Melbourne

Tuesday, March 12, 2013

On the road again...


Jæja, gott fólk… þá er nú best að fara að rífa sig upp og hripa hér nokkrar línur, þó ekki sé nema til þess að halda ferðasögunni okkar til haga því hún er nú þegar farin að skolast til í hausnum á mér þó við séum ekki búin að vera á ferðinni nema í 5 daga. 

Heill mánuður í Elwood flaug hjá allt of hratt. Allt í einu var síðasta vikan runnin upp og við varla búin að gera helminginn af því sem við ætluðum okkur. Planið í Melbourne var nú samt ekki beisið þar sem við erum þegar búin að sjá svo margt þar og upplifa. Mestum tíma var líka - líkt og forðum daga- varið í að fínkemba alla róluvelli í kílómeters radíus með gormana þar sem Maron var við vinnu virku dagana. Helgarnar fóru svo í að kíkja aðeins út fyrir bæinn og hitta vinina hvort sem var heima hjá þeim, okkur, á veitingastað eða á ströndinni  - bara skemmtilegir tímar sem verða varðveittir að eilífu (ok.. nú er ég orðin helst til væmin - en mikið var gaman að hitta þetta fólk aftur). 

Veðrið lék við okkur allan tímann og langt síðan svo margir dagar í febrúar hafa náð yfir 30 stiga hita í Victoríu fylki. Heimamenn náðu ekki upp í nef sér fyrir kæti og flykktust á ströndina daglega þar sem þeir sátu fram á kvöld. Fyrir vikið áttum við þó nokkrar yndislegar stundir með mat og drykk með vinum okkar á ströndinni. Thelma Kristín fékk skautana sína senda til Ástralíu til að slá á herfileg fráhvarfseinkenni. Hún kom sér á æfingar vikulega í nýrri og flottri skautahöll og var alsæl með það. 

Af ferðunum út úr Elwood má helst nefna jarðarberjatínsluferð upp í Yarra Valley sem þó misheppnaðist svolítið því þegar við komum á staðinn var búið að loka fyrir tínslu vegna hita (sem var vel yfir 40 gráður!) en fyrir vikið bauðst okkur fullur pappakassi af ljúffengum jarðarberjum fyrir 5 dollara (.. og dollarar eru sko peningar eins og Magnús Andri benti mér hreykinn á í dag ;-) svo við áttum í mesta basli með að torga herlegheitunum í tæka tíð - og fór samt þó nokkurt magn í frystinn. Þar sem ferðin út á akrana var blásin af var fátt annað í stöðunni en að líta við á góðri vínekru en nóg er til af þeim í þessum ágæta dal. Þar sem Maron greyið var bílstjóri (og sérstaklega þar sem þessa ágætu ferð bar upp á konudag) fékk undirrituð að húka ein við barinn og sötra þar yndislegar veigar á meðan börnin sátu og krítuðu á gólfið. Á eftir var ég svo dregin til að líta á listrænan afrakstur barnanna og fékk þá nett sjokk þar sem Elísa benti mér með dramatískum hætti á sína mynd… eins gott að barnaverndaryfirvöld sáu hana ekki þessa….



Við áttum líka frábæran dag í dýragarðinum í Melbourne og líka á ströndinni í Rosebud á Mornington skaga. Ströndin sú er ein af okkar uppáhalds þar sem mjög er þarna aðgrunnt og því paradís fyrir litla gorma með skóflu og fötu að eyða þar deginum. 

En svo kom að því að við skyldum yfirgefa borgina okkar. Kæruleysið drap okkur næstum því við höfðum hugsað okkur að framlengja íbúðina um tvo daga og fara á sunnudegi í stað föstudags (til að græða auka helgi í Elwood) en komumst þá að því að brottfararhelgin okkar var verslunarmannahelgi Ástrala auk þess sem styttist í Formúluna sem haldin er í næsta hverfi svo það var engin leið að fá íbúðinni framlengt. Þá var í ofboði hringt í húsbílaleiguna sem gat sem betur fer afgreitt bílinn tveimur dögum fyrr en þá stóðum við frammi fyrir næsta vandamáli - næstum öll tjaldsvæði landsins eru fullbókuð þessa helgi. Eftir nokkra umhugsun var þó ákveðið að leggja bara í  hann og taka Íslendinginn á þetta - "þetta reddast"! og viti menn - þetta reddaðist! 

Og hefst því hér með formleg ferðasaga í bundnu máli… eða næstum því sko… Ég ætla samt að reyna að setja þetta frekar skipulega upp til að forðast of mikla upptalningu á bæjum og borgum. Markmiðið er svo að sjálfsögðu að vera ógisslega dugleg að blogga og setja helst daglega inn fréttir dagsins svo hægt sé að fylgjast með okkur því það er mjög misjafnt á milli daga hversu gott sambandið við umheiminn er. 

Dagur 1, föstudagur 8. mars. 

Við þurftum að vera komin til að sækja húsbílinn í útjaðri Melbourne klukkan 10 að morgni. Þangað er um 45 mín. keyrsla og að sjálfsögðu þurfti að tékka út úr íbúðinni líka. Ykkur finnst þetta kannski ekki merkilegt en ég og mín fjölskylda erum nú ekki fræg fyrir að vera snör í snúningum svo þetta var ágætis áskorun fyrir okkur. Það kom okkur því skemmtilega á óvart að við skyldum vera komin inn í leigubíl tímanlega klukkan 9:15 með allt liðið baðað og satt og allan farangur á sínum stað - þokkalegt afrek það. 

Það tók svo ekki nema fjórar klukkustundir að fá bílinn afhentan. Fyrst þurfti að fara yfir öll atriði; prakíst sem og lögfræðileg, borga og fá klukktíma kennslu á tryllitækið. Að því búnu þurftum við að taka úr töskunum og raða inn í bíl og gera okkur ferðbúin. Börnin mín mega eiga það að þau stóðu sig eins og hetjur og héldu væli, rifrildum og öskrum í lágmarki þannig að hausinn var á okkur öllum á eftir (sem betur fer lágu matarpokarnir okkar við bílinn svo það var auðvelt að múta og róa með ýmsu góðgæti!). Eftir síðbúinn hádegisverð á Magga Dóna ókum við svo sem leið lá út úr bænum. Við gerðum síðustu tilraun og hringdum í upplýsingar á því svæði sem við keyrðum í áttina að til að athuga hvort eitthvað hefði losnað á tjaldsvæðunum á síðustu stundu og fengum þá upplýsingar um eitt laust pláss sem við vorum fljót að tryggja okkur þó það væri nú ekki nema rúmlega klukkustundarakstur í burtu. En þá vorum við alla vega komin af stað og það var fyrir öllu. 

Fyrsta stopp var sem sagt í bænum Wonthaggi suðaustur af Melbourne. Þar fengum við pláss á litlu tjaldsvæði sem þó samanstóð aðallega af lítilli sumarbústaðabyggð. Fínt að byrja þar ferðina, fylla á birgðir og læra á bílinn. Það þurfti aðeins að kenna gormunum að sofna í sama rúminu í sama herbergi og við hin sitjum í - þessi þjálfun er enn í gangi en mjakast þó í rétta átt. 

Dagur 2, laugardagur 9. mars

Planið var að fara suður til Wilson's Promontory en þann stað hafði okkur alltaf langað að heimsækja aftur eftir mjög stutt stopp þar forðum daga. Gallinn var hins vegar sá að "The Prom" er líklega vinsælasti áfangastaður heimamanna í útilegu og þar sem hér var um verslunarmannahelgi að ræða var ekki séns að fá tjaldsvæði í nágrenninu og var okkur líka tjáð að öll umferð um skagann væri mjög hæg þessa helgi og fór því svo að lokum að við lögðum ekki í þennan krók í þetta sinn. Geymum bara Wilson's Prom þar til næst 

Við héldum því sem leið lá meðfram ströndinni. Stoppuðum aðeins í Port Albert þar sem stelpurnar röltu niður á strönd. Ekki leið þó á löngu þar til þær kölluðu á okkur að koma og sjá. Þegar nær dró sáum við það sem vakið hafði athygli þeirra - sandurinn iðaði bókstaflega því þúsundir lítilli krabba hlupu þar um. Það var hreinlega varla hægt að stíga niður fæti án þess að stíga á krabba sem þó voru nú fljótir að grafa sér holu í sandinn þegar þeim var ógnað.

Við vorum heldur óviss um næturstað þessa nótt því allt var fullbókað. Þeir sem taka svona vel úbúna húsbíla á leigu (eða eiga þá) eru auk þess í smá "dilemmu" því við þurfum alls ekki á tjaldvæðunum að halda. Við erum með klósett, sturtu og fullbúið eldhús. Rafmagn og vatn sem endist í tvo daga (og er hægt að fylla á á næstu bensínstöð)… það er því svolítið súrt að þurfa að punga út mörgþúsund krónum daglega í tjaldstæði sem maður þarf ekki á að halda og er því mikil leit í gangi hér að fríum stöðum til að stoppa á.  Ýmsir hafa verið að safna þessum upplýsingum og selja eða láta á netið en svo virðist sem fylgst sé með því (af eigendum tjaldsvæða sem láta bæjaryfirvöld vita) og þegar komið er á þessa staði blasir við okkur "no camping" skilti. 

En þetta var smá útúrdúr… við höfðum sem sagt hug á að athuga frítt tjaldstæði á McLoughlins Beach og héldum þangað. Náðum reyndar aldrei alla leið því við sáum að fólk hafði tjaldað þarna niðri við bryggju, héldum að þetta væri plássið og lögðum til atlögu. Þau sögðust þá hafa farið að téðu tjaldstæði en þar væri allt stútfullt og því hefðu þau brugðið á það ráð að tjalda á þessum grasbala. Við vorum fljót að fara að þeirra dæmi og komum okkur þarna vel fyrir. Skemmtilegur staður þar sem hægt var að veiða krabba í fjöruborðinu sem dætrum mínum þótti ekki leiðinlegt. 

...Jidúddamía...nú verð ég bara að gera hlé á sögunni því klukkan er orðin svo margt hérna megin... framhald í næsta þætti ;-)

1 Comments:

  • Ohhh þú bjargar deginum elsku vinkona meðan ég sit og mygla á Bókhlöðunni. Hlakka til að heyra meira frá ykkur og sjá myndir.
    Kossar og knús á ykkur :)

    By Anonymous Sirrý, at 2:31 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter