Melbourne

Wednesday, December 07, 2005

Ferðaframhaldssagan 4. kafli

10. nóvember - Ég á afmæli í dag! Ég á afmæli í dag!

Afmælisdagurinn rann upp, bjartur og fagur, enda ekki við öðru að búast þegar maður liggur við akkeri á Bora Bora!

Eftir dýrindis afmælismorgunverð með afmælissöng skútukórsins og öðru tilheyrandi sigldum við áleiðis að þorpinu í Bora Bora til að fylla á vistirnar. Röltum um bæinn og skoðuðum minjagripi, svartar perlur og annað spennandi sem fyrir augu bar. Eftir árangusríka verslunarferð í súpermarkaðinn settumst við niður á litlu kaffihúsu og fengum okkur hádegisverð.

Mæðgur á Bora Bora


Þar sem Kristófer og Svanfríður höfðu boðið okkur í afmælisveislu á Bloody Mary - einum vinsælasta veitingastað eyjarinnar, sem var staðsettur þar sem við áttum næturstað, var ákveðið að nota eftirmiðdaginn til að sigla í kringum frekar stórt motu sem var þarna rétt fyrir utan. Þetta var róleg sigling sem aðallega snerist um að synda í tærum sjónum, snorkla og strákarnir reyndu meira að segja að veiða í matinn (með kokteilpylsur sem beitu). En þrátt fyrir að bókstaflega horfa á fiskana gæða sér á pylsunum tókst þeim ekki að draga upp einn einasta titt. Við konurnar skemmtum okkur hins vegar konunglega uppi á dekki við að fylgjast með meiriháttar tilþrifum og útsjónarsemi við veiðarnar. Stöngin var trjábútur úr Vanilla túrnum, sterkur og góður viður og svo hafði Maron keypt girni og öngla í kaupfélaginu og þarna sátu þeir ýmist í gúmmíbátnum eða snorkluðu fyrir ofan kóralrifin og horfðu á fiskana éta sig pakksadda af pylsum!


Ekki besta myndin af undirritaðri... en sýnir vel sjóinn



Sigldum svo aftur á sama stað og við höfðum verið um nóttina því Bloody Mary var einmitt staðsett þar rétt við. Fórum í sparigallann og fengum okkur fordrykk uppi á dekki. Tengdó höfðu séð um að til væri freyðivín um borð og nú var skálað.. og við fengum meira að segja afmælisgjafir og allt!

Skál! Afmælisbarnið fagnar... og Thelma Kristín fær sér kríu


Sigldum svo á gúmmaranum í land og löbbuðum að Bloody Mary. Þetta var alveg frábær veitingastaður, sandur á gólfum og tropical stemning yfir þessu öllu. Aðallega var boðið upp á sjávarrétti og var fyrirkomulagið þannig að enginn fékk matseðil heldur var kæliborð við innganginn, svona eins og hjá fisksala, þar sem maturinn var geymdur. Þjónninn okkar fór svo yfir allt í borðinu með okkur, sagði okkur hvaða tegund af fiski þetta væri, lýsti bragðinu ef við þekktum ekki tegundina og útskýrði matreiðsluna. Þetta leit svo vel út hjá þeim að maður fékk vatn í munninn og vildi helst smakka allt.

Litla fjölskyldan við skiltið sem telur upp helsta fólkið sem hefur borðað á Bloody Mary. Við hliðina var annað skilti sem var jafnvel enn tilkomumeira!


Ummmm


Maron fékk sér hákarl og sjálf fékk ég mér hvítan túnfisk. Man því miður ekki alveg hvað hinir voru að fá sér en allir voru ofsalega hrifnir af matnum, forrétt, aðalrétt og eftirrétt! Thelma Kristín hafði með sér fötu og skóflu og sat hin rólegasta við fætur okkar og byggði sandkastala.



Áttum þarna alveg frábært kvöld... ekki hægt að biðja um betri afmælisveislu?? Takk fyrir okkur Kiddi og Svanfríður! Auðvitað vorum við líka að fagna þrítugsafmælinu hans Marons... ég var alltaf að bíða eftir að þið mættuð, maður er búinn að bjóða ykkur í ammæli og svo bara mætir enginn!!!! ;o)


11. nóvember


Hófum daginn á að leita að stað þar sem hægt var að fá vatn á bátinn. Eftir viðkomu í þorpinu á Bora Bora, þar sem ekkert vatn var að finna, sigldum við út að siglingarklúbbnum á Bora Bora. Þar lögðumst við við bryggju og fengum okkur hádegisverð á veitingastaðnum á meðan vatni var dælt á bátinn. Það var gaman að koma þarna og hitta annað skútufólk, m.a. kom þarna að eldri Japani sem var að koma úr siglingu frá Kanada með smá viðkomu í Japan, aleinn!!!!!!!!!!!



Eftir matinn lögðum við af stað meðfram Bora Bora. Ekki er hægt að sigla í kringum eyjuna því lónið er of grunnt á sumum stöðum. Náðum samt að sigla langleiðina, með eyjuna á aðra hönd og motu eftir motu á hina. Miklar byggingaframkvæmdir í gangi á þessum slóðum, allir í kapphlaupi að byggja lúxushótel. Ég verð nú að viðurkenna að eins og mér finnast þessar "overwater bungalows" sætar og rómó þá er ég ekki jafnhrifin af þeim þegar það eru 300 kofar í röð... og jafnvel annað hótel í 500 m. fjarlægð með öðrum 300!!! Þá er nú sjarminn farinn af þessu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég var hrifnari af látlausu Tahaa heldur en túrista Bora Bora.

En hvað um það, útsýnið var æðislegt á siglingunni, sjórinn eins tær og hugsast getur en erfitt að snorkla fyrir risastórum svörtum ígulkerjum sem hótuðu okkur með sprotunum sínum. Sigldum á gúmmaranum í land á einu hótelanna og ætluðum að athuga hvort við gætum borðað á veitingastaðnum. Við náðum varla að ströndinni áður en starfsmaður hótelsins mætti okkur og spurði hvort við værum gestir, nei, sögðum við en okkur langar að panta borð fyrir kvöldið. Það var því miður ekki hægt þar sem hótelið var fullbókað og þá hleypa þeir ekki utanaðkomandi að.

Við notuðum því tækifærið og steiktum brauðaldinið frá því í Vanilluferðinni góðu og göldruðum fram dýrindis kvöldmáltíð a la "tekið-til-í-ísskápnum". Sátum svo og horfðum á sólina setjast á bak við fjallið fallega sem er eitt megineinkenni Bora Bora.



12. nóvember

Siglingardagurinn mikli! Áttum fyrir höndum siglingu langleiðina í kringum Bora Bora, til að komast út úr brimgarðinum, og svo siglingu úti á rúmsjó framhjá Tahaa og yfir á eyjuna Raiatea. Kiddi kapteinn lagði því snemma af stað, eiginlega áður en áhöfnin var komin á lappir! og snæddum við morgunverð rétt áður en farið var frá Bora Bora. Maron hafði tekið sig til og bakað amerískar pönnukökur handa okkur, við mikla kátínu dóttur sinnar.

Við tók svo hörkusigling, halli, hraði og mikið fjör. Ég var nú doldið smeyk um að sú stutta yrði sjóveik í látunum en hún bara skellihló og fannst hún vera í þessum flotta rússibana. Verð nú að viðurkenna að mín tók fyrstu og einu sjóveikistöfluna í ferðinni... bara fyrirbyggjandi, skiljiði! Maron fann upp á frábærri skemmtun, næstum alla leiðina stóð hann frammi í stafni og hafði gaman af því að stíga ölduna þegar báturinn skall af öldutoppi niður í dal. Á góðum stundum var fallið ansi hátt og þetta var þrælskemmtileg dægrastytting. Það er auðvitað skemmst frá því að segja að Maron var eins og rauð blaðra á eftir, sólbrunninn og sætur!

Eftir um 8 tíma siglingu komum við loks til Raiatea. Hópur höfrunga fylgdi okkur síðasta spottann og skemmti sér við að sigla meðfram bátnum og undir hann. Lögðumst fljótlega við akkeri eftir komuna enda myrkur á næsta leyti. Fórum í land í pinkulitlu þorpi í þeirri von að finna veitingastað fyrir kvöldið. Ekki áttum við slíku láni að fagna, vorum í raun heppin að finna búð sem eiginlega var staðsett í bílskúrnum hjá einum þorpsbúanum. Þarna var hægt að fá allt milli himins og jarðar á 10 fermetrum! Ekki var þó mikið um ferskvöru svo við nálguðum eigandann varlega og spurðum hvort hann ætti nokkuð kjöt eða fisk... Kallinn gekk rakleiðis að frystikistu í einu horninu og dró upp Einn fisk með húð og hári sem við afþökkuðum pent og síðan, okkur til mikillar undrunar, þetta fína nautafillet. Umm umm við gátum ekki staðist freistinguna þó að stykkið væri gaddfreðið og þegar kominn matartími. Gengum svo um þorpið í leit að sög eða smiði sem gæti hjálpað okkur að búta niður gaddfreðna steikina en án árangurs. Fórum aftur út í bát og löðgum kjötið í bleyti og viti menn, rúmri klukkustund seinna hafði tekist að afþýða steikina og Kristján grillari settur í málið. Við höfðum reglulega heyrst minnst á leynda grillhæfileika Kristjáns, sérstaklega þegar málið snýst um góða nautasteik. Þrátt fyrir að ekkert grill væri um borð stóðst kokkurinn fullkomlega allar væntingar og við átum þessa dýrindis nautasteik og sötruðum rauðvín með.

Framhald í næsta þætti
Knús
Unnur Gyða

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter