Melbourne

Friday, December 30, 2005

Ég bráðna

Paniikk!!! Litla barnið mitt er að byrja í skóla eftir mánuð og stanslaust detta mér í hug litlir hlutir sem hún á eftir að læra áður en ég sleppi af henni hendinni út í lífið; reima skó, skeina, opna plastfilmur, fernur og alls kyns innpökkuð matvæli (svo hún geti nú komist klakklaust í gegnum nestispakkann) og hundrað litlir hlutir í þessa átt. Barnið er komið í stíft æfingarprógram ekki síst þar sem mamman vill helst að hún sé komin af stað í íslenskum lestri áður en hún fer að læra þetta á ensku. Við sitjum því hérna morgun eftir morgun og reimum skó og stautum okkur í gegnum Við lesum - Ása á ól, Ari má fá fána. Verð nú samt að monta mig af litlu fjögurra ára dömunni minni sem er næstum orðin læs!

Svo er hún líka svo góð þessi elska, getur ekki gert flugu mein og vill engan særa. Í morgun útskýrði hún fyrir mér með miklu handapati hvernig fléttur Maggie á leikskólanum væri með og eftir að mamman hafði eftir bestu getu reynt að gera eins leit hún í spegilinn, greinilega ósátt við árangurinn og sagði: "mamma, veistu, þetta er bara ekki minn stíll!!" Ein að fara fínt að þessu!

Hitinn annars að baka okkur hér á suðurhvelinu. 37 gráður í Melbourne í dag, Guði sé lof að við búum við ströndina því innar í fylkinu er 44 stiga hiti! Fórum aðeins í smá göngutúr í dag, vel birgðar af vatni, sólaráburði og derhúfum. Ekki vorum við nú búnar að vera lengi á róluvellinum þegar barnið bað um að fá að fara heim, henni væri of heitt! Mér skilst að allt stefni í heitasta desembermánuð í Melbourne frá upphafi mælinga.

Lágum bara á ströndinni um jólin, ekkert annað að gera í þessu veðri. Hitinn hefur ekki farið niður fyrir 30 gráður síðan á jóladag. Fórum á Elwood beach með Inku og Kim á annan í jólum og Brighton beach á þriðjudeginum með Vanessu, mömmu hennar og bróður. Ástralinn er löngu búinn að afgreiða þessi jól sem hitta svona á helgi. Fyrir hvern frídag sem ber upp á helgi bætist einn frídagur við vikuna - svo í stað jóladags sem var á sunnudegi var þriðjudagurinn frídagur hér. Að sama skapi er frí á mánudag í stað nýársdags sem ber upp á sunnudegi. Eitthvað til eftirbreytni fyrir Íslendinga.

Spáin fyrir gamlársdag er 42 gráður og sól! Hér safnast fólk saman í miðbænum á gamlárskvöld og gera fróðir menn ráð fyrir 500 þúsund manns í bænum annað kvöld - nærri tvöföld íslenska þjóðin takk fyrir! Við erum enn að gera upp við okkur hvort við eigum að treysta okkur í þetta kaos með barnið en erum jafnvel að hugsa um að slá til. Hver veit hvort við eigum eftir að eiga annað gamlárskvöld í Melboure, best að upplifa hlutina meðan völ er á. Ástralir eru líka svo fjölskylduvænir að fyrri flugeldasýningin er klukkan 21:15 svo við gætum komið okkur heim eftir það og skálað í kampavíni heima í heiðardalnum á miðnætti (þ.e.a.s. ef við verðum ekki föst í biðröð eftir lest eða sporvagni). Þið gerið ykkur grein fyrir því að í 11 klukkustundir munum við fjölskyldan lifa á öðru ári en þið, hehehe!

Ég verð að viðurkenna, ég veit að þið trúið mér ekki, að pínkulítill hluti (en bara pínkupínulítill) saknar kuldans, óveðursins og myrkursins á Íslandi - held ég sé að verða skrýtin - í minningunni eru íslenskir vetur bara soldið rómó og kósý. Sakna þess reyndar EKKERT að keyra í hálku verð ég að segja.

Jæja, best að halda áfram matarundirbúningi fyrir morgundaginn. Var að enda við að gera lax- og rækjuréttinn sem er ómissandi á gamlárskvöld. Gleymdi auðvitað að afþýða rækjurnar áður en ég byrjaði. Því var fljótbjargað, út á svalir fóru rækjurnar og þiðnuðu á augabragði. Svona svipað og þegar maður er að baka á Íslandi og notar svalirnar til að snöggkæla matinn!

Við andfætlingar óskum ykkur öllum gleði og farsældar á komandi ári.

Knús
Unnur Gyða

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter