Melbourne

Saturday, February 23, 2013

Hún á afmæli í dag....

Þessi klára, fallega, duglega (ég er alveg hlutlaus, sko) stelpa er 12 ára í dag. Alveg magnað hvað þessi tími flýgur frá manni.

Við áttum annars hinn ágætasta afmælisdag. Thelma Kristín bauð þremur gömlum vinkonum í Luna Park - lítið tivoli hér inni í St. Kilda (næsta hverfi við Elwood). Við sóttum stelpurnar upp úr fjögur en höfðum litið svo vitlaust á upplýsingarnar á netinu að þegar við mættum á staðinn rétt fyrir fimm komumst við að því að skemmtigarðurinn opnaði ekki fyrr en klukkan sjö! Því var brugðið á það ráð að þræða verslanir í nágrenninu þar sem þessar yndislegu "pre teens" skoðuðu föt og mátuðu eins og enginn væri morgundagurinn - klárlega framtíðar kúnnar hér á ferðinni.

Eftir staðgóðan og næringarríkan kvöldverð (!!) á McDonalds var loks haldið í Luna Park þar sem skvísurnar hlupu um á meðan við foreldrarnir fylgdum gormunum litlu í þau tæki sem þau treystu sér í. Það verður nú að segjast að Elísa er alger töffari í þessum efnum og var hundfúl yfir því að fá ekki að fara í "Sleggjuna" sem snerist á hvolf og fleiri brjáluð tæki. Hún varð að gera sér að góðu ágætis fallturn og víkingaskip sem hefðu nú náð að hræða mörg 5 ára börn. Hún lét að sjálfsögðu ekki sjá sig með mömmu sinni í litlu tækjunum, harðneitaði að stíga fæti þar inn nema ein auk þess sem hún náði að draga pabba sinn í Kolkrabba sem gekk endanlega frá pabbanum en virtist ekki trufla barnið hið minnsta. Bróðir hennar, á hinn bóginn, er með örlítið minna hjarta þó töffari sé. Honum tókst þó í þriðju tilraun að fara alla leið inn í draugalestina og varð frekar montinn með sjálfan sig á eftir. Best þótti honum þó að sitja í þessum flugvélum og veifa konunglega. Við hefðum líklega komist upp með að skilja hann þarna eftir allt kvöldið.


Þessi seinkun varð þó til þess að heldur dróst úr kvöldinu og það var ekki fyrr en um tíu leytið sem ég náði stelpunum út - og var þá ein skvísan orðin frekar illa haldin af ógleði og Thelma Kristín nokkuð blóðug eftir smá atvik sem fól í sér forvitna stelpu, stálrimla og blóðnasir! En Ógisslega gaman samt!

Rétt náðum að draga skvísurnar heim í kökusneið (annars hefði þetta nú ekki flokkast sem afmælisveisla!) áður en við fylgdum þeim heim.


Þannig að hér eru allir sáttir en þreyttir eftir góðan dag. Ætlum að skella okkur í bíltúr á morgun á nýja kagganum okkar áður en haldið verður í partý á ströndinni með nokkrum vinum. Við leigðum okkur nefnilega bíl í gær hjá Budget bílaleigunni fyrir lítinn sem engan pening. Áttum von á ökutæki í samræmi við það en fengum Nissan Qashqai beint úr kassanum - keyrðan 170 kílómetra! Kom skemmtilega á óvart og ég hef vonandi frá fleiri ævintýrum að segja í kjölfarið...

1 Comments:

  • Innilega til hamingju með Thelmu og þennan snilldar afmælisdag! Hlakka til að heyra frá fleiri ferðalögum og uppákomum :) Hera og Elísa verða greinilega að komast saman í tívolí einhvern daginn....hún væri til í öll brjáluðustu tækin....mömmunni til mikillar gleði (NOT).

    By Anonymous Sirrý, at 1:24 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter