Melbourne

Saturday, March 29, 2008

Brúðkaupsferðin!!

Ég hefði nú ekkert átt að vera að monta mig af sól og sumaryl hérna megin..... finnst eins og það hafi verið í gær sem við sátum hjá nágrannanum í sundlaugapartýi eftir skóla - 40 gráður úti og mömmurnar farnar að sötra G&T fyrir kvöldmatinn. Það var kannski ekki í gær en það eru nú ekki nema 2 vikur síðan. Síðan þá hefur haustið ákveðið að láta sjá sig og nú hefur rignt í 3 daga í röð og ég er við það að þurfa að kynda húsið sem BTW mýglekur svo að við þurfum stígvél í stofunni eftir rigningarnæturnar (en hey, maður getur nú ekki ætlast til þess að hús leki ekki í rigningu - eins og fasteignasalinn sagði við mig hér forðum daga!!!) - Svo skjótt skipast veður í lofti! Það væri nú ágætt ef það myndi vora jafnhratt þarna uppi á Fróni.

Átti víst eftir að gefa formlegt "update" á ferðinni okkar góðu til Sidney. Stór partur af þessu öllu var nú bara að komast út úr húsi barnalaus (með fullri virðingu fyrir dætrum mínum yndislegu). Fór að hugsa um það í vélinni að þetta var í fyrsta sinn síðan í júní 2003 sem ég væri barnlaus í flugvél (og hef ég nú farið í þær nokkrar síðan skal ég segja ykkur!) og að sama skapi í fyrsta sinn sem við Maron förum eitthvað bara tvö síðan í þeirri sömu ferð (sem var einmitt framlengin á vinnuferð hjá mér, en rómó!) Það liggur sem sagt ljós fyrir að við eigum margar langar rómantískar helgar inni eftir að við flytjum heim. Ömmur og afar - þið hafið hér með verið vöruð við!

Ekki var nú ferðin löng í þetta sinn samt. Barnapían mætti um hálf tíu á sunnudagsmorgni og við vorum komin aftur í hús klukkan 9 morguninn eftir. Ég hefði nú ekkert þurft að hafa hnút í maganum yfir þessu. Litla snúlla hagaði sér auðvitað eins og eftir pöntum - gerði allt eins og sagði í leiðbeiningunum og var ekkert að kippa sér upp við það að ný mamma hefði hafið störf. Við hjónin skemmtum okkur konunglega í brúðkaupinu. Gaman að sjá hvernig Ástralinn gerir þetta, með brúðarmeyjum og sveinum og öllu tilheyrandi. Ég hafði aldrei gert mér grein fyrir hversu stórt hlutverk þeirra er - það sat sko öll hersingin á háborðinu, 12 manns takk fyrir! Það er eins gott að brúðurinn var gullfalleg - kannski ekki dagurinn sem maður vill hafa sætu vinkonurnar uppádressaðar og fínar við hlið sér til að stela senunni! Verð að viðurkenna að ég kann betur við íslensku hefðina þar sem hlutverk vinanna er kannski frekar að "upphefja" brúðjónin með ræðuhöldum og öðru skemmtilegu heldur en sitja bara hjá þeim og vera sæt.

En hvað um það .... brúðkaupið var skemmtilegt, maturinn góður og félagsskapurinn af bestu gerð. Eftir athöfnina var boðið í fordrykk í rugby klúbb brúðgumans og svo var dýrindis veisla á eftir. Við vorum nú samt farin upp á hótel í fyrra falli því okkar beið flug klukkan 6 næsta morgun til að barnapían kæmist til vinnu.

En, all in all, mjög góð ferð og skemmtileg tilbreytni, þó stutt væri. Það þarf nú ekki mikið til að gleðja mann hérna megin. Það var svo auðvitað bara gott að sjá skvísurnar aftur - maður þarf ekki langt frí frá þeim, þessum elskum. Elísa er svo fyndin núna þegar hún hittir vinkonu mína sem passaði. Hún ljómar alveg í svona 2 sekúndur - en svo er eins og hún hugsi málið skrefinu lengra ..... og fer að hágráta! Endalaust krúttlegt - en vinkonunni finnst það samt ekki alveg jafn sætt!

Jæja, hætt í bili. Var í prófi í gær svo vikan hefur farið í lærdóm. Thelma Kristín er líka í tveggja vikna skólafríi svo það er extra mikið fjör á heimilinu. Seinni frívikan framundan - munum njóta hennar betur en hinnar fyrri nú þegar prófið er búið. Næst síðasti kúrsinn að hefjast eftir helgi.....þetta styttist....

Wednesday, March 19, 2008

Gleðilega páska!


Gleðilega páska! Höfum átt hér yndislegan páskadag.... meira um hann seinna. Ég lumaði hér á gömlu bloggi sem ég hafði ekki póstað því ég átti eftir að tæma myndavélina. Gerði það loksins í dag svo ég ætla að láta þetta fljóta núna og skrifa fljótlega um páskahelgina okkar. Það er svo mikið að gera þessa dagana að mér líður eins og ég sé komin á eftir í framhaldssöguskrifum!

.........

Var ég ekki að lofa einhverri ferðasögu?? Það er bara svo mikið að gera í þeim efnum að ég veit ekki hvar ég á að byrja.

Byrjum því bara á byrjuninni......

Þarsíðasta helgi var verslunamannahelgi hérna megin, frí á mánudegi og veðurspáin með allra glæsilegasta móti. Maron hélt reyndar að hann þyrfti að fara til Queensland frá og með sunnudeginum svo við höfðum ekki þorað að plana neitt. Það kom svo í ljós á föstudeginum að hann færi ekki strax svo við okkur blasti löng og galtóm helgi. Við vorum ákveðin í að skella okkur í svo sem eina dagsferð en áttum erfitt með að ákveða hvert skyldi haldið. Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur og familían stefndi á góðan bíltúr. Bóndinn lenti að sjálfsögðu í smá vinnu og sífellt leið á morguninn..... þá tók kellan málin í sínar hendur og notaði internetið góða til að athuga hvort ekki væri hægt að fá sæmilegan "last-minute" díl á gistingu á skemmtilegum stað og viti menn, rottur og mýs.... mín fann þessa fínu íbúð mitt á milli tveggja staða sem mig hefur alltaf langað að skoða: Gippsland Lakes og Wilson's Promontory.

Við tókum því slaginn, hentum ofan í ferðatöskur og rukum út. Vorum komin í bæinn Sale (pælið í að búa bara í Útsölu!! - hélduð þið að Gísli á Uppsölum hefði verið eitthvað merkilegur??) rétt fyrir kvöldmat, í þessa fínu íbúð. Röltum niður í bæ og fengum okkur kvöldmat áður en haldið var í bólið.

Á sunnudeginum keyrðum við niður að 90-mile-beach - sem Ástralir vilja meina að sé lengstra strönd í heimi en Google heldur því fram að til séu tvær lengri. Rétt innan við ströndina eru stöðuvötn - sem reyndar hafa verið opnuð og tengd út í sjó svo hægt sé að sigla þar inn. Þetta samspil myndar auðvitað meiriháttar strandlíf - sjór á eina höndina og stöðuvötn á hina. Verð samt að viðurkenna að ég varð fyrir pínkulitlum vonbrigðum með svæðið - þessi bölvuðu tré eru auðvitað alltaf að skyggja á útsýnið svo maður naut þessa kannski ekki eins og maður hafði vonað - svo voru bæirnir sem við heimsóttum sannkallaðir "white trash" bæir með illa förnum gömlum húsum og litlum sjarma..... en gaman að koma þarna samt sem áður.

Mæðgur á 90 Mile Beach


Litli listamaðurinn minn á ferðinni.

Mjúkur sandur á mjúkum táslum


Á leið í hádegismat á Loch Spot

Elísa fær sér einn feitan eftir matinn!!


Alltaf verið að reyna að ná sætri systramynd


Lögðum svo tímanlega af stað í Melbæinn á mánudeginum enda ætluðum við löngu leiðina heim með viðkomu í Wilson's Promontory þjóðgarinum (eða "The Prom" eins og Ástralir kjósa að kalla hann). Hef heyrt endalaust lof um þennan þjóðgarð og stelpurnar í mömmuhópnum mínum keppast við að fara þarna og tjalda. Það kom því ekki á óvart að þarna stigum við inn í paradís á jörð. Um er að ræða syðsta hluta meginlands Ástralíu, tanga sem umlukinn er sjó á þrjá vegu (og þar með ströndum), skógi vaxnar hæðir með miklu dýralífi og lítilli á sem rennur þarna til sjávar. Þessa nutum við alls í 30 stiga hita og glampandi sól. Höfðum reyndar bara tíma til að ganga aðeins niðri á stönd í þeim mýksta sandi sem ég hef séð - (þetta var næstum eins og leir) og svamla aðeins í ánni auk þess sem við náðum einum stuttum göngutúr. Thelma Kristín var að leita að emúa en við fundum því miður aðeins nokkrar smákengúrur.

Ströndin og áin sem þar rann til sjávar voru engu lík. Thelma Kristín hljóp upp með ánni og elti fiskana sem þar svömluðu - hún náði meira að segja einum þeirra með berum höndum - frekar stolt dama! Litla skottið skreið um lækinn, buslaði og gruflaði í sandinum. Náðum nokkrum myndum en því miður ákvað myndavélin á þessum tímapunkti að verða batteríslaus!!

Thelma Kristín komin út í

Mér líst nú bara ágætlega á þessa strönd...

Best að skella sér í smá leiðangur....

Þetta er nú frekar notarlegt bað bara!

Hvað er þetta á höndunum á mér??


Héldum svo heim um eftirmiðdaginn eftir vel heppnaða helgi, allir þreyttir og grútskítugir, en alsælir með ferðina.

...............

Svona var nú ferðasagan sú. Ég enn eftir að dokumentera brúðkaupsferðina og páskahelgina - best að fara að bretta upp ermar ;o)

Friday, March 14, 2008

Indian summer

Hafið þið einhvern tíman ryksugað í 40 gráðu hita??? Þetta tókst mér í dag, skal ég segja ykkur! Lykta reyndar ekki vel á eftir - en þetta er samt hægt. Það er eitt að liggja á sólarströnd í svona hitabylgju en allt annað að reyna að afkasta einhverju af viti. Hefði kannski betur sleikt sólina og fylgst með formúlukappakstrinum en hef ekki hugsað mér að sækja hann nú frekar en hin 3 skiptin sem hann hefur verið haldinn síðan við fluttum hingað. Læt mér nægja að nota ryksuguna til að yfirgnæfa hávaðan í bílunum sem dynur hér yfir hverfið - svo ekki sé minnst á þytinn frá herþotunum sem hér fljúga yfir til að heilla mannskapinn.

Það er nú kannski ekki til komið af góðu að við ætlum ekki á formúluna - höfðum nú rætt um að skella okkur í ár. Okkur er nebblega boðið í brúðkaup á sunnudaginn - sem væri gott og blessað ef það væri ekki í Sidney!! Er búin að fara fram og aftur í barnapíumálum - pælt í öllum útgáfum, hvort sem þær fela í sér pössun í Sidney eða Melbourne. Eftir að upprunaleg plön röskuðust ætlaði ég að taka skvísurnar með og panta pössun upp á hótel en eftir að Thelma Kristín hafði grátið úr sér augun heila kvöldstund yfir því að mamma hennar ætlaði að skilja þær systur eftir í höndum ókunnugra - með tilheyrandi vangaveltum eins og "mamma, hvað ef hún missir Elísu!" var ákveðið að vinkona mín skyldi flytja inn til okkar og sjá um snúllurnar. Þetta er mjög hugrökk vinkona sem ég á!

Það er eins gott að það verði gaman í þessu brúðkaupi - mín er með þokkalegan hnút í maganum yfir að skilja litlu snúllu eftir yfir nótt. Ef dæma má af steggjapartýinu er nú samt líklegt að þar verði fjör. Steggnum var víst skellt inn í bíl þar sem hann var látinn afklæðast algerlega í þeim tilgangi að fara í grímubúning. Þegar á hólminn var kominn afhentu félagarnir honum sólgleraugu og hentu honum út úr bílnum! Þar mátti kauði hlaupa eftir götunni yfir kílómeterslanga brú undir flautuleik ökumanna sem keyrðu fram hjá - það var gott hann var með sólgleraugu!

Áttum annars alveg frábæra langa helgi um síðustu helgi - partur af carpe diem planinu hjá okkur. Verð held ég að setja inn nýtt blogg á næstu dögum með myndum og alles...svo fylgist með!


 

Website Counter