Melbourne

Thursday, May 19, 2005

Síðasti grasekkjudagurinn

Síðasti grasekkjudagurinn - Maron kominn upp í flugvél á leið heim... loksins loksins. Tæpar þrjár vikur án hans eru alveg nóg takk fyrir!

Héðan er annars helst að frétta að Ástralar eru gersamlega að tapa sér yfir því að Kylie Minogue hafi greinst með brjóstakrabbamein, ég hef aldrei séð annað eins - það mætti halda að konugreyið hafi þegar hrokkið upp af, slíkur er æsingurinn. Blöð og sjónvarpsstöðvar keppast við að draga fram gamlar Nágrannastjörnur sem lýsa því yfir með tárin í augunum að þær séu í algeru sjokki en að Kylie sé baráttukona og hún muni komast í gegnum þetta. Keypti blaðið í gær og það var ekki fyrr en á bls. 10 sem önnur frétt komst að þann daginn. Alls kyns viðtöl, tímalínur (fædd 1968...o.s.frv. - vantar bara Dáin 2005!) og pælingar um þá meðferð sem framundan er, lífslíkur o.s.frv. Allir líka voða glaðir yfir því að þetta skuli hafa komið upp þegar hún var í Melbourne ... nálægt fjölskyldunni og allt það. Það var auðvitað löngu uppselt á alla þá tónleika sem hún átti að halda í Ástralíu. Aðsóknin var slík í Melbourne að hún átti að halda 6 tónleika í röð. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að undanfarnar vikur og mánuði hafa styrktarsamtök brjóstakrabbameins (ef svo má að orði komast) staðið fyrir mikilli söfnun og vakningu um sjúkdóminn, m.a. með því að safna saman 11.500 konum (sami fjöldi og greinist árlega) inn á fótboltavöll í bleikum ponchoum og mynda risastóra mynd af konu. Þessar fréttir með Kylie ýta þvílíkt undir þennan góða áróður og nú stoppa ekki símalínur söfnunarinnar fyrir fólki sem vill greiða andvirði tónleikamiðans í söfnunina. .... En nóg um Kylie.. ég held ég sé að smitast af áströlsku pressunni!

Haldið ekki að margmenningarsamfélagið Ástralía ætli að sýna Eurovision í sjónvarpinu! Hér er auðvitað svo mikið af innflytjendum frá Evrópu (aðallega Bretlandi og Austantjaldslöndunum) að SBS (sjónvarpsstöð sem gerir mikið út á margmenningu) ætlar að sýna Eurovision. Málið er bara það að vegna tímamismunar er keppnin haldin á föstudags- og sunndagsmorgni hér svo SBS ætlar að bíða til kvölds með sýninguna, þ.e. við sjáum Eurovision á föstudags- og sunnudagskvöldi þannig að við ætlum að vera í sóttkví á föstudag og sunnudag takk fyrir - vil ekki fá símtöl með úrslitunum... ekki einu sinnu þó við vinnum!

Annars er allt gott að frétta af okkur. Fórum að skoða skólann á þriðjudagsmorgun (í skítakulda NB - ég var í frekar þykkri peysu og ég var að frjósa þegar við stóðum úti). Mér leist rosalega vel á þetta allt saman. Húsnæðið er reyndar gamalt en MR-ingar láta það nú ekki á sig fá, bara sjarmerandi finnst mér - kannski ágætt að verslingurinn er í útlöndum! Nemendur eru um 420 og nemendur í bekk um 20 (þykir það ekki nokkuð gott?) Tölvur í hverri kennslustofu og mikil áhersla lögð á einstaklingsbundið nám og sjálfstraust. Fórum líka á fyrsta foreldrafundinn í gærkvöldi og ég var enn mjög imponeruð eftir hann. Skólastjórinn er mjög indæl og aðal "prep" kennarinn er alveg frábær. Ég var líka mjög ánægð með þá þjónustu hjá þeim að bjóða upp á barnapössun fyrir þá foreldra sem þurftu að taka börnin með ;o)

Ég hef líka heyrt það frá fólki sem þekkir til og hefur skoðað skólana hér í kring að þessi sé mjög góður. Þar sem Thelma Kristín verður ekki í skóla í Ástralíu nema í ca 2 ár þá held ég að við þurfum ekki að leita frekar - og skráningarpappírarnir eru komnir á eldhúsborðið.

