Melbourne

Thursday, August 31, 2006

It's a Beautiful Day!

Umm.. loksins fór hitinn yfir 20 gráðurnar. Sól skín í heiði og ég er hætt að þurfa að kynda húsið!

Skólinn byrjaði með hvelli. Fyrsti fyrirlestur á mánudag og verkefnaskil strax á miðvikudag.. greinilega enginn miskunn hjá Manga. Gengur ágætlega enn þá.. byrjaði reyndar á því að slá út rafmagninu í gær, rétt áður en ég átti að skila verkefninu og ætlaði aldrei að fá internetsamband aftur. Maron, sem var í Port Lincoln, gerði sitt besta til að redda málunum og tókst að bjarga mér að lokum - snillingurinn. Smá stress, en fall er fararheill ekki satt?

Held ég hafi kannski ekki útskýrt þetta með myndirnar alveg nógu vel í síðasta bloggi. Eftir að þið hafið skráð ykkur þurfið þið að bíða í ca. einn sólarhring.. eða þar til ég les póstinn minn... og reyna svo að skrá ykkur inn með lykilorðinu sem þið völduð. Þá er ég búin að samþykkja ykkur og þið eigið að geta skráð ykkur inn. Einfalt!

Var að koma dömunni í rúmið. Hún er voða dugleg að biðja bænirnar sínar. Eftir að Óli bróðir sagði mér í sumar að hann hafi verið hálfa barnæskuna að reyna að fatta hvers vegna Guð væri að leiða okkur í frysti!! hef ég stundum þurft að halda niðri í mér hlátrinum þegar við förum með þennan hluta faðirvorsins. Áðan vildi skvísan fara sjálf með bænirnar og ég mátti hafa mig alla við þegar hún bætti um betur og sagði "eigi leið þú ost í frysti"!!!

Á fimmtudaginn áttu krakkarnir að koma klædd sem einhver sögupersóna í skólann. Thelma Kristín fór sem Lína Langsokkur. Gott að búningurinn passaði henni enn þá. Hún neitaði reyndar að fara með hárkolluna á þeim forendum að hún væri ekki nógu sæt með hana! Mér fannst hún nú bara dúlla....



Á föstudaginn var svo Casual Dress Day. Þá þurfa krakkarnir ekki að mæta í skólabúningi og gefa í staðinn smá pening sem safnað er í sjóð fyrir nemendur sem þurfa fjárhagsaðstoð við kaup á skólabúningum. Verð að viðurkenna að ég sá þennan dag að þetta skólabúningafyrirkomulag er bara frábært. Engin slagsmál á morgnana varðandi val á fatnaði - aðeins eitt í boði takk fyrir.

Jæja, gott fólk. Fer að fá ferköntuð augu ef ég slít ekki augun af skjánum. Bestu kveðjur héðan úr yndislegu vori. Yfir og út.

Friday, August 18, 2006

Vorið er komið og grundirnar gróa

Jæja, þá er maður bara sestur á skólabekk enn einu sinni! Ég sem var sannfærð um að viðskiptafræði væri eina fagið sem ég myndi aldrei aldrei aldrei leggja stund á! Hugsa enn með hryllingi til viðskiptafræðitímanna í MR sem maður asnaðist til að velja af því kennarinn var ungur og sætur. Þetta lítur nú kannski heldur illa út því viðkomandi kennari er í dag dósent á Bifröst en hann er orðinn gamall og feitur og á ekkert í þessari ákvörðun minni í þetta sinn!

En, ég hugsa að með þessu neikvæða hugarfari og þeirri sannfæringu að viðskiptafræði sé í eðli sínu hundleiðinleg muni námið varla geta gert annað en komið mér á óvart og vonandi orðið bærilegt er fram líða stundir -jafnvel bara doldið áhugavert!

Annars lítið að frétta úr vorinu hér. Fengum heimsókn á sunnudaginn frá íslenskri vinkonu og 6 ára syni hennar. Æðislegt fyrir krakkana að fá að hittast. Þau þurfa bæði á íslenskuæfingunni að halda, verst að við máttum varla líta af þeim þá voru þau farin að tala saman á ensku!

Þó að íslenskan hjá Thelmu Kristínu sé svo sem góð miðað við aðstæður þá á hún t.d. mjög erfitt með að tala um skólann öðruvísi en á ensku. Upplifunin fer jú fram á ensku og því bara aukavinna að snúa þessu yfir á íslensku til að segja mömmu gömlu frá deginum. Hún hefur alltaf blandað mikið saman málunum þegar hún talar um skólann og undanfarið er hún jafnvel alveg farin að svissa yfir á ensku!

En almennt talar hún fína íslensku. Maður heyrir samt oft að hún er að þýða frá ensku í hausnum á sér, notar vitlausar forsetningar og annað í þeim dúr. Ég rak nú upp stór augu um daginn þegar ég sagðist ætla niður að elda matin og daman sagði "nei, ekki með út mér!" Ég horfði bara stóreygð á barnið; "ha?".. skvísan hækkaði róminn og sagði hátt og skýrt, "ekki með út mér!".. ég þurfti enn að hugsa mig um í nokkra stund áður en ég náði að snúa þessu rétt .. not without me .. ekki án mín!

Yfir í aðra sálma. Við höfum ákveðið að setja lykilorð á myndasíðuna. Manni er alveg hætt að standa á sama hvað varðar perra og barnaklám á netinu og alger óþarfi að hafa myndirnar aðgengilegar hverjum sem er. Þið megið alls ekki setja þetta fyrir ykkur... ýtið bara á "register" takkann og skráið ykkur inn. Við munum bara sjá nafið ykkar... ekki lykilorðið sem þið veljið og svo veitum við aðgang... ekkert mál!

Ekki heldur vera hrædd við að skrá ykkur þó þið séuð ekki skild okkur í fyrsta ættlið. Okkur finnst gaman ef fjarskyldir ættingjar, kunningjar og gamlir vinnufélagar nenna að kíkja á okkur. Þetta er bara til að halda óviðkomandi frá... það virðist vera mikill umgangur um síðuna og við viljum bara vera viss um að það sé okkar fólk sem er að flækjast þarna.

Jæja, mín á að mæta út í skóla eftir stutta stund, best að drífa sig. Fer enn á þriðjudögum og þykist vera að hjálpa til. Er svo heppin að mestur tíminn fer í leikfimi og mitt aðalverkefni því að fylgjast með því að kollhnísar og handahlaup séu rétt gerð... vissi að fimleikarnir ættu eftir að nýtast mér.

Njótið síðustu sumardaganna... sérstaklega þið sem ekki ætlið að ná ykkur í ástralska sólargeisla í vor!

Knús
Unnur

Wednesday, August 16, 2006

Á skíðum skemmti ég mér tralalala...

Var nú að hugsa um að kalla bloggið ferkar "Allur lurkum laminn..."!! Held samt að núna, í dag.. á þriðja degi, geti ég fyrst gengið án þess að líta út eins og ég hafi kúkað í buxurnar. Skrítið hvað maður finnur mikið af nýjum vöðvum sem maður vissi ekki að maður ætti til þegar maður tekur upp á einhverri nýrri skemmtun.. snjóbrettaiðkun í mínu tilfelli!

Áttum sem sagt yndislega helgi í Mt. Buller. Vorum komin upp í fjall seint á föstudagseftirmiðdag og áttum notarlegt kvöld með finnsku vinunum. Vorum saman í 4ra herbergja hótelíbúð á frábærum stað í þorpinu. Í Mt. Buller er þorpið skipulagt við og í kringum lyftur og skíðabrekkur svo maður er með stemninguna beint í æð, bara að labba úr og spenna á sig skíðin.

Stelpurnar fóru í skíðaskóla hálfan daginn, bæði á laugardag og sunnudag og þá fengum við Maron tækifæri til að skíða saman í rólegheitum. Var á skíðunum fyrri daginn og hætti mér því úr byrjendabrekkum upp í hærri hæðir.. alveg meiriháttar gaman. Settumst á veitingastað í miðju fjalli í hádeginu og skíðuðum svo niður að sækja dömuna.



Aðstaðan fyrir krakkana var alveg frábær, bæði skíðasvæðið úti sem og inniaðstaða sem þau fengu að nota inn á milli til að þau yrðu nú ekki alveg útkeyrð. Nesti og hádegismatur innfalinn í pakkanum svo uppúr hádegi var ekkert að gera nema sækja dömuna og halda aftur í brekkurnar.

Eftir nokkrar ferðir í barnalyftuna með skvísunum tók ég þær upp á hótel á meðan Maron og Kim skelltu sér nokkrar ferðir. Hættum frekar snemma og skelltum okkur í heita pottinn áður en við fórum út að borða.

Á sunnudeginum herti mín svo upp hugann og fór á snjóbrettið, að ég held í fyrsta sinn síðan Thelma Kristín fæddist!!! Fékk mér einkakennara og hélt af stað. Náði sæmilegum tökum á þessu á fyrsta klukkutímanum, alla veganna var fullt af fólki í brekkunum sem var verra en ég!!! Maron fékk sér líka kennara, enda þurfti hann víst að læra alla brettatækni upp á nýtt eftir að hafa endurnýjað gamla brettið sem var frá síðustu öld.

Ég ætlaði svo að kíkja á dömuna í skíðaskólanum eins og ég hafði lofað en fann hana hvergi í brekkunni sem skíðaskólinn er með. Þegar ég fór að spyrjast fyrir var mér tjáð að hún hafi verið færð upp um hóp og væri komin upp í almenningsbrekkuna! Ég tölti þangað yfir til að horfa á skvísuna sem var auðvitað að rifna úr monti yfir því að hafa verið færð yfir til "the big kids!". Eftir skólann fórum við saman í brekkuna og áður en degi lauk var hún farin með okkur í stólalyftuna og skíðaði eins og herforingi á eftir mér í essum niður brekkuna! Ótrúlegt hvað krakkar eru fljótir að ná þessu.

Við erum auðvitað alveg veik að skella okkur aftur núna í vetur, bæði okkar vegna og líka til að styrkja Thelmu Kristínu enn frekar. Hún hafði ótrúlega gaman af þessu og var sko ekki tilbúin að hætta þegar ég vildi fara heim um fjögur leytið. Þrátt fyrir að vera búin að skíða síðan 9 um morguninn. Hins vegar hefur vertíðin verið hin versta í 30 ár, lítill sem enginn snjór og nú er orðið svo heitt að það er orðið erfitt að framleiða snjó.. eins og gert hefur verið í vetur. Sem dæmi má nefna að á skíðasvæðinu voru 10 lyftur opnar af 25 og því frekar mikil örtröð í brekkunum, en fyrir vikið skíðuðum við í 7 stiga hita og glampandi sól báða dagana.. verður ekki mikið betra.

Ókum svo heim á mánudeginum í gegnum Kinglake National Park. Ákváðum að taka smá krók fyrst við höfðum daginn fyrir okkur. Daman vildi auðvitað frekar fara á skíði fram að hádegi en við ákváðum að geyma það til betri tíma. Fengum okkur göngutúr í skóginum og skoðuðum Mason Falls.. mjög rólegt og notarlegt. Hitinn er um 16-18 gráður þegar maður kemur niður af fjallinu þannig að það er kominn vorfílingur í mann hérna megin.

Sem sagt.. æðisleg ferð í alla staði. Myndir komnar á netið. Ekki spurning að við munum aftur fara saman í skíðafrí fjölskyldan... bara spurning um hvar í heiminum það verður.

Knús
Unnur snjóbrettagella

Saturday, August 05, 2006

Hamstur á heimavelli

Ég er hamstur! Fór í endajaxlatöku á þriðjudaginn og hef setið í rólegheitum heimavið síðan, etið súpur og jógúrt og lít út eins og appelsína í framan. Er nú samt öll að koma til, borðaði meira að segja hakk og spagetti í kvöld og jarðarber á eftir. Held mig samt að mestu inni við til að fyrirbyggja orðróm um heimilisofbeldi þar sem ég er blá og marin á kjálkunum!



Ég hélt (og held reyndar enn) að svona jaxlatökur séu frekar lítið mál á Íslandi, þ.e. þær fela auðvitað í sér sömu grunnaðgerð og hér á Suðurhveli - en fara menn ekki bara í stólinn hjá tannsa, eru deyfðir almennilega, gefið smá hlátursgas og svo er bara látið vaða??? Ástralinn er nú ekki svona léttur á bárunni, nei nei.. við erum að tala um innlögn á einkasjúkrahús, skurðstofu, svæfingu og tilheyrandi pakka. Ég var að verða gráhærð á símtölum frá starfsmönnum sjúkrahússins sem hringdu hingað í tíma og ótíma dagana fyrir aðgerð til að kanna öll smáatriði og ganga úr skugga um að ég lumaði ekki á einhverjum ósvöruðum spurningum. Svo þegar á hólminn var komið þurfti ég að ganga í gegnum viðtöl við hjúkku, tannlækni, svæfingalækni og einhvern annan karl sem ég veit ekki hvað var að gera þarna, skipta yfir í skjúkrahússgalla og svo var maður bara settur á borðið á skurðstofunni, 5 starfsmenn í kringum mig, ljós, sótthreinsað andrúmsloft, leggur í handarbak og tilheyrandi... var alltaf að bíða eftir að Clooney mætti! Man svo auðvitað ekki meira fyrr en ég vaknaði X mínútum seinna. Var bara tiltölulega spræk og fljót að ranka við mér. Gekk svo á verkjalyfjum í nokkra daga (hefði ég tekið ráðlagðan skammt af dópi væri ég nú á hraðferð inn á Vog!!) og er bara alveg að verða stálslegin.

Girnilegur kvöldverður???


Eins gott því við erum að fara í 2 ára afmæli til Jespers hins finnska á morgun svo maður verður að vera orðinn klár í kökurnar! Það verður ljúft að komast í gott kökuboð. Við Jesper erum líka svo góðir vinir.. hann segir nú ekki mörg orð gæinn.. en hann segir sko Unnur ;o)

Síðasta laugardag héldum við íslenskt matarboð ... köllum það bara stofnfund yngri deildar Íslendingafélagsins (inntökuskilyrði ... að vera Íslendingur.. og helst undir fertugu!!). Erum búin að hafa upp á 3 íslenskum krökkum hér í grenndinni (já, þeir leynast sko hér ef maður leitar vel), góður hópur sem skemmti sér vel yfir góðum mat og drykk, íslenskum lakkrís, tópasskotum og íslenskri tónlist fram eftir kvöldi. Hittumst vonandi aftur sem fyrst. Í hópnum leynist líka einn 6 ára Ístrali sem verður örugglega góður leikfélagi fyrir Thelmu Kristínu og svo fengum við meira að segja tilboð um barnapössun... jess!! Munum pottþétt þekkjast það boð hið snarasta.

Talandi um barnapössun. Sá það nú í þessum veikindum mínum að maður er búinn að eignast marga góða vini hérna. Það rigndi yfir mig tilboðum um barnapössun fyrir og eftir skóla á meðan ég lá fyrir. Góð tilfinning að sjá að maður er kominn með gott tengslanet í kringum sig.

Það styttist svo í skíðahelgina okkar góðu. Leggjum af stað á föstudaginn og gerum ráð fyrir að skíða laugardag, sunnudag og vonandi mánudag áður en farið verður aftur í bæinn. Maron fór í vikunni og græjaði sig upp enda búinn að vera á sama snjóbrettinu síðan 1990 ... svo ekki verður kvartað yfir endingunni. Kíktum á skíðin hennar Thelmu en þau ná henni rétt í mitti.. hún var nú líka frekar mikil dúlla þegar hún var á þeim, stóð ekki úr hnefa og hjálmurinn stærri en skíðamaðurinn! Við ætlum bara að leigja á hana græjur í þetta sinn.. borgar sig ekki að fjárfesta í miklum búnaði á meðan við erum að fara á skíði einu sinni á ári. Kannski kallinn dragi okkur í fleiri ferðir núna þegar hann á svona flott bretti!

Talandi um dúlluna mína. Þegar við vorum að grafa í geymslunni í leit að skíðadóti fann ég gamla vídeospólu af Thelmu Kristínu sem tekin er upp á ýmsum tímabilum á fyrstu tveim árunum eftir að hún fæddist. Við erum búin að liggja í kasti yfir þessum myndum, sérstaklega þeim sem eru teknar upp í kringum 2 ára afmælið. Mín situr sposk á svip i stólnum sínum og syngur um loníetturnar og svo er ég að spyrja hana alls kyns spurninga og hún svarar eftir bestu getu; "Hvað heitirðu"... "í Veghúsum"!!.. "Nei, hvað heitirðu?"... "í Veghúsum"!! Hmm! Hún náði þessu nú rétt fyrir rest, vissi líka hvað hún væri gömul (einsáss) og hvenær hún ætti afmæli, hvað brói væri gamall, hvaða staf hún ætti og ég veit ekki hvað og hvað.

Svo var þetta óborganlega atriði sem tekið var upp nokkrum vikum seinna, greinilega, því nú var svarið "tveggjára" þegar ég spurði hvað hún væri gömul. Hún sat sem fastast á koppnum með poka af klósettrúllum fyrir framan sig og stafaði samviskusamlega S-A-L-E-R-N-I-S-R-Ú-L-L-U-R!!! Bara yndisleg!

Jæja, nóg mont. Best að koma þessari dúllu í rúmið, þegar komið korter fram yfir háttatíma.

Góða verslunarmannahelgi


 

Website Counter