Melbourne

Monday, January 30, 2006

Under Down Under

Mikið var gott að flýja 40 gráðurnar og skógareldana fyrir rólegheit, náttúrufegurð og þægilegt hitastig í Tasmaníu. Áttum alveg yndislega daga þarna "under Down under" á eyjunni litlu sem líklega státar af hreinasta lofti í heimi. Verð, sem Íslendingur, að játa mig sigraða í þessum efnum því ekki þola Tasmanir yfirsveimandi mengun frá löndum í kring eins og við gerum á Íslandi. Að auki liggur eyjan á 40. breiddargráðu þar sem stöðugur vestanvindur sér til þess að loftið stendur aldrei kyrrt.

Lögðum upp frá Melbourne á miðvikudagskvöldi í farþegaferjunni "Spirit of Tasmania". Þetta var fínasta fley og eftir að hafa fylgst með því leggja úr höfn áleiðis út Port Phillip flóa settumst við niður á betri veitingastað skipsins og nutum góðs matar og víns. Skriðum að því loknu í koju enda fann maður um leið og skipið kom út fyrir flóann hvernig veltingurinn jóks margfalt. Ekki bætti úr skák að vegna hafnarbreytinga í Tasmaníu varð kapteinninn að vera klukkustund fljótari á áfangastað en vant er og keyrði því allt í botni. Þetta hafði það í för með sér að við lentum í Devonport, Tasmaníu klukkan sex að morgni í stað sjö!

Hófum dvölina í Tasmaníu á klassískan máta.. með morgunmat á McDonald's! Planið fyrir daginn, sem var einmitt þjóðhátíðardagur Ástralíu, var að koma okkur suður eyjuna til höfuðborgarinnar, Hobart. Sáum tvær leiðir færar í þessum efnum, beinan og breiðan þjóðveg sem tekur um 3 klst. að aka og svo seinfarnari leið yfir fjöll og firnindi, meðfram stóru stöðuvatni með regnskóga á báða bóga. Á bensínstöð bæjarins var okkur ráðlagt að taka þjóðveginn enda líklegt að umferð myndi aukast er liði á þjóðhátíðardaginn og hlýddum við þeim ráðleggingum. Mér var nú hugsað til hans karls föður míns þá. Sá hefði verið fljótur að pakka svala og kexi og taka fjallabaksleiðina! Við gæddum okkur hins vegar bara á Opal brjóstsykri sem við fengum senda fyrir jólin á meðan við þutum um þjóðveginn. Veltum því fyrir okkur hvort þetta væri það íslenska sælgæti sem lengst hefur ferðast frá heimahögunum á Hesthálsi ... endilega látið vita ef þið getið toppað þetta.

Ferðin gekk annars í alla staði vel. Gerðum pissustopp í bænum Bagdad... þar var allt með kyrrum kjörum! Dýralífið í Tasmaníu virðist vera með líflegasta móti ef marka má dýrahræ á vegum úti. Hef aldrei á ævinni komist nálægt því að sjá jafn mörg dauð dýr og ég gerði síðustu daga, það liðu líklega að meðaltali um 500 m. á milli hræjanna á götunni, kengúrur, tasmaníu púkar (Tasmanian Devil), possums, quolls og hvað þau heita nú öll þessi dýr sem ramba hér um þessar slóðir. Sá líka einn snák sem næstum var skriðinn undir bílinn hjá okkur og svo verð ég að bæta við einni þeirri furðulegustu sýn sem ég hef upplifað. Ókum fram hjá engi þar sem rollur voru á beit.. sem er nú ekki í frásögu færandi... nema á baki næstum hverrar einustu ær stóð einn fugl! Ef einhver kann skýringu á slíku fyrirbæri ... endilega látið heyra í ykkur.

Komum til Hobart um hádegisbil og fengum okkur djúpsteiktan fisk í hádegismat. Veitingastaðurinn var niðri við höfn og þar gat maður fylgst með bátunum koma með aflann að landi og beint inn í eldhús... gerist ekki mikið ferskara en það. Á dauða okkar áttum við nú von áður en við fyndum séríslenska kokteilsósu á veitingastað hinum megin á hnettinum en það gerðist nú samt ... Coctail sause... seldu þeir með fiskinum, og hún var bara alveg eins á bragðið og okkar. Tommi hefur greinilega ferðast um Tasmaníu áður en hann opnaði Tommaborgara (eða Magnús á Aski eða hver það nú var sem eignaði sér heiðurinn af kokteilsósunni) - ja, eða öfugt!

Eftir að hafa tékkað okkur inn á hótelið okkar fórum við í göngutúr um bæinn og fengum okkur léttan kvöldverð í einum líflegasta borgarhlutanum áður en við tókum smá rúnt um ytri borgarmörkin. Hobart er borg Einstefnanna..með stórum staf. Þar eru meira og minna ALLAR götur einstefnur... 2-4 akreinar... en allar í sömu átt!!! Ég held líka að borgin státi af bröttustu brekkum veraldar. Borgin er byggð utan í fjallshlíðum og vegirnir niður.. boy ó boy... manni fannst maður bara vera að keyra fram af!

Vorum snemma á fótum á föstudeginum. Fengum okkur léttan morgunverð á hótelinu...það hefðum við nú ekki átt að gera því verri morgunmat höfum við sjaldan fengið...og það var sko ekki í samræmi við verðið sem við borguðum fyrir hann. Maron pantaði sér t.d. rándýrt jógúrt með múslí og ávöxtum. Miðað við uppsett verð héldum við að hann fengi þetta fína ferska ávaxtasalat en nei... súrmjólk, þurrt, gamalt múslí og niðursoðnar ferskjur var það sem í boði var!

Ókum síðan suður fyrir Hobart niður til Port Arthur, frægasta túristastaðar eyjunnar. Þar eru gamlar fangelsisrústir síðan á 19. öld. Þegar glæpamennirnir sem sendir höfðu verið frá Bretlandi til Sidney brutu aftur af sér í Ástralíu voru þeir sendir til Port Arthur. Þarna voru sem sagt geymdir harðvítugustu glæpamennirnir enda var þeim þarna engrar undankomu auðið. Allt um kring er sjór sem frægur er fyrir hákarlana sem þar svamla um að undanskildu litlu eyði sem tengist landi... þar voru grimmir, hálfsveltir hundar sem sátu fyrir flóttamönnum.

Vegna einangrunarinnar myndaðist þarna hálf sjálfbært samfélag þar sem mikið var um vinnuafl, þ.e. fanga, sem byggðu stór og glæsileg hús, þ.á.m. kirkju og sjúkrahús. Fangelsið er eitt það fyrsta í heiminum sem hafði þá stefnu að uppfræða fangana á meðan dvöl þeirra stóð, þá helst með því að kenna þeim einhverja iðn, svo þeir gætu bjargað sér sjálfir eftir að afplánun lauk.

Því miður komst þetta safn í fréttirnar árið 1996 fyrir allt aðrar sakir en þá voru þarna framin verstu fjöldamorð sem framin hafa verið á friðartímum þegar óður byssumaður skaut á fjölda manns, drap 35 og særði 12. Maður hefði nú haldið að Ameríkaninn ætti heimsmet í slíkum æfingum.. en svo er víst ekki. Nú hefur verið reistur minningarreitur í safninu um þennan atburð en gestir eru beðnir um að spyrja starfsfólkið ekki frekar út í málið. Margir sem þarna vinna misstu nákomna, enda samfélagið lítið og þrír starfsmenn safnsins á meðal þeirra látnu. Þetta er allt svo nálægt manni í tíma að maður fékk nú bara illt í hjartað við að ganga um minningarreitinn.

Á leiðinni til og frá Hobart stoppuðum við á nokkrum útvöldum náttúrufegurðar-stoppum og nutum vel.

Fengum okkur svo Crayfish í kvöldmat. Ekki hægt að vera í Tasmaníu án þess. Ég get nú ekki frætt ykkur um muninn á Crayfish og risahumri.. hann er lítill ef einhver... en góður var hann.

Höfðum vaðið fyrir neðan okkur á laugardag og fórum niður í bæ í morgunmat. Gengum um Salamanca markaðinn sem haldinn er á laugardagsmorgnum. Það var líflegur og skemmtilegur markaður, margt að sjá og auðvelt að eyða peningum! Tasmanir eru sérstaklega þekktir fyrir skóga, skógarhögg, góðan við og fallegan útskurð. Pabbi hefði haft gaman af að rölta þarna um... við hugsuðum meira segja svo stíft til þín pabbi, að það bíður þín gjöf þegar þú kemur um páskana!

Eftir markaðsröltið ókum við sem leið lá upp eftir austurströnd Tasmaníu. Þessi hluti eyjunnar er oft kallaður leikvöllur Tasmaníu enda fallegar strendur og gott brim. Dóluðum okkur inn að Freysnesi (Freycinet National Park) þar sem við gengum upp að Wineglass Bay sem þykir með fallegri ströndum í heimi. Gangan var rúmur klukkutími fram og til baka... púra fjallganga en sú stutta var sko ekki að kvarta. Hoppaði þetta með okkur eins og ekkert væri. Það hjálpar nú til við gönguna þegar maður mætir einni og einni eðlu eða kengúru á leiðinni. Útsýnið var ægifagurt, bæði var ströndin falleg, eins og við var að búast en mér fannst þó meira til fjallanna koma. Ætla mér ekki út í nánari lýsingar á þeim... þið verðið bara að skoða myndirnar.

Það var langt liðið á kvöld þegar við komum á næturstað, St. Helens, þar sem við áttum bókað herbergi á hóteli bæjarins. Við vissum hins vegar ekki að þennan dag var siglingarkeppni í bænum og hátíðarhöld að henni lokinni. Bærinn iðaði af lífi, skemmtidagskrá, ferðativoli og flugeldasýning. Þegar skipulagðri dagskrá var lokið var hótelið svo auðvitað miðpunktur áframhaldandi skemmtanahalds okkur til lítillar ánægju. Lítið sofið þá nótt.

Í gær dóluðum við okkur svo um norðaustur hluta Tasmaníu með viðkomu á helstu túristastoppum. Röltum t.d. niður að Binalong Bay sem var víst valin næst besta strönd í heimi - að sögn bæjarbúa reyndar... við tökum því nú með fyrirvara... en falleg var hún nú samt. Mjallahvítur sandur sem var svo mjúkur að manni leið eins og maður væri að ganga í kartöflumjöli. Ókum í gegnum Elephant Pass .. yfir fjallgarð með þröngum og kræklóttum vegum... loksins kom sér vel að eiga jeppa. Alls staðar sem við fórum göptum við yfir náttúrufegurðinni... verð að segja að Tasmanía er vel geymt leyndarmál.

Fórum svo aftur um borð í ferjuna í gærkveldi. Vorum komin snemma í koju eftir svefnlitla nótt kvöldinu áður og vorum svo eldspræk við komuna til Melbourne í morgun. Þurftum reyndar að snúa aftur í ferjuna þegar við vorum hálfnuð heim þegar uppgötvaðist að Hekla gleymdist um borð. Hún fékk að sofa í efri koju og í flýtinum gleymdist litla greyið. Við héldum því í björgunarleiðangur og vorum komnar með nokkra fíleflda öryggisgæslumenn í lið með okkur þegar dúkkan var endurheimt. Uppskárum ansi mörg góðlátleg bros í aðgerðinni.

Húff.. þetta var nú ferðasagan okkar. Myndirnar eru á tölvunni hans Marons svo ég verð að fá hann í lið með mér áður en þær verða settar á Netið.... vonandi á morgun.

Knús
Unnur Gyða

Monday, January 23, 2006

Hitabylgja

Hér gengur lífið nú bara sinn vanagang þessa dagana. Thelma Kristín fór í leikskólann 2 daga í síðustu viku og var auðvitað hæstánægð með að losna frá þeirri gömlu og hitta félagana. Reyndar er langt frá því að það sé full mæting á leikskólanum því margir taka sér sumarfrí allan janúarmánuð áður en skólinn byrjar svo í febrúar.

Það var líka ágætt fyrir mömmuna að slíta naflastrenginn enda höfðum við mæðgur verið límdar saman í tæpan mánuð. Mín skellti sér auðvitað í hjólatúr á nýja tryllitækinu og áður en ég vissi af var ég búin að hjóla í 2 tíma. Nýja tækið felur auðvitað í sér heilmikið frelsi fyrir bíllausa frúna. Má eiginlega segja að radíusinn minn hafi verið aukinn úr 3 km. í 15 km. .... ekki slæmt það!

Á fimmtudaginn fórum við í sund í rjómablíðu. Vanessa og mamma hennar buðu okkur með og finnsku vinirnir bættust svo í hópinn svo það var mikið fjör. Thelma Kristín er orðin svo örugg í sundinu eftir námskeiðið. Nú buslar hún ákaft, kafar og sparkar sér áfram í vatninu.

En öllu má nú ofgera, rjómablíða er löngu hætt að eiga við eftir helgina enda fór hitinn yfir 40 gráður báða dagana. Í slíkum hita er bærinn algerlega dauður nema rétt við ströndina, sundlaugar og loftkæld bíó og verslunarmiðstöðvar. Við þurftum einmitt rétt að bregða okkur út í Hringlu í gær og Thelma Kristín horfði agndofa út um bílgluggann á leiðinni og spurði; "hvar er eiginlega allt fólkið?" Það situr enginn úti á kaffihúsunum og allar dyr verslananna eru lokaðar svo loftkælingin virki. Á bílastæðinu í Hringlunni er bílaþvottastöð í algerum skugga en starfsmennirnir spautuðu reglulega vatni hver á annan... að þeirra eigin ósk. Maður þarf líka að hafa hanska í bílnum að góðum íslenskum sið ... af því að stýrið er svo HEITT!!

Australian Open tennismótið sem nú fer fram hér í Melbourne komst í uppnám því hitinn fór yfir leyfileg mörk til að hægt væri að spila á útivöllunum. Á þeim völlum sem hægt er að loka og loftkæla voru menn hins vegar ekkert kátir því lítið var um að áhorfendur hættu sér á völlinn í slíkum hita.

Skógareldar geysa á mörgum stöðum í Victoriu.. og í Ástralíu allri, og sjúkrabílar anna ekki eftirspurn vegna gamals fólks og veikburða sem ekki þolir hitann. Þar á bæ segja menn verstu dagana koma þegar hitinn fer yfir 40 gráður 2 daga í röð eins og gerðist nú um helgina. Sem betur fer hefur kólnað þó nokkuð og hitinn rétt um 27 gráður í dag.. menn vonast til að hægt verði að ná stjórn á skógareldunum áður en hitinn rýkur aftur upp í 40 gráður á fimmtudag... gott að þá verð ég í Tasmanaíu!

Monday, January 16, 2006

Í dagsins önn

Það var stolt stúlka sem kom heim með viðurkenningarskjal á föstudaginn, útskrifuð af sundnámskeiðnu. Hún mátti líka vera það því hún tók ótrúlegum framförum á einni viku. Nú verðum við bara að vera dugleg að fara í sund til að halda henni við áður en formlegt skólasund hefst á næstu vorönn.

Finnsku vinir okkar komu í mat á föstudagskvöldið. Við höfðum alltaf ætlað að hittast um jólin og elda þjóðlegan jólamat en vegna veikinda Finnanna varð ekkert úr. Lítið var nú um þjóðlega rétti í boðinu nú því við skelltum túnfiski á grillið... okkar uppáhald í augnablikinu. Mín gerði meira að segja þessa fínu vanillusósu "a la Tahiti" með og svo grilluðum við banana og ananas í desert.. ummmm!

Fórum svo á laugardaginn og keyptum jólagjafir okkar hjónanna... ekki seinna vænna! Fengum okkur loksins hjól svo nú tætum við og tryllum um allar jarðir með þeirri stuttu. Fórum auðvitað í hjólatúr á laugardagseftirmiðdeginum, aðallega til að skila DVD diskum sem við vorum með í láni á leigunni. Ákváðum að slá þessu upp í kæruleysi og taka fleiri ræmur enda rólegt laugardagskvöld framundan. Thelma Kristín valdi sér Polar Express sem er nú ekki í frásögu færandi nema af því að hægt var að velja um tvö tungumál á disknum ensku og ÍSLENSKU!!!!! Ég þori nú að fullyrða að við vorum fyrstu kúnnarnir til að horfa á íslensku útgáfuna og þið getið rétt ímyndað ykkur hamingjuna hjá þeirri stuttu. Það er annars alveg glatað að fara með Maroni á leiguna. Ég hef ekki séð eina einustu mynd og hann heldur að slíkt gildi líka um sig. En þegar á hólminn er komið er hann búin að sjá allar bestu myndirnar í háloftunum víðs vegar um heiminn!

Áttum rólegan sunnudag í gær. Fórum í bíltúr um bæinn, létum þrífa kaggann og gerðum heiðarlega leit að tölvubúð sem við töldum okkur hafa ekið fram hjá fyrir nokkru síðan. Fundum nú ekki búðina en teljum þó að við höfum verið á háréttum slóðum, það var bara búið að skipta búðinni út!

Maron og Thelma Kristín keyptu sér flugdreka en það hefur lengi verið sameiginlegur draumur. Fórum niður á strönd til að prófa gripinn en urðum fyrir sárum vonbrigðum því nær ómögulegt var að stýra drekanum auk þess sem hann datt bara í sundur í rokinu! Heimilisfaðirinn hefur varpað allri ábyrgð á drekann og/eða kínverska verkamenn og neitar að fljúga fyrr en fjárfest hefur verið í nýjum farkosti.

Fengum okkur svo pizzu á huggulegum stað hér í Elwood. Þetta er í fyrsta sinn sem við prófum hann en vorum svo ánægð með afraksturinn að viðskiptum okkar verður héðan af beint þangað í staðinn fyrir pizzugerðarmannsins hér á horninu hjá okkur. Bestu pizzur sem við höfum smakkað í Ástralíu og hana nú!

Eftir kvöldmatinn skiptumst við á að fara í barnlausan hjólatúr. Þetta er bara hörkupúl verð ég að segja. Ég sem er alltaf að öfundast út í hjólreiðafólkið sem brunar fram úr mér þegar ég er að rembast við að skokka. Það var hörku mótvindur við ströndina og maður varð bara kófsveittur á átökunum... miklu skemmtilegri líkamsrækt en skokkið og vonandi að þetta sé bara byrjunin á mörgum löngum hjólatúrum.

Formlegu sumarfríi er lokið hjá okkur mæðgunum enda opnar leikskólinn í vikunni. Thelma Kristín ætlar að fara á miðvikudag og föstudag í þessari viku og svo á miðvikudag í næstu viku áður en við förum til Tasmaníu. Daman er alveg komin með nóg af mömmu sinni í bili og hlakkar til að hitta vinina.

Veghúsin eru komin á sölu uppi á Íslandi...ef þið þekkið einhvern sem er að leita að góðri íbúð á sanngjörnu verði vitið hvert þið eigið að benda!

Jæja, nóg skraf í bili.
Knús
Unnur hjólagarpur... með rasssæri!

Wednesday, January 11, 2006

Sumarfrí

Hæ hó

Höfum það nú aldeilis gott hér í sól og sumri. Hitinn hefur verið að rokka á milli 25 og 35 gráða - sem er óskaplega þægilegt. Við mæðgur höfum það notalegt í sjálfskipuðu sumarleyfi á meðan bóndinn vinnur!

Höfum brallað ýmislegt undanfarna daga. Fórum t.d. í verslunarleiðangur í Hringluna að kaupa skóladót fyrir þá stuttu. Nú styttist heldur betur í að skólagangan hefjist. Erum búnar að fjárfesta í pennaveski, öllum stærðum og gerðum af litum, blýöntum, strokleðri, nestisboxi og brúsa. Eigum aðeins eftir að kaupa tvo hluti á skóla-innkaupalistanum - tisjú og sólarvörn!

Við mæðgur brugðum undir okkur betri fætinum á fimmtudaginn var og lékum túrista í Melbænum. Ég taldi mig nú vera búna að sjá alla helstu túristastaði borgarinnar en komst að því, mér til mikillar furðu, að einn sá skemmtilegasti hefur alveg farið fram hjá mér þegar við skoðuðum Melbourne Museum og Imax (þrívíddarbíó). Safnið stendur við eina fallegustu byggingu borgarinnar, Royal Exhibition Building, sem er ein elsta og fallegasta sýningarhöll heimsins, hún er meira að segja á Heimsminjaskrá UNESCO. Ég hef nú oft heyrt minnst á þetta hús, oftast í tengslum við umræðu um tákn (symbol) Melbourne borgar, en mér hefur, á ótrúlegan hátt, tekist að ferðast hring eftir hring um húsið án þess að komast nógu nálægt til að sjá það. Verð að viðurkenna að ég varð mjög imponeruð og verð að éta ofan í mig þá skoðun mína að í Melbourne vanti gamlar, virðulegar byggingar.