Á morgun á hún að mæta í fyrsta "Ready, set, go" prógrammið. Þetta er í raun aðlögunarferli sem stendur þar til skólinn byrjar í febrúar. Krakkarnir fá að hitta kennarana og venjast skólanum. Þar sem foreldrar í Ástralíu geta valið hvort börnin byrja 5 eða 6 ára í skóla er þetta líka hugsað til að foreldrar sjái hvernig börnin aðlagast og geti þá tekið ákvörðun byggða á því hvort þau séu tilbúin að byrja 5 ára eða hvort best sé að bíða eitt ár enn.

Við mæðgur ætlum annars að vera rólega svona síðasta daginn í grasekkju. Líklega langt þangað til við fáum svona rólegheit aftur (ekki það að ég er búin að fá alveg nóg fyrir lífstíð!) þar sem Kristófer og Anna Ólöf koma á mánudaginn og verða þar til við förum til Íslands í sumar - svo sem betur fer eru miklar annir framundan!

Veðrið er æðislegt í dag, 20 stiga hiti og sól. Ætli við mæðgur setjumst ekki bara á róluvöllinn og höfum það náðugt. Ætlaði nú að fara að versla en við nennum því hvorugar. Best að fá Maron bara með okkur um helgina - það er ekki eins og ég ætli að elda fyrir hann fyrsta kvöldið hans heima - Eurovisionkvöld - það verður pöntuð pizza!!!!

Jæja, best að koma sér út í góða veðrið. Læt heyra í mér í næstu viku þegar lífið kemst aftur á "full swing".

Bestu kveðjur
Unnur Gyða

Monday, May 16, 2005

Rólegheit rólegheit

Bara nokkrar línur um allt og ekkert... erum alveg að detta dauðar niður úr rólegheitum! En nú er von á Maroni heim á föstudag og svo Kristófer og Önnu Ólöfu eftir helgi og þá kemur nú heldur betur líf í kotið.

Fórum í Kringluna á fimmtudag - jú, mín keyrði. Sú stutta er nú að öðlast traust á ökuleikni móður sinnar því hún sagði ekki orð þegar við stigum upp í bílinn. Röltum um búðirnar í nokkra tíma. Ég ætlaði nú að kaupa föt á mig en endaði auðvitað bara með barnaföt í poka.. fyrir utan inniskóna sem ég VARÐ að kaupa af illri nauðsyn því gólfin hér eru að verða ansi köld á morgnana. Anna Ólöf! Við förum barnlausar í Kringluna þegar þú kemur og förum í tískubúðirnar - er það ekki??

Maron ætlaði nú að reyna að versla svolítið í Chile, mér skilst að fötin þar kosti FREKAR lítið! Sjáum hvað hann kemur með heim handa frúnni??

Á föstudaginn fórum við aftur á dótasafnið og skiptum út dótinu. Thelma valdi sér m.a. púsluspil með 35 bitum (ekki á spjaldi). Hún var svo dugleg að púsla það að ég leyfði henni að prófa púsl með 100 bitum sem bróðir hennar á ... og viti menn, hún rúllaði því upp eins og ekkert væri! Ég var alveg bit!

Eftir hádegið á föstudag fórum við á bókasafnið. Við tókum bæjarrútuna (community bus) sem er ókeypis strætó sem gengur á milli helstu opinberu staða í hverfinu, barnaheimila, skóla, heilsugæslustöðva o.s.frv. Okkur fannst alveg upplagt að prófa þetta því strætóinn stoppar hérna við dyrnar hjá okkur og fer m.a. á bókasafnið. Ég fékk nú nett hláturskast þegar við komum upp í strætó því meðalaldurinn var svona um 72 ár (eftir að við Thelma komum inn) og allir farþegarnir þekktu bílstjórann með nafni! "Next stop Michael! Thank you Michael" !! En hvað um það, við komumst á bókasafnið eftir smá bíltúr um hverfið og ætlum nú aldeilis að ná okkur í bækur.

Það fór nú svo að við fengum bara bráðabirgðaskírteini og máttum taka tvær bækur! Ástæðan fyrir því að ég fékk ekki almennilegt skírteini er svolítið skondin. Það er sko þannig hér í Ástralíu að kennitölur eða nafnnúmer eru ekki notuð. Þess vegna þarf maður að sanna bæði nafn og heimilisfang þegar maður sækir um alls kyns hluti.. eins og t.d. bókasafnsskírteini. Eðlilega á ég ekki nein skilríki þar sem fram kemur að ég búi á Tennyson Strett og því þarf maður að mæta með póst sem maður hefur fengið frá virtri stofnu, t.d. banka eða ríkinu, þar sem fram kemur nafn og heimilisfang. Fyndni parturinn er að þegar maður sækir um bankareikning þarf maður ekki að sanna neitt varðandi heimilisfang, maður bara segir hvar maður býr og er treyst fyrir því... en svo er pósturinn frá bankanum notaður sem sönnun um rétt heimilisfang... af hverju getur bara bókasafnið ekki treyst því að ég sé að segja satt eins og bankinn!!!!!!!!!

Alla veganna, fengum tvær bækur lánaðar og tókum svo strætóinn aftur til baka. Veðrið á laugardaginn var alveg frábært svo við sátum bara úti á svölum í rólegheitum, röltum svo út á róló og tókum með okkur teppi og sátum þar í svolitla stund. Dagarnir líða nú oftast eitthvað á þessa leið á meðan við erum bara tvær í kotinu, röltum út á róló, í búðina og kannski bakaríið. Voðalega ljúft líf... en kannski svolítið leiðigjarnt til lengdar.

Ætluðum að hitta íslensku stelpuna og strákinn hennar aftur á sunnudag en vegna veikinda varð ekkert úr því... ætlum að hitta þau aftur við fyrsta tækifæri.

Yfir í allt aðra sálma... Thelma Kristín er mikið að pæla í Guði þessa dagana, hvort hann sé til, hvert hlutverk hans sé, hvort hann sé ósýnilegur, hvort hann eigi heima á himnum o.s.frv. Ég geri mitt besta í að svara spurningunum (eins pólitískt rétt og ég get) en tók eftir því, mér til mikillar gleði, að í öllu spurningarflóðinu talaði daman alltaf um Guð í kvenkyni. Hún spurði alltaf hvort HÚN ætti heima á himnum og hvort HÚN væri ósýnileg! Áhugavert!

Ein skemmtisaga af leikskólanum. Þegar ég sótti Thelmu á miðvikudaginn var deildarstjórinn alveg himilifandi yfir því hvað sú stutta hafði verið dugleg um daginn. Hún hafði talað mikið og sagt heilar setningar. Hún hafði víst raðað saman fullt af stólum og deildarstjórinn hélt að þetta hefði átt að vera strætó. Svo hafði hún sagt við kennarann að hún skildi "sit down here" og svo bætt við "we need more people". Annar starfsmaður hljóp þá til og kallaði til fleiri börn sem settust í "strætóinn" en eftir smá stund hafi Thelma ekkert viljað með börnin hafa... þær skildu nú ekki alveg af hverju. Eftir að við komum heim fór ég að spyrja Thelmu hvort hún hafi verið að búa til strætó.. daman kom alveg af fjöllum og harðneitaði því. En hvað varstu þá að raða stólum og segja Margie að setjast niður sagði ég. "Já, það!" sagði Thelma Kristín "ég var að búa til leikhús og svo komu krakkarnir og hlustuðu ekkert á mig og þá vildi ég ekkert hafa þau í leikshúsinu"!!! Smá misskilningur.

Verð að bæta því hér við að þegar ég sótti Thelmu Kristínu á miðvikudaginn var HÆNA inni á leikskólalóðinni. Einn starfsmaðurinn hafði víst fundið hana og hélt að um væri að ræða gæludýr! Foreldrar voru beðnir um að passa að hleypa hænunni ekki út því verið væri að hafa upp á eigendunum. Talandi um að búa í margra milljóna manna stórborg!

Á morgun er opið hús í skólanum sem Thelma fer í í haust. Ég hlakka til að fara og sjá hvernig þetta lítur út. Á miðvikudagskvöld er svo foreldrafundur og á föstudaginn fyrsti undirbúningstíminn. Ég hefði líka vilja hitta skólastjórann prívat og ganga formlega frá skráningunni svo það verður nóg að gera í skólamálum þessa vikuna.

Jæja, hef ekki meira að segja í bili. Þar til næst...

Kveðja
Unnur

Wednesday, May 11, 2005

Maí 2005

G'day mates!

Undirrituð hefur nú verið einstæð móðir í 10 daga og tekist nokkuð vel upp. Við erum reyndar að verða dauðleiðar á einverunni en nú sér fyrir endan á þessu öllu. Höfum aðallega verið að dúllast hérna heima við þegar Thelma Kristín hefur ekki verið á leikskólanum og ég held við séum nú formlega búnar að prófa alla róluvelli í 2 km radíus.

Fórum að versla á föstudaginn sem er nú ekki í frásögu færandi nema af því ég fór á bílnum.. ein í fyrsta sinn. Búðin er nú ekki nema í ca. 2 km fjarlægt svo ferðalagið var ekki langt. Sú stutta var nú heldur skeptísk um að mamma sín gæti keyrt bílinn: "Mamma, ætlum við að keyra í búðina?" - "Já" - "Mamma, kanntu að keyra?" - "Já" - "Mamma, eigum við ekki frekar að fara bara í búðina hérna rétt hjá?" - "Hmm, nei". "Mamma, ertu viss um að þú kunnir að keyra bílinn?" - "Já" - "Er pabbi búinn að kenna þér?" "Nei, hann gerði það nú ekki!" Og svo þegar við komum út í bíl byrjaði hún aftur "Mamma, kanntu að keyra? "JÁ!!!" Á heimleiðinni hringdi svo gsm síminn minn og ég teygði mig í veskið til að leita að honum og svara, þá heyrðist úr aftursætinu: "Mamma, þetta er allt í lagi, láttu hann bara hringja!!!" Þvílíkt traust!!!

Ég hélt nú að það yrði lítið að gera svona á föstudagsmorgni í búðinni en það var nú öðru nær. Öll bílastæði upptekin og búðin troðfull af ellilífeyrisþegum í vikulegri verslunarferð, best að velja ekki þennan tíma næst. Ég er að hugsa um að hætta mér á bílnum út í verlunarmiðstöð á morgun. Það er svolítil keyrsla.. en beinn og breiður vegur alla leið. Best að demba sér bara í djúpu, venst víst ekki vinstri umferðinni fyrr en ég geri það.

Á laugardaginn fengum við sko líka heimsókn, ligga ligga lái! Fengum til okkar íslenska stelpu með strákinn sinn sem er 3 ára. Fyndin tilviljun að hún er líka uppalin í Melbænum.... ekki venjulegt þessi tengsl á milli Melbæjar og Melbourne! Við sóttum mæðginin á lestarstöðina og byrjuðum á því að labba út í hverfisskólann hér hjá okkur því þar var þessi fíni markaður í gangi. Krakkarnir fengu að fara í hoppukastala og voru voðalega ánægð með sig. Fórum svo heim til okkar og "tjilluðum" það sem eftir lifði dags. Miklu skemmtilegra að "hanga" svona saman en hvor í sínu horni. Við ætlum að reyna að hittast aftur í sunnudaginn - hlakka til.

Fengum meira að segja aftur heimsókn í gær - bara nóg að gera í sociallífinu. Við hittum Vanessu, vinkonu hennar Thelmu, og mömmu hennar á róluvellinum hér hjá okkur og þegar stelpurnar voru búnar að róla nóg fórum við yfir til okkar og við mömmurnar fengum okkur kaffisopa á meðan stelpurnar léku sér - voðalega huggulegt og Thelma Kristín himinlifandi yfir heimsókninni.

Verð að deila með ykkur einu gullkorni frá dömunni. Við vorum að borða morgunmat í gærmorgun og Thelma fékk ábót af morgunkorni. Eitthvað var mamman spör á mjólkina því sú stutta horfið á diskinn sinn og sagði: "Mamma, ég vil fá meiri mjólk svo þau drukkni betur" !!!

Í næstu viku byrjar undirbúningsprógram fyrir krakka sem byrja í skóla á næsta ári. Á þriðjudaginn er opið hús í skólanum og á miðvikudaginn foreldrafundur. Á föstudeginum eiga krakkarnir svo að mæta í "Ready, set, go!" prógram í skólanum. Þetta eru 10 skipti sem þau eiga að mæta í, ca 1 sinni í mánuði þar til skólinn byrjar í febrúar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þau ætla að byrja að undirbúa krakkana - vona bara að Thelma skilji eitthvað!

Það hafa margir kvartað yfir því að geta ekki sett inn "comment" á síðuna mína. Ég er nú ekki sérfræðingur í þessu en held að maður verði að vera skráður notandi á blogger.com til að geta gert það. Ef þið viljið skilja eftir kveðju en ekki skrá ykkur hjá blogger er líka alltaf hægt að senda á mig emil á umagnusdottir@hotmail.com

Ég ætla að hætta í bili, best að koma sér út úr húsi. Haustið er komið með 17-18 stiga hita... maður er orðinn svo fordekraður að manni finnst bara skítkalt úti. Ætla samt að hætta mér í stutta gönguferð.

Bið að heilsa heim í vorið. Við hlökkum voða mikið til að koma heim í sumar - fólki finnst við frekar fyndin hér þegar við tölum um að við ætlum til Íslands að fá okkur smá sumar - "en gaman fyrir ykkur að komast úr kuldanum, hversu heitt verður annars á Íslandi á sumrin?" segja menn - "hmmm... svona svipað og er hér á veturna!!" svara ég og uppsker mikinn hlátur!

En hvað um það - íslensku sumrin eru engu lík og við hlökkum til að hitta ykkur!
Bestu kveðjur
Unnur

Sunday, May 01, 2005

Haustkveðjur

Jæja, þá er heimilið orðið húsbóndalaust og við mæðgur tvær eftir í kotinu. Maron fór áleiðis til Íslands í dag. Hann átti bókað flug kl. 2 til Sidney en Qantas hringdi í morgun og sagði að fluginu frá Sidney til Bankok seinkaði um 4 tíma og buðu honum að taka flug kl. 6 til Sidney í staðinn - Svo við græddum 4 tíma saman á sunnudagseftirmiðdegi sem var auðvitað bara hið besta mál.

Höfum verið róleg í vikunni... félagslega alla veganna. Brjálað að gera í vinnunni hjá Maroni og alltaf óvíst hvenær hann færi til Íslands. Við höfum verið dugleg að nota nýja grillið - dýrindis steikur kvöld eftir kvöld - best við mæðgur borðum bara salat á meðan Maron er í burtu! Ég er nú svolítið fúl út í veðurfræðingana hér því tvo daga hef ég ætlað mér að sitja á svölunum í 30 stiga hita og sól eins og þeir hafa lofað en svo hefur bara verið skýjað þegar á hólminn er komið ... og ekkert sólbaðsveður.... og nú er haustið komið. Eftir heitasta aprílmánuð frá upphafi mælinga snarlækkaði hitinn núna um helgina og datt undir 20 gráðurnar. Reyndar á hann aðeins að hækka í vikunni en fer síðan lækkandi frá og með næstu helgi. En við þessu var víst alltaf hægt að búast, að það kæmi haust að loknu sumri!

Við mæðgur skelltum okkur á dótasafnið á föstudaginn. Safnið er staðsett í húsinu góða hér hinum megin við götuna, á sama stað og Thelma fór í dansinn áður en hún byrjaði í leikskólanum. Þarna var hægt að fá lánuð alls kyns leikföng, allt frá fótboltamörkum niður í púsluspil. Alveg frábær uppfinning, krakkar verða hvort eð er leiðir á leikföngunum sínum eftir 3 vikur - þá er nú líka aldeilis frábært að geta bara skipt þeim út. Sú stutta fékk lánaðan dúkkustól, búðarkassa, Bubba Byggir spil og púsluspil - sú var lukkuleg! Áhugavert að sjá hvaða dót var hægt að fá lánað, dótið sem stenst tímans tönn - gamla góða Brio og Fisher Price dótið. Pabbinn fékk hláturskast þegar við komum heim með búðarkassann.... hann hafði víst átt nákvæmlega eins!

Fórum aðeins í bæinn í gær því Maron þurfti að ganga frá flugmiðanum sínum. Fórum líka niður í Upplýsingamiðstöð ferðamanna og fengum fullt af bæklingum til að fá hugmyndir að því hvað við viljum gera þegar fyrstu gestirnir koma, náðum okkur í lesefni fyrir næstu daga og vikur. Nóg hægt að gera hér ef maður ber sig eftir því.

Settumst inn á japanskan skyndibitastað eftir hádegið. Þegar við vorum að bíða eftir matnum sagði sú stutta: "Mér finnst þetta ekki nógu fínn veitingastaður"!!!!!!!!!!! Halló! Ein 4ra ára með kröfur! Foreldrarnir vissu ekki hvort þau ættu að hlæja eða gráta. "hm... afhverju finnst þér það?" Daman vildi sko hafa dúka á borðinu og svona huggulegt,sko! Talandi um veraldarvana heimskonu. Hún krafðist þess líka að borða með prjónum, þrátt fyrir að þjónninn hafi komið með gaffal handa henni. Mamman varð að gefa sig og láta eftir prjónana sína. Við brostum nú í kampinn þegar hún byrjaði með prikin en urðum fljótt agndofa því sú stutta gerði sér bara lítið fyrir og borðaði sinn mat með prjónum eins og hún hefði aldrei gert annað. Mikið sáum við eftir því að vera ekki með myndavélina með okkur.

Er búin að hafa upp á íslenskri stelpu hér í Melbourne. Hún á þriggja ára strák og við ætlum að hittast í vikunni og leyfa krökkunum að leika. Það verður gaman að fá félagsskap í einverunni á meðan bóndinn er að heiman. Vonandi að við getum svo bara hitt þau sem fyrst aftur. Ég þarf líka að hringja aftur í konsúlinn. Ég held hún hafi týnt símanúmerunum okkar því hún ætlaði að hringja í okkur fyrir löngu síðan en við höfum ekkert heyrt. Ég er alla veganna að vona að það sé skýringin, hún getur varla strax verið orðin þreytt á okkur, hún verður nú að hitta okkur fyrst!

Jæja, best að fara að halla sér. Daman fer í leikskólann á morgun og þar sem Maron verður á flugi geri ég ekki ráð fyrir að vinna þennan dag eins og ég er orðin vön að gera þegar Thelma Kristín er á leikskólanum. Best ég taki bara eins og einn dag fyrir mig. Sú stutta hefur auðvitað engan hér nema okkur Maron og er doldið dugleg að tala og spyrja um allt milli himins og jarðar. Getur satt að segja orðið smá þreytandi á köflum. Ég fann nú samt upp ráð við því... Thelma er svo dugleg að leika Frúna í Hamborg að við fundum upp nýjar leikreglur... bannað að segja "mamma" og "af hverju" ... miklu skemmtilegri leikur! Nei, grínlaust, hún er alveg yndisleg, ótrúlegt hvað hún er hamingjusöm í gegnum allar þessar breytingar. Hef vonandi nýjar skemmtisögur af leikskólanum í vikunni.

Biðjum að heilsa héðan úr haustinu..
Unnur


 

Website Counter