Melbourne

Friday, February 22, 2008

Carpe Diem

Litla - hmhm...stóra - snúllan mín er 7 ára í dag! Ég nenni ekki að halda langa ræðu um það hvað tíminn líður ótrúlega hratt og hvað mér finnst hún hafa fæðst í gær...bla bla - en samt líður manni alltaf þannig á svona dögum - og man skyndilega hvað maður yngist mikið með hverju árinu sjálfur (hóst hóst).

Afmælið hennar Thelmu Kristínar markar samt líka alltaf tímamót hjá okkur hér í Ástralíu. Það var jú, sælla minninga, 4ra ára afmælisdagurinn hennar sem hreinlega týndist í tímamismuni þegar við fluttum hingað. Lögðum af stað frá Íslandi 21. febrúar en þegar til Melbourne var komið var þar þegar kominn 23. febrúar! Það eru því nákvæmlega 3 ár síðan við fluttum til Ástralíu - þar sem við ætluðum jú bara vera í ár eða kannski tvö!

Það er því kannski viðeigandi að núna erum við alvarlega farin að hugsa til heimferðar. Það lýsir sér helst með því að við erum duglegri en áður við að njóta tímans okkar hér og stökkva til ef eitthvað spennandi býðst. Dæmi: Skelltum okkur á ströndina eftir skóla á mánudag í bongóblíðu. Ég hafði keypt fisk fyrr um daginn sem ég ætlaði að hafa í kvöldmatinn - en gat ekki hugsað mér standa í eldhúsinu þar sem við gengum heim af ströndinni, kófsveittar og þreyttar eftir sundið - keypum hambogara á leiðinni. Fórum aftur á ströndina eftir skóla daginn eftir - laxinn enn í ísskápnum og ég hafði mörg orð um það við vini okkar að ég yrði að fara heim og elda þennan fisk, það væri nú eða aldrei. Þegar heim var komið hófst eldamennskan, grænmetið komið í pottinn fyrir Elísu og laxinn lá á eldhúsbekknum - háttatími stelpnanna nálgaðist eins og óð fluga. Þá tilkynnti húsbóndinn; "Við erum að fara út að borða" - hver veit hversu mörg svona hlý og yndisleg kvöld við eigum eftir hérna megin - best að nota þau vel.... og familían hentist út á Ormond götu og sat þar í góðu yfirlæti með pizzu og hvítvínsglas (slash epladjús!).

Í gær var ég svo í sakleysi mínu að fara út með ruslið eftir kvöldmatinn - og hugsaði, eins og svo oft áður hversu yndislegt veðrið væri svona í kvöldhúminu - og ætlaði inn aftur að svæfa stelpurnar en snerist á hæli og skellti þeirri yngri í kerruna og eldri á hlaupahjólið og við drifum okkur út í smá göngutúr fyrir háttinn - alveg frábært, mun gera meira af þessu nú á síðustu og verstu....

Jæja, best að sækja afmælisbarnið í skólann. Við ætlum að bíða aðeins með veisluna sjálfa - vonandi verður hún í næstu viku. Skvísan mátti auðvitað velja matinn í kvöld og valdi McDonalds!!!! Reyndar ákveðinn McDonalds sem við keyrðum fram hjá um helgina - þar sem rennibrautin nær út um gluggann og inn aftur..... og það sem afmælisbörn biðja um ... það fá þau... ekki satt?

P.s. Síminn hefur ekki virkað hjá okkur síðan við komum aftur út, sem útskýrir spjallleti mína - biðst afsökunar á því elskur! Eini sénsinn er að stelast í vinnusímann hjá bóndanum þegar hann er ekki að nota hann - það gerist bara eiginlega aldrei!

Friday, February 15, 2008

Back Down Under


Stoppuðum í Singapore í 4 daga - bara frí hjá familíunni - ef maður getur kallað það frí að vera með tvö flugþreytt börn að reyna að skoða nýjan stað. Lítið sofið á nóttunni...mikið fram eftir degi og svo nýtti maður eftirmiðdaga og kvöld til að skoða Singapore. Sem betur fer er allt opið til 10 á þeim ágæta stað!! Urðum að byrja á smá verslunarleiðangri því okkar ástkæru starfsmönnum á Heathrow flugvelli tókst auðvitað að týna annarri töskunni okkar - já, ég sagði ANNARRI töskunni. Ekki spyrja mig af hverju þeim tókst að koma einni tösku í vélina en hinni ekki. Það gefur nú samt auga leið að taskan sem rataði í flugið okkar var auðvitað sú taska þar sem ég hafði pakkað öllum þeim hlutum sem við þyrftum örugglega EKKI að nota í Singapore, sem sagt vetrarfötum og jólagjöfum!

Notuðum annars tímann til að skoða Singapore lítillega bæði fótgangandi og í strætó. Fórum líka út á eyju þarna fyrir utan og horfðum á frábæra sýningu með laysergeislum, vatni, eldi, tónlist, flugeldum og fleiru - mjög skemmtilegt. Síðasta deginum eyddum við svo í dýragarðinum sem var einn sá flottasti sem ég hef komið í. Mikið gert upp úr því að hafa svæðin opin og búrin sem ósýnilegust.



~
Þessi lemúr hoppaði næstum á Thelmu Kristínu


Aparnir róluðu sér bara fyrir ofan hausamótunum á okkur

Litli apakötturinn minn!

Tókum kláf út í Sentosa eyju
Mæðgur á leið til Sentosa

Systur á siglingu


Thelma Kristín á Korean BBQ

Áttum svo bókað flug í gegnum Brisbane þar sem beina flugið til Melbourne var fullt. En við vorum svo heppin að Qantas menn breyttu þessu öllu fyrir okkur á síðustu stundu úti á velli og við fengum beint flug heim - munaði 6 tímum í ferðalagi svo þið getið ímyndað ykkur hamingjuna á liðinu.

Þegar heim var komið tók svo alvaran við. Skólinn hjá okkur mæðgum og vinna hjá bóndanum. Reyndar tókst nú Maroni að hafa með sér íslenska flensu í farangrinum (þeir hefðu nú mátt týna henni á Heathrow) svo hann var mikið heima við í síðustu viku enda gersamlega þegjandi hás.

Það var nú frekar ljúft að komast hingað í sólina þó það hafi verið fremur kalt fyrstu dagana - rétt um 20 gráðurnar, hehe! En þetta er allt að færast í betra horf, skreið yfir 30 gráðurnar í dag og við eyddum deginum í að þræða húsgagnaverslanir (!).

Ég held það sé loksins að komast rútína á Elísu. Þessi heimferð var dropinn sem fyllti mælinn hjá litla ferðalangnum mínum og hún hefur sofið hræðilega illa síðan við lögðum af stað frá Íslandi. En ég held að þetta sé nú allt að koma núna - síðustu 3 nætur hafa verið bærilegar. Það hefur heldur ekki bætt úr skák að hún hefur verið kvefuð greyið og svo er hún farin að standa upp í rúminu sínu og gerir það fram í rauðan dauðann - sama þó hún sé svo til sofnuð - um leið og maður sleppir af henni hendinni fer hún upp, og heldur sér svo dauðahaldi og orgar því hún veit ekki hvernig hún á að setjast niður.

Montprik!


Hæstánægð í nýju göngugrindinni


Sjáðu hvað ég get!

Mamma, ég held þú ættir að fara að kaupa hlið!


Held ég láti bara myndirnar tala sínu máli í þetta sinn - hin opinbera myndasíða er steindauð enn þá! Læt heyra aftur frá mér fljótlega.

Yfir og út


 

Website Counter