Melbourne

Monday, February 11, 2013

Take the long way home

Þá erum við komin "heim" til Elwood. Erum búin að eiga hér yndislega helgi og hitta fullt af gömlum vinum, knúsa marga og hlæja mikið.

Við eyddum síðasta heila deginum okkar á Bali  (eða svo héldum við þá) í Bali Safari & Marine Park þar sem við skoðuðum mörg dýr og fórum á fílsbak. Ég verð nú að segja að safari ferðin á fílsbaki er meira fyrir myndavélarnar en skemmtunina. Við Thelma Kristín ætluðum með Elísu með okkur en fengum ekki leyfi til að fara þrjár á einn fíl svo Maron tók báða krakkana sem runnu svo til, vinstri hægri, skölluðu stálgrindina og hvort annað svo pabbanum stóð alls ekki á sama og átti fullt í fangi með að halda börnunum á baki á göngu í kringum nashyrninga og fleiri hættuleg dýr. Við Thelma Kristín fundum svo til með aumingja fílunum sem þramma þarna sama hringinn allan daginn með fólk á bakinu að við náðum eiginlega ekki að njóta ferðarinnar. En þá er búið að afgreiða þetta af to-do listanum  í lífinu - Fílareið, been there, done that - have the photo!

Talandi um að eiga myndirnar þá eru Bali búar algerlega búnir að sníða alla afþreyingu í kringum myndatökur. Allt snýst um að láta taka myndir og að þær líti vel út - skítt með aðbúnað dýranna, upplifun af skemmtuninni eða slíkan hégóma - bara ef maður fer heim með flottar myndir!

Alla vega... skemmtilegur dagur þrátt fyrir allt sem endaði í mat niðri á strönd við villuna okkar. Áttum nefnilega eftir að prófa frægt grill á Echo Beach sem stóðst algerlega væntingar. Frábær matur í geggjuðu umhverfi - en myndavélin gleymdist auðvitað.

Daginn eftir áttum við svo næturflug til Melbourne. Við höfum gengið frá því að við fengjum að vera í villunni til klukkan sex og þá myndi bílstjórinn okkar koma okkur á flugvöllinn. Við tókum því rólega "heima við" þennan dag, dóluðum okkur í lauginni og röltum niður á strönd. Fengum svo kvöldmatinn til okkar áður en haldið var af stað. Reyndar hafði Maron fengið tilkynningu um daginn um að flugið okkar hefði verið fellt niður en hann hringdi í flugfélagið og fékk okkur bókuð í flug á sama tíma með millilendingu í Darwin. Við héldum því ótrauð af stað og vorum mætt á ágætis tíma á flugvöllinn. Þar var nokkur ringulreið í gangi því margir höfðu ekki fengið neina tilkynningu um niðurfellinguna á fluginu og þegar kom að okkur í röðinni var okkur sagt að okkar bókun til Darwin fyndist hvergi og að við gætum einungis fengið flug næstu nótt í gegnum Sydney. Við höfðum ekki náð að prenta út neina staðfestingu og heimasíða flugfélagsins lá niðri svo við höfðum ekkert í höndum og starfsfólkið tók fljótt upp á því að skilja ekki ensku þegar við mótmæltum og að lokum var okkur fylgt út í rútu þar sem við fengum að dúsa með krakkana dauðþreytta í nærri tvo tíma áður en búið var að afgreiða alla farþegana og við gátum haldið upp á hótel. Hótelið var sem betur fer ágætt og við fengum fínt herbergi með tveimur svefherbergjum, mat o.þ.h. Þegar við komum upp á herbergi eftir að hafa fengið okkur mjög síðbúinn kvöldverð (um miðnætti sem sagt) hrindi Maron þó í Qantas og fékk þar staðfestingu á að við hefðum víst átt sæti í flugið til Darwin sem að öllum líkindum hafa verið tóm í fluginu. Þeir redduðu okkur sætum í flug í gegnum Perth morguninn eftir svo við sluppum við heilan dag í bið í úthverfi Kuta sem við þáðum með þökkum. Þá sluppum við líka við næturflug sem er bara hið besta mál þegar ferðast er með þrjú börn.

Við fórum svo strax út á flugvöll morguninn eftir og flugið til Perth gekk ágætlega. Maður er nú samt orðinn frekar ofdekraður í flugmálum og því brá okkur svolítið við að koma í flug með lággjaldaflugfélagi. Hið æruverðuga flugfélag Qantas flýgur ekki lengur á svona lágkúru túristapleis eins og Bali og lætur dótturfélag sitt Jetstar um þann heiður (og árangurinn sést hér að framan). Við létum okkur þó hafa 4 tíma flug án sjónvarps og vorum sæmilega nestuð svo þetta gekk nú allt saman upp.

Við höfðum frekar stuttan tíma til að skipta um vél í Perth og þar sem við þurftum að skipta yfir í innanlandsflug skyldum við sækja allan farangur og fara í gegnum vegabréfaskoðun, toll og "innflutninglögguna" sem sér um að ekki sé komið með neitt til landsins sem gæti flutt með sér líf frá öðrum heimsálfum. Við höfðum í sakleysi okkar tekið með okkur nokkra hatta af hrísgrjónaökrum Bali sem okkur áskotnuðust í fílareiðinni og hvarflaði ekki að okkur að tilkynna neinum um slíkt. Verðirnir voru nú fljótir að koma auga á þá hjá okkur, slógu þeim hraustlega í borðið og út duttu þó nokkur kvikindi sem hlupu í öngum sínum um borð löggunnar. Það er skemmst frá því að segja að þarna urðu hattarnir eftir - en þá er nú gott að eiga myndir :-)

Innanlandsflugið í Perth er í öðrum terminal og þurftum við að bíða heillengi eftir rútu til að flytja okkur þangað. Þegar þarna kom við sögu vorum við orðin mjög tæp á tíma og þegar við loksins komum í innanlands-terminalinn hlupum við eins og skrattinn væri á hælunum á okkur með 7 töskur og 3 börn (við sko, ekki skrattinn) í 30 stiga hita að innritunarborðinu bara til að láta segja okkur að við værum búin að missa af vélinni. Þarna biðum við svo á milli vonar og ótta á meðan afgreiðslukonan fór til hliðar og talaði við kollega sinn. Mikið urðum við glöð þegar hún kom hlaupandi með töskumiða og sagði "I don't normally do this..but..." Eitthvað hafði þá fluginu seinkað og konan séð aumur á okkur svo áfram hlupum við og rétt náðum áður en vélin hélt til Melbourne.

Melbourne tók svo loksins á móti okkur undir miðnætti - um 30 tímum eftir að við lögðum af stað frá Canggu. Mikið var gott að koma hingað - næstum eins og að koma heim. Við erum búin að koma okkur fyrir í lítilli íbúð í hverfinu "okkar" og höfum eytt helginni í að hitta gamla vini, hlæja og knúsa eins og áður sagði.

Thelma Kristín er búin að hitta þó nokkra gamla vini og á ekki í neinum vandræðum með að tengjast þeim aftur. Við erum að vinna í því að koma henni í skólann hér og hún er búin að fá loforð um skautakennslu sem við ætlum að kíkja betur á í vikunni. Lífið er því óðum að detta í sinn vanagang hérna megin. Maron farinn að vinna og Elísa kvartar sáran yfir því að fá ekki að fara í skóla eins og "vinkonur" hennar - sem hún sá síðast þegar hún var 14 mánaða.

Þannig að.... við sluppum heilu og höldnu með 3 börn út úr Asíu sem ég veit að gleður áhyggjufullar ömmur og frænkur og erum nú komin í "öryggi" Vesturlanda. Spurning hvenær maður heyrir næst yndisleg gullkorn frá börnunun sínum í líkindum við "Mamma, þinn fíll kúkaði"

PS. Ég er búin að setja fullt af myndum inn á Facebook í albúm sem heitir Hong Kong og Bali. Ef ykkur langar að kíkja á myndir en sjáið ekki albúmið sendið mér þá bara póst.

5 Comments:

  • úbbs, þið eruð hetjur, góða skemmtun
    Unnur Halldórsdóttir

    By Anonymous Anonymous, at 11:30 PM  

  • Vá þvílík upplifun og þú skemmtilegur penni :)
    Kveðja,
    Inga Rós

    By Anonymous Anonymous, at 11:45 PM  

  • Frábært...þetta tókst að lokum....hafið það gott "heima". Emma og Eddi skemmtu sér konunglega yfir myndunum í gærkvöldi, skoðuðum þær aftur og aftur.

    By Blogger Ása, at 9:06 AM  

  • Vá en yndislegt og æðislegt :) Þið eruð svo dugleg og þessir gullmolar ykkar svo dásamlegir. Alltaf svo gaman að lesa bloggin þín maður nær að lifa sig svo inn í þetta :) Knús og kveðja á ykkur öll :)

    Kv. Anna

    By Blogger Unknown, at 10:49 AM  

  • Vá ég var bara stödd í svaka spennusögu...hvað með vélina, ná þau henni, ....
    Takk fyrir að koma með svona yndislega skemmtileg blogg, svo gaman að fá að fylgjast með og upplifa í gegnum ykkur!
    Njótið ykkar áfram :)

    Sirrý

    By Anonymous Sirrý, at 7:57 PM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter