Melbourne

Sunday, April 27, 2008

Fyrsti afmælisdagurinn - í myndum

Læt hérna fljóta nokkrar myndir af afmælisdeginum. Daman skildi nú lítið hvað allt þetta nýja dót var að gera á mottunni hennar - og var mishrifin af, eins og sést. Eldhúsið sló hins vegar rækilega í gegn og hafa þær systur leikið sér stanslaust í því alla helgina og eldað handa okkur margar dýrindis máltíðir.



Hmm.. mottan leit nú ekki svona út í gær!

Best að kíkja á kortið og sjá hvað þetta er að gera hér!

Það er nú kannski alveg hægt að hafa gaman af þessu.

Eldamennskan hafin

Sætustu systurnar í dýragarðinu - litlir Sæmundar á selnum (eða særottum eins og pabbi þeirra kýs að kalla þá!)

Saturday, April 26, 2008

Fyrsti afmælisdagurinn

Litla ofursnúllan mín er eins árs í dag. Fórum í dýragarðinn í tilefni dagsins - gerðum það reyndar í gær því spáð var rigningu í dag (og í þessum töluðu orðum byrjar hún!) - áttum yndislegan dag saman þar sem litla rófan mín starði agndofa á dýrin - allt frá fiðrildum upp í gíraffa og fíla - benti og sagði samviskusamlega..."voff"!!

Höfum svo tekið því rólega í dag - stelpurnar hafa fengið ró og næði til að leika með allt nýja dótið (Thelma Kristín hefur aldrei verið jafn dugleg að leika við litlu systur!) Ég lofaði nefnilega sjálfri mér að tapa mér í dótabúðunum í ár - með það sem afsökun að best væri að nota tækifærið á meðan maður kæmist í ódýr leikföng - svo litla dekurrófan okkar fékk kannski ekki marga pakka - en þeir voru hver öðrum stærri.

Mig langar - svona meira fyrir mig en ykkur - að setja niður helstu áfangana sem snúllan hefur náð, svona til að eiga það skjalfest seinna meir hvar hún stendur á fyrsta afmælisdeginum. Hef nefnilega rekið mig á það hvað varðar eldri dömuna að ég hef algert gullfiskaminni í svona málum. Þið ráðið bara hvort þið lesið áfram eða ekki....

Elísa Björk....



  • er 75,6 cm. og 10,5 kg.
  • er með 4 tennur - þær eru svo löngu komnar að ég er farin að gefa upp vonina um fleiri!
  • gengur með og er farin að sleppa sér öðru hverju - en fer ofurvarlega og tekur ekki skref nema halda með báðum höndum
  • segir "hæ" í tíma og ótíma, í hvert sinn sem hún kíkir fyrir horn (bara til vonar og vara - ef einhver skyldi vera þar). Þegar hún vaknar á morgnana stendur hún upp í rúminu og gólar "hæ" - besta vekjaraklukka í heimi
  • er farin að segja nokkur orð (fyrir utan "hæ") Orðaforðinn samanstendur af: "Mamma", "baba", "Mema" (Thelma - þarf kunnáttumann til að vita hvort hún er að meina mig eða TK), "datt", "dudda", "nei" (með tilheyrandi höfuðhristing), "voff" (ÖLL dýr segja "voff"), "namm" (allur matur og drykkur), "takk" og "dót"
  • er enn að fá mömmumjólk á nóttunni - en við ætlum alveg að fara að taka á því!
  • er sjálfstæður sælkeri - vill helst ekki mat nema borða hann sjálf
  • er félagsvera - alger partýpúki sem vill vera miðdepill alheimsins. Allir mega halda á henni - en mamman fer svo sem aldrei neitt, svo það er engin ástæða til að örvænta
  • er alger pabbastelpa
  • elskar að byggja úr kubbum, gerir turn úr öllu sem fyrir finnst, matnum sínum ef annað byggingarefni þrýtur. Hún er líka orðin ótrúlega dugleg í öllum ímyndunarleik, hellir "mjólk" í glös af miklum móð og lætur "kallana" keyra bíla um öll gólf - já eða lúlla í rúminu sínu.
Er örugglega að gleyma milljón hlutum sem mig langaði að minnast á - en ég kem bara aftur og endurbæti póstinn þegar ég man þá.

Ætlaði að setja inn myndir með þessu en klukkan er orðin allt of margt - ég geri það fljótlega. Próf í næstu viku svo það er best að ég lofi ekki allt of miklu.


Mér datt í hug að þegar við vorum að taka þá ákvörðun að eignast barn í Ástralíu var ég alltaf harðákveðin í því að við yrðum flutt til Íslands í síðasta lagi fyrir fyrsta afmælisdaginn.... ég verð víst að éta hattinn minn í dag!


 

Website Counter