hefum betur sleppt þessum fordómum því við komumst auðvitað heilu og höldnu út á flugvöll!

Flugið til Melbourne var mjög þægilegt. Þetta er í fyrsta sinn sem ég flýg innanlands með Qantas (maður er alltaf að fljúga með lággjaldaflugfélögum) og þeir komu skemmtilega á óvart. Í raun var þetta þægilegra flug í alla staði en Air New Zealand.. gott að þið hafið þetta í huga þegar þið planið næstu heimsreisu.

Þegar við lentum í Melbourne var langt liðið á kvöldið og við komum okkur strax heim í heiðardalinn. Kristófer og Svanfríður komu með okkur en Kristján og Snorri gistu á flottasta hótelinu í bænum!

18. nóvember

Úff.. bara venjulegur föstudagur... þvílík magalending! Eftir morgunmat löbbuðu amma og afi með Thelmu Kristínu á leikskólann og fengu að sjá slotið. Þau fóru svo með Maroni og kíktu á skrifstofuna og röltu loks um Queen Victoria Market og miðbæinn.

Mín fór langþráða ferð í þvottahúsið og um eftirmiðdaginn fór ég með Thelmu Kristínu í Ready Set Go í skólanum.

Tengdó og Maron komu heim með þessa fínu kengúrusteik sem var að sjálfsögðu skellt á grillið og Krisján og Snorri komu og borðuðu með okkur. Kristján grillmeistari var við stjórnvölin og úr þessu varð dýrindis veisla.

19. nóvember

Vöknuðum snemma og vorum mætt í pick up fyrir vínferð klukkan níu. Fórum í skipulagða ferð um vínekrur Yarra dalsins hér norðaustan af Melbourne. Þar var ungur strákur, hann Chris, sem leiddi okkur í allan sannleikann um vín og vínsmökkun. Skoðuðum þrjár vínekrur og eina freyðivínsverksmiðju. Smökkuðum fullt af góðum vínum og átum góðan mat. Þetta var ofsalega gaman og okkur fannst við vera að springa af kunnáttu um vín á eftir. Festum kaup á þó nokkrum flöskum af hinum ýmsu tegundum sem biðu nú smökkunar í sumarbústaðarferðinni sem framundan var.

Chris að leiða okkur í allan sannleika um Moet & Chandon freyðivín


Þegar heim var komið tókum við smá kríu og höfðum okkur til áður en haldið var í fordrykk niður á hótel til strákanna. Við höfðum pantað fyrir þá herbergi á vinsælasta hóteli borgarinnar, Crown, en það er í raun heilt "entertainmentcomplex". Þarna er að finna tvö hótel, spilavíti, bíó, keilusal, verslanir, veitingastaði og fleira.. í raun gæti maður verið þarna inni dögum saman án þess að láta sér leiðast.

Eftir fordrykk og almenna hótelskoðun fórum við niður á "Southbank" sem er göngugata sem liggur utan við hótelin. Þar liggur hver veitingastaðurinn við annan en þrátt fyrir það máttum við ganga dágóðan spöl, og líta við á ansi mörgum stöðum áður en við fengum borð. Höfðum eiginlega alveg gleymt því að það var laugardagur.. allir dagar laugardagar hjá okkur undanfarið.

Borðuðum að lokum á Funk Fish á Federation Square, sem er einmitt uppáhaldsstaðurinn hans Marons. Fengum líka öll mjög góðan fisk í matinn og dýrðlega eplaköku í desert.

Thelma Kristín var nú orðin ansi þreytt eftir matinn enda langt liðið á kvöld. Hún gerði sér bara lítið fyrir og lagðist á bekk þarna inni (við vorum síðustu gestirnir) og svaf þar vært þar til hún var borin inn í leigubíl.

20. nóvember

Áttum von á húsgagnasendingu um morguninn. Vorum að kaupa nýtt sófaborð og skáp í stofuna. Ætluðum nú bara að taka við þessu og koma okkur út en áður en við vissum af var búið að taka utan af öllum herlegheitunum og tengdó komin í hörku vinnu við húsgagnasamsetningar. Snorri og Kristján litu við hjá okkur enda höfðu strákarnir hug á að fylgjast með uppboði á íbúð hér í "complexinu" hjá okkur sem fram átti að fara eftir hádegið. Eftir almennar nágrannanjósnir og hádegismat á svölunum fóru Maron, Kiddi og Snorri niður í bæ að sækja bílaleigubíl sem við höfðum verið að leigja. Planið var að fara í ferðalag morguninn eftir og við höfðum ákveðið að taka einn stóra bíl fyrir okkur saman í stað þess að við færum með tengdó á okkar bíl og Kristján og Snorri myndu leigja bíl handa sér.

Þeir sóttu okkur stelpurnar svo (Kristján hafði farið á undan okkur) og við fengum okkur göngutúr niðri í St. Kilda. Héldum að því loknu aftur niður á Southbank. Við höfðum nú haft vaðið fyrir neðan okkur og pantað borð á veitingastað þar. Áttum þar góða stund yfir góðum mat, enn og aftur! Á eftir fórum við að sjá jólasýningu hjá Crown, voða fínar jólaskreytingar sem hreyfast á hálftíma fresti, koma niður úr loftinu, snúast, syngja og þar fram eftir götunum. Sú stutta hafði auðvitað mjög gaman af. Amman fór svo með dömuna upp á hótelherbergi á meðan við hin kíktum aðeins inn í spilavítið. Þetta er stærsta spilavíti á suðurhveli jarðar en við Maron höfum ekki áður komið þarna inn og notuðum því tækifærið þegar barnapössun bauðst. Við komum inn í miðjan salinn og þegar litið var til beggja hliða var ekki hægt að sjá út í enda, svo stór var salurinn. Við tókum strauið til vinstri en þrátt fyrir hálftíma göngu náðum við ekki út í enda!!

21. nóvember

Vorum snemma á fótum enda mikið ferðalag fyrir höndum. Vorum á leið hinn fræga "Great Ocean Road" sem dyggir lesendur ættu að vera farnir að kannast við enda í þriðja sinn sem við hjúin leggjum í hann! Nú rættist reyndar langþráður draumur um að sofa eina nótt á leiðinni í stað þess að bruna 700 km á einum degi!

Vorum lögð af stað um 8 leytið og byrjuðum á að ná í strákana í bæinn. Brunuðum svo sem leið lá í gegnum Geelong til bæjarins Torquay sem liggur við upphaf "Sjávarleiðarinnar miklu". Þar áttum við sko bókað á brimbrettanámskeið klukkan 10. Skelltum okkur í blautbúninginn og héldum á ströndina. Thelma Kristín fékk að vera með ömmu á ströndinni og horfa á okkur.

Þetta var alveg þrælgaman verð ég að segja. Maron brettakall er auðvitað alveg kominn með bakteríuna og stefnum að því að fara aftur sem allra fyrst. Mín var voða ánægð með sig enda farin að standa upp í fyrsta tíma... kannski maður sé bara búinn að finna réttu hilluna hvað varðar líkamsrækt!

Flottust!


Eftir vel verðskuldaðan hádegisverð héldum við ferðinni áfram. Stoppuðum á golfvellinum í Angle Sea sem er frægur fyrir kengúrurnar sem þar vappa um. Fengum okkur kaffibolla í golfskálanum en sáum engar kengúrur þrátt fyrir að þær hefðu skilið eftir úrgang um allar jarðir. Vorum búin að gefa upp vonina og komin út í bíl þegar við rákum augun í þrjár kengúrur sem bitu gras á æfingasvæðinu. Keyrðum líka á bak við svæðið og sáum þær "up close and personal".



Ókum svo sem leið lá eftir Surf Beach kræklóttan veginn að Appollo Bay, sumarleyfis þorpi sem liggur um miðja Sjávarleið. Versluðum kjöt á grillið áður en haldið var í sumarbústaðinn. Þetta var þessi fíni bústaður sem við höfðum pantað, mjög huggulegur með frábæru útsýni.

Eftir góða nautasteik og hins ýmsu vín úr vínsmökkuninni góðu fórum við í kvöldgöngu inn í regnskóginn. Sáum nokkrar kengúrur í upphafi en fundum svo ekki fleiri dýr fyrr en sumir fóru að tína blóðsugur af leggjunum á sér eftir að heim var komið!!

22. nóvember

Gengum frá dótinu okkar strax eftir morgunmat og eftir að hafa kvatt þýsku gestgjafana okkar (og Thelma hafði gefið hestunum brauðleifarnar) var haldið áfram eftir Sjávarleiðinni miklu.

Komum við á Otway "flugbrautinni", göngustíg sem lagður hefur verið í gegnum regnskóginn í ca. 25 m. hæð. Mér skilst að þetta sé bæði hæðsta og lengsta göngubraut af þessu tagi. Þrátt fyrir rigningu í upphafi göngunnar höfðum við mjög gaman af.

Sáum líka hina frægu 12 postula og Lord Arc Gorge. Þegar við vorum þar í haust höfðu Kristófer og Anna Ólöf rist nafnið sitt í stóran stein á ströndinni og var nú hafist handa við að finna undirskriftirnar þeirra! Steinninn var svo stór í haust að Anna og Kristó höfðu staðið upprétt og skrifað ca í brjósthæð en nú náði sandurinn næstum yfir steininn. Við urðum að krjúpa og grafa í sandinn til að finna nöfnin þeirra en það hafðist nú samt og var myndað í bak og fyrir.

Það fór nú þannig að þrátt fyrir að gista eina nótt á leiðinni náðum við í raun ekki lengra eftir slóðinni en við höfum áður gert. Þegar þarna var komið sögu var langt liðið á daginn og gestirnir áttu bókað flug til Bankok þá um kvöldið. Það var því ekki annað í stöðunni en að snúa við og aka hraðbrautina heim.

Frá því við komum til Melbourne var búið að lofa Thelmu Kristínu að það yrði haldið upp á platafmæli á meðan amma og afi væru í heimsókn þar sem ljóst væri að þau kæmust ekki í afmælisveisluna í febrúar. Við höfðum lagt á ráðin um að halda veisluna þarna um kvöldið. Það var og gert þegar heim kom. Ég hljóp út og sótti handa okkur pizzu og ístertu á meðan gestirnir kláruðu að pakka niður. Svo var afmælissöngurinn sunginn ("hún er korter í fimm í dag!"), pakkar opnaðir, blásið á kerti og allt tilheyrandi. Ekki margir sem fá svona auka afmæli!



En svo var komið að kveðjustund. Bankok beið ferðalanganna og þeir kvöddu okkur þá um kvöldið. Frábært ferðalag á enda, af okkar hálfu, en enn fleiri ævintýri í vændum fyrir aðra. Það var alveg einstök upplifun að fá að vera með í þessari ferð, henni munum við aldrei gleyma. Þökkum ferðafélögunum kærlega fyrir meiriháttar stundir!

Sögulok!!!!

Friday, December 09, 2005

Ferðaframhaldssagan, 5. kafli

13. nóvember

Annar afmælisdagur um borð í Zagros. Kristján átti afmæli í dag og byrjuðu fagnaðarlætinu strax með kampavínsmorgunverði!! Urðum nú samt að sitja á honum stóra okkar því kominn var tími til að skila bátnum og halda aftur til Tahiti.

Komum að Sunsail "beisinu" um hádegisbil og skiluðum af okkur bátnum. Starfsmaður Sunsail skutlaði okkur svo á flugvöllinn. Þar sem við skipulögðum okkar ferð hér í Ástralíu en aðrir heima á Fróni vildi ekki betur til en svo að við áttum bókað flug í sitthvoru lagi, með ca. 2 tíma millibili, til Tahiti. Við höfðum reynt að fá þessu breytt en allt var fullbókað. Við tókum þó sénsinn og fórum með hinum á völlinn og freistuðum þess að vera "stand by" en því miður án árangurs. Við sátum því eftir þegar fyrsta vélin fór og sátum í nærri tvo tíma. Þá kom til okkar starfsmaður flugvallarins og spurði hvort við vildum fara með næstu vél.. sem þó átti að millilenda á Bora Bora. Út af millilendingunni hélt ég nú að vélarnar kæmu á sama tíma til Tahiti en starfsmaðurinn laumaði því þá að mér að útlit væri fyrir klukkutíma seinkun á vélinni okkar og við vorum fljót að grípa tækifærið og fara með hinni vélinni. Fengum því eina salibunu til Bora Bora í bónus. Reyndar var gaman að lenda á þeim flugvelli því hann er staðsettur úti í sjó, á litlu motu... svona svipað og ef hugmyndir Hrafns Gunnlaugssonar um flugvöll í Skerjafirðinum næðu fram að ganga.

Thelma Kristín búin að eignast vinkonu á flugvellinum


Gistum á hóteli niðri í Papeete, höfuðborg Frönsku Polynesiu. Eðli málsins samkvæmt var eftir okkur beðið við komuna og eftir eldsnögga sturtu var haldið í afmælisveisluna hans Kristjáns. Þar sem nú var sunnudagur, og flestir veitingastaðir lokaðir, var besti kosturinn í stöðunni að fara á svo kallaða Rúllettu að borða. Rúllettan er í raun margir bílar, svona litir sendiferðabílar, með eldhúsi aftan í sem allir leggja á sama planinu á kvöldin og skella fram plast stólum og borðum. Við vorum nú með smá hnút í maganum eftir allar viðvararnirnar um að fara varlega í matarmálum og helst bara borða á fínum hótelum!! Hingað til hafði þó allur matur verið ferskur og góður þrátt fyrir að hafa prófað allan skalann í búðum og veitingastöðum svo við ákváðum að taka sénsinn. Settumst fyrir utan bíl sem bauð upp á nokkuð breytt úrval af mat (margir bílanna voru frekar "sérhæfðir"). Komust reyndar að því þegar á leið og við fórum að panta fyrir Thelmu Kristínu að maður gat pantað úr hvaða bíl sem var, alveg sama hvar maður sat. Það er skemmst frá því að segja að þetta var mjög skemmtileg reynsla að prófa þetta þó fólk hafi verið mjög misánægt með matinn. Komust öll lifandi frá þessu... og meira að segja án magaverkja.



Röltum um bæinn á eftir, hlustuðum á þessa fínu hljómsveit flytja tónlist á torginu og dáðumst að þvílíku snekkjunni í höfninni. Þetta var eiginlega ekki snekkja heldur skip á stærð við gott varðskip, snekkjan hékk utan á skipinu, ásamt þyrlunni og kafbátnum!! Spurðum öryggisvörð hver ætti gripinn og hann sagðis nú ekki alveg muna hvað hann héti en hann ætti Chelsea!! Roman Abramovich sem sagt mættur í bæinn!! Vorum nú að vonast til að liðið væri með, ætluðum að kasta kveðju á Eið Smára en sáum bara nokkra rússneska háseta á leið í mat.

Það er ekki skútan sem þið sjáið fremst á myndinni, heldur varðskipið á bakvið sem um er að ræða. Við komumst síðar að því að þetta er 5 stærsta snekkja í heimi og heitir Le Grand Bleu. Abramovich á svo líka þá 6 stærstu og 16 stærstu.



Fórum svo tiltölulega snemma upp á hótel enda mæting á flugvöllinn eldsnemma næsta morgun.

14.-15. nóvember

Vorum sem sagt mætt eldsnemma út á flugvöll. Langt ferðalag fyrir höndum. Á leiðinni til Nýja Sjálands var millilent á Cook eyjum, stutt stopp, en nóg til að maður náði að hlaupa í minjagripaverslun og staðfesta komuna!!

Stoppuðum örstutt á Nýja Sjálandi áður en haldið var áfram til Sidney. Þegar þangað kom var kominn eftirmiðdagur 15. nóvember, höfðum tapað einum degi á leiðinni. Sidney tók á móti okkur með roki og grenjandi rigningu. Fórum upp á hótel og skiptum um föt áður en við röltum niður í Darling Harbour og fengum okkur kvöldmat í gömlu seglskipi sem búið var að gera upp. Rigningin var svo mikil að við kvenfólkið tókum leigubíl upp á hótel á eftir og skriðum undir sæng.

16. nóvember

Brrr.. enn rok og rigning þegar við vöknuðum! Ég sem var svo bjartsýn þegar ég pakkaði niður að ég tók bara tvær síðar buxur á Thelmu Kristínu og nú voru þær báðar skítugar. Það hvarflaði ekki að mér að upp úr miðjum nóvember þyrfti hlýfðarfatnað í Sidney enda hitinn 37 gráður í Melbourne daginn áður en við fórum! Ég tók sénsinn og lét dömuna hafa gallapils og peysu en það fór nú svo að við fyrsta mögulega tækifæri fórum við inn í búð og keyptum sokkarbuxur á hana sem voru teknar upp á staðnum!

Eyddum annars deginum í að rölta um borgina og skoða helstu kennileitin. Darling Harbour, Operuhúsið, monorailið, gamla bæinn (the Rocks) o.s.frv. Fórum líka í siglingu um höfnina um eftirmiðdaginn en drifum okkur svo upp á hótel að fá okkur kríu enda höfðu amma og afi boðið dömunni á balletsýningu í Operuhúsinu um kvöldið. Ekki seinna vænna að fara að sinna menningarlegu uppeldi!

Pabbinn hafði hins vegar hug á að sinna annars konar menningu en einmitt þetta kvöld fór fram knattspyrnuleikur Ástrala og Uruguay þar sem keppt var um sæti í heimsmeistarakeppninni. Maron og Kristján brugðu sér því á pöbbinn og fylgdust með leiknum.

