Melbourne

Monday, November 20, 2006

Jólasól, Sólarjól!

Þá er komið að mánaðarlegri færslu fyrir þessa 3 sem enn lesa!

Höfum nú ekki setið auðum höndum undanfarnar vikur og frá nógu að segja.

Fengum góða heimsókn frá Soffíu vinkonu og hennar familíu í byrjun nóvember. Fórum ekki betur með gestina en svo að við ákváðum að flytja daginn eftir að þau komu... er nokkur hættur við að koma í heimsókn?? Ástæðan fyrir þessum skjótu búskiptum var nú sú að þegar við loks fundum nýtt hús gengu hlutirnir hratt fyrir sig. Eigandinn bauðst til að flytja út hið snarasta þegar við sögðumst eiga von á gestum enda meira pláss í nýja húsinu. Eftir nokkra umhugsun ákváðum við að þiggja það boð og nota hjálp bræðranna, sem einmitt komu heim úr ferðalaginu á sama tíma. Fyrir vikið var jú meira pláss fyrir gestina, eitt auka svefnherbergi..svo ekki sé minnst á garðinn. Reyndar var mín í prófi í látunum miðjum...en maður er nú ekki að láta svoleiðis smámuni stoppa sig.


Húsið er annars mjög nálægt gamla staðnum. Enn nær skólanum fyrir Thelmu Kristínu, og var nú ekki langt fyrir. Erum mjög sátt við kofann þó við bíðum enn eftir því að hita/kæli systemið verði gangsett. Eigandinn hefur fram til 15. des. til að ganga frá því og eins gott að það standist því maður þolir ekki marga 36 gráðu daga í ókældu húsinu. Eins var veðrið svo fáránlega leiðinlegt á meðan allir gestirnir voru hjá okkur að það var skítt að hafa engan hita. Þegar verst lét fór hitinn niður í 12 gráður um hábjartan dag!!!

Fundum okkur ýmislegt til dundurs með Soffíu og Inga. Skoðuðum nánasta umhverfi og skelltum okkur í vínekrutúr auk þess sem þó fóru nokkra dagstúra sjálf. Þegar við sáum hvert horfði með veðurspána frestuðum við fyrirhugaðri ferð til Lake's Entrance hér í fylkinu...enda lítið spennandi að vera í sumarleyfisbæ í 14 gráðu hita...og pöntuðum okkur ferð upp í kóralrifið mikla. Fengum því 4 daga í bongóblíðu í fínni íbúð með sundlaug og öðru nauðsynlegu. Fórum einn daginn út í rifið og snorkluðum með Nemó og félögum. Thelma Kristín skellti sér bara í kútinn sinn (uppblásið vesti) og snorklaði eins og hún hefði aldrei gert annað. Daman var bara orðin frekar fúl út í mömmu sína sem sífellt vildi halda í hana! Frábær ferð í alla staði ... alger afslöppun í sól, blíðu og góðum félagsskap... er hægt að biðja um meira?

Svo má nú ekki gleyma því að frúin komst bara á fertugsaldurinn á meðan á öllum þessum látum stóð. Við ákváðum að monta okkur aðeins af nýja húsnæðinu og buðum í partý á afmælisdaginn. Hér sátu um 20 manns í góðum gír langt fram á kvöld. Mjög vel heppnað ... að mati afmælisbarnsins alla veganna.

Síðasta kvöldið sem Soffía og Ingi voru hjá okkur var svo haldið á langþráða U2 tónleika. Það er nú ekki nema rétt ár síðan miðarnir voru keyptir! Fyrst áttu tónleikarnir að vera í mars en var frestað. Það vildi svo skemmtilega til að ný dagsetning var einmitt á meðan vinirnir voru í heimsókn og Maron hafði verið svo framsýnn að kaupa auka miða. Tónleikarnir voru auðvitað frábærir í alla staði. Mér fannst sérstaklega gaman að því að þar sem svo langt er síðan Vertigo platan var gefin út (eða hvað hún heitir aftur) þá voru þeir ekkert sérstaklega að spila af henni. Þetta voru bara "Best of U2" tónleikar....ekki leiðinlegt!

En fljótt skipast veður í lofti og í stað látanna sem hafa verið á þessum bæ undanfarnar vikur er dottin alger lognmolla yfir kotið. Maron farinn í 10 daga vinnuferð og við mæðgur einar í kotinu. Það er svo sem ágætt að fá tíma til að sinna skólanum...en það var svo ljúft að hafa bræður og vini hjá sér. Strákarnir komu einmitt degi fyrr úr ferðinni en áætlað var og hringdu hjá okkur bjöllunni mjög óvænt. Það eru svona litlir hlutir sem fá mann til að fá smá sting í hjartað og hugsa um hvað það er nú gott þegar familían kíkir óvænt í heimsókn.

En nóg af svona jólaheimþrá. Maron segir að ég hafi verið alveg eins á sama tíma í fyrra...þetta líður hjá! Nóg að gera í skólanum hjá okkur mæðgum og núna er að hefjast rosa törn í ballettnum hjá þeirri stuttu. Stór sýning 8. og 9. desember (mamman verður einmitt í prófi á meðan frumsýningu stendur...þvílíkt skipulag!)og aukaæfingar að hefjast á fullu. Hún á að vera niðri í leikhúsi meira og minna allan daginn á morgun við æfingar og myndatökur..og þetta er bara byrjunin!

Daman er auðvitað voða spennt að fá að taka þátt í svona alvöru sýningu. Í raun eru það dansarar í fullu námi sem halda þessu uppi en litlu krílin fá að taka þátt og eru því innvolveruð í allan undirbúning. Skemmtileg reynsla fyrir þau. Skvísan er líka orðin svo stór og dugleg. Eftir að við fluttum í nýja húsið hefur hún verið dugleg að fara út og leika við nágrannabörnin. Þetta var alls ekki hægt á hinum staðnum en núna erum við flutt í mjög rólega götu þar sem börnin leika sér fyrir utan húsin...næstum eins og á Íslandi, en þau fá nú ekki að fara langt frá hliðinu.

Læt fljóta með eina skemmtisögu af skvísunni. Við vorum í flugvélinni á leiðinni upp í kóralrif þegar hún skreið niður á gólf og fór að flækjast undir flugsætið. Við horfðum forviða á og báðum barnið að koma fram undir eins. "Bíðiði aðeins" sagði hún og skreið lengra undir. Forviða foreldrarnir sátu alveg stúmm þegar barnið koma aftur upp og spurðu "hvað varstu eiginlega að gera". "Sko", sagði sú stutta, "það stendur á sætinu Life Vest Under Your Seat...,en ég finn þau ekki"

Er búin að reyna að hafa í huga mér nokkrar góðar sögur handa ykkur...en man þær auðvitað ekki núna. Skelli þeim inn ef þær rifjast upp fyrir mér.

Ætla að setja inn myndir á morgun. Reyndar eru myndirnar úr kóralrifinu á vélinni hans Marons svo þær verða að bíða betri tíma. Sendi sólarkveðjur á Klakann og óska eftir smá jólastraumum í staðinn...er ekki alveg að detta í rétta fílinginn svona í 26 stiga hita og sól!

Njótið vetrarins, dimmunnar og jólaljósanna
Knús
Unnur


 

Website Counter