Melbourne

Wednesday, July 26, 2006

Picnic at Hanging Rock

Hah! Ætlaði að fara að blogga um síðustu helgi þegar ég fattaði að ég hef enn ekki sagt ykkur frá helginni þar á undan, engin frammistaða í þessum bloggheimi! Fórum í Crown á laugardeginum með samstarfskonu Marons og hennar börnum. Skelltum okkur í keilu og út að borða á eftir. Mjög gaman og krakkarnir voða ánægðir, enda leikurinn til þess gerður.

Fórum svo í sund á sunnudeginum. Eftir fríið á Íslandi er maður auðvitað enn og aftur orðinn gerspilltur í sundmálum og finnst þessar laugar sem boðið er upp á hér ekki upp á marga fiska. Sérstaklega er búningsaðstaðan fyrir neðan allar hellur, eins og oft vill gerast í útlöndum. Ég hef svo sem farið nokkrum sinnum áður í þessa laug og lengi talið hana með því skásta sem ég hef séð hér en nú er búið að minnka kvennaklefann um helming, einhverra hluta vegna, og álagið því helmingi meira en áður. En hey, lítum á björtu hliðarnar... klefinn var svo skítugur að sveppir þrífast þar varla.. og ef þeir gera það þá munu maurarnir örugglega éta þá áður en þeir bíta mig í tærnar!

Vikan leið svo eins og gengur og gerist með sínum föstu siðum; Maron í vinnu og daman í skóla. Ég veit ekki alveg hvað ég var að gera.. mér leiddist alla veganna ekki. Ég byrja svo í skólanum í september... þá verður líklega nóg að gera hjá mér líka :o)

Áttum svo aftur mátulega rólega og góða helgi. Fórum í leiðangur á laugardaginn og keyptum okkur "Cross Trainer". Fyrst við erum ekki að fara í ræktina, hjónin, er spurning hvort að ræktin komi ekki bara til okkar! Svo nú er nýjasta stofustássið sem sagt eitt stykki svona skíðatæki sem eiga víst best heima á líkamræktarstöðvum... en svo lengi sem við erum að sveifla okkur á þessu er víst ekki hægt að kvarta, er það??

Finnarnir okkar buðu okkur í mat á laugardagskvöldið og það var gaman og huggulegt að vanda. Erum búin að bóka skíðaferð með þeim um miðjan ágúst svo við vorum aðeins að pæla og plana frekar. Ætlum að vera saman í fjögurra herbergja hótelíbúð í þrjár nætur í áströlsku Ölpunum. Stelpurnar ætla saman í skíðaskóla og við hin ætlum að gera heiðarlega tilraun til að skella okkur á skíði.. og ef mín er hugrökk.. á snjóbrettið!

Skelltum okkur svo í "picnick at Hanging Rock" (sbr. fræga ástralska skáldsögu og kvikmynd fyrir þá sem vilja kynna sér frekar ástralska menningu) á sunnudaginn. Þetta var hin allra besta skemmtun í yndislegu veðri. Sátum og nutum nestisins með kengúrur og rósellur í kringum okkur. Thelma Kristín komst meira að segja í návígi við lítinn sætan "joey" (ef einhver veit hvað afkvæmi kengúru heitir á íslensku eru slíkar upplýsingar vel þegnar). Löbbuðum svo upp á fjallið eftir matinn, mættum kóalabirni á leiðinni og frábæru útsýni þegar upp kom. Ég er eiginlega doldið hissa á að hafa ekki fundið meiri tröllasögur í ástralskri þjóðtrú því aldrei fyrr hef ég séð jafnmörg steingerð tröll og í þessari göngu. Kannski er þessar sögur að finna í þjóðsögum frumbyggjanna, best að kynna sér málið. Er annars búin að setja inn myndir af dagsferðinni - þær segja meira en mörg orð.

Monday, July 24, 2006

Fleiri myndir

Var að henda inn myndunum frá Hong Kong.

Skulda ykkur blogg... lofa því á morgun... eða hinn!!

Monday, July 17, 2006

Myndir myndir

Er að setja inn myndirnar smatt og smatt. Skellti inn gomlum myndum síðan í mars sem ég fann í tiltektinni. Þær eru síðan Samveldisleikarnir voru haldnir hér í borg. Ég setti þær á réttan stað í tímaröð í albúmið svo þær eru ekki fremstar - þið verðið að finna þær ef þið viljið kíkja!

Setti svo inn Dubai myndirnar. Hef ekkert bloggað um þá ferð enda fengu nú flestir ferðasöguna bein í æð á meðan við vorum á Íslandi. Fyrir þá sem ekki fengu slíka frásögn má geta þess að við dvöldum í 3 daga í Dubai sem skiptust ca. svona
1) Jeppaferð í eyðimörkinni
2) Vatnsrennibrautagarður
3) Verslunar- og skoðunarferð um Dubai

Æðislega skemmtileg ferð þó að Dubai hafi verið frekar skrítin og hálfkláruð borg. Sem dæmi má nefna að 15% allra byggingarkrana í veröldinni eru í Dubai svo þið getið ímyndað ykkur framkvæmdagleðina. Mæli eindregið með að þið leggið leið ykkar þangað eftir 5 - 10 ár... þá verða þeir vonandi að verða búnir! Þetta er samt frábært staður til að "kíkja" inn í menningu miðausturlanda án þess að þurfa að taka þátt í henni. Einn af örfáum stöðum í heiminum þar sem slíkt er hægt.

Jæja, jæja, ég ætlaði alls ekki að fara að blogga, bara láta vita að það eru komnar myndir og fleiri munu bætast við á næstu dögum.

Thursday, July 13, 2006

Aftur í Melbourne

Húff... þá er maður bara kominn aftur heim eftir nærri 2 mánaða fjarveru. Verð að segja að tíminn gersamlega flaug frá okkur á Íslandi, enda ekki að spyrja að leikslokum þegar maður skemmtir sér eins vel og við gerðum. Knús og kossar til ykkar allra sem eydduð með okkur kvöldstund eða tveimur.. eða þremur. Takk fyrir okkur!

Ferðalagið gekk annars vel eins og við var að búast. Thelma Kristín er orðin svo sjóuð í þessum flugferðum að það hálfa væri nóg. Fórum nú bara til London í fyrstu atrennu svo flugið var eins stutt og kostur er. Áttum að fara í loftið á sömu mínútu og Kristófer átti að lenda í Keflavík á leiðinni heim frá Benidorm. Við krossuðum allar fingur og tær í von um að okkar vél myndi seinka og viti menn, 40 mínútna seinkun varð raunin sem var nóg til að hitta á Kristófer örstutt og knúsa hann bless :o)

Gerðum ekki mikið af okkur í London. Skriðum inn á flugvallarhótel um 10 leytið, pöntuðum pizzu og lögðumst í bælið. Vorum svo mætt út á flugvöll um 10 næsta morgun, svo að London baby London verður að bíða betri tíma.

Lentum svo í Hong Kong að morgni næsta dags og eyddum honum næstum öllum í bólinu. Fórum nú aðeins út um eftirmiðdaginn og fram á kvöld. Þræddum göturnar í kringum hótelið okkar.. sem var mjög skemmtilega staðsett í Causeway Bay á Hong Kong eyju. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem út fyrir flugvöll í Austur Asíu og mér þótti endalaust gaman að drekka í mig lífið og menninguna. Átti í mesta basli með að halda munninum lokuðum svo nýtt og framandi var það sem fyrir augu bar. Mannhafið og matarlyktin stendur upp úr.. maður æddi bara áfram með straumnum, verst að maginn hafði litla list á óþekktum mat eftir flugið og kvöldið endaði á McDonalds. Þar hafði ég nú ekki einu sinni list á kjúklingaborgara, með fuglaflensuna í fersku minni. Kannski er ég orðin óþarflega paranojuð en eftir 6 vikur á Íslandi þar sem fólk þorir varla lengur niður að tjörn að gefa öndunum brauð er líklega best að hafa vaðið fyrir neðan sig á götum Hong Kong.

Fórum svo daginn eftir í leiðangur um götur og verslunarmiðstöðvar Hong Kong. Daman var nú orðin svo flugþreytt upp úr hádegi að pabbi hennar fór með hana upp á hótel í smá lúr. Mamman lét slíkt nú ekki stoppa sig í verslunarhugleiðingum en afraksturinn var samt heldur bágborinn. Hong Kong er ekki jafn ódýr og áður var. Í raun hefðum við átt að hugsa aðeins fram í tímann og fá okkur vegabréfsáritun til Kína. Í HK er nefnilega boðið upp á dagsferðir yfir landamærin (sem eru auðvitað ekki formleg landamæri lengur) og þar er víst verðlagið á allt annarri plánetu en við erum vön... munum það næst.

Eftir lúrinn fórum við upp á "Peak", hæðsta svæði Hong Kong eyju og nutum útsýnisins. Veðrið hefði mátt vera betra, það var rigning alla morgna en þurrt og skýjað í eftirmiðdaginn svo útsýnið var auðvitað frábært... en ekki jafnflott og það verður á góðum degi. Tókum svo ferjuna af Hong Kong eyju yfir til Tsim Sha Tsui þar sem við stóðum og nutum útsýnisins yfir Hong Kong eyju í myrkrinu. Ljósasýning hafði verið sett upp á mörgun háhýsanna svo þau skiptu litum og blikkuðu .. sem var auðvitað bara til að auka flottheitin. Enduðum daginn á "Outback", áströlskum veitingastað sem okkur hefur enn ekki tekist að finna í Ástralíu. Góðar steikur, góður bjór!



Síðasta daginn var svo farin langþráð ferð í Disney land. Það er skemmst frá því að segja að við skemmtum okkur konunglega. Garðurinn er splunkunýr og allt í toppstandi. Verst að fyrir vikið er hann líka vinsæll hjá heimamönnum og raðirnar í tækin því frekar langar. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að Thelma Kristín var í essinu sínu og gekk á einhverjum óþekktum gufum í flugþreytunni. Sofnaði reyndar í einni röðinni en það er nú ekki slæmt að vakna um borð í bát sem siglir í gegnum "frumskóginn" og fylgjast með fílum og flóðhestum leika sér í vatninu. Foreldrunum var nú eiginlega hætt að standa á sama með litlu ljóskuna okkar. Hún var eina ljóshærða barnið í garðinum og í svona raka verður hárið á henni ofurkrullað. Við tókum auðvitað eftir því að það var mikið horft á hana og hún fékk ótal bros frá ókunnugu fólki en það var nú fokið í flest skjól þegar Kínverjarnir vildu heldur fá að taka myndir af Thelmu en Tarzan!



Morguninn eftir var svo ferðinni heitið í Melbæinn hinn seinni. Vorum komin þangað á mánudagskvöldi og daman var svo mætt í skólann daginn eftir. Það var auðvitað voða spenningur að hitta vinkonurnar og mér skilst að það hafi skapast örtröð í skólastofunni því allar vildu skvísurnar jú sitja við hliðina á endurheimta ferðalangnum.

Erum svo smám saman að detta inni hversdagsleikann hér. Ég fór og hjálpaði til í skólanum á þriðjudaginn og svo aftur núna í morgun. Bara gaman að hitta allt fólkið aftur.

Við erum að vinna í sameina myndinar á tölvunum okkar Marons svo ég geti skellt þeim á netið, það ætti að gerast á allra næstu dögum.

Þökkum enn og aftur fyrir samveruna á Íslandi... við lofum að öll gestrisnin verður endurgoldin ef þið skellið ykkur down under!

Knús og kossar
Unnur Gyða


 

Website Counter