En ferðin okkar snerist nú ekki um þessa sýningarhöll í þetta sinn. Aðaltilgangurinn var að sjá Wild Safari í Imax. Þrívíddarleiðangur um frumskóga Afríku með tilheyrandi dýralífi. Ég held ég hafi ekki farið í svona þrívíddarbíó eða nokkuð þvílíkt síðan sýndar voru myndir innan í lofti Laugardalshallarinnar upp úr 1980. Sú minning er meira að segja svo óljós í huga mér að ég veit ekki hvort hún er ímyndun ein eða ekki. En hvað um það, við mæðgur settum upp þessi fínu þrívíddargleraugu og fylgdumst með ljónum og nashyrningum að því er virtist við hlið okkar, enda vorum við að horfa á stærsta þrívíddarskjá í heimi. Thelma Kristín gat ekki hætt að teygja hendina fram til að klappa dýrunum aðeins, svo raunveruleg voru þau.

Eftir bíósýninguna fórum við yfir á Melbourne Museum sem staðsett er í sama húsi. Ég hafði nú mátulegan áhuga á safninu sem slíku, vissi varla um hvað það snerist, en hafðí heyrt að í hluta safnsins væri sýning ætluð 4-8 ára börnum. Það er skemmst frá því að segja að safnið kom mér mjög skemmtilega á óvart, líklega af því væntingarnar voru engar, og eyddum við rúmum 2 tímum þar inni án þess að ná að sjá nema brot af öllu því skemmtilega sem til sýnins var. Barnasýningin var alveg frábær, hélt þeirri stuttu alveg frá sér numdri af gleði í einn og hálfan tíma. Þarna var t.d. sandkassi fullur af skeljum, kuðungum, þurrkuðum krossfiskum og þar fram eftir götunum. Mikið af uppstoppuðum dýrum sem voru oft þannig fram sett að börnin þurftu að skríða inn í hólf og kíkja inn um glugga þar til að sjá dýrin. Það var mikið gert úr ungviðum alls kyns dýra og þau sýnd á ólíkum þroskastigum (t.d. lirfa, púpa, fiðrildi) og allt fram sett á svo skemmtilegan hátt, t.d. var hægt að vigta og hæðarmæla börnin, ekki til að meta slíkt í kílóum og metrum heldur það hversu margir wombats (veit ekki hvað þessi dýr heita á íslensku) þyrftu að standa í röð, hver ofan á öðrum, til að vera janfstórir og börnin ... og á sama hátt, hversu margir wombatar væru samanlagt jafn þungir og þau. Úti var líka afgirt leiksvæði fullt af sippuböndum, húllahringjum og fleiri góðum og gamaldags leikföngum. Við röltum svo um hinn hluta safnins á eftir og, eins og áður sagði, náðum ekki að skoða allar sýningarnar sem þar voru í boði svo við verðum bara að skella okkur aftur næst þegar við fáum gesti. Þarna var t.d. pöddusýning, fiskasýning, sýning um þróun mannsins, önnur um hug og líkama, frumbyggja sýning og almenn sýning um ástralskt líf og menningu. Inni í miðju safninu er svo skógarsýning, opið svæði með trjám og plöntum. Við náðum ekki þar inn og ég bíð spennt eftir að sjá þetta allt aftur við tækifæri.

Á laugardaginn var svo farin langþráð ferð til gullbæjarins Ballarat. Höfum ætlað þarna uppeftir síðan við fluttum hingað en aldrei orðið neitt af því. Tæpra tveggja tíma keyrsta er til Ballrat sem er í hjarta gullhéraðsins í Victoriu fylki. Þarna fannst gull árið 1851 og í kjölfar þess flykktust að gullgrafarar hvaðanæva af úr heiminum til að freista gæfunnar. Í kringum leitarsvæðið byggðust hratt upp blómlegir bæir sem standa enn - og er Ballarat eitt besta dæmið. Þess má til gamans geta að stærsti gullmoli sem fundist hefur í heiminum, The Welcome Stranger, 72 kíló takk fyrir, fannst einmitt í héraðinu árið 1869 (og sá næst stærsti líka!).

Í Ballarat er starfrækt eitt vinsælasta safn Ástrala, Sovereign Hill, þar sem gerð hefur verið eftirmynd af Ballarat í gullæðinu. Þetta er vægast sagt alveg frábært safn sem lætur manni líða eins og maður sé staddur í miðju æðinu enda iðar bærinn af lífi. Allar verslanir eru t.d. opnar og starfsemi í fullum gangi. Þarna var hægt að kaupa gamaldags brauð og sælgæti, fatnað og ýmsa minjagripi. Fullt af fólki vinnur við að labba um safnið í tilheyrandi búningum til að auka á raunveruleikann og stemninguna. Hápunktur dagsins, að mínu mati, var þegar við sáum starfsmann safnsins bræða niður gullstöng að andvirði 70 þúsund dollara (3,5 milljónir) og kæla hana svo aftur. Thelma Kristín fékk líka að lita kerti og skrifa með bleki og fjaðurstaf. Enduðum daginn á að freista gæfunnar og leita að gulli í árfarvegi sem rann í gegnum bæinn.. en því miður - ekkert gull, gengur bara betur næst!

Það sama gilti um þetta safn og Melbourne Museum, við náðum ekki að skoða það allt og bíður það frekari ferðalaga með góðum gestum.

Thelma Kristín er svo daglega á sundnámskeiði þessa vikuna með Inku vinkonu. Hún er búin að fara tvistar og gengur vel. Ég verð að segja að þó daman sé hæstánægð þarf hún að hafa sig alla við að ráða við æfingarnar. Mér finnst kennarinn frekar ákafur fyrir minn smekk þegar hann hrópar á eftir krökkunum "eyes in water, eyes in water" og lætur þau sparka sér áfram yfir alla laugina. Hinum megin við bandið er kona með annan hóp, sem á að heita á sama level, og hún er að ausa yfir þau vatni með lítilli könnu og láta þau leggja eyrað í vatnið! En Thelma Kristín er ofsalega dugleg og alveg að rifna af stolti yfir eigin afrekum eftir tímann. Það er víst það sem skiptir máli.

Erum búin að panta okkur ferð með "Spirit of Tasmania", sjöttu stærstu farþegaferju heims (las ég einhvers staðar), yfir til Tasmaniu í lok þessa mánaðar. Ætlum að hafa með okkur bílinn og keyra um eyjuna. Erum þessa dagana að reyna að gera upp við okkur hvort við eigum að keyra um alla eyjuna eða aðeins hluta hennar og taka lífinu með ró. Siglingin tekur eina nótt hvora leið, brottför á miðvikudagskvöldi. Við höfum svo fjóra daga til umráða áður en við siglum heim aftur á sunnudagskvöldi. Erum að færast yfir á þá skoðun að keyra bara um austurhlutann og skoða hann nokkuð vel í stað þess að rjúka enda á milli. Að vísu þýðir það að við sjáum ekki stærsta þjóðgarð eyjunnar, sem er víst á heimsminjaskrá UNESCO, en þar sem nærri engir vegir liggja um garðinn þýðir það í raun að eina leiðin til að skoða hann er að hafa tíma til langra gönguferða og það höfum við ekki.

Jæja, best að hætta þessari langloku og fara að koma einhverju í verk hérna megin. Úti er grenjandi rigning en yfir 20 stiga hiti. Gott að sundnámskeiðið er innnanhúss.

Sendum bestu afmælisóskir til Söru sem á afmæli í dag, 11. janúar!!

Knús
Unnur Gyða

Monday, January 02, 2006

Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár og takk fyrir allt gamalt og gott!

Áttum hér ágætis áramót litla fjölskyldan. Gamlársdagur var vægast sagt bjartur og fagur því hér fór hitinn upp í litlar 44 gráður á celcius!! Lágum á ströndinn fram eftir degi.. reyndar aðeins í ca 35 gráðum en svo, með einni vindhviðu, rauk hitinn yfir 40 gráðurnar og hækkaði enn á næsta hálftímanum. Hef aldrei upplifað annað eins. Bæði það hvað þetta gerðist hratt og svo hitt.. að standa í 44 gráðu hita. Líktist því einna mest að standa inni í hárblásara, ef þið þekkið þá tilfinningu!

Á tímabili var tvísýnt með flugeldasýningu kvöldsins og á nokkrum stöðum í Ástralíu var slíkum sýningum frestað vegna hættu á skógareldum. Flugeldunum í Melbourne var þó öllum skotið upp af pöllum úr Yarra ánni. Það gefur auga leið að í slíkum hita og skraufþurrki er kannski ekki sniðugt að vera að skjóta upp ragettum. Það má ekki einu sinni kveikja sér í sígarettu í almenningsgörðum landsins á dögum sem þessum.

Ástralir hafa einmitt þurft að berjast við þó nokkra skógarelda vítt og breytt um landið undanfarna daga. Einn maður hefur látið lífið og þó nokkrir misst aleiguna í slíkum hamförum síðustu 3 daga. Í gær, nýársdag, rigndi þó í Victoriu, sem betur fer, en það var of seint fyrir suma því í fylkinu brunnu 5 hús til grunna á gamlárskvöld.

En snúum okkur aftur að áramótunum. Vegna hitans var ákveðið að bjóða einungis upp á forrétt og eftirrétt þessi áramót! Í raun fór þó svo að við höfðum bara list á forréttinum og eftirrétturinn varð að bíða betri tíma. Við drifum okkur svo í bæinn, ásamt hálfri milljón Ástrala, og sáum barnaflugeldasýninguna klukkan korter yfir níu. Þetta var bara flott sýning og ég var glöð að við drifum okkur því um leið og sprengingarnar byrjuðu áttaði ég mig á því hversu miklu máli þær skipta upp á stemninguna um áramót. Ég hef aldrei þótt mjög sprengjuglöð en um leið og lætin byrjuðu kom yfir mig svona "áramótatilfinning" sem hafði í raun alveg vantað í sólinni. Allt í einu hugsaði maður "hey, já, það er gamlárskvöld"!

Við höfðum nú ekki þolinmæði til að ösla mannhafið lengi og vorum fljólega komin upp í sporvagn á heimleið. Vorum því bara hér heima við þegar 2006 gekk í garð. Sú stutta sofnuð í sófanum og við hjónin skáluðum í freyðivíni fyrir framan vefmyndavélina með félagsskap að heiman.

Höfðum svo auðvitað ómælda ánægju af því að hringja í vini og vandamenn og gantast með það að við værum nú stödd framar í tilverunni. Allir að óska okkur gleðilegs árs og við bara glottum og sögðum, "já, takk!". Þegar við vöknuðum á nýársdagsmorgun upplifðum við svo áramótin aftur í gegnum vefmyndavélina... laptoppinn settur í gluggann í Melbænum á meðan sprengingarnar gengu yfir og svo skáluðum við aftur á kampavíni og buðum mannskapinn velkominn inn á okkar tímabelti! Ekki verra að upplifa sömu áramótin tvisvar.

Höfum svo bara legið í leti í gær og í dag (í dag, mánudag, er frídagur í Ástralíu þar sem nýársdag bar upp á sunnudag). Eins og áður sagði kom langþráð rigning í gær og hitinn datt niður í 24 gráður (NB 20 gráðu mismunur á milli daga!). Þegar ég spurði þá stuttu hvað hún vildi helst gera sagðist hún vilja fara út, mín varð alveg agndofa og benti út um gluggann. "Ég vil fara út í rigninguna", sagði barnið og þá rankaði mín aðeins við sér. Maður er orðinn svo góðu vanur hvað veðrið snertir að um leið og rignir hættir maður sér ekki út þó hitinn sé yfir 20 gráðum. Auðvitað vildi barnið bara fara út í rigninguna.... og hún hefði ekki stoppað nokkuð heilbrigt íslenskt barn! Ég gat því lítið sagt nema ókei, farðu upp í pollagallann þinn. Barnið mundi nú ekki einu sinni hvernig gallinn leit út og það er skemmst frá því að segja að hann var allt of lítill og engin stígvél til á heimilinu... þvílíkt ástand! Létum okkur samt hafa það, í gallann fór barnið og smellti gömlum útslitnum strigaskóm á fæturnar. Það er ljóst að við verðum að gera bragarbót á útifatnaðinum áður en við förum í sumarfrí til Íslands.



Vinnuvika framundan hjá bóndanum en áframhaldandi sumarfrí hjá okkur mæðgunum. Finnum okkur örugglega eitthvað til dundurs. Í næstu viku er daman svo að fara með Inku vinkonu á sundnámskeið - það verður spennandi.

Óska ykkur aftur gleði og friðar á nýja árinu.
Knús
Unnur


 

Website Counter