Melbourne

Monday, December 11, 2006

Home for the holidays

Ég held að heimþráin í ár hafi verið verri en í fyrra....hormón kannski!! Ég náði allaveganna að snúa öllum plönum fjölskyldunnar á hvolf og við erum á heimleið um jólin...jibbíííí!! Mætum á Klakann aðfaranótt 16. des og verðum fram yfir þrettánda.

Alvöru jól með myrkri, kulda...og jólaljósum og kertum til að bæta það upp. Bara kósý og skemmtilegt. Það verður yndislegt að eyða þessum tíma með fjölskyldu og vinum, sérstaklega þar sem við gerðum það ekki í fyrra... maður nýtur jólahátíðarinnar alltaf helmingi betur eftir að hafa verið í burtu í ein jól.

Það er annars ekkert sérstaklega jólalegt um að litast hér í kringum okkur þessa dagana (hluti af því gæti verið að ég sló jólaundirbúningi á frest þar til við komum til Íslands, hef ekki snert jólaskrautið, hvað þá bakað eða þrifið). Hér í fylkinu geisa mestu skógareldar síðari ára, margir bæir í bráðri hættu og stöðug barátta um 1000 slökkviliðismanna hefur nú staðið yfir í viku og mun að öllum líkindum standa næstu vikur og jafnvel mánuði. Veðurspáin nú um helgina var sérstaklega óhagstæð, yfir 42 gráður og nokkuð sterkur vindur en sem betur fer fór betur en á horfðist og "aðeins" nokkur hús brunnu. Þó er hættan ekki liðin hjá enn þá og hér krossar fólk fingur og tær á meðan slökkviliðsmenn og konur berjast við eldana. Reyk leggur yfir stóran hluta fylkisins, m.a. yfir Melbourne og hefur raskað samgöngum bæði á landi og í lofti. Mér skilst að mengunin í borginni yfir helgina hafi verið 10 sinnum meiri en hún er í Hong Kong á slæmum degi svo í raun er fólki ráðlagt að halda sig inni við (42 stiga hiti sér nú til þess að fólk virðir það!).

Annars er lítið að frétta að familíunni. Ég var í prófi á föstudag svo vikan fór að miklu leyti í lestur (ekki var hann mjög skilvirkur greinilega því prófið hefði mátt ganga betur!) og daman var við stífar balletæfingar. Sýningar voru svo á föstudagskvöld og á laugardag, bæði skiptin fyrir fullu húsi. Þetta gekk allt saman ofsalega vel og Thelma Kristín hæst ánægð. Hún stóð sig alveg eins og hetja skvísan og var ein af fáum í hópnum sem mundi eftir að dansa þegar tjaldið var dregið frá og ljósunum beint að ballerínunum sem horfðu flestar furðu lostnar út í fullan salinn og gleymdu að dansa - bara sætar!!

Eftir laugardagssýninguna fórum við í finnskan jólamat til vina okkar. Ég var svo mikið búin að tala um finnskan grjónagraut í sauðskinnsskóm að aumingja Susa gat ekki annað en eldað það handa mér! Skemmtum okkur konunglega að vanda. Erum búin að lofa að hafa með okkur einhvern íslenskan jólamat þegar við komum aftur og endurgjalda greiðan. Veit ekki hvernig hangiketi myndi reiða af í 30 tíma flugferð!

Sumarið er svo sannarlega komið til Melbourne með tilheyrandi sól og hita. Reyndar eru hitabreytingar hér á milli daga alveg ótrúlegar. 18 gráður einn daginn og yfir 40 þann næsta! Í gær lækkaði hitastigið um 17 gráður á hálftíma - geri aðrir betur! Við finnum vissulega fyrir því að við erum flutt á jarðhæð og nær óbyggðu svæði (hér fyrir framan húsið er "grænt" svæði með litlum læk)því lífið hér í húsinu er margfalt miðað við það sem var á Tennyson. Ég er sem betur fer búin að hafa næstum tvö ár til að byggja upp ákveðið þol fyrir þessum þætti lífsins í Ástralíu. Mælirinn var nú samt í fyllra lagi þegar við fundum eðlu í húsinu...ekki bara eina heldur aftur daginn eftir. Maron og Thelma Kristín eru voða spennt yfir þessari líffræðikennslu, þau komu aumingja dýrinu samviskusamlega fyrir í krukku og gáfu því flugur að boða..já og skinku og rúsínur! Thelma Kristín fór svo með kvikindið í "show and tell" í skólanum og eftir dag í örmum 22 6 ára gríslinga var greyinu loksins sleppt í "álfagarðinn - Fairy garden" á skólalóðinni þar sem eðlan lifir vonandi góðu lífi í dag eftir hræðilega lífsreynslu. Vona að hún láti álfana í friði.

Seinni eðluna fann ég undir mottu hjá mér þegar ég var ein heima og reyndi að reka hana út úr húsi. Það fór nú ekki betur en svo að hún skreið undir skápinn í forstofunni og í gegnum lítið gat sem hún fann í veggnum. Ekki veit ég hvort þetta gat leiddi út úr húsinu eða hvort hún hleypur enn um hér á milli veggja!

Stefnan er að tæma myndavélina áður en við leggjum í hann svo von er á fleiri myndum á allra næstu dögum. Lofa hins vegar ekki öðru bloggi fyrr en eftir að við komum aftur.

Sendi því bestu óskir um gleðileg jól til ykkar allra. Vona nú að ég nái að hitta ykkur öll yfir hátíðarnar og knúsa ykkur ..svona live!!

Þangað til...virtual knús
Unnur


 

Website Counter