Melbourne

Friday, December 09, 2005

Ferðaframhaldssagan, 5. kafli

13. nóvember

Annar afmælisdagur um borð í Zagros. Kristján átti afmæli í dag og byrjuðu fagnaðarlætinu strax með kampavínsmorgunverði!! Urðum nú samt að sitja á honum stóra okkar því kominn var tími til að skila bátnum og halda aftur til Tahiti.

Komum að Sunsail "beisinu" um hádegisbil og skiluðum af okkur bátnum. Starfsmaður Sunsail skutlaði okkur svo á flugvöllinn. Þar sem við skipulögðum okkar ferð hér í Ástralíu en aðrir heima á Fróni vildi ekki betur til en svo að við áttum bókað flug í sitthvoru lagi, með ca. 2 tíma millibili, til Tahiti. Við höfðum reynt að fá þessu breytt en allt var fullbókað. Við tókum þó sénsinn og fórum með hinum á völlinn og freistuðum þess að vera "stand by" en því miður án árangurs. Við sátum því eftir þegar fyrsta vélin fór og sátum í nærri tvo tíma. Þá kom til okkar starfsmaður flugvallarins og spurði hvort við vildum fara með næstu vél.. sem þó átti að millilenda á Bora Bora. Út af millilendingunni hélt ég nú að vélarnar kæmu á sama tíma til Tahiti en starfsmaðurinn laumaði því þá að mér að útlit væri fyrir klukkutíma seinkun á vélinni okkar og við vorum fljót að grípa tækifærið og fara með hinni vélinni. Fengum því eina salibunu til Bora Bora í bónus. Reyndar var gaman að lenda á þeim flugvelli því hann er staðsettur úti í sjó, á litlu motu... svona svipað og ef hugmyndir Hrafns Gunnlaugssonar um flugvöll í Skerjafirðinum næðu fram að ganga.

Thelma Kristín búin að eignast vinkonu á flugvellinum


Gistum á hóteli niðri í Papeete, höfuðborg Frönsku Polynesiu. Eðli málsins samkvæmt var eftir okkur beðið við komuna og eftir eldsnögga sturtu var haldið í afmælisveisluna hans Kristjáns. Þar sem nú var sunnudagur, og flestir veitingastaðir lokaðir, var besti kosturinn í stöðunni að fara á svo kallaða Rúllettu að borða. Rúllettan er í raun margir bílar, svona litir sendiferðabílar, með eldhúsi aftan í sem allir leggja á sama planinu á kvöldin og skella fram plast stólum og borðum. Við vorum nú með smá hnút í maganum eftir allar viðvararnirnar um að fara varlega í matarmálum og helst bara borða á fínum hótelum!! Hingað til hafði þó allur matur verið ferskur og góður þrátt fyrir að hafa prófað allan skalann í búðum og veitingastöðum svo við ákváðum að taka sénsinn. Settumst fyrir utan bíl sem bauð upp á nokkuð breytt úrval af mat (margir bílanna voru frekar "sérhæfðir"). Komust reyndar að því þegar á leið og við fórum að panta fyrir Thelmu Kristínu að maður gat pantað úr hvaða bíl sem var, alveg sama hvar maður sat. Það er skemmst frá því að segja að þetta var mjög skemmtileg reynsla að prófa þetta þó fólk hafi verið mjög misánægt með matinn. Komust öll lifandi frá þessu... og meira að segja án magaverkja.



Röltum um bæinn á eftir, hlustuðum á þessa fínu hljómsveit flytja tónlist á torginu og dáðumst að þvílíku snekkjunni í höfninni. Þetta var eiginlega ekki snekkja heldur skip á stærð við gott varðskip, snekkjan hékk utan á skipinu, ásamt þyrlunni og kafbátnum!! Spurðum öryggisvörð hver ætti gripinn og hann sagðis nú ekki alveg muna hvað hann héti en hann ætti Chelsea!! Roman Abramovich sem sagt mættur í bæinn!! Vorum nú að vonast til að liðið væri með, ætluðum að kasta kveðju á Eið Smára en sáum bara nokkra rússneska háseta á leið í mat.

Það er ekki skútan sem þið sjáið fremst á myndinni, heldur varðskipið á bakvið sem um er að ræða. Við komumst síðar að því að þetta er 5 stærsta snekkja í heimi og heitir Le Grand Bleu. Abramovich á svo líka þá 6 stærstu og 16 stærstu.



Fórum svo tiltölulega snemma upp á hótel enda mæting á flugvöllinn eldsnemma næsta morgun.

14.-15. nóvember

Vorum sem sagt mætt eldsnemma út á flugvöll. Langt ferðalag fyrir höndum. Á leiðinni til Nýja Sjálands var millilent á Cook eyjum, stutt stopp, en nóg til að maður náði að hlaupa í minjagripaverslun og staðfesta komuna!!

Stoppuðum örstutt á Nýja Sjálandi áður en haldið var áfram til Sidney. Þegar þangað kom var kominn eftirmiðdagur 15. nóvember, höfðum tapað einum degi á leiðinni. Sidney tók á móti okkur með roki og grenjandi rigningu. Fórum upp á hótel og skiptum um föt áður en við röltum niður í Darling Harbour og fengum okkur kvöldmat í gömlu seglskipi sem búið var að gera upp. Rigningin var svo mikil að við kvenfólkið tókum leigubíl upp á hótel á eftir og skriðum undir sæng.

16. nóvember

Brrr.. enn rok og rigning þegar við vöknuðum! Ég sem var svo bjartsýn þegar ég pakkaði niður að ég tók bara tvær síðar buxur á Thelmu Kristínu og nú voru þær báðar skítugar. Það hvarflaði ekki að mér að upp úr miðjum nóvember þyrfti hlýfðarfatnað í Sidney enda hitinn 37 gráður í Melbourne daginn áður en við fórum! Ég tók sénsinn og lét dömuna hafa gallapils og peysu en það fór nú svo að við fyrsta mögulega tækifæri fórum við inn í búð og keyptum sokkarbuxur á hana sem voru teknar upp á staðnum!

Eyddum annars deginum í að rölta um borgina og skoða helstu kennileitin. Darling Harbour, Operuhúsið, monorailið, gamla bæinn (the Rocks) o.s.frv. Fórum líka í siglingu um höfnina um eftirmiðdaginn en drifum okkur svo upp á hótel að fá okkur kríu enda höfðu amma og afi boðið dömunni á balletsýningu í Operuhúsinu um kvöldið. Ekki seinna vænna að fara að sinna menningarlegu uppeldi!

Pabbinn hafði hins vegar hug á að sinna annars konar menningu en einmitt þetta kvöld fór fram knattspyrnuleikur Ástrala og Uruguay þar sem keppt var um sæti í heimsmeistarakeppninni. Maron og Kristján brugðu sér því á pöbbinn og fylgdust með leiknum.

Við vorum auðvitað á síðustu stundu á leið á operuna og flautuðum á leigubíl í miklum flýti. Bílstjórinn setti upp grimmdarsvip þegar hann sá okkur og harðneitaði að taka 5 farþega. Kristófer varð því að freista þess að finna annan bíl hið snarasta til að missa ekki af sýningunni. Þó vegalengdin væri ekki löng tók ferðin í óperuhúsið óratíma því aðallega sátum við föst í umferðateppu. Vorum á tímabili að hugsa um að hoppa út úr bílnum og hlaupa síðasta spottann en loksins, 5 mínútum fyrir sýningu, komum við á leiðarenda. Við vorum nú hálfáhyggjufull yfir því að Kristófer myndi ekki ná á réttum tíma, löbbuðum eins hægt og við áttum kost á í von um að hann kæmi á eftir okkur. Svo var þó ekki og við áttum ekki annarra kosta völ en að fara í sætin okkar. Okkur brá hins vegar í brún þegar þangað var komið því þar sat Kristófer, sallarólegur, búinn að bíða eftir okkur niðri, fara á barinn, á snyrtinguna og loks í sætið sitt!!!!!!!!!!!!!! Vorum ekki paránægð með leigubílstjórann okkar - sem að auki hafði rukkað okkur tvöfalt það sem Kiddi var rukkaður!!

En við létum þetta nú ekki spilla sýningunni og skemmtum okkur konunglega. Sáum brot úr verkum Jiri Kylian, balletmeistara. Thelma Kristín sat alveg sallaróleg allan tímann og þóttist hafa mikið vit á því sem fram fór. Hún sagði t.d. mömmu sinn í óspurðum fréttum í upphafsatriðinu, sem var hópdans, að þetta væri sko EKKI ballet! Stuttu seinna þegar aðeins tveir dansarar (karl og kona) voru á sviðinu sagði hún stundarhátt, "mamma, þetta er ballet"!

Eftir sýninguna fengum við okkur léttan kvöldverð á veitingastað þarna rétt hjá. Þegar við vorum á heimleið löbbuðum við framhjá bar sem sýndi leikinn á nokkrum sjónvarpsskjám sem þarna voru. Við litum við og sáum að vítaspyrnukeppni var nýhafin, gátum auðvitað ekki annað en staldrað við og þar vorum á þeirri sögulegu stund þegar Ástralir komust í heimsmeistarkeppnina eftir 30 ára bið!! Þið getið rétt ímyndað ykkur fagnaðarlætin!! Við drifum okkur heim í bólið en Sidney þagnaði ekki það sem eftir lifði nætur.

Nú fer að styttast í sögulök... en framhald í næsta þætti.

Minni á splunkanýjar myndir, m.a. úr ferðinni góðu á http://gallery.transtor.tv Ef þið veljið slide show er hægt að velja uppi hversu lengi hver mynd er á skjánum og hversu stór hún er.

Knús
Unnur

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter