Melbourne

Thursday, May 18, 2006

Örstutt fréttaskeyti

Vildi bara láta vita að ég var að setja inn nokkrar nýjar myndir í albúmið. Höfum haft nóg að gera undanfarna viku og stefnan tekin á Dubai á morgun.

Planið í Dubai inniheldur vatnsrennibrautagarð, eyðimörk og vonandi nokkrar búðir og markaði.

Lendum svo á Klakanum á þriðjudagseftirmiðdag. Hlökkum til að sjá ykkur.

Knús
Unnur Gyða

Wednesday, May 10, 2006

Námumenn sjá sólina

Námumennirnir voru leystir úr prísundinni í gær eftir að hafa dvalið á kílómetra dýpi í hálfan mánuð!! Þeir báru sig vel og gengu sjálfir út á móti hunduð manna sem höfðu safnast saman til að fylgjast með, þ.á m. fjölskyldur, vinir og fréttamenn frá öllum helstu fjölmiðlum Ástralíu. Mennirnir voru sagðir í ótrúlega góðu líkamlegu ástandi en líklega eiga þeir nú eftir að vinna úr þessari þolraun hvað sálfræðilega þáttinn varðar. Þessir menn eru samt algerar hetjur og Ástralir gera mikið af að tala um þá og björgunaraðgerðirnar allar sem myndlíkingu hins sanna ástralska styrks, atorku, vináttu og baráttuvilja.

Lífið gengur svo sinn vanagang hjá okkur. Maron er á ferð og flugi um landið þvert og endilangt og krakkarnir í skólanum, ballett, fótbolta o.s.frv. Kristófer er ofsalega ánægður í skólanum, búinn að eignast fullt af vinum og þurfti bara að skreppa út í einar frímínútur til að vera settur í fótboltalið skólans!

Nú stendur yfir "Asia Week" í skólanum og mikið gengur á, sérstaklega hjá Thelmu Kristínu. 5 ára krakkarnir læra um Indónesíu í skólanum og á mánudaginn var farin "ferð til Bali". Börnin mættu í sólarlandagallanum í skólann og þar var búið að útbúa handa þeim vegabréf og flugmiða sem þau fengu afhent við komuna. Flugfreyjan (einnig þekkt sem kennarinn) fylgdi svo hópnum út í "flugvél" og svo hélt hópurinn til Bali þar sem þau fengu að horfa á indónesískan dans, gera leikbrúður og ýmislegt annað. 6. bekkur var að hluta til með þeim í þessu ævintýri öllu og því fékk Thelma Kristín að hafa bróður sinn með, sem henni leiddist nú ekki.

Í gær mættu 5 ára krakkarnir svo hálftíma fyrr í skólann til að byrja daginn á Baliskum morgunmat. Þau voru öll klædd í hefðbundin indónesísk föt og fengu hrísgrjón og ferska ávexti í morgunmat. Thelmu Kristínu fannst nú merkilegast að þau áttu að borða grjónin með fingrunum! Allir komu líka með blóm til að skreyta salinn og þetta leit alveg rosaleg vel út hjá þeim. Verst að Maron var með myndavélina í Port Lincoln.. svo þið verðið bara að horfa á myndir af túnfiski í stað þess að sjá Thelmu Kristínu í indónesískum þjóðbúningi :o(

Ég fór að hjálpa aðeins til í skólanum í gær og á meðan ég var þar fengu börnin að spila á hin ýmsu indónesísku hljóðfæri. Mér skilst á Kristófer að þau hafi líka fengið að prófa þau. Voða spennandi allt saman.

Í dag er svo íþróttakeppni hjá 6. bekk. Undankeppni fyrir frekari íþróttamót á milli skóla. Kristófer á að fá að taka þátt í dag en því miður mun árangurinn ekki skipta hann eins miklu máli og hina krakkana þar sem hann verður ekki hér í framhaldinu. En hann var voða spennur að fá að taka þátt þrátt fyrir það.

Á morgun er svo aðal dagurinn í "Asia Week". Þá á hver árgangur að mæta í þjóðbúning frá því landi sem þau hafa haft til umfjöllunar þessa vikuna og svo verður sameiginlegur japanskur hádegisverður. Thelma Kristín á að vera klædd í japanskan búning og Kristófer í indverskan. Ég forðast það nú eins og heitan eldinn að hugsa um hvernig ég ætla að leysa þetta mál. Þetta er ekki beint fatnaður sem maður á á lager inni í skáp!!

Svo, eins og þið heyrið, er nóg að gera hjá krökkunum og allir kátir og glaðir á þessum bæ. Fórum á ástralskan fótboltaleik um helgina og horfðum á okkar menn, St. Kilda vinna Western Bulldogs.

Bulldogs eru ættaðir frá vesturhluta Melbourne sem almennt þykir með "verri" hverfum hér í borg. Almennt er ég nú ekki með fordóma gagnvart íbúum sérstakra hverfa og kann illa við að fólk sé dregið í dilka eftir búsetu en fólkið sem sat fyrir framan okkur á leiknum varð nú til þess að fylla mælinn margoft og ég held svei mér þá, sé þetta þverskurður íbúanna í vestur Melbourne, að ég sé hér með uppfull af illsku og hleypidómum í garð "þessa" fólks. Líklega voru þarna þrjár vinkonur á ferð, tæplega tvítugar, ásamt litlum bróður einnar þeirra (ca 14 ára). Hvert einasta þeirra var að lágmarki 30 kílóum yfir kjörþyngd.. ekki að það skipti máli, bara til að bæta á fordómana hjá mér! Hópurinn hvatti sína menn ákaft með orðbragði sem hefði þótt særandi á klámbúllu í Rauða hverfinu, sá 14 ára sýnu verstur! Ákafinn var slíkur að okkur sem sátum í kringum þau var löngu hætt að standa á sama og áhuginn á boltanum minnkaði verulega eftir því sem á leið. Verst var þó að ein vinkvennanna var með tvær litlar, yndislegar stúlkur, ca. 5 og 7 ára með sér sem sátu hljóðar og prúðar, með sorann í eyrunum. Þegar verst lét hélt ein vinkonan á yngri stúlkunni í fanginu á meðan hún rétti puttann að fótboltaköppunum og áhorfendum í kringum sig, sem voru farnir að gera athugasemdir við háttalagið, með tilheyrandi öskrum, f-orðum og hamagangi. Ég er nú ekki manneskja sem nennir að vera með nefið niðri í annarra manna koppi en þarna lá mér nú við að hringja í barnaverndaryfirvöld - ég mun allaveganna aldrei fá mér barnapíu frá vestur Melbourne!

Fórum svo á öllu rólegri fótboltaleik á sunnudaginn þegar Brighton Soccer Club, með Kristófer í broddi fylkingar, rúllaði yfir Hampton Park, 7 - 0.

Veturinn er svo sannarlega kominn hér á suðurhveli, af svo miklum krafti að Thelma Kristín var klædd í snjógallann á meðan leiknum stóð. Um eftirmiðdaginn var því lítið annað að gera en að fara á videoleiguna og leggjast í leti upp í sófa. Horfðum á Narniu og skemmtum okkur konunglega.

Planið fyrir næstu helgi er svo margþætt að við munum þurfa að velja og hafna. Íslendingafélagið er með skógarferð á laugardaginn en á sama tíma er Thelmu Kristínu boðið í afmæli til Sophiu vinkonu sinnar. Um kvöldið er okkur svo boðið í mat til Finnanna okkar og svo á Kristófer að keppa á sunnudagsmorgun. Að auki lítur út fyrir að við fáum til okkar gesti yfir helgina svo það verður sko nóg um að vera.. bara gaman!

Friday, May 05, 2006

Af gullgröfurum og sótsvörtum almúga

Hafið þið fylgst með fréttunum af námumönnunum í Tasmaníu sem festust ofan í gullnámu fyrir 10 dögum og sitja enn fastir? Sé að íslenskir fjölmiðlar hafa öðru hverju reifað málið en hér ríkir algert fjölmiðlafár og í landinn bíður spenntur eftir að björgunaraðgerðum ljúki. Lítill jarðskjálfti varð til þess að grjóthrun lokaði námunni. Þrír menn lokuðust inni, á næstum kílómetra dýpi, og voru taldir af. Einn fannst látinn eftir 2 daga og þegar ekkert hafði spurst til hinna tveggja eftir fimm daga voru menn orðnir úrkula vonar um að þeir myndu finnast á lífi.

En til allrar hamingju höfðu mennirnir tveir náð að leita skjóls inni í litlu "búri"(rúmur meter á hverja hlið!)sem tók mesta grjóthrunið af þeim og eftir fimm daga náðist samband við kappana með því að smokra til þeirra mikrafóni. Þið getið rétt ímyndað ykkur hamingjuna sem greip þjóðina alla og nú fygjast Ástralir grannt með björgunaraðgerðum sem hafa staðið frá því á sunnudag. Fljótlega var borað til þeirra "neyðarop" sem hægt er að nota til að koma mat og ýmsum öðrum nauðsynjum til mannanna á meðan verið er að grafa ný göng til að ná þeim út. Öll björgunaraðgerðin er samt mjög hættuleg og ekki má skeika nema nokkrum sentimetrum við boranir til þess að mennirnir sjái ekki morgundaginn.

Nú bíða fjölskyldur mannanna, og í raun ástralska þjóðin öll, með öndina í hálsinum eftir fréttum úr námunni. Mennirnir bera sig ótrúlega vel og hafa óskað eftir því við sjúkraliða að fá að ganga út þegar þar að kemur. Síðan á sunnudag hefur verið talað um að björgunin muni taka 48 tíma, á hverjum degi er talað um 48 stundir enn. Verð að viðurkenna að maður hefur smitast af fjölmiðlafárinu hér og krossleggur nú fingur og tær í von um að allt fari vel að lokum. Mér skilst að mennirnir hlæi mikið af því þarna niðri að þeir séu orðnir frægir og að líklega muni verða gerð um þá kvikmynd.. spurningin er bara hvorn kappann Russel Crowe muni leika!!

En af okkur almúganum er annars gott að frétta. Kristófer byrjaði í skólanum í dag. Ég fór með honum í morgun og bjallan hafði ekki hringt inn þegar hann var byrjaður í boltaleik með strákunum í bekknum svo þetta leit allt vel út. Maður þarf auðvitað að hafa bein í nefinu til að mæta svona í nýjan skóla í stuttan tíma en ég veit af eigin reynslu að þetta gerir manni bara gott. Var að taka það saman í morgun að sjálf hef ég setið í kennslustundum á 5 tungumálum, ekki slæmt það!

Við höfum svo fundið upp á ýmsu til að stytta okkur stundir í vikunni. Fórum á vísindasafnið með krakkana á laugardaginn. Alveg frábært safn, við höfðum 2 og hálfan tíma að drepa þarna inni og náðum ekki að sjá helminginn svo að við erum búin að lofa krökkunum að fara aftur áður en við förum til Íslands. Meiriháttar leið til að gefa börnum raunhæfa hugmynd um vísindi í daglegu lífi. Mesta lukku vakti íþróttadeildin í safninu þar sem hægt var að mæla og prófa krafta sína og leikni á ýmsan hátt, t.d. á hlaupabraut, snjóbretti, veggjaklifri, fimleikum og markvörslu.

Við Kristófer vorum svo frekar róleg fyrri part vikunnar. Ég hef þurft að vera aðeins viðloðandi skólann, á fundum og inni í skólastofunni en þess á milli höfum við Kristó dundað okkar við spilamennsku, á golfvellinum, í hjólatúrum og við ýmislegt þess háttar.

Kristófer er líka alltaf í boltanum. Hann var að keppa á sunnudaginn og gekk vel þrátt fyrir að þeir hafi rétt tapað leiknum. Hann er svo á æfingum á þriðjudögum og fimmtudögum svo það er nóg að gera.

Í gær var starfsdagur í skólanum svo ég fór með krakkana í Imax þrívíddarbíó og á Melbourne Museum. Alltaf jafn gaman.

Annars erum við nú að verða spennt að komast til Íslands, það styttist óðum. Tvær vikur í dag þar til við leggjum af stað til Dubai. Ég hlakka mikið til að stoppa aðeins í eyðimörkinni áður en við mætum galvösk í íslenskt "sumar", það mun ekki veita af að fylla aðeins á sólarbirgðirnar.

En íslenskt sumar snýst auðvitað ekki um sól og sælu heldur góðan félagsskap og sælu. Hlakka mikið til að hitta fjölskyldu og vini og tek glöð við tillögum og bókunum um fundi og fagnaði.

Þangað til... njótið vorsins og birtunnar,
Knús
Unnur Gyða


 

Website Counter