Melbourne

Wednesday, January 30, 2013

Heimilislausa fjölskyldan á leið í kringum jörðina

Jæja... þá hefur heimilislausa fjölskyldan rifið sig upp á ra... og ætlar að smella sér einn léttan hring í kringum jörðina.  Nokkrir samverkandi þættir urðu þess valdandi að við tókum þessa snilldar/klikkuðu ákvörðun og er ferðaplanið eftirfarandi London-Hong Kong- Bali-Ástralía-San Diego-Montreal-London. Heimkoma er áætluð með vorinu.

Á meðan við bjuggum í Ástralíu skrifaði ég helstu fréttir af okkur hér inn á bloggið fyrir vini og fjölskyldu svo þau gætu fylgst með okkur auk þess sem með því er hægt að búa til ágætis minningabók. Ég hef fengið fjölda áskorana .. (hóst, hóst...ok, eina eða tvær)... um að taka þennan sið upp aftur á meðan ferðinni stendur og það gæti bara vel verið að hingað detti inn fréttir eða tvær.

Afleiðing fyrrgreindra blogga varð hins vegar sú að nafn mitt rataði inn í fræðiritgerð um gyðingahatur þar sem mér hafði orðið á að bera saman starfsaðferðir tveggja lækna sem við heimsóttum og minntist í heimsku minni á að annar læknanna hefði verið kínverskur en hinn gyðingur. Ekki man ég nú alveg hvað þessi ágæti fræðimaður hnaut sérstaklega um en hitt man ég að hann hefði getað náð sér í mun meira krassandi efni ef hann hefði nennt að lesa bloggið mitt en ekki bara tekið þar út eina setningu úr samhengi sem hentaði hans rannsókn. Ég prófaði að gúgla nafnið mitt til að hafa upp á nafninu á þessum ágæta manni en finn þetta sem betur fer ekki lengur. Ekki er langt síðan þessi ritgerð poppaði margoft upp þegar ég gerði slíkt. Ég veit samt ekki hvort þetta þýðir að viðkomandi hafi fjarlægt ritgerðina af alnetinu (er það hægt??) eða hvort að google er bara svona vel ritskoðað hér í Kína að ritgerðir um gyðingahatur séu á bannlista...en alla vega... brennt barn forðast eldinn og hef ég því ákveðið að læsa blogginu svo ég geti óhrædd sett inn allar þær fréttir sem mér henta - hvort sem þær snúast um mína alíslensku fjölskyldu eða fólk af einhverju öðru þjóðerni, trúarbrögðum, litarhætti eða hvað það nú er sem skilur okkur frá hinum og þykir þar af leiðandi fréttnæmt.

En .. svona eins og hjá Stöð 2 og fleirum þá er fyrsta færslan í ólæstri dagskrá - svona til að koma ykkur á bragðið... svo verðið þið að borga... já eða bara senda mér póst á Facebook og fá lykilorðið :-) Ég hef samt bara gaman af því ef fjarskyldir ættingjar og kunningjar vilja fylgjast með okkur... bara ef þið lofið að áskaka mig ekki um kynþáttahatur því það fer svolítið fyrir brjóstið á mannfræði menntaðri konunni! Svo alls ekki vera hrædd við að senda mér póst.

Ferðin hófst sem sagt síðastliðinn laugardag með flugi til London með gormana okkar þrjá. Þægilegt eftirmiðdagsflug sem er varla í frásögu færandi. Tékkuðum okkur inn á hótel á Heatrow og fengum að vera þar til 2 næsta dag. Maron snillingur hafði vit á að bóka hótel með sundlaug sem var vel þegið af krökkunum til að brjóta upp daginn. Flugið til Hong Kong var ekki fyrr en 9 næsta kvöld og því biðin á Heatrow í lengra lagi - en við erum nú nokkuð sjóuð í þeirri deild.

Lentum svo í Hong Kong í gærkveldi og komum okkur upp í íbúð sem við höfðum bókað á góðum stað í Central. Örsmá íbúð á okkar mælikvarða og er hún þó samansett úr tveimur íbúðum - ef einhver kann að búa þröngt þá er það meðal Hong Kong búi (en það skal þó tekið sérstaklega fram að ég kann einstaklega vel við íbúa Hong Kong - af hvaða þjóðerni eða kynþætti sem þeir kunna að vera - bara svona til að hafa það á hreinu fyrir ákveðna fræðimenn sem enn geta slysast hingað inn)

Nóttin var svolítið erfið enda glaðvaknaði öll fjölskyldan um klukkan 3 og það var með herkjum og slagsmálum að ég fékk börnin til að leggjast og sofna aftur um 7 leytið í morgun. En sem betur fer tókst það og allir vöknuðu nokkuð sprækir um hádegisbil. Þá fórum við í hádegisverð með vinkonu minni hér í borg og dætrum hennar tveimur og héldum svo með þeim í Hong Kong Park þar sem við dóluðum okkur með krakkana á meðan Maron var á fundum og skoðuðum fiska, skjaldbökur, fugla og fiðrildi. Úti var 20 stiga hiti og glampandi sól sem er heldur óvenjulegt fyrir Hong Kong í janúar en gefur vonandi tóninn fyrir komandi vikur og mánuði. Kínverjar eru byrjaðir að undirbúa komu nýs árs og mátti á nokkrum stöðum sjá ótrúlega skemmtilegar skreytingar á víðavangi - hér með sett í markmiðabókina að heimsækja Kína einhvern tíman á þeirri góðu hátíð.

Fyrir áhyggjufulla foreldra og ömmu skal það sérstaklega tekið fram að sonur minn hefur verið mjög duglegur að leiða mömmu sína og passa upp á mig eftir að við lentum í Hong Kong - mér hefur bara einu sinni tekist að týna honum örstutt! Hann tekur þessu líka öllu með ótrúlegu jafnaðargeði og nýtur sín í botn hvort sem er í flugvél, lest eða tveggja hæða strætó.

Jæja, best að koma sér í háttinn og vona að svefninn verði lengri en liðna nótt...

... þið munið að það er alltaf gaman að fá "comment" á póstana og sjá hverjir nenna að lesa til enda..

Yfir og út


 

Website Counter