Melbourne

Tuesday, August 30, 2005

Port Lincoln

Haldiði að vorið sé ekki bara komið til Ástralíu?? Síðasta vika vetrarins að renna sitt skeið og hitinn kominn yfir 20 gráður eins og vera ber svona í upphafi vors!! Okkur leiðist ekkert að rölta um hverfið í rólegheitum í svona veðri, Thelma Kristín er orðin voðalega flink að hjóla og þarf núna bara að æfa sig að taka af stað og bremsa og þá verður hún fær í flestan sjó.

Við fórum í ferðalag um helgina. Maron þurfti að vinna í Port Lincoln hér í Suður Ástalíu og þar sem hann þurfti að fara yfir helgi ákváðum við mæðgur, með engum fyrirvara, að skella okkur bara með. Port Lincoln er helsta sjávarútvegsmiðstöð Ástrala, fínn fiskibær getur maður sagt enda hafa margir gert það gott í sjávarútvegnum hér og ber bærinn þess glöggt merki - mikið af stórum, fallegum húsum, svo ekki sé minnst á snekkjur og skútur sem liggja í höfninni, jafnvel inni í garði ef maður fær sér hús niðri við höfn.

Við flugum eldsnemma á föstudagsmorgni til Adelaide þaðan sem við fórum með lítilli rellu yfir til Port Lincoln. Maron fór strax að vinna og við mæðgur tókum því rólega, enda höfðum við vaknað klukkan 4 um nóttina til að ná flugi. Á laugardeginum vorum við svo heppnar að fá að fara með bátunum út á túnfisksveiðar, eða túnfisksuppskeru réttara sagt því fiskurinn er í eldi og aðeins spurning um að sækja hann þegar tími er til kominn (sem er sem sagt á þessum árstíma). Við lögðum af stað klukkan 6 um morguninn og sigldum á móti sólinni þar sem hún reis upp úr hafinu - Thelma Kristín hafði á tímabili smá áhyggjur af því að við myndum bara sigla hana niður! Eftir klukkutíma siglingu vorum við komin út að kvíunum og þar fengum við að fylgjast með því þegar fiskurinn er sóttur um borð. Mjög áhugavert verð ég að segja og spennandi að hafa fengið tækifæri til að sjá þetta. Ég gef mér að Thelma Kristín sé eina íslenska barnið sem hefur orðið vitni að slíkri athöfn. Við foreldrarnir vorum nú doldið nervus um hvort við ættum að leyfa henni að fylgjast með slátruninni en ákváðum að hún væri nógu stór til að skilja gang lífsins þrátt fyrir að bera sterkar tilfinningar til Nemó og félaga! Hún var lika alveg róleg yfir þessu öllu saman, hafði smá áhyggjur af því að dýragarðurinn þyrfti að fá lifandi eintak en eftir að hafa fengið loforð mitt fyrir því að það yrðu skildir eftir lifandi fiskar tók hún þessu öllu méð stóískri ró. Á bakaleiðinni sátum við uppi á þilfari með kaffibolla og horfðum á yndislegt útsýnið sem við blasti. Alveg frábær ferð í alla staði og án efa það sem stóð uppúr í ferðinni.

Eftir sjóferðina ákváðum við að skella okkur í sundlaugina sem var heppilega staðsett við hliðina á hótelíbúðinni okkar. Sundlaugin var nýleg og snyrtileg í alla staði. Við vitum auðvitað að búningsklefar utan íslensku lögsögunnar eru ekki hundi bjóðandi en við erum nú að verða ýmsu vön í þeim efnum. Það sem var hins vegar svolítið undarlegt við þessa sundlaug var aragrúi af reglum sem ég hef aldrei áður kynnst og við vissum á tímabili ekki hvort við ættum að hlæja eða gráta yfir þessu öllu. Eftir að við komum ofan í gengum við, að gömlum vana, að kassa við sundlaugarbakkann og náðum í kork og "spagetti" fyrir Thelmu að leika sér með, hún var varla komin ofan í laugina þegar starfsmaður tók af henni dótið, það mátti ekki leika með það. Í lauginni var fleira starfsfólk en sundgestir, ég hef aldrei séð annað eins. Þegar við ætluðum í heita pottinn mættu okkur fjögur skilti með leiðbeiningum um hvernig maður mætti, eða mætti ekki haga sér og ein reglan var sú að maður varð að vera 15 ára til að fara í heita pottinn! Eftir að hafa beðið eftir að rennibrautin opnaði (hún var sko lokuð til kl. 1 .... og heiti potturinn lokaði klukkan 4 vegna þrifa) var sú stutta orðin mjög spennt þegar opnað var upp og var fljót að plata pabba sinn 2 ferðir. Þau komu svo yfir til mín og við ætluðum að fara eina ferð enn áður en við færum upp úr en vorum stoppuð af starfsmanni af því við vorum ekki með réttan lit af armböndum til að mega nota rennibrautina!!! Þegar við borguðum okkur ofan í hafði starfsmaðurinn spurt okkur hvort við vildum "swim only" og við svöruðum já, datt ekki í hug annað en hún væri að spyrja hvort við ætluðum að nota líkamsræktina líka, fundarsal, barngæslu eða eitthvað af öllu því sem þarna var í boði en nei, þá þarf sko að taka fram þegar maður borgar sig inn ef maður ætlar í rennibrautina! Starfsmaðurinn var öll hin elskulegasta, það var ekki málið, bauð okkur að fara fram og borga 2 dollara á mann aukalega fyrir að nota rennibrautina en á þessum tímapunkti vorum við orðin svo stúmm yfir þessari sundlaug að við ákváðum bara að koma okkur upp úr. Ég meina, ég er nú enginn hagfræðingur en það þarf enginn að segja mér að í svona litlum bæ geti þessi 2 dollarar sem gestir borga fyrir að fara nokkrar salibunur staðið undir kostnaði við starfsmanninn sem stendur þarna og athugar hvaða litur er á armböndunum hjá þessum 10 börnum sem eru í lauginni (og NB þetta var á laugardegi).

Úff, þá er ég búin að hella úr "hissa"skálum mínum yfir þessari sundlaug. Við tókum því svo bara rólega á laugardagseftirmiðdeginum því að um kvöldið var okkur boðið út að borða með vinnu/viðskiptafélögum Marons. Mín smakkaði ostrur í fyrsta sinn - þær voru bara ágætar ef maður lætur áferðina á þeim ekki trufla sig. Fékk mér líka túnfisks-shasimi -ummm það var rosa gott og svo lax í aðalrétt. Thelma Kristín kom með okkur í dinnerinn og lét eins og engill, að sjálfsögðu.

Maron fór svo aftur að vinna hluta úr sunnudeginum. Þegar hann kom aftur fengum við okkur göngutúr út á tanga þarna rétt hjá og nutum útsýnisins. Löbbuðum eftir ströndinni og tíndum fullt af skeljum og kuðungum. Ég er sko ekki haldin snefil af söfnunaráráttu og hef heldur litla þolinmæði þegar dóttirin er að koma inn með alls kyns blóm og steina en ég tapaði mér alveg þarna á ströndinni í tínslunni. Þetta voru svo fallegir kuðungar að ég hef sjaldan séð annað eins, við komum heim með fullan poka og ég verð að segja að þetta fer betur í vasa en lituðu glerkúlurnar sem maður er að kaupa í IKEA!

Komum svo heim aftur í gærkvöldi, mánudagskvöld. Því miður missti Thelma Kristín af dansinum fyrir vikið og ég af kínverskunni (og þar með vikulegum æfingarakstri) en við bætum það upp í næstu viku. Það er svona að vera á þessum ferðalögum maður missir af sumu en græðir ýmislegt annað í staðinn. Brosti nú út í annað þegar við Thelma vorum á leikvellinum í Port Lincoln á föstudaginn og daman settist upp í bát sem þarna var og bað mig að setjast aftur í. Svo spurðu hún: "Mamma, hvort viltu fara til Adelaide, Kína, Tasmaníu eða Tahiti!" Líklega ekki mörg íslensk börn sem velja þessa áfangastaði!

Hún er líka svolítið að pæla í þessum tungumálum, t.d. var pabbi hennar að reyna að kalla á hákarla í veiðiferðinni og Thelma horfði bara á hann eins og hann væri skrítinn - "pabbi, þeir skilja ekkert íslensku!" og svo kallaði hún "Sharks, where are you!" Hún spurði mig líka um daginn hvort að Guð skildi okkur þegar við biðjum Faðirvorið á íslensku en erum í Ástralíu!

Jæja, nú fer að síga á seinni hlutann af þessu röfli mínu. Best að sinna barninu aðeins. Hún er stundum svo dugleg að leika sér sjálf inni í herbergi hjá sér að ég veit ekki af henni svo tímunum skiptir. Ég er líka að reyna að fá Maron til að hjálpa mér að komast í gegnum myndaflóðið okkar sem núna er geymt á 3 ólíkum tölvum. Vona að það komist skipulag á þetta fljótlega svo ég geti sett inn fleiri myndir.

Bestu kveðjur héðan úr roki, rigningu... og 20 stiga hita!
Knús
Unnur

Thursday, August 18, 2005

Ágúst... og það vorar

Enn ein vika nær á enda runnin.. úff hvað tíminn líður. Það er líka bara að koma í mann smá vorfílingur, enda 20 stiga hiti úti! Það er nú reyndar í fyrsta sinn í "vor" sem hitinn er svona hár og í síðustu viku var kaldasti ágústdagur i Victoriu í 35 ár, það snjóaði meira að segja hér í kringum borgina og Ástralinn vissi bara ekki hvað hann átti af sér að gera. Fullt af skólum var lokað á þeim forsendum að óvíst væri hvort skólabílarnir kæmu börnunum heima aftur að skóladegi loknum. Bílar eru auðvitað ekki snjófærir hér, bara á lélegum heilsársdekkjum. Það yrði nú ástand á Klakanum er skólar lokuðu í hvert sinn sem snjóaði!

Höfum annars verið róleg hérna megin. Fórum á kvöldvöku hjá Íslendingafélaginu á föstudaginn. Það var bara gaman. Maron grínast nú með það að við lækkum meðalaldur félagsmanna úr 67 árum í 65!! Þetta er nú ekki svo slæmt en við erum samt heilli kynslóð yngri en aðrir félagsmenn. Ég held samt að þeim finnist gaman að fá nýtt blóð inn, sérstaklega íslenskt blóð! Það var þarna ein kona sem mætir víst alltaf á samkomur, hún hafði farið í skemmtisiglingu fyrir nokkrum árum og komið við á Íslandi, einn dag í Reykjavík og einn á Akureyri... og nú er hún sem sagt meðlimur í Íslendingafélaginu í Melbourne!!! Með sömu rökum ætti ég nú að fara að koma mér í Spánverjafélagið hér, ég yrði örugglega gerð að heiðursfélaga enda hef ég líklega eytt um 10 vikum á Spáni þegar sumarfrí á Costa del Sol, Benidorm og Mallorca eru reiknuð saman!!!! Gott annars þegar fólk hefur svona mikið sjálfstraust að því finnist það eiga heima í svona félagsskap þrátt fyrir afar hæpin tengsl við málstaðinn.

Talandi um sjálfstraust. Haldið ekki bara að mín hafi farið á bílnum í kínverskutímann á mánudagskvöldið. Leiðin upp í háskóla er um 15 km en alveg beinn (en ekki breiður) vegur svo þetta er hin fínasta æfing. Maron keyrði mig í fyrsta tímann og sótti mig svo en ég keyrði bílinn heim. En núna á mánudaginn fór mín bara sjálf!! Voða montin með mig... ég var alveg að verða búin að finna nægar afsakanir til að keyra bara ekki neitt á meðan við búum hér (vinsti umferð, stærri borg og meiri umferð, mjórri akreinar, sporvagnar, lestar, nýr bíll, fyrsti jeppinn...o.s.frv.) en kannski verður þetta til að auka sjálfstraustið svo ég geti farið að nota fína kaggann.

Á lagardaginn fórum við með þá stuttu út að hjóla. Maron var búinn að taka hjálpardekkin af og við skiptumst á að hlaupa með Thelmu um allar jarðir. Hún var farin að finna jafnvægið þegar við hættum og stutt í að daman fari bara að hjóla. Við mæðgur höfum reyndar ekki verið nógu duglegar í vikunni. Fórum aðeins á þriðjudaginn og gekk vel. Hittum þá reyndar Finna á leikvellinum og lítið varð úr æfingum vegna kjaftagangs og leikja. Ég var voða lukkuleg að hitta þarna þessa finnsku konu. Hún var með tvö börn, stelpu á aldri við Thelmu Kristínu og 1 árs strák. Þau hafa verið hér nákæmlega jafn lengi og við og búa rétt hjá okkur. Maðurinn hennar er að vinna hér og þau ætla að vera í 2 ár. Konan er heima með krakkana og stelpan fer á leikskóla 3 daga í viku (leikskólann sem við ætluðum að senda Thelmu Kristínu á en hættum við) og er auðvitað í sama pakkanum og Thelma... að skilja takmarkað en er að læra. Verst að þetta eru ekki sænskumælandi Finnar, það hefði verið frábært fyrir Thelmu Kristínu. Stelpurnar eru að fara saman í skólann í febrúar.. og við ætlum einmitt að hittast aftur á morgun því það er undirbúningsprógram í skólanum. Ég hef á tilfinningunni að við eigum öll eftir að verða vinir!!

Á sunnudaginn fórum við í verslunaleiðangur út í Kringlu. Maron var að kaupa sér jakkaföt fyrir Japansferðina. Þetta er svo stór Kringla að maður týnist bara þarna inni og dagurinn er búinn áður en maður veit af. Maron fer annars í september til Japans og Kína og verður í rúmar 3 vikur!! Við Thelma Kristín ætluðum með til Japans en hættum við þegar við fórum að skoða málið betur. Þetta er nefnilega 12-18 tíma ferðalag hvora leið... og kostnaður í samræmi við það. Ég ákvað að nenna ekki í svona langt ferðalag, nýkomin frá Íslandi og á leið til Tahiti. Best að nota bara peninginn frekar í nýtt hjónarúm ;o) Aumingja barnið sagði líka við mig um daginn upp úr þurru: "Mamma, gætum við ekki bara flutt til Íslands og aldrei farið aftur í ferðalag, ég er búin að koma til Spánar og svona"!!! Hún var nú reyndar alveg búin að gleyma þessu í morgun þegar hún var að skoða auglýsingu frá Disneyworld í blaðinu!

Annars velta upp úr henni gullkornin þessa dagana, miklar pælingar í gangi í litla kollinum. "Mamma, hvað er sannleikur?, mamma hvað er forseti?.. og mamma hvað er stríð? Eftir að ég hafði útskýrt fyrir barninu eftir fremsta megni hvað stríð var, varð hún hugsi stutta stund en sagði svo: "en ef það er stríð, af hverju kemur þá ekki bara Jón Sigurðsson??" "Jón Sigurðsson", sagði ég undrandi yfir sögukunnáttu barnsins. "Já, þarna styttan" svaraði sú stutta (segið svo maður kenni ekki barninu Íslandssöguna, Sómi Íslands, sverð þess og skjöldur til bjargar!!)

Svo sátum við úti á svölum á þriðjudaginn í yndislegu veðri. Nágranninn var greinilega kominn út á sínar svalir (aðskilið með skjólvegg) og Thelma Kristín færði sig nær veggnum og gerði sig líklega til að kíkja út fyrir og yfir á svalir nágrannans. Ég bað hana að gera það ekki og útskýrði að það væri dónaskapur að njósna um nágrannana en sú stutta var fljót að svara "mamma, þú er nú mannfræðingur, það er vinnan þín að skoða fólk"!!!

Jæja, best að fara að elda kvöldmat. Vinna á morgun, fram að hádegi en svo þarf ég að koma mér heim til að fara með Thelmu Kristínu í skólann. Hún er voða spennt að fara enda misstum við af einum tíma meðan við vorum á Íslandi svo hún hefur ekki farið síðan 17. júní.

Bið að heilsa heim... góða menningarnótt!!
Knús
Unnur

Monday, August 08, 2005

Komin heim aftur!

Hæ hó

Þá erum við loksins að komast á rétt ról eftir ferðina heim frá Íslandi. Verð að viðurkenna að við höfum aldrei orðið jafn flugþreytt og við urðum núna. Ég hélt að Thelma Kristín ætlaði öfuga leið við að snúa við sólarhringnum, hún vaknaði bara fyrr með hverri nóttunni sem leið og datt svo auðvitað út af strax í eftirmiðdaginn þrátt fyrir þrotlausar tilraunir við að halda henni vakandi. Það leið heil vika frá því við komum þar til við vorum komin á rétt ról og enn erum við að sofna eldsnemma á kvöldin og vakna spræk um 7 á morgnana (sem er reyndar bara hið besta mál).

Við höfðum það annars alveg æðislegt á Íslandi. Alltaf gaman að koma heim og hitta alla. Maron var reyndar að vinna allan tíman en við Thelma Kristín höfðum það náðugt bæði í bænum og í sveitinni hjá mömmu og pabba. Takk til allra sem komu í kveðjupartýið okkar, það var bara vel mætt miðað við stuttan fyrirvara um mitt sumar og rosa stuð þegar leið á kvöldið!

En lífið er sem sagt að komast í samt horf hér í Melbourne. Við lentum aðfaranótt miðvikudags og Maron fór strax að vinna daginn eftir. Við mæðgur vorum rólegar fyrstu dagana enda allir flugþreyttir eins og áður sagði. Strax á miðvikudeginum fórum við á ferðaskrifstofuna til að ganga frá Tahiti ferðinni okkar. Thelma Kristín var svo flugþreytt að hún sofnaði í fanginu á pabba sínum, starfsfólkinu til mikillar kátínu. Verð nú að viðurkenna að mér leið ekkert voða vel sem foreldri, með krakka sem heldur sér ekki vakandi fyrir flugþreytu og strax búin að panta næstu ferð. Ég hafði alla veganna ekki móral til að nefna það við ferðaskrifstofuna að við værum að hugsa um að skreppa til Japan í millitíðinni!

Við gátum í raun ekki verslað í almennilega í matinn fyrr en á föstudeginum því Thelma Kristín var alltaf sofnuð þegar Maron var búinn í vinnunni um 5 leytið! Ég hafði nú eitthvað undirbúið hana undir það að við kæmum heim um miðja nótt og líklegast yrði ekki til neinn matur í ísskápnum, dömunni fannst það nú ekki mikið mál enda opið á McDonalds alla nóttina!!! Af hverju barnið vissi að McDonalds er opið allan sólarhringinn veit ég ekki en finnst það frekar scary! Við mæðgur skelltum okkur svo í bæinn á föstudeginum, enduðum á að versla og hittum svo Maron á bílnum.

Helgin var líka frekar róleg. Fórum út í park á laugardeginum en skelltum okkur í lengri bíltúr á sunnudeginum. Ætluðum í þjóðgarð hér suðaustur af Melbourne en sáum á miðri leið að við vorum að keyra úr sólinni og inn í rigningu svo við ákváðum að stoppa bara þar sem við vorum. Eftir pick-nick á þar til gerðu útivistarsvæði fórum við á kolanámu-safn. Við vorum nefnilega stödd í gömlum kolanámubæ og íbúarnir reyna í sjálfboðavinnu að halda úti safni því til minningar. Þetta var hið skemmtilegasta safn, maður gat farið ofan í gamla námu og séð bæði skrifstofur, heimili verkamannsins og forstjórans auk alls kyns verslana, skóla, kirkju og alls þess sem tilheyrði í svona bæjum. Sjálfboðaliðarnir voru stundum ansi ákafir í sögudeildinni, hittum einn gamlan kall sem ætlaði gersamlega að éta okkur lifand. Við hálf flúðum út þegar sagan fór að berast að aumri fortíð karls, með alkahólisma og öðrum sjúkdómum!

Thelma Kristín fór svo aftur á leikskólann á mánudeginum. Hún var voða glöð að koma aftur og allir glaðir að sjá hana. Gáfum leikskólanum "Ástarsögu úr fjöllunum" og vöktum mikla lukku. Eftir daginn fór ég að spyrja Thelmu hvort bókin hefði verið lesin og jú.. Margie hafði nú lesið fyrir krakkana. Þá sagðist hún líka hafa sagt krökkunum að hún ætti svona bók heima hjá sér.. "já og hvernig sagðir þú það?" spurði mamman hissa. "Ég sagði bara I have this book in my house" sagði sú stutta eins og ekkert væri sjálfsagðara! Hún er að verða ansi sleip í enskunni daman og mér finnst við núna vera komin að ákveðnum punkti, ég man eftir þessum punkti með sænskuna hjá henni... allt í einu finnst manni að hún sé búin að ná tökum á málinu. Hún talar auðvitað ekki eins og innfædd enn... en getur alveg fylgst með og skilið einfaldar samræður, nóg til að komast af. Góð tilfinning!

Hittum svo Vanessu á þriðjudeginum. Fórum út í park með mömmu hennar og bróður. Þær skemmtu sér konunglega vinkonurnar eins og við var að búast og aftur sá ég hversu mikið Thelmu Kristínu hefur farið fram í enskunni.

Svo var aftur leikskóli á miðvikudeginum. Fengum þær góðu fréttir strax um morguninn að við gætum skipt frá mánudögum yfir á föstudaga. Það hentar okkur í alla staði miklu betur bæði af því að Vanessa er á föstudögum en ekki mánudögum (starfsfólkið var líka á því að þær ættu að fá að vera saman - það væri svo gott fyrir þær báðar) og svo eru það danstímarnir á mánudögum sem við höfum ekki komist í síðan Thelma Kristín byrjaði á leikskólanum. Ég er líka að byrja á kínverskunámskeiði sem er á mánudagskvöldum og því betra að ég sé heima á mánudögum því þá er minna stress að koma sér úr vinnu um 5, sækja Thelmu á leikskólann, borða og koma sér á námskeiðið fyrir kl. hálf sjö.

Ég hef sem sagt verið að vinna með Maroni þá daga sem Thelma Kristín er í leikskólanum. Það er fínt að komast aðeins út úr húsi og hitta fólk. Í síðustu viku byrjaði ný kona að vinna hjá honum svo það er bara að komast líf á skrifstofuna. Planið er að ráða 2 aðila til viðbótar áður en langt um líður svo bráðum verður bara fjör!

Vegna breytinganna var Thelma Kristín í leikskólanum 3 daga í síðustu viku og ég vann jafnmarga daga. Við fórum svo aftur út í park á laugardeginum eftir að hafa fengið okkur samloku á kaffihúsinu okkar og á sunnudeginum kíktu Hulda og Brynjólfur í heimsókn til okkar. Þau komu líka með okkur upp í Monash háskóla í smá heimsókn. Það var opinn dagur í skólanum og ég ákvað að kíkja og sækja mér upplýsingabæklinga og umsóknareyðublöð. Það hafðist allt og nú er bara að skella sér í undirbúningsvinnuna. Líklega þarf ég að taka enskupróf o.s.frv. til að komast inn en ég er tiltölulega bjartsýn á að þetta gangi upp.

Byrja í kínverskunni í kvöld. Hlakka til að prófa eitthvað nýtt og framandi. Vonandi að maður kynnist líka einhverju fólki. Á föstudaginn er svo Íslendingapartý! Það verður gaman að hitta landann og borða saman. Vonandi að það mæti ekki jafnmargir vírdós og á 17. júní hátíðina (gleymdi sko að blogga um þá upplifun af því við fórum til Íslands nærri strax á eftir en útvaldir heima hafa fengið lifandi lýsingu á öllu skemmtilega fólkinu sem við hittum þar - fyrir þá sem misstu af lýsingunni skal tekið fram að vírdós voru sem sagt ekki Íslendingarnir (auðvitað ekki!!) heldur ansi framandi fólk sem einhverra hluta vegna finnur samsvörun með sinni eigin exótík og hinu exótíska Íslandi! (eða hafði kannski komið í 2 vikna heimsókn fyrir 10 árum og taldi sig þar með eiga rétt á inngöngu í Íslendingafélagið í Melbourne!))

Í dag, mánudag fórum við Thelma Kristín svo loksins í langþráðan danstíma. Æðislega gaman, sérstaklega því Vanessa er líka í dansinum og var svo glöð að sjá Thelmu koma (hún var búin að vera lasin og vissi ekki að við hefðum skipt yfir á föstudagana). Eftir hádegið fórum við svo í göngutúr. Duttum inn í dótabúð þar sem eigandinn gleypti okkur með húð og hári. Eftir persónulegan túr um alla búðina þar sem eigandinn tíndi niður hvert dótið á fætur öðru og leyfði dömunni að prófa auk þess sem hann var búinn að gefa henni blöðru og blaðra sjálfur stanslaust við mömmuna um Ísland í 20 mínútur var engin leið út úr búðinni nema með leikfang undir hendinni. Svo Thelma Kristín græddi á frábærri sölumennskunni og gekk út með nýtt prinsessupúsluspil!

Jæja, nóg komið í bili... nei annars, verð að láta fljóta með eitt gullkorn. Við Thelma Kristín vorum að klæða barbídúkkur og ein passaði ekki alveg í kjólinn sem ég átti að klæða hana í. Mér datt í hug að það gæti verið af því að ég var með einhverja barbie-eftirlýkingu og sagði .. kannski passar kjóllinn ekki af því þetta er ekki Barbie, þá sagði sú stutta "nú, er þetta Barbie light"!!!!!!!!!!!!!!

Jæja, nú er nóg komið. Best að fara að hafa sig til fyrir kínverskuna. Þökkum allar samverstundirnar á Íslandi (Oh my, þetta hljómar eins og jólakort!) það var æðislegt að hitta ykkur. Ég reyni að setja inn nýjar myndir fljótlega. Það má lika alltaf senda mér póst á umagnusdottir@hotmail.com

Bið að heilsa í sumarið (Ástralinn liggur í hláturskasti þegar við segjum honum hvað það var heitt hjá okkur á Íslandi) ... læt heyra í mér fljótlega aftur.

Knús
Unnur


 

Website Counter