Melbourne

Thursday, December 01, 2005

Ferðaframhaldssagan, 3. kafli

Jæja, loksins gef ég mér tíma til að halda áfram með ferðasöguna....

9. nóvember

Vöknuðum snemma og vorum mætt til Vanilla Tours klukkan átta. Frönsk hjón, Alain og Cristine, sem eiga og reka fyrirtækið tóku á móti okkur á heimili sínu sem var byggt í anda gamalla tíma í Polynesiu. Veggir úr berki trjánna og þakið fléttað úr pálmalaufum (og þarf að endurnýja á 4ra ára fresti!). Að heimamanna sið bjuggu þau í nokkrum húsum, eitt hýsti eldhús og stofu, annað svefnherbergið þeirra, það þriðja svefnherbergi sonar þeirra o.s.frv. svo á stórri og fallegri lóðinni lágu nokkur hús snyrtilega í þyrpingu. Því miður hafa heimamenn að mestu leyti skipt út þessum fallegu húsum fyrir bárujárnsklædd hús, í anda Íslendinga!

Thelma Kristín í stofunni


Eftir að hafa fengið blóm í hárið (eins og alls staðar þar sem við komum) og heimatilbúna ilmolíu til varnar moskítóflugum (það kom nú í ljós seinna um daginn að EKKERT stoppaði þær) lagði Alain af stað með okkur í ferð sem hófst í þeirra eigin garði og lá síðan (á bekk aftan á Land Rover) um alla eyjuna. Hann leiddi okkur í allan sannleika um plöntur og tré á eynni, hvaða ávexti þau bæru og hvernig eyjaskeggjar gátu nýtt sér plönturnar og afurðir þeirra fyrr á öldum.. og jafnvel enn í dag. Bananar, papaya, noni, ananas, kókoshnetur, grape, brauðaldin og svo mætti áfram telja, þar draup smér af hverju strái. Þarna hossuðumst við aftan á Land Rovernum um hóla og hæðir, brattar hæðir, eftir jeppaslóðum sem hefðu hrætt færustu jeppakarla á Íslandi.

Alain að sækja handa okkur brauðaldin, sem við seinna steiktum og átum með bestu lyst


Brauðaldintré nútímans!!


Aðal hluti ferðarinnar snerist þo um vanilluræktun, en Alain leggur sjálfur stund á slæka rækt. Hann labbaði með okkur inn í skóginn og sýndi okkur hvernig vanillan er ræktuð. Þar sem engar flugur eða kólibrífuglar sem frjóvga plönturnar lifa í Polynesiu verða menn sjálfir að sjá um frjóvgun og fengum við kennslustund í því.. þó við séum ekki alveg komin á sama stig og Alain, að frjóvga nokkur þúsund plöntur á dag. Að skógarferðinni lokinni fórum við í "verksmiðju" (í bakgarði einum) þar sem vanillustangirnar eru þurrkaðar og þeim pakkað, sem vanillustöngum, dropum eða púðri. Festum auðvitað kaup á vanillustöngum sem ég hafði hugsað mér að nota í jólagrautinn en vinir mínir í gæslunni hér í Ástralíu tóku þær af mér við komuna heim (það verður örugglega góður jólagrautur á borðum þar!)

Vanilla


Vanillan sólþurrkuð



Ferðinni lauk upp úr hádegi. Thelma Kristín alveg hæstánægð enda hafði Alain sýnt henni plöntur sem nota mátti sem til að gera húðflúr, nota sem naglalakk auk þess sem amman hafði gert þennan fína blómakrans í hárið á leiðinni. Settumst niður augnablik með þeim hjónum og drukkum nýkreistan ananassafa en kvöddum fljótlega enda áttum við fyrir höndum siglingu frá Tahaa yfir til Bora Bora sem yrði að nást fyrir myrkur.

Ekki leiðinlegur staður til að stoppa og borða FERSKA ávexti í hádegismat




Siglingin gekk vel í alla staði. Vegna tímaskorts sigldum við bæði á seglum og vél og náðum því blússandi ferð. Þegar siglt er á milli eyja sem umkringdar eru hættulegum brimgörðum verður að passa vel hvar siglt er frá og að eyjunum. Við vorum, eins og áður sagði, þannig staðsett á Tahaa að við komumst fljólega út um sk. "pass" og á haf út. Þegar við komum að Bora Bora urðum við svo að sigla langleiðina í kringum eyjuna því það er aðeins hægt að komast í gegnum brimgarðinn á einum stað. Það hafðist allt og við náðum til Bora Bora í ljósskiptunum.

Brimgarðurinn við Tahaa


Strákarnir stukku í land og redduðu bókun á veitingastað um kvöldið (og reyndar fyrir næsta kvöld líka). Við vorum svo sótt að bryggju og keyrð yfir á lítinn sætan veitingastað á Bora Bora þar sem við átum góðan mat í fínu yfirlæti.

Viðburðarríkur og skemmtilegur dagur. Vanilluferðin var einn af þeim hlutum sem stóð upp úr ferðinni að mínu mati enda minntu ótal moskítóbit okkur daglega á ferðina! Alain var svo ótrúlega fróður og sýndi okkur svo margt. Sjálf höfðu þau hjónin komið á skútu til Polynesiu fyrir 20 árum. Eftir að hafa siglt um allan heim var þetta staðurinn sem þau sneru aftur til og ákváðu að setjast að... ekki slæm meðmæli fyrir Tahaa.

1 Comments:

  • Meira, meira, meira! Yndislegt að lesa þetta, ég er með ykkur þarna á hverjum degi í draumi :)

    By Anonymous Anonymous, at 9:23 PM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter