Melbourne

Wednesday, May 28, 2008

2000 km síðar

Halló halló

Erum nú stödd í Mooloolaba á austurströnd Ástralíu eftir einungis 2000 km keyrslu. Þetta gekk bara alveg ótrúlega vel, ég á nottlega svo ofsalega góðar dætur sem láta flest yfir sig ganga, greyin!

Lögðum af stað á miðvikudagskvöldi og ókum sem leið lá 600 km í norðaustur rúmlega hálfa leið til Sidney. Við vorum á ferðinni frá kvöldmat og nokkuð fram á nótt sem er svo sem ekki merkilegt - nema vegna þess að einu ferðalangarnir fyrir utan okkur voru trukkabílstjórar á sínum 16 hjóla trukkum með aftanívagni! Við vorum eins og krækiber í helvíti í nær stanslausri röð flutningabíla sem nær svo til óslitið á milli Melbourne og Sidney á kvöldin og næturnar. Afskaplega spes akstur og ekki laust við að manni létti þegar komið var á áfangastað. Gistum í litlum bæ sem ber hið skemmtilega nafn Gundagai. Þetta var greinlega smábær smábæjanna því þegar við sögðumst vera á ferðinni eftir miðnætti var svarið bara "ekkert mál, þið labbið bara upp í gegnum veitingastaðinn, hann verður opinn. Þið eigið herbergi 15, lyklarnir eru á borðinu"!! ... og þetta stóðst allt. 

Á fimmtudeginum keyrðum við svo til Sidney þar sem við gistum á 67. hæð í miðbænum. Talandi um "room with a view"!! Svalirnar höfðu verið yfirbyggðar svo stór veggur í stofunni var úr gleri frá lofti og niður í gólf með þvílíku útsýni að ég hef aldrei séð annað eins! Höfðum ekki í okkur að fara út að borða um kvöldið vitandi það að enginn veitingastaður gæti boðið betra útsýni svo maturinn var heimsendur og svo sátum við bara og nutum vel. 

Maron var svo að vinna á föstudeginum svo við mæðgur tókum okkur göngutúr niður í Rocks eftir að hafa tekið smá sundsprett í hótellauginni um morguninn. Fórum svo með Maroni upp á skrifstofu áður en við héldum úr bænum. Ókum upp ti Port Macquarie og hvíldum okkur um nóttina. Eftir góðan morgunverð (Thelma Kristín var svo hrifin af hlaðborðinu að ég var komin með móral yfir að borga barnagjald fyrir hana!) og smá lærdómsátak hjá minni á meðan pabbin fór með skvísurnar í göngutúr (eitthvað nefndi hann líka skoðunarferð um þriggja mastra skútu í höfninni) var haldið af stað norður eftir ströndinni í átt til Brisbane. Fengum okkur fisk í Coffs Harbour og kvöldmat í Byron Bay (báðir þekktir sumarleyfisbæir hér í Ástralíu) og enduðum svo á hinni frægu Gold Coast. Höfðum jafnvel hugsað okkur að eyða sunnudeginum þar (kannski taka einn skemmtigarð í viðbót) en eftir laugardagskvöld á staðnum mundum við eftir því að hann er ekkert nema ofvaxinn unglingaskemmtistaður og gátum ekki beðið eftir því að færa okkur yfir á litlu og fjölskylduvænu Sunshine Coast. Svo við drifum okkur síðasta spölinn og vorum komin til Mooloolaba um 2 leytið á sunnudeginum....

...og hér höfum við svo hreyðrað um okkur, heimilislausa fjölskyldan, og við mæðgur njótum lífsins á meðan bóndinn vinnur fyrir brauðinu. Reyndar er mín líka að reyna að vinna upp námsefnið sem lítill tími gafst fyrir í flutningum og ferðalögum. Hér er nú reyndar kominn vetur og hitinn "ekki nema" rúmar 20 gráður á daginn. Kannski ekki nægur hiti til að liggja á ströndinni í baðfötum - en fínn til að dunda þar með skóflu og fötu - sem snúllurnar mínar kunna líka vel að meta. 

Ég gekk svo vel frá myndavélinni okkar á hótelinu í Melbourne að hún fannst ekki aftur fyrr en í gærkveldi! Svo eitthvað er nú lítið til af myndum af þessu ævintýri okkar - en kannski ekki mikið að sjá nema tvær sætar sofandi stelpur í aftursætinu á bílnum okkar ;o)

Tuesday, May 20, 2008

Upphafið að endinum!

Jæja, þá er fjölskyldan opinberlega orðin heimilislaus!! Gámurinn kom í morgun og húsið orðið galtómt. Við erum flutt á hótel og munum leggja af stað á morgun upp til Brisbane með smá stoppi í Sidney.

Þetta er búinn að vera skrítinn dagur - erfitt að kveðja vinina en Thelma Kristín stóð sig eins og hetja. Henni finnst þetta nefnilega allt saman svolítið erfitt, hún er ekkert að flýta sér frá Ástralíu, vill helst bara fara þegar hún er orðin 10 ára!

Héldum kveðjupartý á föstudag - höfðum það fámennt - en mjög góðmennt. Mikið fjör á vinahópnum og sá nokkuð á áfengisbirgðunum - en þó ekki nóg. Hefðum líklega þurft að halda 5 önnur svona partý til að árangurinn yrði mælanlegur (planið var að klára sterka áfengið úr búrskápnum fyrir brottför - það er skemmst frá því að segja að það tókst ekki!)

Litli skæruliðinn minn tekur þessu öllu með ró. Ákvað reyndar að byrja að labba um helgina - sem er auðvitað frábært en hún hefði alveg mátt velja betri tíma. Nú er alls ekki tekið í mál að sitja bara í kerrunni og fylgjast með því sem fyrir augu ber, nei takk! Út á gólf vill daman og mamman eða pabbinn verða að hlaupa á eftir því maður er nú heldur valtur á fótunum enn þá!

Jæja, langur dagur framundan á morgun svo það er best að halla sér. Vildi bara senda smá update fyrst við erum dottin úr net og símasambandi í bili. Erum farin að hlakka til að komast upp á Klaka en þangað til bíður okkar vonandi spennandi ævintýri svona fyrst við ákváðum að taka löngu leiðina heim. Ég kemst vonandi í netsamband reglulega til að monta mig á leiðinni! Ætla að halla mér núna ..... í síðasta sinn í Melbourne


 

Website Counter