Við vorum auðvitað á síðustu stundu á leið á operuna og flautuðum á leigubíl í miklum flýti. Bílstjórinn setti upp grimmdarsvip þegar hann sá okkur og harðneitaði að taka 5 farþega. Kristófer varð því að freista þess að finna annan bíl hið snarasta til að missa ekki af sýningunni. Þó vegalengdin væri ekki löng tók ferðin í óperuhúsið óratíma því aðallega sátum við föst í umferðateppu. Vorum á tímabili að hugsa um að hoppa út úr bílnum og hlaupa síðasta spottann en loksins, 5 mínútum fyrir sýningu, komum við á leiðarenda. Við vorum nú hálfáhyggjufull yfir því að Kristófer myndi ekki ná á réttum tíma, löbbuðum eins hægt og við áttum kost á í von um að hann kæmi á eftir okkur. Svo var þó ekki og við áttum ekki annarra kosta völ en að fara í sætin okkar. Okkur brá hins vegar í brún þegar þangað var komið því þar sat Kristófer, sallarólegur, búinn að bíða eftir okkur niðri, fara á barinn, á snyrtinguna og loks í sætið sitt!!!!!!!!!!!!!! Vorum ekki paránægð með leigubílstjórann okkar - sem að auki hafði rukkað okkur tvöfalt það sem Kiddi var rukkaður!!

En við létum þetta nú ekki spilla sýningunni og skemmtum okkur konunglega. Sáum brot úr verkum Jiri Kylian, balletmeistara. Thelma Kristín sat alveg sallaróleg allan tímann og þóttist hafa mikið vit á því sem fram fór. Hún sagði t.d. mömmu sinn í óspurðum fréttum í upphafsatriðinu, sem var hópdans, að þetta væri sko EKKI ballet! Stuttu seinna þegar aðeins tveir dansarar (karl og kona) voru á sviðinu sagði hún stundarhátt, "mamma, þetta er ballet"!

Eftir sýninguna fengum við okkur léttan kvöldverð á veitingastað þarna rétt hjá. Þegar við vorum á heimleið löbbuðum við framhjá bar sem sýndi leikinn á nokkrum sjónvarpsskjám sem þarna voru. Við litum við og sáum að vítaspyrnukeppni var nýhafin, gátum auðvitað ekki annað en staldrað við og þar vorum á þeirri sögulegu stund þegar Ástralir komust í heimsmeistarkeppnina eftir 30 ára bið!! Þið getið rétt ímyndað ykkur fagnaðarlætin!! Við drifum okkur heim í bólið en Sidney þagnaði ekki það sem eftir lifði nætur.

Nú fer að styttast í sögulök... en framhald í næsta þætti.

Minni á splunkanýjar myndir, m.a. úr ferðinni góðu á http://gallery.transtor.tv Ef þið veljið slide show er hægt að velja uppi hversu lengi hver mynd er á skjánum og hversu stór hún er.

Knús
Unnur

Wednesday, December 07, 2005

Ferðaframhaldssagan 4. kafli

10. nóvember - Ég á afmæli í dag! Ég á afmæli í dag!

Afmælisdagurinn rann upp, bjartur og fagur, enda ekki við öðru að búast þegar maður liggur við akkeri á Bora Bora!

Eftir dýrindis afmælismorgunverð með afmælissöng skútukórsins og öðru tilheyrandi sigldum við áleiðis að þorpinu í Bora Bora til að fylla á vistirnar. Röltum um bæinn og skoðuðum minjagripi, svartar perlur og annað spennandi sem fyrir augu bar. Eftir árangusríka verslunarferð í súpermarkaðinn settumst við niður á litlu kaffihúsu og fengum okkur hádegisverð.

Mæðgur á Bora Bora


Þar sem Kristófer og Svanfríður höfðu boðið okkur í afmælisveislu á Bloody Mary - einum vinsælasta veitingastað eyjarinnar, sem var staðsettur þar sem við áttum næturstað, var ákveðið að nota eftirmiðdaginn til að sigla í kringum frekar stórt motu sem var þarna rétt fyrir utan. Þetta var róleg sigling sem aðallega snerist um að synda í tærum sjónum, snorkla og strákarnir reyndu meira að segja að veiða í matinn (með kokteilpylsur sem beitu). En þrátt fyrir að bókstaflega horfa á fiskana gæða sér á pylsunum tókst þeim ekki að draga upp einn einasta titt. Við konurnar skemmtum okkur hins vegar konunglega uppi á dekki við að fylgjast með meiriháttar tilþrifum og útsjónarsemi við veiðarnar. Stöngin var trjábútur úr Vanilla túrnum, sterkur og góður viður og svo hafði Maron keypt girni og öngla í kaupfélaginu og þarna sátu þeir ýmist í gúmmíbátnum eða snorkluðu fyrir ofan kóralrifin og horfðu á fiskana éta sig pakksadda af pylsum!


Ekki besta myndin af undirritaðri... en sýnir vel sjóinn



Sigldum svo aftur á sama stað og við höfðum verið um nóttina því Bloody Mary var einmitt staðsett þar rétt við. Fórum í sparigallann og fengum okkur fordrykk uppi á dekki. Tengdó höfðu séð um að til væri freyðivín um borð og nú var skálað.. og við fengum meira að segja afmælisgjafir og allt!

Skál! Afmælisbarnið fagnar... og Thelma Kristín fær sér kríu


Sigldum svo á gúmmaranum í land og löbbuðum að Bloody Mary. Þetta var alveg frábær veitingastaður, sandur á gólfum og tropical stemning yfir þessu öllu. Aðallega var boðið upp á sjávarrétti og var fyrirkomulagið þannig að enginn fékk matseðil heldur var kæliborð við innganginn, svona eins og hjá fisksala, þar sem maturinn var geymdur. Þjónninn okkar fór svo yfir allt í borðinu með okkur, sagði okkur hvaða tegund af fiski þetta væri, lýsti bragðinu ef við þekktum ekki tegundina og útskýrði matreiðsluna. Þetta leit svo vel út hjá þeim að maður fékk vatn í munninn og vildi helst smakka allt.

Litla fjölskyldan við skiltið sem telur upp helsta fólkið sem hefur borðað á Bloody Mary. Við hliðina var annað skilti sem var jafnvel enn tilkomumeira!


Ummmm


Maron fékk sér hákarl og sjálf fékk ég mér hvítan túnfisk. Man því miður ekki alveg hvað hinir voru að fá sér en allir voru ofsalega hrifnir af matnum, forrétt, aðalrétt og eftirrétt! Thelma Kristín hafði með sér fötu og skóflu og sat hin rólegasta við fætur okkar og byggði sandkastala.



Áttum þarna alveg frábært kvöld... ekki hægt að biðja um betri afmælisveislu?? Takk fyrir okkur Kiddi og Svanfríður! Auðvitað vorum við líka að fagna þrítugsafmælinu hans Marons... ég var alltaf að bíða eftir að þið mættuð, maður er búinn að bjóða ykkur í ammæli og svo bara mætir enginn!!!! ;o)


11. nóvember


Hófum daginn á að leita að stað þar sem hægt var að fá vatn á bátinn. Eftir viðkomu í þorpinu á Bora Bora, þar sem ekkert vatn var að finna, sigldum við út að siglingarklúbbnum á Bora Bora. Þar lögðumst við við bryggju og fengum okkur hádegisverð á veitingastaðnum á meðan vatni var dælt á bátinn. Það var gaman að koma þarna og hitta annað skútufólk, m.a. kom þarna að eldri Japani sem var að koma úr siglingu frá Kanada með smá viðkomu í Japan, aleinn!!!!!!!!!!!



Eftir matinn lögðum við af stað meðfram Bora Bora. Ekki er hægt að sigla í kringum eyjuna því lónið er of grunnt á sumum stöðum. Náðum samt að sigla langleiðina, með eyjuna á aðra hönd og motu eftir motu á hina. Miklar byggingaframkvæmdir í gangi á þessum slóðum, allir í kapphlaupi að byggja lúxushótel. Ég verð nú að viðurkenna að eins og mér finnast þessar "overwater bungalows" sætar og rómó þá er ég ekki jafnhrifin af þeim þegar það eru 300 kofar í röð... og jafnvel annað hótel í 500 m. fjarlægð með öðrum 300!!! Þá er nú sjarminn farinn af þessu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég var hrifnari af látlausu Tahaa heldur en túrista Bora Bora.

En hvað um það, útsýnið var æðislegt á siglingunni, sjórinn eins tær og hugsast getur en erfitt að snorkla fyrir risastórum svörtum ígulkerjum sem hótuðu okkur með sprotunum sínum. Sigldum á gúmmaranum í land á einu hótelanna og ætluðum að athuga hvort við gætum borðað á veitingastaðnum. Við náðum varla að ströndinni áður en starfsmaður hótelsins mætti okkur og spurði hvort við værum gestir, nei, sögðum við en okkur langar að panta borð fyrir kvöldið. Það var því miður ekki hægt þar sem hótelið var fullbókað og þá hleypa þeir ekki utanaðkomandi að.

Við notuðum því tækifærið og steiktum brauðaldinið frá því í Vanilluferðinni góðu og göldruðum fram dýrindis kvöldmáltíð a la "tekið-til-í-ísskápnum". Sátum svo og horfðum á sólina setjast á bak við fjallið fallega sem er eitt megineinkenni Bora Bora.



12. nóvember

Siglingardagurinn mikli! Áttum fyrir höndum siglingu langleiðina í kringum Bora Bora, til að komast út úr brimgarðinum, og svo siglingu úti á rúmsjó framhjá Tahaa og yfir á eyjuna Raiatea. Kiddi kapteinn lagði því snemma af stað, eiginlega áður en áhöfnin var komin á lappir! og snæddum við morgunverð rétt áður en farið var frá Bora Bora. Maron hafði tekið sig til og bakað amerískar pönnukökur handa okkur, við mikla kátínu dóttur sinnar.

Við tók svo hörkusigling, halli, hraði og mikið fjör. Ég var nú doldið smeyk um að sú stutta yrði sjóveik í látunum en hún bara skellihló og fannst hún vera í þessum flotta rússibana. Verð nú að viðurkenna að mín tók fyrstu og einu sjóveikistöfluna í ferðinni... bara fyrirbyggjandi, skiljiði! Maron fann upp á frábærri skemmtun, næstum alla leiðina stóð hann frammi í stafni og hafði gaman af því að stíga ölduna þegar báturinn skall af öldutoppi niður í dal. Á góðum stundum var fallið ansi hátt og þetta var þrælskemmtileg dægrastytting. Það er auðvitað skemmst frá því að segja að Maron var eins og rauð blaðra á eftir, sólbrunninn og sætur!

Eftir um 8 tíma siglingu komum við loks til Raiatea. Hópur höfrunga fylgdi okkur síðasta spottann og skemmti sér við að sigla meðfram bátnum og undir hann. Lögðumst fljótlega við akkeri eftir komuna enda myrkur á næsta leyti. Fórum í land í pinkulitlu þorpi í þeirri von að finna veitingastað fyrir kvöldið. Ekki áttum við slíku láni að fagna, vorum í raun heppin að finna búð sem eiginlega var staðsett í bílskúrnum hjá einum þorpsbúanum. Þarna var hægt að fá allt milli himins og jarðar á 10 fermetrum! Ekki var þó mikið um ferskvöru svo við nálguðum eigandann varlega og spurðum hvort hann ætti nokkuð kjöt eða fisk... Kallinn gekk rakleiðis að frystikistu í einu horninu og dró upp Einn fisk með húð og hári sem við afþökkuðum pent og síðan, okkur til mikillar undrunar, þetta fína nautafillet. Umm umm við gátum ekki staðist freistinguna þó að stykkið væri gaddfreðið og þegar kominn matartími. Gengum svo um þorpið í leit að sög eða smiði sem gæti hjálpað okkur að búta niður gaddfreðna steikina en án árangurs. Fórum aftur út í bát og löðgum kjötið í bleyti og viti menn, rúmri klukkustund seinna hafði tekist að afþýða steikina og Kristján grillari settur í málið. Við höfðum reglulega heyrst minnst á leynda grillhæfileika Kristjáns, sérstaklega þegar málið snýst um góða nautasteik. Þrátt fyrir að ekkert grill væri um borð stóðst kokkurinn fullkomlega allar væntingar og við átum þessa dýrindis nautasteik og sötruðum rauðvín með.

Framhald í næsta þætti
Knús
Unnur Gyða

Sunday, December 04, 2005

Nýjar myndir!!

Vitiði bara hvað!!!?!??!?!? Haldiði ekki að Maron sé búinn að setja upp nýja myndasíðu! Loksins loksins. Er búin að hlaða niður myndum í 3 albúm en er enn ekki komin nema fram í ágúst svo ég á mikið verk fyrir höndum.

Slóðin er http://gallery.transistor.tv

Lofa að halda áfram með ferðasöguna.. og setja inn fleiri myndir í vikunni (þegar jólakortin eru komin út!)

Knús í bili
Unnur

Thursday, December 01, 2005

Ferðaframhaldssagan, 3. kafli

Jæja, loksins gef ég mér tíma til að halda áfram með ferðasöguna....

9. nóvember

Vöknuðum snemma og vorum mætt til Vanilla Tours klukkan átta. Frönsk hjón, Alain og Cristine, sem eiga og reka fyrirtækið tóku á móti okkur á heimili sínu sem var byggt í anda gamalla tíma í Polynesiu. Veggir úr berki trjánna og þakið fléttað úr pálmalaufum (og þarf að endurnýja á 4ra ára fresti!). Að heimamanna sið bjuggu þau í nokkrum húsum, eitt hýsti eldhús og stofu, annað svefnherbergið þeirra, það þriðja svefnherbergi sonar þeirra o.s.frv. svo á stórri og fallegri lóðinni lágu nokkur hús snyrtilega í þyrpingu. Því miður hafa heimamenn að mestu leyti skipt út þessum fallegu húsum fyrir bárujárnsklædd hús, í anda Íslendinga!

Thelma Kristín í stofunni


Eftir að hafa fengið blóm í hárið (eins og alls staðar þar sem við komum) og heimatilbúna ilmolíu til varnar moskítóflugum (það kom nú í ljós seinna um daginn að EKKERT stoppaði þær) lagði Alain af stað með okkur í ferð sem hófst í þeirra eigin garði og lá síðan (á bekk aftan á Land Rover) um alla eyjuna. Hann leiddi okkur í allan sannleika um plöntur og tré á eynni, hvaða ávexti þau bæru og hvernig eyjaskeggjar gátu nýtt sér plönturnar og afurðir þeirra fyrr á öldum.. og jafnvel enn í dag. Bananar, papaya, noni, ananas, kókoshnetur, grape, brauðaldin og svo mætti áfram telja, þar draup smér af hverju strái. Þarna hossuðumst við aftan á Land Rovernum um hóla og hæðir, brattar hæðir, eftir jeppaslóðum sem hefðu hrætt færustu jeppakarla á Íslandi.

Alain að sækja handa okkur brauðaldin, sem við seinna steiktum og átum með bestu lyst


Brauðaldintré nútímans!!


Aðal hluti ferðarinnar snerist þo um vanilluræktun, en Alain leggur sjálfur stund á slæka rækt. Hann labbaði með okkur inn í skóginn og sýndi okkur hvernig vanillan er ræktuð. Þar sem engar flugur eða kólibrífuglar sem frjóvga plönturnar lifa í Polynesiu verða menn sjálfir að sjá um frjóvgun og fengum við kennslustund í því.. þó við séum ekki alveg komin á sama stig og Alain, að frjóvga nokkur þúsund plöntur á dag. Að skógarferðinni lokinni fórum við í "verksmiðju" (í bakgarði einum) þar sem vanillustangirnar eru þurrkaðar og þeim pakkað, sem vanillustöngum, dropum eða púðri. Festum auðvitað kaup á vanillustöngum sem ég hafði hugsað mér að nota í jólagrautinn en vinir mínir í gæslunni hér í Ástralíu tóku þær af mér við komuna heim (það verður örugglega góður jólagrautur á borðum þar!)

Vanilla


Vanillan sólþurrkuð



Ferðinni lauk upp úr hádegi. Thelma Kristín alveg hæstánægð enda hafði Alain sýnt henni plöntur sem nota mátti sem til að gera húðflúr, nota sem naglalakk auk þess sem amman hafði gert þennan fína blómakrans í hárið á leiðinni. Settumst niður augnablik með þeim hjónum og drukkum nýkreistan ananassafa en kvöddum fljótlega enda áttum við fyrir höndum siglingu frá Tahaa yfir til Bora Bora sem yrði að nást fyrir myrkur.

Ekki leiðinlegur staður til að stoppa og borða FERSKA ávexti í hádegismat




Siglingin gekk vel í alla staði. Vegna tímaskorts sigldum við bæði á seglum og vél og náðum því blússandi ferð. Þegar siglt er á milli eyja sem umkringdar eru hættulegum brimgörðum verður að passa vel hvar siglt er frá og að eyjunum. Við vorum, eins og áður sagði, þannig staðsett á Tahaa að við komumst fljólega út um sk. "pass" og á haf út. Þegar við komum að Bora Bora urðum við svo að sigla langleiðina í kringum eyjuna því það er aðeins hægt að komast í gegnum brimgarðinn á einum stað. Það hafðist allt og við náðum til Bora Bora í ljósskiptunum.

Brimgarðurinn við Tahaa


Strákarnir stukku í land og redduðu bókun á veitingastað um kvöldið (og reyndar fyrir næsta kvöld líka). Við vorum svo sótt að bryggju og keyrð yfir á lítinn sætan veitingastað á Bora Bora þar sem við átum góðan mat í fínu yfirlæti.

Viðburðarríkur og skemmtilegur dagur. Vanilluferðin var einn af þeim hlutum sem stóð upp úr ferðinni að mínu mati enda minntu ótal moskítóbit okkur daglega á ferðina! Alain var svo ótrúlega fróður og sýndi okkur svo margt. Sjálf höfðu þau hjónin komið á skútu til Polynesiu fyrir 20 árum. Eftir að hafa siglt um allan heim var þetta staðurinn sem þau sneru aftur til og ákváðu að setjast að... ekki slæm meðmæli fyrir Tahaa.


 

Website Counter