Melbourne

Monday, April 15, 2013

Kóralar og krókódílar

Halló umheimur! Erum búin að vera svo dugleg að planta okkur á hina og þessa staði úti í rassg… (nei ég segi svona) að ég var næstum búin að gleyma því að það sé eitthvað til sem heitir Internet - hefði algerlega gleymt því ef 12 ára dóttir mín hefði ekki séð um að minna mig reglulega á að við séum netsambandslaus ;-)

Sem betur fer hafa regnskógar,  mangó-, banana- og jafnvel ananasakrar blandað sér á milli sykurreyrsins og séð til þess að halda geðheilsunni í sæmilegu lagi. Annars er ég nokkuð hissa á hversu heil á geði við erum öll eftir rúmar 5 vikur í 12 fermetrum (ca. meðal-eldhúsi) með eina gelgju og 2 börn á "Afhverju aldrinum" 24 tíma sólarhringsins. Ég verð að viðurkenna að það kemur fyrir að ég hef áhyggjur af því að hausinn á mér muni springa ef ég heyri "mamma, af hverju" einu sinni enn!

En í gær náðum við þó þeim áfanga að tékka okkur inn á endastöð - Thank you very nice! Erum búin að parkera inni í stórum og flottum park í Cairns og ætlum að eiga hér bækistöð þar til vélin okkar fer í loftið á fimmtudagsmorgun. 

En… hér er dagbókin góða...

Dagur 30, laugardagur 6. apríl

Yfirgáfum tjaldstæðið flotta á Airlie Beach og byrjuðum á því að fara inn í bæinn sjálfan. Það er nú helsti gallinn við þessi flottu tjaldstæði að þau eru yfirleitt mjög illa staðsett og alls ekki í göngufæri við miðbæi og því höfðum við lítið skoðað Airlie Beach. Bærinn er mjög vinsæll ferðamannastaður og hér er sérstaklega mikið af bakpokaferðalöngum. Reyndar var Thelma Kristín búin að gúgla það á sínum tíma að þessi strönd væri með þeim allra bestu í heiminum en ég veit ekki hversu mikið er til í því. 

Veðrið hefur aðeins vera að stríða okkur eftir að náðum upp í hitabeltið en maður skyldi nú ekki láta það koma sér á óvart þar sem rigningartímabilinu lýkur ekki fyrr en í maí. Sólin er því farin í smá frí og yfirleitt gengur á með skúrum en okkur hefur tekist ágætlega að forðast miklar hitabeltisrigningar.


Eftir að hafa rölt um markaðinn á Airlie Beach, fengið okkur hádegisverð í siglingarklúbbnum og synt í manngerðu lóninu sem útbúið hefur verið við ströndina var ferðinni svo haldið áfram.

Ókum út til Convey Beach um hálftíma í burtu því þar var að finna frítt tjaldstæði. Þarna var hins vegar komin grenjandi rigning og því lítið að sjá og við ákváðum að halda ferðinni áfram norður á bóginn. 

Komum til Bowen rétt um sólsetur. Ekki fannst okkur bærinn sérlega spennandi og tjaldstæðin ekki upp á marga fiska. Ég veit ekki hvort við erum orðin svona nísk eða snobbuð en við tímum bara ekki að borga mörg þúsund krónur fyrir tjaldstæði sem ekkert er varið í - rétt til að halla okkur yfir nóttina. Við ákváðum því að halda áfram upp á hraðbraut og koma okkur fyrir á svo kölluðu "Rest area" sem eru svæði sem liggja meðfram öllum hraðbrautum í Ástralíu. Þessi svæði eru útbúin klósettum, grillum, pick nick borðum, ruslatunnum og jafnvel sturtum og leikvöllum og er markmið þeirra að vera hvíldarsvæði fyrir ferðamenn. Þetta eru ekki beint tjaldstæði en enginn amast við því þó fólk stoppi þarna yfir nótt. 

Við höfðum ekki gist áður á svona svæði. Þau "Free camping" sem við höfðum verið á hingað til hafa öll verið betri tjaldsvæði, útbúin af litlum bæjarfélögum með það að augnamiði að laða fólk inn í bæina. Vorum svolítið hrædd um að lítið yrði sofið fyrir umferðarhávaða en við sváfum eins og steinar þrátt fyrir að liggja á milli hraðbrautar og lestarteina.


Dagur 31, sunnudagur 7. apríl

Vorum nú snögg að pakka saman og koma okkur í burtu og ókum sem leið lá inn til Townsville. Þar búa um 150 þúsund manns og því ágætis borg. Eyddum eftirmiðdeginum á "The Strand"  sem er mjög skemmtilegt svæði eftir endilangri ströndinni (rúmir 2 km). Þarna var sundlaug, fullt af leikvöllum og jafnvel vantsleikjagarður.


Eftir birgðaáfyllingu héldum við um 30 km. norður til bæjarins Toomulla sem einmitt býður upp á fría gistingu sem við þáðum með þökkum. Huggulegt svæði við ströndina með leikvelli og öllu tilheyrandi. Ekki hægt að kvarta yfir því. 


Dagur 32, mánudagur 8. apríl

Enn var bíllinn að stríða okkur. Undanfarna daga höfðum við bara látið sem við sæjum ekki blessað ljósið í mælaborðinu en nú var komið að þriðju tilraun til lagfæringar. Ferðinni var því heitið aftur til baka inn til Townsville. Við vorum nú búin að læra af reynslunni svo að eftir hádegismat á Hungry Jacks (Burger King Ástrala) skildi Maron okkur eftir á innileikvelli þar sem við biðjum á meðan gert var við bílinn. …  sem betur fer því viðgerðin tók á fimmta tíma! 

Á eftir fórum við á svipaðar slóðir og nóttina áður en að þessu sinni varð bærinn Bushy Parker Park fyrir valinu. Við komum þangað eftir myrkur og komum okkur fyrir. Þegar við lögðum bílnum og mér varð litið yfir til nágranna okkur hafði ég nú á orði - og hvíslaði samviskusamlega enda segir maður ekki svona - að við værum kannski ekki að velja góðan stað því við hliðina á okkur sat hópur frumbyggja að sumbli. Ég sló svo á eigin tungu og blótaði sjálfri mér fyrir fordómana - ég væri orðin smituð af vestrænum Áströlum sem finnst frumbyggjar vera vandræðapakk upp til hópa! Nú gæti ég haldið langa ræðu um frumbyggja en læt það vera hér en því miður þá er bláköld staðreyndin sú að innan þessa hóps er óvenju mikið um alkóhólisma, vímuefnaneyslu, misnotkum og illa meðferð á börnum og konum. Ég man að þegar við bjuggum hér kom út skýrsla um málefni frumbyggja sem var vægast sagt hræðileg og varð til þess að stjórnvöld bönnuðu sölu áfengis innan frumbyggjaþorpa. Þannig að tölur og staðreyndir segja eina sögu en svo er það auðvitað allt önnur spurning hvað veldur. Við skulum ekki gleyma því að það eru ekki nema rúm 200 ár síðan Vesturlandabúar komu til Ástralíu og yfirtóku land þessa fólks og tóku af þeim börnin til að þau myndu aðlagast vestrænum lifnaðarháttum. Þessi sár eru hreinlega ekki gróin og skyldi kannski engan undra…. en nú er ég langt komin með langloku sem ég ætlaði alls ekki út í …

Eftir að hafa bitið í tunguna á mér og blótað sjálfri mér eigin fordóma fórum við í koma genginu niður við undirspil hópsins við hliðina á sem spilaði sömu 5 lögin aftur og aftur sífellt hærra. Nokkuð var hópurinn farinn að minna á íslensk ungmenni í tjaldútilegu og fór þolinmæðin minnkandi okkar megin. Gormarnir sofnuðu nú samt - enda vakna þau ekki einu sinni þegar gasskynjarinn fer í gang - en okkur hinum gekk illa að sofna. Þegar leið á kvöldið var tónlistin þögnuð en ein konan úr hópnum hljóp um allt tjaldstæði í annarlegu ástandi, argandi og gargandi, blótandi og ragnandi. Þó hún gargaði á ensku áttum við í mesta basli með að skilja hvað konugreyið sagði enda tala margir frumbyggjar allt aðra mállýsku en Ástralir í borgunum. Við gerðum nú góðlátlegt grín að því að konan væri nær náttúrunni en við hin því hún hljómaði nákvæmlega eins og páfagaukur þar sem hún gargaði sig hása og jós svívirðingum yfir þá gesti tjaldstæðisins sem voguðu sér að biðja hana um að hafa hljótt. 

Það fór því að lokum svo, sem betur fer, að einhver hringdi á lögregluna sem kom á vettvang. Lögregluþjónninn talaði við fólkið og róaði en beið svo eftir "back up" og var konan handtekin og komst þá ró á svæðið. Við erum búin að vera á leiðinni á safn til að kynna okkur menningu frumbyggja og hlakka ég mikið til að sjá það. Það er samt þyngra en tárum taki að þessi uppákoma er víst ansi lýsandi fyrir menningu þessa ágæta fólks í dag eftir því sem maður heyrir - þ.e. þeirra sem enn búa í misafskekktum þorpum úti á landi - að sjálfsögðu eru þúsundir frumbyggja sem búa í bæjum og borgum landsins og lifa lífinu eins og "við hin" (og nú verð ég víst að gera alvöru úr að læsa blogginu áður en ég verð hálshöggvin fyrir fordóma gagnvart áströlskum frumbyggjum!).


Dagur 33, þriðjudagur 9. apríl

Þrátt fyrir allt var þetta nú yndislegur staður sem við höfðum parkerað á og hófum við daginn á sundsprett í tærri á sem lá þarna um. Æðislegur staður þar sem hægt var að synda og fylgjast með fiskunum sem syntu þarna með. 

Af stað var svo haldið því það beið okkar löng keyrsla. Ókum áfram norður úr. Stoppuðum hjá ávaxtasala við veginn og líka á bananaakri og fjárfestum í nokkrum ferskum. Það var sérstaklega gaman fyrir Magnús Andra að sjá þarna hvaðan bananarnir koma því barnið væri sjálfsagt dáið úr hungri ef ekki væri fyrir þessa blessuðu ávexti!

Keyrsla dagsins var eftir Cassowari Coast þar sem nokkuð finnst af Cassowari fuglum en þeir eru í nokkurri útrýmingarhættu. Við biðum spennt eftir því að einn myndir ganga yfir götuna (miðað við öll viðvörunarskiltin hlytu þeir að vera úti um allt!) en því miður vorum við ekki svo heppin. Reyndar eru þessi fugl sá hættulegasti í heimi og getur drepið fólk með beittri kló auk þess sem hann sparkar menn niður.
Ókum líka í gegnum Mission Beach sem er mjög fallegur bær en verður að bíða betri tíma. Komum til Innisfail við sólsetur og brugðum á það ráð að sækja kvöldmat fyrir liðið á KFC enda ferðinni heitið á "Rest Area" í annað sinn. Það boðar nefnilega ekki gott þegar maður er að elda seint á fríum tjaldstæðum því það verður óbærilega heitt í bílnum þegar ekki er hægt að kveikja á lofkælingunni á eftir. 

Þetta "Rest Area" reyndist reyndar vera ágætis tjaldsvæði í bænum Babinda sem við hefðum sjálfsagt notið betur ef það hefði ekki hellirignt! 


Dagur 34, miðvikudagur 10. apríl

Tókum því frekar rólega. Í Babandi voru mjög fínar, splunkunýjar sturtur sem gladdi undirritaða ósegjanlega enda var hér um að ræða fjórðu nóttina í "Free Camping". 

En áfram var svo haldið og eyddum við eftirmiðdeginum í grenjandi rigningu í verslunarmiðstöð í Cairns sem endaði með heimsókn á Sushi Train sem börnin höfðum mjög gaman af. 

Í Cairns erum við í raun komin á endapunkt. Héðan fer flugið okkar en þar sem enn var vika í brottför var ákveðið að halda enn norðar og ókum við því sem leið lá upp í fjöllin norð vestur af Cairns þar sem við gistum - enn og aftur í "free camping" - í Mount Molloy.


Dagur 35, fimmtudagur 11. apríl

Ókum aftur niður úr fjöllunum, að þessu sinni í dagsbirtu sem gaf okkur mun betra tækifæri til að fylgjast með ægifögru útsýninu, stoppa, njóta og taka myndir. 

Héldum til bæjarins Port Douglas en þangað höfðum við komið áður og notið vel. Eftir stutt stopp á ströndinni ákváðum við að koma okkur fyrir á tjaldstæði (já, alvöru tjaldstæði sem kostar peninga!) inni í bænum. 


Það var nú svolítið gott að komast aftur í rafmagn og ekki skemmdi fyrir að hér var um lítinn en mjög snyrtilegan park að ræða á æðislegum stað inni í miðbæ Port Douglas. 

Eftir stuttan göngutúr um bæinn skelltum við okkur í laugina og sturtu áður en haldið var út að borða. Fengum okkur létta máltíð á pöbb í bænum aðallega í þeim tilgangi að fylgjast með froskahlaupi sem þar fór fram. 

Thelma var dreginn úr hópi þátttakenda til að keppa og var þetta hin besta skemmtun. Allir keppendur þurftu að taka sinn frosk upp úr fötu, kyssa hann (jebbs, risastórir og viðbjóðslega slímugir froskar) og setja upp á borð. Svo áttu þeir að flauta eins og þeir ættu lífið að leysa í þar til gerðar flautur og fá með því "sinn" frosk til að hreyfa sig í átt niður af borðinu. Þegar þeir stukku af borðinu þurftu keppendur svo að ná þeim og setja aftur í fötuna. Thelma Kristín lenti í vandræðum með flautuna sína og bar að auki ábyrgð á óskaplega lötum froski sem nennti ekki að færa sig fet og fór svo að lokum að hún lenti í 4ða sæti af 6. Maðurinn sem stjórnaði þessu öllu var frábær skemmtikraftur og lá allur salurinn og veinaði úr hlátri yfir þessu öllu saman - Frábær kvöldstund! 


Dagur 36, föstudagur 12. apríl

Leti dagur í Port Douglas. Fundum okkur leikvöll, löbbuðum á ströndinni, dóluðum í sundi, þvoðum þvott og sumir unnu og lærðu. Fórum svo aftur í bæinn um kvöldið og fengum okkur að borða áður en haldið var heim í park. 


Dagur 37, laugardagur 13. apríl

Planið var að keyra aftur suður til Cairns og koma okkur fyrir í stórum og flottum garði sem krakkarnir eru búin að hlakka til að heimsækja í margar vikur. Í Port Douglas spjölluðum við við Dani sem eru hér í svipuðu ferðalagi og við sem mæltu með bæ enn norðar, Cape Tripulation, en lengra kemst maður víst ekki meðfram austurströndinni nema á jeppa. 

Við ákváðum á síðustu stundu að slá til og halda norður (stelpunum, sem varla höfðu sofið af spenningi yfir tjaldstæðinu í Cairns, til lítillar ánægju). Eftir gas og dísil áfyllingu í Mossman var haldið norður í gegnum Daintree regnskóginn sem talinn er elsti regnskógur heims. Til að komast yfir Daintree ánna þurftum við að fara yfir á pramma sem vakti lukku hjá yngstu farþegunum.

Fórum inn í fræðslusetur um Daintree og gengum um skóginn á pöllum, bæði niðri á jörðu og upp á milli trjánna auk þess sem hægt var að klifra upp í turn og horfa yfir. Mjög fræðandi og áhugavert og hefðum við ekki verið með gormana með hefði verið auðvelt að eyða þarna heilum degi með fræðsluna í eyrunum; annars vegar almenna fræðslu um regnskóginn og hins vegar fræðslu frá frumbyggjum um skóginn og hvernig nota má afurðir hans til matar og lækninga.

Komum upp til Cape Tripulation um eftirmiðdaginn og vorum fljót að koma okkur fyrir á afar fallegu, litlu tjaldstæði niðri við strönd. Settumst á ströndina og slökuðum á meðan börnin léku sér í sandinum - ljúft líf! Gáfum svo krökkunum kvöldmat og Thelma Kristín passaði á meðan við settumst á huggulegan pizzustað og bar sem var staðsettur á tjaldsvæðinu. Fengum okkur æðislegar eldbakaðar pizzur - Maron sló meira að segja til og prófaði krókódílapizzuna sem kom verulega á óvart og var hreinasta lostæti.

Dagur 38, sunnudagur 14. apríl

Tókum langan göngutúr á ströndinni með alla hersinguna áður en haldið var suður á bóginn. Ókum svo sem leið lá í átt til Cairns en stoppuðum á leiðinni í Tjapukai menningarsetrinu.

Mikið var nú gaman að sjá þessa hlið á menningu frumbyggjanna. Þarna sýndu þeir okkur hvernig þeir nota hin ýmsu vopn, þ.á m. boomerang, nýta ávexti og jurtir skógarins, dönsuðu fyrir okkur, kenndu okkur að kasta spjótum og boomerang og spila á didgeridoo. Krakkarnir voru máluð að hætti frumbyggja og fengu að mála steina. Við horfðum á flotta leiksýningu byggða á sköpunarsögu Tjapukai auk þess sem einn þeirra hélt frábæra tónleika með didgeridoo. Lítil var að gera á safninu (fyrir utan nokkuð stóran kínverskan hóp sem hljóp þarna í gegn á methraða og gerði sér meira að segja lítið fyrir og gekk út af danssýningunni þegar allir áttu að standa upp til að syngja og dansa - og þeir voru 90% af salnum!) þannig að reynslan var mjög persónuleg enda meira og minna sama fólkið sem stóð fyrir öllum sýningunum og kennslunum. Mikið býr þetta fólk yfir mikilli þekkingu sem má alls ekki glatast. Það var ótrúlega áhugavert að sjá þeirra kort af Ástralíu og skiptingu hennar eftir þjóðflokkum. Seint á 18. öld voru á  milli 350 og 750 þjóðflokkar í landinu og álíka mörg tungumál og mállýskur. Við upphaf 21. aldar eru færri en 150 töluð dags daglega og öll nema um 20 eru í mikilli útrýmingarhættu. Aðeins um 10% þessara tungumála eru töluð af börnum og er það aðallega gert á mjög afskekktum svæðum. Að auki er svo ótrúleg þekking á náttúrunni að glatast eftir því sem yngsta kynslóðin aðlagast vestrænum lifnaðarháttum. Mikið verður nú Ástralía fátækari á eftir ef ekki verður gripið hratt í taumana til að hjálpa til við varðveislu þessarar þekkingar.

Við vorum alveg uppnumin og heilluð eftir þessa heimsókn. Erum búin að fjárfesta í nokkrum boomeröngum sem nú verður kastað af mikilli snilld um hrjóstrugar gresjur Íslands í sumar enda erum við öll orðin nokkuð flink í þessari list - hver veit nema hægt verði að bjarga jólasteikinni með þessum hætti!

Loksins kom svo að því að við ókum inn um hliðið á Big4 garðinum í Cairns og mikil var gleði unga fólksins í bílnum. Foreldrarnir voru hins vegar hálf daprir því okkur fannst svolítið eins og ferðalaginu væri lokið um leið og við lögðum bílnum hér í garðinum enda ekki planið að fara héðan út nema til að skila bílnum af okkur.

Ekki gafst þó færi á að gera mikið meira en hlaupa í létta skoðunarferð um garðinn sem er ansi stór og hefur margoft hlotið verðlaun sem besta tjaldstæði Ástralíu. Hér eru 2 sundlaugar og eitt vatnsland, tvær hoppudýnur, risa leikvöllur, minigolf, útibíó, tennis- og blakvellir, körfuboltavöllur, leikjaherbergi, veitingastaður, búð og fleira. Fljótt var þó komið myrkur og lítið annað að gera en að koma litlum gormum í bólið.

Dagur 39, mánudagur 15. apríl

Síðasti dagurinn á bílnum - honum verður skilað um hádegisbil á morgun. Hreyfðum hann þó ekki neitt og lágum bara í leti hér í garðinum. Sáum loks aftur til sólar en slík gleði hefur ekki hent okkur í um 10 daga og því lítið annað að gera en að liggja á sundlaugarbakkanum á meðan krakkarnir dóluðu í lauginni.

Ekki víst að við fáum tækifæri til að slaka svona á í sólinni aftur í bráð því morgundagurinn fer í að koma okkur fyrir í litlum sumarbústað hér inni í garðinum og skila bílnum og svo eigum við bókaða ferð út í Kóralrif á miðvikudag. Fljúgum svo til Ömmu ríku eldsnemma á fimmtudagsmorgun. "All good things come to an end"  segir einhvers staðar en við örvæntum nú ekki enn því okkar bíða 3 vikur af ævintýrum í Bandaríkjunum og Kanada.



2 Comments:

  • Ég mæti á boomerang mótið í sumar.....golf hvað!!

    By Blogger Ása, at 12:28 AM  

  • Count me in :) haha ég á þrjú boomerang frá því ég heimsótti ykkur um árið og hef aldrei farið út að kasta þeim :O

    Skemmtileg lesning að venju :) Mig er nú farið að hlakka til að fá ykkur heim en það er svo gaman að lesa um ævintýrin að ég sit á mér ;)

    Knús og kramar á línuna ;)

    By Blogger Unknown, at 12:56 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter