Melbourne

Saturday, April 06, 2013

Sykur, sandur, sjór og skógar

Þegar ég loka augunum sé ég bara sykurreyr. Er búin að sjá svo mikinn sykurreyr undanfarna daga að þó ég sjái ekki einn einasta stöngul áður en ég dey mun það verða of mikið.

Erum búin að aka frá Sunshine Coast upp til Whitsundays eyja á liðinni viku og erum þar með komin aftur í rakt og trópískt loftslag líkt og á Bali. Sitjum hér við mitt kóralrifið og njótum lífsins.

Erum í dag búin að vera á ferðinni í fjórar vikur. Þetta hefur liðið allt of hratt en kennt okkur margt. Það hefur reynst okkur auðveldara en ég átti von á að vera í 15 fermetrum með 3 börn. Held við getum bara keypt okkur 50 fermetra íbúð þegar við komum heim og verið hæstánægð með plássið ;-) Erum búin að komast að því eftir að hafa átt búslóð sem rúmast í tveimur ferðatöskum í rúma 2 mánuði að það eina sem við söknum úr búslóðinni heima er kaffivélin og safapressan. Allt annað má fara!!

Krakkarnir læra líka margt á þessu held ég og ég finn hvernig þau aðlagast betur og betur með hverjum deginum. Þau hafa róast og orðið nánari en áður enda enginn annar að leika við. Það er líka ótrúlegt að fylgjast með því hvernig þau geta leikið með sama dótið dag eftir dag - engin ástæða fyrir fullu herbergi af leikföngum. Magnús Andri er búinn að leika sér með 10 bíla og lítinn kassa af trékubbum í 2 mánuði og er hvergi nærri búinn að fá nóg. Hann er líka orðinn sérstakur áhugamaður um klósett og þvottahús og skoðar þetta af ótrúlegum áhuga í hvert sinn sem við komum okkur fyrir á nýjum stað. Þau eru nú samt öll orðnir sérfræðingar í tjaldstæðum og yngsti gormurinn er farinn að góla "getum við farið á Big 4" úr aftursætinu enda löngu búinn að læra að tjaldstæði með þessu nafni bjóða upp á mesta afþreyingu fyrir krakka.

Nýju loftslagi fylgja nýjar áskoranir og nú heyri ég aftur óborganleg gullkorn frá krökkunum. Yndislegt samt hvað þau taka öllu með jafnaðargeði - allt er svo sjálfsagt - eins og þegar Magnús Andri segir í rólyndistón við systur sína: "Nei, Elísa mín, það má ekki fara út í sjóinn hérna, þá getur komið krókódíll og bitið þig" eins og ekkert í heiminum sé sjálfsagðara.

En... svona meira fyrir mig en ykkur kannski.. þá er hér framhald á dagbókinni.

Dagur 22, föstudagur 29. mars (föstudagurinn langi)

Héldum frá Mooloolaba áleiðis norður á bóginn. Ætluðum, eins og áður sagði, ekki að festa okkur á einum stað yfir páskana heldur treysta á að fá næturgistingu hvor sem væri á tjaldstæði eða úti á víðavangi og færa okkur upp í Kóralrif.

Höfðum áður heimsótt engiferverkesmiðju í Buderin og áttum góðar minningar þaðan. Því var ákveðið að kíkja þangað aftur en í þetta sinn urðum við fyrir smá vonbrigðum. Þó ekki með engiferverksmiðjuna og það sem henni fylgir heldur blessuðu krónuna okkar. Það er helst í svona litlum "ódýrum" hlutum sem mann blöskrar verðlagið og situr hjá. Þarna var hægt að fara hring um engiferakra í lítilli lest og gerðum við það í síðustu heimsókn og ætluðum að leyfa krökkunum að fara aftur. Einnig höfðu verið útbúnir litlir bátar sem sigldu í brúðumyndaheimi sem sagði söguna um sætabrauðsdrenginn - örugglega mjög flott og skemmtilegt. Pakki í þetta tvennt kostaði fjölskylduna um 70 dollara. Slíkt þýddi áður um 3.500 ISK sem er nokkuð sanngjarnt en í dag þýðir þetta hvorki meira né minna en 10 þúsund krónur fyrir skemmtun sem tekur innan við hálf tíma. Annað eins hefðir kostað að fara inn í verksmiðjuna með leiðsögn. Það er einmitt í svona tilfellum sem maður segir pass.

Á næstu grösum, í miðju iðnaðarhverfi, liggur vel falinn veitingastaður í balinesískum stíl. Maron hafði farið þangað áður og verið alveg heillaður. Ég man eftir að hafa leitað af þessum stað með honum án árangurs - en það var fyrir tíma Google Maps og lítið mál í dag að finna staðinn. Við notuðum tækifærið og fengum okkur þarna æðslegan hádegisverð í fallegu, trópísku umhverfi þar sem vatnadrekar (eðlur) skriðu á milli borðanna og biðu eftir að bitar dyttu á gólfið. Mér skilst að þeir séu jafnvel svo kræfir að skríða alla leið upp á matarborð hjá gestunum!

Héldum svo sem leið lá norður á bóginn án þess að hafa ákveðinn áfangastað í huga fyrir nóttina. Reyndum við Tin Can Bay (já Niðursuðudósaflóa); bæ sem helst er frægur fyrir að þangað koma höfrungar upp að höfninni á morgnana og bíða eftir að ferðamenn gefi þeim að borða. Okkur leist nú samt ekki þannig á bæinn að okkur langaði að gista og öll tjaldstæði yfirfull þó óspennandi væru. Þarna vorum við stödd við suðurenda Fraser Island - stærstu sandeyju í heimi - og vorum við að gæla við að heimsækja hana. Frá því var hins vegar horfið þegar við gerðum okkur grein fyrir því að dagsferð þangað yfir yfir páskana hefði kostað um 100 þúsund krónur!!

Enduðum í pinkulítilli holu - Boonooroo löngu eftir myrkur. Skrifstofan á tjaldstæðinu var lokuð en á móti okkur rölti gamall maður með öl í hendi og bauð fram aðstoð. Það fór svo að lokum að við keyptum hjá honum gistingu þó að tjaldstæðið virkaði ekki spennandi. Sú var nú einmitt raunin því hvorki var þarna hægt að fylla á vatn né tæma klósett (sem er nú helst þjónustan sem maður þarf á svona bíl fyrir utan rafmagn). Lærðum þarna "the hard way" að velja tjaldstæðin vel og nota frekar "Free camping" en léleg tjaldstæði. Verðmunur á góðum og lélegum tjaldstæðum er ótrúlega lítill og þarna lærðum við að taka enga sénsa. Vorum fljót að loka að okkur sökum ótrúlegt flugnagers og hefðum helst ekki viljað fara út úr bílnum en þar sem við gátum ekki tæmt okkar eigið klósett neyddumst við til að nota klósettið hjá kallinum og var það með því skítugasta sem við höfum séð fyrir utan allt það dýralíf sem þreyfst þar inni.


Dagur 23, laugardagur 30. mars

Ég held við höfum aldrei verið jafn snögg að pakka saman og koma okkur í burtu. Ferðinni enn heitið norður í átt til Rockhamton sem helst er fræg fyrir nautgriparækt.

Eftir verslunarstopp í Maryborough (þar sem höfundur Mary Poppins er fæddur) lentum við fljótlega í því að fá upp bilanaljós í mælaborðið á bílnum og hafa síðustu dagar því miður nokkuð einkennst af þessu veseni með bílinn.

Fyrsta skrefið var að stoppa bílinn og hafa samband í bilanasíma bílaleigunnar. Þar var ákveðið að við skyldum halda áfram á áfangastað sem var við Calliope þar sem boðið var upp á frítt tjaldstæði (nýjasta æðið eftir reynslu næturinnar ;-) Gistum þar á ágætis stað við litla á þar sem margir höfðu tjaldað yfir páskana með báta og annað skemmtilegt.


Dagur 24, sunnudagur 31. mars (páskadagur)

Eftir morgunmat og páskaeggja (eða kanínu í þessu tilfelli) leit var haldið áfram til Rockhampton. Krakkarnir höfðu reyndar fengið að velja sér litla gjöf í staðinn fyrir "alvöru" páskaegg því þau eru nú ekki mjög spennandi hérna megin páskaeggin. Þau voru því alsæl með nýtt dót þegar haldið var af stað.

Enn logaði ljós í mælaborði bílsins og var því brugðið á það ráð að stoppa á tjaldstæði í Rockhampton sem var skammt undan. Þar var kallaður út bifvélavirki á páskadag (karlgreyið) sem var í 3 klukkutíma að reyna að finna út hvað amaði að bílnum. Á meðan fór ég með krakkana í sundlaugina þar sem Elísa fór á kostum og er nú farin að sleppa kútunum.

Notuðum líka tækifærið og gerðum stórþvott. Mikið var nú gott að komast í sturtu og fá hrein rúmföt eftir útveruna síðustu daga.

Ætluðum að elda kalkún og kengúru í páskamatinn en við vorum svo sein á ferðinn eftir þetta bílavesen að það fór nú svo að börnin fóru í rúmið eftir brauð og jógúrt. Við Maron gerðum okkur svo dýrindis kengúrusalat þegar leið á kvöldið - alltaf gott að borða kvöldmat í rólegheitum endrum og sinnum.


Dagur 25, mánudagur 1. apríl (annar í páskum)

Héldum til bæjarins Yeppoon úti við ströndina þar sem förinni var heitið í lítinn dýragarð (sanctuary eins og heimamenn kalla þessa tegund garða). Þar skoðuðum við ýmis áströlsk dýr - mörg hver sem gengu frjáls um garðinn og tóku fegin við matargjöfum. Sérstaka lukku vöktu auðvitað kengúrurnar - sérstaklega sú með ungann í pokanum.

Verð þó að segja að garðurinn var ekki allt of skemmtilegur enda eitt moldarflag. Ég ætla að gefa mér þá skýringu að hann hafi farið illa í flóðunum sem herjuðu á þetta svæði fyrr í sumar.

Vorum ekki búin að keyra lengi þegar blessað ljósið kviknaði aftur í mælaborðinu .. aarrrgggg...

Bifvélavirkinn var reyndar búinn að vara okkur við því að þetta gæti gerst því hann átti ekki skynjarann sem hann taldi vera bilaðan. Mér skilst að málið snúist frekar um hugbúnaðarvillu í bílnum frekar en bilun og því var ákveðið, í samráði við bílaleiguna, að aka áfram á áfangastað sem að þessu sinni var bærinn Carmila. Þar tjölduðum við við ströndina sem er helst fræg fyrir þær sakir að um einum og hálfum kílómeter munar þar á flóði og fjöru sem leiðir af sér fallegt sjónarspil þegar fjaran nær svo langt sem augað eygir.


Dagur 26, þriðjudagur 2. apríl

Enn logaði blessað ljósið og lítið annað að gera en að koma bílnum á verkstæði. Förinni var því heitið inn til Mackay. Bærinn sá er nú ekki merkilegur enda aðallega byggður í kringum námuiðnað. Þarna í kring eru þó bæði fallegar strendur og regnskógar. En í þessum bæ var þó enginn hörgull á bifvélaverkstæðum og komum við okkur nú fyrir á einu slíku næstu klukkustundirnar. Úti rigndi og við því heldur róleg þó við þyrftum að húka inni í bíl þennan tíma. Sumir lærðu, aðrir unnu og enn aðrir horfðu á mynd.

Í þetta sinn var gert við eitthvað allt annað í bílnum og af stað ókum við. Heimsóttum skemmtilega sundlaug í miðbænum - hálfgerðan sundlaugagarð sem þar hefur verið útbúinn fyrir gesti og gangandi. Þegar komið er svo norðarlega á austurströnd Ástralíu er því miður ekki lengur hægt að synda í sjónum út af krókódílum og mjög hættulegum marglyttum (reyndar aðeins hluta úr ári) og því reyna bæirnir á þessu svæði að útbúa önnur svæði fyrir mannskapinn að synda og kæla sig í. Þetta hentaði okkur mjög vel og var öll fjölskyldan send í sturtu þarna í miðbænum - svona gera atvinnumenn þetta - Tjaldstæði hvað??

Þar sem allir voru nú orðnir hreinir og fínir var lítið annað að gera en að fara með gengið út að borða í miðbænum og fengum við okkur góða steik á Hog's Breath. Vorum orðin heldur seint á ferðinni eftir matinn (og olíu og vatnsáfyllingu) og var brugðið á það ráð að hátta krakkana, tannbursta og leyfa þeim bara að sofna í bílnum sem heppnaðist vonum framar. Ormarnir steinsofnuðu von bráðar og lítið mál var að vippa þeim upp í koju á leiðarenda.

En... haldiði að blessað ljósið hafi látið sjá sig aftur og verð ég nú að segja að þolinmæðin er aðeins að minnka hérna megin.

Norðvestur af Mackay er einn frægasti þjóðgarður Ástralíu Eungella National Park sem helst er frægur fyrir þá staðreynd að þar er talinn vera besti staðurinn til að sjá breiðnefi í villtri náttúru. Við héldum nú út í þennan garð og komum okkur fyrir á fríu tjaldstæði í miðjum skóginum. Komum þarna að í niðamyrkri og þar var ekki fyrr en daginn eftir að við sáum hvað við vorum lent á fallegum stað.


Dagur 27, miðvikudagur 3. apríl

Umhverfið kom okkur skemmtilega á óvart. Þarna vorum við umkringd skógi vöxnum hlíðum og lítill lækur niðaði fyrir aftan tjaldstæðið. Þarna voru meira að segja rólur sem gladdi litla gorma ósegjanlega og gerði morgunstörfin mun auðveldari fyrir foreldrana.

Horfðum fram hjá ljósinu fallega í mælaborðinu og ókum yfir í bæinn Eungella um 70 km. vestar. Bærinn liggur hátt upp í fjallshlíð og þarna fundum við nú vel að við vorum á biluðum bíl og mátti minnstu muna að við yrðum að snúa við á þröngum veginum í snarbröttum fjallshlíðum. Bíllinn komst þó upp á sylluna þar sem bærinn stendur en þar urðum við að kæla hann og var því stoppað í hádegismat. Á eftir ókum við síðasta spottann yfir í þjóðgarðinn þar sem við fórum í göngutúr um regnskóginn, horfðum á skjaldbökur og ála synda í ánni og sáum að lokum hinn margrómaða breiðnef (platypus) sem almennt þykir erfitt að spotta úti í náttúrunni. Breiðnefurinn, ásamt nokkrum tegundum af echidna (líkist helst broddgelti) (sem við höfum reyndar líka rekist á úti í náttúrunni) eru einu spendýrin sem verpa eggjum - svona ykkur til fróðleiks.


Við ókum svo aftur á sama tjaldstæði þar sem við eyddum nóttinni.


Dagur 28, fimmtudagur 4. apríl

Heimsóttum skemmtilega verslun í bænum Calin. Búðin sú hefur verið starfrækt síðan á sjötta áratugnum og þar hefur engu verið hent - dótið stendur bara enn í hillunum ef það hefur ekki selst. Skemmtum okkur konunglega við að skoða innihaldið. Allir leystir út með ís sem borðaður var á leikvelli handan götunnar.

Leiðin lá svo upp til hinna margrómuðu Whitsundays eyja í Kóralrifinu mikla. Ókum í gegnum Airlie Beach en ákváðum að búa um okkur á fallegu tjaldstæði enda næstum búin að "overdósa" á náttúru. Krakkarnir voru líka orðin spennt að komast í skemmtilegan park og voru búin að hafa augastað á þessum.

Urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þessi flottu tjaldstæði eru frekar eins og "resort". Þar sem við erum núna er stór sundlaug með 2 rennibrautum, nudd við laugina, hoppudýna, stór leikvöllur, 18 holu mini golf völlur, tennisvöllur, útibíó, krakkaklúbbur og margt fleira.

Maron var snöggur að nýta rólegheitin - og rafmagnið - og settist við vinnu en við hin brugðum okkur á leikvöllinn og í sundlaugina. Eftir sturtu og mat fóru stelpurnar svo í útibíó þar sem gestir horfðu á Happy Feet 2 undir berum stjörnubjörtum himni.


Dagur 29, föstudagur 5. apríl

Ákváðum að vera annan dag hér í garðinum. Fórum því í afgreiðsluna til að redda því. Fengum líka nýtt armband (börnin fá oft armbönd í görðunum - líklega til að staðfesta að greitt hafi verið fyrir þau) á Magnús Andra sem aldrei náði að fá sitt á hendina í gær. Armbandið fannst hins vegar vel bundið utan um mittið á Barbie dúkku hér í morgun og gaf yngri dóttir mín þá skýringu að dúkkan hafi viljað fara með henni á hoppudýnuna í gær og ekki annað hægt en hafa hana með armband!

Maron fékk tækifæri til að taka áframhaldandi vinnutörn á meðan við hin dóluðum okkur í sundi og fleiru.

Pabbinn fór svo með gormana í minigolf í eftirmiðdaginn svo mamman fengi tíma fyrir sjálfa sig. Þeim tíma var að sjálfsögðu eytt í að þvo tvær vélar og skúra út úr bílnum!! Rétt náði að skella mér í sturtu áður en hersingin kom aftur og við héldum í búðina.

Stelpurnar héldu svo aftur í útibíó. Í kvöld horfðu þær á Brave á meðan þær borðuðu pizzusneið og djús. Smá rigning að stríða þeim í þetta sinn en kósý samt.


... og svona var nú það. Heil vika komin á blað thank you very much. Þið sem náið að lesa til enda megið gjarnan kvitta - það er alltaf skemmtilegra að vita að einhver nenni að lesa :-)

5 Comments:

  • Ég les allaveganna alltaf einu sinni á dag, hvort sem það er komið nýtt eða ekki er alltaf gaman að lesa þetta :) því fleiri gullkorn því betra, ekkert skemmtilegara en að heyra hverju þessi þrjú taka upp á.

    Get ekki beðið eftir 8. maí, síðasta prófið mitt í framhaldsskóla og þið komið heim seinni partinn, kemst líklega í 10 stærstu daga lífs míns :)

    By Anonymous Kristó, at 1:28 AM  

  • Þú heldur mér lifandi í ritgerðarskrifum með drauma ferðasögum, gullkornum og skemmtilegum myndum. Takk fyrir mig og gangi ykkur vel áfram :)

    By Anonymous Sirrý, at 1:58 AM  

  • Þið eruð komin á kunnuglegar skútuslóðir. Kv. KO

    By Anonymous Anonymous, at 1:08 PM  

  • Hér eru líka allir orðnir voða spenntir að sjá ykkur Kristó ;-) 8. maí verður góður dagur ;-)

    Ég fletti upp á gömlu bloggi til að sjá ferðasöguna úr síðustu siglingu um þessar slóðir en sé að ég hef ekki staðið mig nógu vel - ekkert almennilegt logg með ferðaplani, verst maður man varla á hvaða eyjum við fórum í land!

    Takk Sirrý mín og gangi þér vel - er mér ekki boðið í útskriftarveislu bráðum?? ;-)

    By Blogger Unnur Gyda Magnusdottir, at 10:02 PM  

  • Þú ert skemmtilegur penni Unnur og gaman að lesa. Sérstaklega hrifinn af því hvernig gríslingarnir ykkar bregðast við mismunandi aðstæðum á hverjum stað. Þetta er ein heljarinnar atferlisrannsókn ;)

    By Blogger Unknown, at 9:15 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter