Melbourne

Tuesday, March 19, 2013

Lognið á undan storminum

Síðustu dagar hafa verið heldur rólegir hjá fjölskyldunni. Lítil keyrsla og mikil rólegheit á flottum tjaldstæðum bæði á South West Rocks og líka í Coffs Harbour þar sem við dveljum nú. En.. for the record... hér er dagbókin.

Dagur 9,  laugardagur 16. mars

Við krakkarnir skelltum okkur beint í ískalda laugina eftir morgunmatinn. Stelpurnar láta sig hafa flest en hjartað í Magnúsi Andra hefur aðeins minnkað með aldrinum og hann er hálf smeykur við vatnið - eitthvað að vinna í á næstu vikum.

Eftir sturtu og hádegismat fóru stelpurnar með vinum sínum í mini golf á meðan við Maggi dóluðum okkur. Maron hélt með vini sínum til veiða en heppnin var nú ekki með þeim í þetta sinn þó að þeir hafi bæði séð skjaldböku, höfrunga og flugfisk. Eftirmiðdeginum var varið í algerum rólegheitum í rjómablíðu. Skoðuðum róluvelli, inni- og úti leikherbergi, spiluðum mini golf og stelpurnar fóru aftur í sund. Grilluðum svo saman fjölskyldurnar (ekki fisk þó :-/) og uppskar ég einhver þau herfilegustu flugnabit sem ég hef fengið (og kalla ég þó ekki allt ömmu mína í þeim efnum og hef reynt ýmislegt um dagana) með tvöföldum ökkla og rist - og tilheyrandi kláða!!

Á meðan við sátum í fordrykk stökk hópur kengúra upp að tjaldinu og dvaldi þar nokkra stund við grasát áður en þær stukku á braut. Þetta tilheyrir nú reyndar almennt hér að þessi yndislegu dýr stytta sér oft leið í gegnum tjaldsvæðin, gestum til mikillar gleði.


Dagur 10, sunnudagur 17. mars

Allir tilbúnir til brottfarar um 10 leytið eins og lög gera ráð fyrir. Við kvöddum vinina sem héldu aftur suður á bóginn en vorum heldur óákveðin í okkar plönum. Við erum núna búin að aka svo greitt frá Melbourne að við getum leyft okkur að hægja verulega á og stoppa jafnvel nokkra daga í sama staðnum. Ætlunin var að aka til Byron Bay sem er staðsett langleiðina norður til Brisbane en okkur snerist hugur og fórum við aðeins um klukkutíma akstur norður til Coffs Harbour og plöntuðum okkur þar á huggulegu tjaldsvæði með flottri barnalaug eftir að hafa fengið okkur síðbúinn hádegisverð og fyllt á birgðirnar.

Við erum búin að læra það að ef maður gistir 3 nætur á sama stað fer verðið oft niður í skikkanlegar tölur og því oft ágætt að stoppa í 3 nætur og taka svo góðan keyrsludag á milli. Því var ákveðið að dvelja í Coffs Harbour í 3 nætur - ég myndi dóla mér hér í bænum með krakkana á meðan Maron tæki vinnutörn áður en haldið yrði norðar.

Rólegheitin á tjaldvæðunum hér hafa komið okkur í ástralskan gír og eru krakkarnir yfirleitt komnir upp í rúm fyrir klukkan átta - og auðvitað á lappir um sjö en það er bara hið besta mál.

Dagur 11, mánudagur 18. mars

Við krakkarnir fengum okkur göngutúr niður á strönd og ætluðum okkur að rölta inn í bæ. Það fór nú ekki betur en svo að áttin sem ég var sannfærð um að myndi bera okkur inn í bæ gerði hið gagnstæða og við vorum næstum komin út í óbyggðir áður en ég hafði vit á því að draga upp símann og opna Google Maps! Röltum til baka og fengum okkur hádegismat á lókal pöbbnum sem var alveg ágætur.

Fengum okkur svo sundsprett í eftirmiðdaginn - eða stelpurnar fengu sér sundsprett réttara sagt. Laugin hér er ofsalega flott en ííííssssköld svo mamman sat í rólegheitum á bakkanum og Maggi dólaði sér í barnalauginni án þess þó að bleyta sig of mikið.

Týpísk rólegheita rútína um eftirmiðdag og kvöld - sturtur, kvöldmatur og náttföt fyrir gormana. Við hin sitjum svo í rólegheitum; vinnum, lærum, spilum og höngum í tölvunni.

Dagur 12, þriðjudagur 19. mars

Mamman og gormarnir gengu út á Muttonbird Island sem er eyja sem tengist Coffs Harbour með litlu eyði og býr um leið til fallega og skjólgóða höfn fyrir bæinn.


Eftir hádegismat var svo haldið í laugina góðu þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti fram eftir degi. Rólegheitadagur á meðan pabbinn sat við vinnu. Góður undirbúningur fyrir keyrslu morgundagsins.

Verkefni næsta rólega kvölds hjá undirritaðri er að taka saman og sortera þær hundruðir mynda sem sitja á hinum ýmsu myndavélum og símum hjá okkur og henda inn einu eða tveimur albúmum á Facebook - þið fylgist með þar ef þið viljið kíkja - og Ása mín .. það verða nóg að myndum af rólóvölllum :-)

2 Comments:

  • Úff, þetta hefur nú aldeilis verið bit....að sjá á þér fótinn stúlka....hjaðnaði svo bólgan? Kom mér skemmtilega á óvart að nýtt blogg var komið svo fljótt....og von á rólómyndum, bara skemmtilegt!! Knús á línuna....og biðjum að heilsa öllum furðudýrunum....Ása og co

    By Blogger Ása, at 8:50 AM  

  • já, já, fer alveg að komast aftur í hælana :)

    Ætla að reyna að vera dugleg að blogga því ég gleymi þessu sjálf jafnóðum!! Er að vinna í myndunum :)

    Stórt knús á ykkur öll.

    By Blogger Unnur Gyda Magnusdottir, at 9:31 PM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter