Melbourne

Saturday, March 30, 2013

Show must go on...


Dagur 17, sunnudagur 24. mars

Héldum sem leið lá fótgangandi í Wet'n Wild vatnsrennibrautagarðinn. Þetta er ansi stór og flottur garður og skemmtum við okkur konunglega fram eftir degi. 

Tveir hlutir sem ég verð að fá að nöldra yfir samt… Númer eitt.. Mikið óskaplega fer í taugarnar á mér þegar fólk kemst upp með að setja handklæði á bekk og eiga þar með bekkinn það sem eftir lifir dags..argggg! Þetta fer nú almennt í taugarnar á mér á sólarströndum en í vatnsrennibrautagarði - Come on! 100% bekkja með handklæði á og ca. 3% í notkun. Hvernig í ósköpunum eigum við að kenna börnunum okkar að skiptast á og deila með hinum á meðan við högum okkur svona sjálf? Ég var mjög ánægð með hótelið okkar á Bali sem var með skýrar reglur um að ef handklæði væru óhreyfð á bekk í hálftíma yrðu þau fjarlægð - hversu einfalt er það? (starfsfólk þarf ekki einu sinn að framfylgja þessu - það dugar að setja regluna og gestir geta sjálfir fylgst með bekkjunum í kringum sig og lagt handklæðin til hliðar eftir ákveðinn tíma)

Nöldur númer tvö - Af hverju þurfa barnasvæði í vatnsgörðum alltaf að hafa þessa blessuðu fötu sem safnar vatni og svo hellist úr henni yfir allt heila klabbið? Auk þess eru alltaf punktar þar sem kalt vatn gusast yfir allt og alla. Ekki finnst okkur þægilegt að láta hella yfir okkur köldu vatni og ég efast um að við færum oft í þá vatnsrennibraut þar sem stöðugt væri verið að sprauta köldu vatni á hausinn á okkur. Af hverju heldur fólk þá að börnunum okkar finnist þetta gaman? Magnús Andri harðneitar að fara inn í þessi leiksvæði af því hann vill ekki láta sprauta köldu vatni í augun á sér og ég lái honum bara ekki neitt.. bara skil ekki þessa áráttu?

Jæja, búin að hella úr þessum skálum. Nú get ég haldið áfram með söguna…

Við vorum búin að sjá dökk ský á himni í kringum okkur allan daginn en létum það ekki á okkur fá á meðan sólin skein á okkur. Um fjögur leytið voru óveðursskýin hins vegar orðin heldur ógnandi og fór að lokum svo að öllum garðinum var lokað fyrirvaralaust á meðan veðrið gengi yfir - enda hæðstu turnarnir ansi háir og kannski ekki bestu staðirnir að halda sig í þrumum og eldingum. Það vildi nú þannig til að við sátum einmitt í skjóli og vorum að klára ísinn okkar þegar þetta gerðist og planið var upphaflega að halda þar kyrru fyrir og bíða af okkur storminn. Eftir nokkrar bollalengingar ákváðum við þó að láta slag standa og freista þess að hlaupa heim áður en herlegheitin skyllu á þar sem við höfðum áhyggjur af opnum gluggum á bílnum og þvotti á snúrum auk þess sem gönguleiðin lá yfir graslendi sem yrði líklega orðið eitt leðjusvað ef við biðum. Þið hefðuð átt að sjá okkur þar sem við hlupum eins og fætur toguðu um 2 km leið heim í bíl með óveðurskýin á hælunum. Maron og Magnús hlupu aðeins hraðar en við Elísa og mátti minnstu muna að þeir næðu að hlaupa með rigninguna á hælunum alla leiðina en við stelpurnar urðum heldur blautar síðasta spottann. Það var þó ekkert miðað við það sem á eftir kom því þvílíka hellidembu hef ég sjaldan séð með tilheyrandi þrumum og eldingum. Á sama tíma kom myrkrið og hundruðir leðurblaka sveimuðu um himininn. Þetta var því heldur tilkomumikil sjón en mikið vorum við nú fegin að hafa drifið okkur af stað heim! 

Wet'n Wild stóð því svo sannarlega undir nafni þennan dag ;-)

Dagur 18, mánudagur 25. mars

Eftir snöggan endi á vatnsrennibrautunum í gær vorum við ekki komin með nóg og skelltum okkur bara aftur (enda búin að festa kaup á 5 daga passa). Veðrið var æðislegt og miklu færra fólk í garðinum. Vorum búin að eyða þarna öllum deginum áður en við vissum af. Skemmtilegast fannst okkur að fara í "bátarennibrautina" sem var með stórum kútum sem við sátum í og hentaði vel fyrir alla fjölskylduna. 

Elísa, sem hefur alltaf verið heldur vatnshrædd, er öll að koma til og var ekki búin að fá nóg af vatni þegar við komum heim og vildi ólm skella sér í sundlaugina á tjaldsvæðinu. Gerðum það og daman var voða dugleg að æfa sig að synda. Magnús, sem telur sig stundum geta allt sem stóra systir getur varð samstundis sannfærður um að hann kynni nú líka að synda og þyrfti sko ekki kút. Áður en við vissum af var kappinn búinn að hoppa út í djúpu og sökk þar að sjálfsögðu beina leið til botns. Þetta endurtók hann nokkrum sinnum áður en hann sannfærðist um að hann væri nú kannski enn þá ósyndur. Eins gott að hafa augu á gorminum á meðan hann er með þessa flugu í hausnum!.

Dagur 19, þriðjudagur 26. mars

"Erum við að fara aftur í tivoli í dag?" spurði Maggi í forundran þegar við vorum að hafa okkur til um morguninn og kannski ekki furða því þessi tilvoli törn er nú líklega eitthvað sem seint verður endurtekið. Krakkarnir byrjuðu nú reyndar á að fá lánaða hjólabíla á tjaldsvæðinu en sú leiga var innifalin í pakkanum sem við keyptum þar. 

Reyndar var veruleikinn búinn að banka upp á hjá Maroni og var hann heima við vinnu á meðan við röltum okkur aftur út í Movie World þar sem við dvöldum fram eftir degi. Maron kom svo og hitti okkur aðeins í eftirmiðdaginn svo við Thelma gætum farið í stóru tækin á meðan hann sá um gormana.

Um kvöldið bauð tjaldsvæðið svo gestum i grillaðar pylsur sem við þáðum með þökkum og á eftir skellti Elísa sér aftur í laugina á meðan mamman sat á bakkanum og horfði á.

Dagur 20, miðvikudagur 27. mars

Pökkuðum saman dótinu okkar og héldum af stað í Sea World; þriðja garðinn í pakkanum okkar. Áttum í smá basli með að komast þangað þó leiðin væru nú ekki mjög löng enda alls staðar vegaframkvæmdir og umferðarhraðinn í samræmi við það. Vorum við það að verða bensínlaus og urðum að gera dauðaleit að bensínstöð þó að við værum inni miðjum bæ og var klukkan að nálgast hádegi þegar við náðum áfangastað. 

Maron sat svo í bílnum á stæðinu við Sea World á meðan vð hin fórum inn í garðinn og eyddum þar eftirmiðdeginum. Margir voru búnir að segja okkur að þessi garður væri sístur þeirra þriggja og væntingarnar hjá okkur ekki miklar. Urðum því ekki fyrir vonbrigðum þar sem við skoðuðum mörgæsir, ísbirni (í 30 gráðu hita!! greyin!), höfrunga, seli og sæljón. Krakkarnir fóru líka á Dóru sýningu og fengu að hitta Diego - það sem Maggi var spenntur að hitta þetta átrúnaðargoð. Atvinnuljósmyndarinn á svæðinu gafst meira að segja upp á að ná mynd af þeim félögum því Magnús fékkst ekki til að hætta að hoppa! 

Þegar garðurinn lokaði klukkan fimm drifum við okkur svo út í bíl til Marons og ókum beina leið fram hjá Brisbane og upp til Mooloolaba. Þarna var Maron með annan fótinn þegar bið bjuggum í Melbourne og við Thelma höfðum fylgt honum þangað nokkrum sinnum. Fallegur bær og gott að koma þangað aftur. 

Vorum komin á áfangastað um átta leytið og drifum okkur út að borða. Gengum beint inn á mexíkanskan stað sem við höfum áður farið á en þar horfði þjónninn á okkur eins og við kæmum frá annarri plánetu þegar hann tilkynnti að búið væri að loka eldhúsinu. Við spurðum hvort hann vissi um einhvern annan stað þar sem enn væri opið (NB við erum að tala um miðbæinn á ferðamannbæ þar sem veitingastaðir liggja hlið við hlið eftir ströndinni) og hann svaraði með þjósti "Ekki á þessum tíma sólarhringsins"!! Okkur leið eins og við hefðum farið út með 3 börn í miðnætursnarl gegn betri vitund! Sem betur fer fundum við þó kósý ítalskan stað sem gat reddað okkur pizzum og var því kvöldinu bjargað.

Ég hef nú aldrei verið fylgjandi því að við tökum upp á því að færa klukkuna upp á Íslandi yfir sumartímann en ég finn það mjög greinilega hér hvað það gerir gott. Hér í Queensland er komið niðamyrkur um sex leytið sem er bara allt of snemmt. Manni finnst eins og það sé komin hánótt upp úr níu! Það munar ótrúlega um þennan klukkutíma í björtu sem fólk fær í New South Wales og Victoriu fylkjum og ég gæfi mikið fyrir að hafa hann áfram hér.

Dagur 21, fimmtudagur 28. mars (Skírdagur)

Eftir göngutúr um bæinn og léttan hádegismat settist Maron við vinnu og við hin röltum okkur niður á strönd þar sem við eyddum eftirmiðdeginum. Parkeruðum okkur óvart beint fyrir framan æfingasvæði lífvarðanna í Mooloolaba og skemmtum okkur ágætlega við að fylgjast með þessu vaska unga fólki við æfingar á brettum, bátum og fjórhjólum.

Í framhaldi af því sem ég var að tala um með klukkuna… Þar sem ströndin hér snýr í austur og sólin hnígur, eðli málsins samkvæmt, til viðar í vestri þá er sólin komin á bak við hús upp úr klukkan fjögur!! Skugga lagði hratt yfir ströndina um hálf fimm og allir tóku saman og fóru heim. Við vorum því heldur fyrr á ferðinni þetta kvöld. Eftir góða sturtu og kvöldverð röltum við inn í bæ þar sem búið var að lofa krökkunum frosinni jógúrt í eftirrétt. Vorum búin að sjá þar ótrúlega flottan og girnilegan stað sem stóðst fyllilega væntingar. 

Nú eru allir skólar landsins búnir að ljúka fyrstu önn ársins og tveggja vikna frí hafið. Það verður því flóknara og dýrara að leigja tjaldstæði næstu dagana og ákváðum við eftir nokkurt japl og jaml að panta okkur ekki pláss um páskana því við viljum ekki binda okkur í 4 nætur á sama stað (algeng lágmarksdvöld yfir páskahelgina). Okkar bíða nefnilega nokkrir keyrsludagar næstu dagana enda planið að komast upp í kóralrif fyrir miðja næstu viku....

... og frá því verður sagt í næsta þætti ...




Sunday, March 24, 2013

Á sandölum og ermalausum bol...

Dagur 13, miðvikudagur 20. mars

Ókum sem leið lá í gegnum sykurakra, regnskóga og bananaekrur upp til Byron Bay í norðurhluta New South Wales. Byron Bay er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Ástrala og er það skiljanlegt því hér er að ferðinni mjög skemmtilegur bær með frábærum ströndum og líflegum miðbæ.

Komum okkur fyrir á látlausu tjaldstæði inni í miðbænum og hófum dvölina á stuttum göngutúr um bæinn til að skoða okkur um og kaupa í matinn. Veðrið, sem hingar til hefur leikið við okkur, hefur aðeins verið að stríða okkur undanfarna daga og þarna gekk á með skúrum. Við héldum því fljótt til baka og höfðum hægt um okkur inni í bíl, elduðum mat, lærðum, spiluðum, unnum og lásum.

Dagur 14, fimmtudagur 21. mars

Vinnudagur hjá Maroni. Við gormarnir fengum okkur göngutúr inn í bæ, röltum í búðir og lékum okkur á leikvelli. Eftir hádegismat fórum við niður á strönd með fötur og skóflur og eyddum þar eftirmiðdeginum við sandkastalagerð (sumir smíðuðu reyndar klósett og aðrir krókódíla). Sandurinn var svo mjúkur að það ískraði í honum þegar við gengum á honum, líkt og gengið væri á kartöflumjöli. Eftir rigningu næturinnar var hann líka mátulega blautur og því var æðislegt að leika með hann - meira eins og við værum að leira en moka.

Maron átti fund í bænum seint um eftirmiðdaginn svo við hin skelltum okkur í góða sturtu og gerðum okkur fín áður en við röltum inn í bæ og fengum okkur að borða á Hog's Breath veitingastaðnum en sú keðja er í uppáhaldi hjá okkur. Maron hitti okkur svo þar eftir fundinn sinn og á eftir röltum við um bæinn sem var mjög gaman enda óvenju líflegur miðbær á ferðinni.

Byron Bay er líka frægur fyrir að vera party staður unga fólksins. Þegar við sátum á ströndinni fyrr um daginn var nokkuð um að verið væri að dreifa armböndum til fólks þar sem boðið var upp á tilboð á börum og klúbbum bæjarins. Ég hef greinilega ekki þótt mjög líkleg til þess að mála bæinn rauðan því enginn bauð mér svona armband þar sem ég sat með skóflu og bjó til bílagöng í sandinn :-(  Þó er ekki öll von úti því ung kona nálgaðist mig í bænum og rétti mér miða þar sem boðið var upp á barnapíuþjónustu. Gott og blessað en seint mun ég nú senda börnin mín í pössun hjá ókunnugri manneskju sem réttir mér miða úti á götu :-/

Dagur 15, föstudagur 22. mars. 

Pökkuðum saman og vorum komin af stað fyrir klukkan tíu. Ókum upp að fallegum vita sem er táknmynd Byron Bay en vorum komin í heldur miklar ógöngur á húsbílnum á þröngum, hallandi vegum upp á hæð þar sem var mikil umferð bæði bíla og gangandi vegfaranda og hvergi hægt að leggja. Snerum við við fyrsta tækifæri og kvöddum Byron Bay.

Héldum örlítið norðar yfir fylkjamörkin til Queensland upp á Gold Coast - Benidorm Ástralíu. Stoppuðum og versluðum og fórum inn til Surfer's Paradise (vinsælasta ferðamannabæjarins) til að komast í banka. Borðuðum hádegismat úti í vegkanti á meðan Maron hljóp inn í banka (var ég búin að segja ykkur í dag hvað þetta er þægilegur ferðamáti með  börn??!!)

Thelma Kristín var búin að liggja á Netinu og finna handa okkur flott tjaldstæði á góðu verði rétt við helstu skemmtigarðana. Á Gold Coast er að finna stærstu tivolí og vatnsrennibrautagarða landsins og Thelma Kristín búin að hlakka til að komast hingað síðan áður en lagt var af stað frá Melbourne. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum með valið hjá skvísunni því hér er að finna rosalega flott tjaldstæði með æðislegri sundlaug með rennibraut og sundlaugabar og meira að segja heitum potti (sem maður sér mjög sjaldan hérlendis en gladdi mömmuna mikið).

Tókum því svo rólega, skelltum okkur í sund og settum börnin snemma í rúmið. Fengum þá ákvörðum aðeins í hausinn því Maron mundi allt í einu eftir því rétt eftir að þau voru komin upp í um átta leytið að yfirvöld í Queensland fylki sjá engan tilgang með því að færa klukkuna fram á sumrin og því er fylkið klukkustund á eftir New South Wales og Victoriu þó það liggi heldur austar ef eitthvað er. Klukkan var því ekki nema sjö þegar krakkagreyin voru send í rúmið - sem skilaði sér að sjálfsögðu í ræsi klukkan sex næsta morgun!

Gamla settið hafði því nægan tíma til að elda Peking önd og sötra hvítvín. Fengum okkur meira að segja göngutúr um tjaldsvæðið í þeirri trú að við gætum fengið okkur drykk á barnum en þegar þangað var komið um 10 leytið var allt lokað og læst og allir farnir að sofa!

Dagur 16, laugardagur 23. mars

Langþráður dagur upp runninn. Loksins komið að því að heimsækja skemmtigarða Gold Coast. Fjárfestum í pakka sem veitir okkur aðgang að þremur görðum í 5 daga: Warner Bros Movie World, Wet'n Wild vatnsrennibrautagarðinum og Sea World.

Tjaldsvæðið er í göngufjarlægð við tvo stærstu garðana sem er mjög hentugt því búið var að vara okkur við því að þjófar herji á húsbíla við garðana enda vita þeir vel að þarna leggur fólk sem ætlar sér að vera í burtu í nokkra tíma og því gott tækifæri til að láta greipar sópa. Við gengum því sem leið lá út í Movie World þar sem við eyddum deginum í rússibönum, hringekjum og öðru skemmtilegu.

Elísa er alger ofurhugi og vill helst fara í öll tæki en það sama verður seint sagt um bróður hennar. Okkur tókst þó eftir miklar fortölur og hótanir að sannfæra hann um að fara í pinkulítinn fallturn en hann var þó mjög ánægður með sig eftir á og vildi helst hvergi annars staðar vera. Ég gerði heiðarlega tilraun til að fá hann með okkur lítinn rússibana en varð frá að hverfa þó við værum sest í tækið því hann gargaði af öllum lífs og sálarkröftum. Elísa greyið var of lítil til að fara ein og fékk far með ókunnugri fjölskyldu sem ættleiddi hana í 5 mínútur.

Á meðan þessu stóð hlupu Thelma Kristín og Maron í stóru tækin - sum hver svo rosaleg að þau voru á mörkum þægindarammans.

Fengum okkur svo sundsprett þegar heim var komið - eða krakkarnir og pabbinn fengu sér sundsprett og mamman sat á barnum og sötraði einn kaldan - er það ekki þannig sem lífið á að vera?

Ég er loksins búin að setja inn fleiri myndir á Facebook. Þær eru í albúmi hjá mér sem heitir Elwood og eru reyndar bara frá tímanum okkar þar. Næsta verkefni er svo að setja inn húsbílamyndir - kemst vonandi í það á næstu dögum.

Yfir og út

Tuesday, March 19, 2013

Lognið á undan storminum

Síðustu dagar hafa verið heldur rólegir hjá fjölskyldunni. Lítil keyrsla og mikil rólegheit á flottum tjaldstæðum bæði á South West Rocks og líka í Coffs Harbour þar sem við dveljum nú. En.. for the record... hér er dagbókin.

Dagur 9,  laugardagur 16. mars

Við krakkarnir skelltum okkur beint í ískalda laugina eftir morgunmatinn. Stelpurnar láta sig hafa flest en hjartað í Magnúsi Andra hefur aðeins minnkað með aldrinum og hann er hálf smeykur við vatnið - eitthvað að vinna í á næstu vikum.

Eftir sturtu og hádegismat fóru stelpurnar með vinum sínum í mini golf á meðan við Maggi dóluðum okkur. Maron hélt með vini sínum til veiða en heppnin var nú ekki með þeim í þetta sinn þó að þeir hafi bæði séð skjaldböku, höfrunga og flugfisk. Eftirmiðdeginum var varið í algerum rólegheitum í rjómablíðu. Skoðuðum róluvelli, inni- og úti leikherbergi, spiluðum mini golf og stelpurnar fóru aftur í sund. Grilluðum svo saman fjölskyldurnar (ekki fisk þó :-/) og uppskar ég einhver þau herfilegustu flugnabit sem ég hef fengið (og kalla ég þó ekki allt ömmu mína í þeim efnum og hef reynt ýmislegt um dagana) með tvöföldum ökkla og rist - og tilheyrandi kláða!!

Á meðan við sátum í fordrykk stökk hópur kengúra upp að tjaldinu og dvaldi þar nokkra stund við grasát áður en þær stukku á braut. Þetta tilheyrir nú reyndar almennt hér að þessi yndislegu dýr stytta sér oft leið í gegnum tjaldsvæðin, gestum til mikillar gleði.


Dagur 10, sunnudagur 17. mars

Allir tilbúnir til brottfarar um 10 leytið eins og lög gera ráð fyrir. Við kvöddum vinina sem héldu aftur suður á bóginn en vorum heldur óákveðin í okkar plönum. Við erum núna búin að aka svo greitt frá Melbourne að við getum leyft okkur að hægja verulega á og stoppa jafnvel nokkra daga í sama staðnum. Ætlunin var að aka til Byron Bay sem er staðsett langleiðina norður til Brisbane en okkur snerist hugur og fórum við aðeins um klukkutíma akstur norður til Coffs Harbour og plöntuðum okkur þar á huggulegu tjaldsvæði með flottri barnalaug eftir að hafa fengið okkur síðbúinn hádegisverð og fyllt á birgðirnar.

Við erum búin að læra það að ef maður gistir 3 nætur á sama stað fer verðið oft niður í skikkanlegar tölur og því oft ágætt að stoppa í 3 nætur og taka svo góðan keyrsludag á milli. Því var ákveðið að dvelja í Coffs Harbour í 3 nætur - ég myndi dóla mér hér í bænum með krakkana á meðan Maron tæki vinnutörn áður en haldið yrði norðar.

Rólegheitin á tjaldvæðunum hér hafa komið okkur í ástralskan gír og eru krakkarnir yfirleitt komnir upp í rúm fyrir klukkan átta - og auðvitað á lappir um sjö en það er bara hið besta mál.

Dagur 11, mánudagur 18. mars

Við krakkarnir fengum okkur göngutúr niður á strönd og ætluðum okkur að rölta inn í bæ. Það fór nú ekki betur en svo að áttin sem ég var sannfærð um að myndi bera okkur inn í bæ gerði hið gagnstæða og við vorum næstum komin út í óbyggðir áður en ég hafði vit á því að draga upp símann og opna Google Maps! Röltum til baka og fengum okkur hádegismat á lókal pöbbnum sem var alveg ágætur.

Fengum okkur svo sundsprett í eftirmiðdaginn - eða stelpurnar fengu sér sundsprett réttara sagt. Laugin hér er ofsalega flott en ííííssssköld svo mamman sat í rólegheitum á bakkanum og Maggi dólaði sér í barnalauginni án þess þó að bleyta sig of mikið.

Týpísk rólegheita rútína um eftirmiðdag og kvöld - sturtur, kvöldmatur og náttföt fyrir gormana. Við hin sitjum svo í rólegheitum; vinnum, lærum, spilum og höngum í tölvunni.

Dagur 12, þriðjudagur 19. mars

Mamman og gormarnir gengu út á Muttonbird Island sem er eyja sem tengist Coffs Harbour með litlu eyði og býr um leið til fallega og skjólgóða höfn fyrir bæinn.


Eftir hádegismat var svo haldið í laugina góðu þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti fram eftir degi. Rólegheitadagur á meðan pabbinn sat við vinnu. Góður undirbúningur fyrir keyrslu morgundagsins.

Verkefni næsta rólega kvölds hjá undirritaðri er að taka saman og sortera þær hundruðir mynda sem sitja á hinum ýmsu myndavélum og símum hjá okkur og henda inn einu eða tveimur albúmum á Facebook - þið fylgist með þar ef þið viljið kíkja - og Ása mín .. það verða nóg að myndum af rólóvölllum :-)

Friday, March 15, 2013

Framhaldssagan mikla...

jæja, áfram með smjörið...

Dagur 3, sunnudagur 10. mars

Pökkuðum saman og héldum á braut. Ferðinni var heitið til Lakes Entrance, fallegs sumarleyfisbæjar austarlega í Victoriu fylki þar sem eru miklir árósar og höfn sem var mikilvæg hér áður fyrr.

Stoppuðum í bænum Sale í Gippsland og keyptum í matinn.  Fengum okkur svo hádegismat á við rólóvöll í bænum. Ég verð að segja að þessi ferðamáti er betri en ég átti von á fyrir barnafólk. Ég átti algerlega von á að fá netta innilokunarkennd eftir nokkra daga, grípa um hausinn og hugsa "sex vikur... hvað í ands.. er ég búin að koma mér í" en það örlar ekki á þeirri tilfinningu enn. Að geta stoppað við næsta rólóvöll (og það er sko nóg af þeim í Ástralíu) og horft út úm gluggann á krakkana leika á meðan ég útbý léttan hádegisverð er einfaldlega þægilegasti ferðamáti sem ég hef prófað. Við höfum líka upplifað það að vera á hraðferð og gefa liðinu léttan bita á meðan pabbinn dælir bensíni og fyllir á vatn. Þessar 5 mínútur voru alveg nóg til að brjóta upp stemninguna, róa magann, leyfa krökkunum að standa aðeins upp og allir voru  klárir í klukkutíma enn í bílnum - alger snilld!

..en áfram með söguna...

Komum inn til Lakes Entrance um miðan dag. Aðkoman að bænum var ótrúlega falleg og vel skiljanlegt af hverju íbúar Victoriu fylkis velja þennan bæ sem einn af sínum uppáhalds sumarleyfisstöðum.

Enn var verslunarmannahelgi en við vorum nógu heppin til að fá pláss á ágætis tjaldsvæði inni í bænum. Eftir sundsprett (mörg tjaldsvæði eru með litlum sundlaugum) og góða sturtu ákváðum við að gera vel við okkur og skella okkur út að borða. Fórum á mjög góðan og huggulegan sjávarréttastað og nutum kvöldsins. Meira að segja ormarnir mínur höguðu sér þokkalega og við gengum skammlaust út af staðnum ;-)

Dagur 4, mánudagur 11. mars

Ætlunin að ganga út á Ninety Mile Beach en hluti hennar er rifið sem þið sjáið hægra megin á myndinni til vinstri en þvi miður runnum við út á tíma og náðum því ekki. Oftast þarf að tékka sig hér úr af tjaldstæðnum fyrir klukkan 10 á morgnana sem er hálf hallærislegt því maður nær ekkert að gera úr seinni deginum. Ferðinni var líka heitið nokkuð norðar og ansi löng keyrsla sem beið okkar. Stressið var til komið þar sem við vorum búin að mæla okkur mót við vinafólk, bæði í Sydney og líka nokkru norðar.

Við keyrðum sem leið lá til Mallacoota þar sem við skruppum á yndislega strönd eins og sjá má á þessari mynd. Lékum okkur við árósa í dúnmjúkum sandinum - ekki leiðinlegt það. Vorum að hugsa um að gista þarna í bænum en þar sem hann er nokkuð úr leið var ákveðið að flýta fyrir okkur og keyra aftur upp á þjóðveg. Vorum svo heppin á fá frítt tjaldstæði í bænum Genoa - síðasta bænum í Victoriu fylki. Ekki býr bærinn nú yfir sjarma nafna síns á Ítalíu en fær þó plús í kladdann fyrir að veita frían aðgang að afburðar tjaldsvæði með leikvelli, lítilli strönd (eða árbakka réttara sagt), grilli og klósetti - ekki kvörtum við yfir því. Áttum þarna notalegt kvöld og nótt áður en haldið var yfir til New South Wales morguninn eftir.

Dagur 5, þriðjudagur 12. mars.

Okkur hafði verið sagt að það væri lítið að sjá þegar ekið væri frá Lakes Entrance til Eden í New South Wales og komust nú að raun um að það er mikið til í því. Keyrsludagur um regnskóga þar sem útsýni var mjög takmarkað. Hádegismatur í Eden á meðan Maron dældi á bílinn og áfram var ekið. Ætluðum upp til Batemans Bay en enduðum í Broulee, litlum bæ nokkru sunnar þar sem við fengum inni á æðislegu tjaldsvæði. Lögðum þar bílnum á milli sundlaugabakkans og stórrar hoppudýnu sem gerði dvölina afar afslappaða fyrir foreldrana. Hoppað og synt, kroppar og föt þvegin og allir fóru hreinir og glaðir í rúmið.

Dagur 6, miðvikudagur 13. mars. 

Annar keyrsludagur en þó um fallegra svæði. Ókum upp með ströndinni í gegnum iðagræna dali og skógi vaxnar hæðir - vorum alveg dolfallin yfir allri þessari fegurð. Sáum þó nokkra elda sem enn brenna hér um slóðir þó ástandið sé orðið viðráðanlegt. Ókum beint í gegnum Ulladulla en stoppuðum í Woolongong þar sem fórum inn í verslunarmiðstöð til að sinna nokkrum erindum. Stóðum í Kmart og hálfgörguðum yfir búðina eins og Íslendingum í útlöndum sæmir  þegar ung kona kemur til okkar og segir á okkar ástkæra, ylhýra... "Ég varð bara að stoppa ykkur".. Jamm, þarna var þá á ferðinni saklaust íslenskt konugrey sem átti nú ekki von á að hitta okkur vitandi það að hún og maðurinn hennar eru einu Íslendingarnir í bænum. Ykkur finnst þetta kannski ekkert merkilegt - Íslendingar eru jú alls staðar að flækjast - en á þeim rúmlega þremur árum sem við bjuggum í Ástralíu heyrði ég einu sinni íslensku (og það var á týpískum túristastað í Melbourne). Þessi kona hafði sömu sögu að segja, búin að búa þarna i þrjú ár og hafði aldrei áður hitt Íslendinga á förnum vegi. Þannig að þetta var heldur skondinn fundur.

Ókum svo sem leið lá í gegnum alla Sydney til að komast á tjaldsvæði þar í norðurhlutanum. Mikið vorum við nú fegin þegar þangað var komið því síðustu kílómetrarnir sem lágu í gegnum borgina þvera voru MJÖG seinfarnir; upp hæðar og hóla í mikilli umferð sem er nú ekki það skemmtilegasta þegar ekið er um á sjö metra húsbíl og ekki bætti úr skák að þegar bensínljósið kviknaði í öllum hasarnum. En allt reddaðist þetta nú sem betur fer.

Dagur 7,  fimmtudagur 14. mars. 

Dóluðum okkur fram undir hádegi á tjaldsvæðinu. Maron reyndi að vinna og krakkarnir léku sér í skemmtilegu vatnslandi sem þarna var að finna. Reyndar hafði nú kólnað verulega og hitinn ekki nema um 23°C og grár, hótandi himinn, sem okkur þykir nú heldur slæmt (erum við orðin of góðu vön??). Okkur var svo boðið í hádegisverð af gömlum vinnufélaga Marons í golfklúbbi í Sydney. Ég var nú heldur stressuð yfir börnunum mínum á svona settlegum stað enda kannski ekki rólegustu börn bæjarins en stelpurnar stóðu sig eins og hetjur og hefðu getað látið hvern mann halda að hér væru vel upp alin fyrirmyndarbörn á ferðinni. Maggi - já hann var bara þriggja ára strákur fyrir allan peninginn (ekkert of alvarlegt þó).

Eftir huggulegan hádegisverð var svo löng ferð framundan enda planið að hitta vinafólk okkar og fara með þeim á South West Rock sem er um fimm klukkustunda akstur norður af Sydney! Þannig að við réðumst nú ekki á garðinn þar sem hann var lægstur í gær. Vorum auk þess á hraðferð, bæði vegna þess að við ætluðum að hitta á þetta blessaða fólk og líka þar sem klukkan var orðin svo margt þegar lagt var af stað. Það er skemmst frá því að segja að við náðum að keyra þetta með einu 10 mín. stoppi og eiga börnin mín hrós skilið fyrir lágmarks grátur og rifrildi. Við héldum að Maggi myndi sofna strax þegar við lögðum af stað því hann hafði farið seint að sofa kvöldinu áður en það var ekki fyrr en eftir klukkan sjö sem hann loks sofnaði og náði því um klukkutíma orkublundi áður en við komum á áfangastað sem varð til þess að hann ætlaði aldrei að sofna um kvöldið!!

Kvöldið fór að mestu leyti í að koma okkur fyrir og svæfa börnin enda skemmtilegri dagar framundan þar sem tvö börn hafa nú bæst í hópinn þar af ein skvísa jafn gömul Thelmu Kristínu sem gleður hana ósegjanlega.

Dagur 8, föstudagur 15. mars

Eftir svefnlitla nótt fyrir foreldrana sem sofa illa við gargið úr pokarottunum hér í trjánum (mikinn óskapar hávaða geta þessu dýr framleitt) voru spennt börnin komin snemma á fætur og fóru stelpurnar fljótt ásamt nýju vinum sínum í könnunarleiðangur um tjaldsvæðið. Við erum nú staðsett á mjög skemmtilegu tjaldsvæði með alls konar afþreyingu í boði. Hér er hægt að velja um allan skalann þegar kemur að tjaldsvæðum og þau bestu eru eins konar "mini resort" þar sem hægt er að tjalda eða leigja lítinn sumarbústað. Á svæðinu hér er lítil en flott sundlaug, barnasundlaug, eldhús, sjónvarspherbergi, bíósalur, mini golf, trampolín, hoppudýna, leikvellir, inni leikherbergi með litlum hoppukastala, leikföngum og fl. Hér er líka hægt að leigja kanó og hjól, ganga á ströndina og svo mætti lengi telja.

Eftir skoðunarferð um svæðið var ákveðið að halda á ströndina þar sem við eyddum lunganum úr deginum. Litlu börnin mokuðu í sandinum á meðan þau eldri æfðu listir sínar á brimbretti. Krakkarnir sem eru með okkur (8 og 12 ára) eru nokkuð lunkin en Thelma Kristín var að stíga sín fyrstu skref. Hún stóð sig auðvitað eins og hetja og var farin að standa upp á brettinu áður en dagurinn var liðinn.

Eftir skoðunar- og verslunarferð inn í bæinn hélt ég svo með krakkana inn í leikherbergi til að bóndinn fengi smá vinnufrið. Við grilluðum svo saman og nú sit ég hér í rólegheitum með fartölvuna í fanginu inni í bíl. Kvöldin á tjaldsvæðunum hér eru nú heldur rólegri en við eigum að venjast í útilegunum heima og hafði Thelma Kristín á orði eftir nokkrar nætur á slíkum svæðum að ef þetta væri á Íslandi væri nú einhver komin(n) út með gítar og krakkarnir væru afskiptalausir að grilla sykurpúða! En hér eru öll ljós slokknuð um 10 leytið en fyrir vikið er allt komið á fullt fyrir klukkan átta. Sem hentar reyndar mjög vel fyrir fólk á ferðinni með þrjá gorma :-)


Tuesday, March 12, 2013

On the road again...


Jæja, gott fólk… þá er nú best að fara að rífa sig upp og hripa hér nokkrar línur, þó ekki sé nema til þess að halda ferðasögunni okkar til haga því hún er nú þegar farin að skolast til í hausnum á mér þó við séum ekki búin að vera á ferðinni nema í 5 daga. 

Heill mánuður í Elwood flaug hjá allt of hratt. Allt í einu var síðasta vikan runnin upp og við varla búin að gera helminginn af því sem við ætluðum okkur. Planið í Melbourne var nú samt ekki beisið þar sem við erum þegar búin að sjá svo margt þar og upplifa. Mestum tíma var líka - líkt og forðum daga- varið í að fínkemba alla róluvelli í kílómeters radíus með gormana þar sem Maron var við vinnu virku dagana. Helgarnar fóru svo í að kíkja aðeins út fyrir bæinn og hitta vinina hvort sem var heima hjá þeim, okkur, á veitingastað eða á ströndinni  - bara skemmtilegir tímar sem verða varðveittir að eilífu (ok.. nú er ég orðin helst til væmin - en mikið var gaman að hitta þetta fólk aftur). 

Veðrið lék við okkur allan tímann og langt síðan svo margir dagar í febrúar hafa náð yfir 30 stiga hita í Victoríu fylki. Heimamenn náðu ekki upp í nef sér fyrir kæti og flykktust á ströndina daglega þar sem þeir sátu fram á kvöld. Fyrir vikið áttum við þó nokkrar yndislegar stundir með mat og drykk með vinum okkar á ströndinni. Thelma Kristín fékk skautana sína senda til Ástralíu til að slá á herfileg fráhvarfseinkenni. Hún kom sér á æfingar vikulega í nýrri og flottri skautahöll og var alsæl með það. 

Af ferðunum út úr Elwood má helst nefna jarðarberjatínsluferð upp í Yarra Valley sem þó misheppnaðist svolítið því þegar við komum á staðinn var búið að loka fyrir tínslu vegna hita (sem var vel yfir 40 gráður!) en fyrir vikið bauðst okkur fullur pappakassi af ljúffengum jarðarberjum fyrir 5 dollara (.. og dollarar eru sko peningar eins og Magnús Andri benti mér hreykinn á í dag ;-) svo við áttum í mesta basli með að torga herlegheitunum í tæka tíð - og fór samt þó nokkurt magn í frystinn. Þar sem ferðin út á akrana var blásin af var fátt annað í stöðunni en að líta við á góðri vínekru en nóg er til af þeim í þessum ágæta dal. Þar sem Maron greyið var bílstjóri (og sérstaklega þar sem þessa ágætu ferð bar upp á konudag) fékk undirrituð að húka ein við barinn og sötra þar yndislegar veigar á meðan börnin sátu og krítuðu á gólfið. Á eftir var ég svo dregin til að líta á listrænan afrakstur barnanna og fékk þá nett sjokk þar sem Elísa benti mér með dramatískum hætti á sína mynd… eins gott að barnaverndaryfirvöld sáu hana ekki þessa….



Við áttum líka frábæran dag í dýragarðinum í Melbourne og líka á ströndinni í Rosebud á Mornington skaga. Ströndin sú er ein af okkar uppáhalds þar sem mjög er þarna aðgrunnt og því paradís fyrir litla gorma með skóflu og fötu að eyða þar deginum. 

En svo kom að því að við skyldum yfirgefa borgina okkar. Kæruleysið drap okkur næstum því við höfðum hugsað okkur að framlengja íbúðina um tvo daga og fara á sunnudegi í stað föstudags (til að græða auka helgi í Elwood) en komumst þá að því að brottfararhelgin okkar var verslunarmannahelgi Ástrala auk þess sem styttist í Formúluna sem haldin er í næsta hverfi svo það var engin leið að fá íbúðinni framlengt. Þá var í ofboði hringt í húsbílaleiguna sem gat sem betur fer afgreitt bílinn tveimur dögum fyrr en þá stóðum við frammi fyrir næsta vandamáli - næstum öll tjaldsvæði landsins eru fullbókuð þessa helgi. Eftir nokkra umhugsun var þó ákveðið að leggja bara í  hann og taka Íslendinginn á þetta - "þetta reddast"! og viti menn - þetta reddaðist! 

Og hefst því hér með formleg ferðasaga í bundnu máli… eða næstum því sko… Ég ætla samt að reyna að setja þetta frekar skipulega upp til að forðast of mikla upptalningu á bæjum og borgum. Markmiðið er svo að sjálfsögðu að vera ógisslega dugleg að blogga og setja helst daglega inn fréttir dagsins svo hægt sé að fylgjast með okkur því það er mjög misjafnt á milli daga hversu gott sambandið við umheiminn er. 

Dagur 1, föstudagur 8. mars. 

Við þurftum að vera komin til að sækja húsbílinn í útjaðri Melbourne klukkan 10 að morgni. Þangað er um 45 mín. keyrsla og að sjálfsögðu þurfti að tékka út úr íbúðinni líka. Ykkur finnst þetta kannski ekki merkilegt en ég og mín fjölskylda erum nú ekki fræg fyrir að vera snör í snúningum svo þetta var ágætis áskorun fyrir okkur. Það kom okkur því skemmtilega á óvart að við skyldum vera komin inn í leigubíl tímanlega klukkan 9:15 með allt liðið baðað og satt og allan farangur á sínum stað - þokkalegt afrek það. 

Það tók svo ekki nema fjórar klukkustundir að fá bílinn afhentan. Fyrst þurfti að fara yfir öll atriði; prakíst sem og lögfræðileg, borga og fá klukktíma kennslu á tryllitækið. Að því búnu þurftum við að taka úr töskunum og raða inn í bíl og gera okkur ferðbúin. Börnin mín mega eiga það að þau stóðu sig eins og hetjur og héldu væli, rifrildum og öskrum í lágmarki þannig að hausinn var á okkur öllum á eftir (sem betur fer lágu matarpokarnir okkar við bílinn svo það var auðvelt að múta og róa með ýmsu góðgæti!). Eftir síðbúinn hádegisverð á Magga Dóna ókum við svo sem leið lá út úr bænum. Við gerðum síðustu tilraun og hringdum í upplýsingar á því svæði sem við keyrðum í áttina að til að athuga hvort eitthvað hefði losnað á tjaldsvæðunum á síðustu stundu og fengum þá upplýsingar um eitt laust pláss sem við vorum fljót að tryggja okkur þó það væri nú ekki nema rúmlega klukkustundarakstur í burtu. En þá vorum við alla vega komin af stað og það var fyrir öllu. 

Fyrsta stopp var sem sagt í bænum Wonthaggi suðaustur af Melbourne. Þar fengum við pláss á litlu tjaldsvæði sem þó samanstóð aðallega af lítilli sumarbústaðabyggð. Fínt að byrja þar ferðina, fylla á birgðir og læra á bílinn. Það þurfti aðeins að kenna gormunum að sofna í sama rúminu í sama herbergi og við hin sitjum í - þessi þjálfun er enn í gangi en mjakast þó í rétta átt. 

Dagur 2, laugardagur 9. mars

Planið var að fara suður til Wilson's Promontory en þann stað hafði okkur alltaf langað að heimsækja aftur eftir mjög stutt stopp þar forðum daga. Gallinn var hins vegar sá að "The Prom" er líklega vinsælasti áfangastaður heimamanna í útilegu og þar sem hér var um verslunarmannahelgi að ræða var ekki séns að fá tjaldsvæði í nágrenninu og var okkur líka tjáð að öll umferð um skagann væri mjög hæg þessa helgi og fór því svo að lokum að við lögðum ekki í þennan krók í þetta sinn. Geymum bara Wilson's Prom þar til næst 

Við héldum því sem leið lá meðfram ströndinni. Stoppuðum aðeins í Port Albert þar sem stelpurnar röltu niður á strönd. Ekki leið þó á löngu þar til þær kölluðu á okkur að koma og sjá. Þegar nær dró sáum við það sem vakið hafði athygli þeirra - sandurinn iðaði bókstaflega því þúsundir lítilli krabba hlupu þar um. Það var hreinlega varla hægt að stíga niður fæti án þess að stíga á krabba sem þó voru nú fljótir að grafa sér holu í sandinn þegar þeim var ógnað.

Við vorum heldur óviss um næturstað þessa nótt því allt var fullbókað. Þeir sem taka svona vel úbúna húsbíla á leigu (eða eiga þá) eru auk þess í smá "dilemmu" því við þurfum alls ekki á tjaldvæðunum að halda. Við erum með klósett, sturtu og fullbúið eldhús. Rafmagn og vatn sem endist í tvo daga (og er hægt að fylla á á næstu bensínstöð)… það er því svolítið súrt að þurfa að punga út mörgþúsund krónum daglega í tjaldstæði sem maður þarf ekki á að halda og er því mikil leit í gangi hér að fríum stöðum til að stoppa á.  Ýmsir hafa verið að safna þessum upplýsingum og selja eða láta á netið en svo virðist sem fylgst sé með því (af eigendum tjaldsvæða sem láta bæjaryfirvöld vita) og þegar komið er á þessa staði blasir við okkur "no camping" skilti. 

En þetta var smá útúrdúr… við höfðum sem sagt hug á að athuga frítt tjaldstæði á McLoughlins Beach og héldum þangað. Náðum reyndar aldrei alla leið því við sáum að fólk hafði tjaldað þarna niðri við bryggju, héldum að þetta væri plássið og lögðum til atlögu. Þau sögðust þá hafa farið að téðu tjaldstæði en þar væri allt stútfullt og því hefðu þau brugðið á það ráð að tjalda á þessum grasbala. Við vorum fljót að fara að þeirra dæmi og komum okkur þarna vel fyrir. Skemmtilegur staður þar sem hægt var að veiða krabba í fjöruborðinu sem dætrum mínum þótti ekki leiðinlegt. 

...Jidúddamía...nú verð ég bara að gera hlé á sögunni því klukkan er orðin svo margt hérna megin... framhald í næsta þætti ;-)


 

Website Counter