Melbourne

Thursday, September 29, 2005

Hæ hó

Ég keypti mjólk í dag sem rennur út eftir að Maron kemur heim!! Það hlýtur að þýða að nú fari að styttast í þetta (annað hvort það eða Ástralir setja svona mikil rotvarnarefni í mjólkina!). Nei grínlaust þá er nú að hefjast síðasta grasekkjuvikan ... og ekki kvarta ég!

Höfum verið rólegar síðustu vikuna. Hef reynt að búa til smá prógramm fyrir hvern dag...svona til að halda geðheilsunni :o) Ég fór aðeins í vinnuna á föstudag, fínt að komast aðeins út úr Elwood. Á heimleiðinni kom ég við á videoleigunni og tók DVD fyrir okkur mæðgur sem er svo sem ekki í frásögu færandi nema af því að myndin sem ég tók fyrir mig var með íslenskum texta... ekki amarlegt svona hinum megin á hnettinum!

Á sunnudaginn bættum við svo um betur og röltum okkur í bíó. Sáum Wallace and Gromit, hún var frekar "scary" á köflum fannst þeirri stuttu en hún skemmti sér samt vel. Fór svo með Thelmu Kristínu í klippingu á mánudag, mín vildi sko láta klippa sig stutt! Við urðum ásáttar um að klippa fyrir neðan eyru og hún er svona mátulega sátt við árangurinn!

Skelltum okkur til St. Kilda á þriðjudag þar sem við fórum á s.k. "Adventue Playground"... ævintýra róluvöll! Mér leið svona eins og ég hefði labbað inn á smíðavöll þar sem krakkarnir hefðu náð að byggja allt það sem þau dreymdi um á fyrsta degi, þið vitið, þegar maður var krakki og ætlaði sér sko ekkert að byggja eitthvað kofaskrifli heldur almennilegt hús á 2 hæðum með mörgum herbergjum o.s.frv. Leiktækin voru eins og 12 ára krakkar hefðu smíðað þau. Partur af mér hugsaði "en krúttlegt" en svo var annar hluti af mér sem hugsaði "en kaótískt og ósjarmerandi eitthvað"!! En Thelmu Kristínu fannst þetta alveg frábært og það er það sem máli skiptir. Á eftir röltum við á bókasafnið og fengum lánaðar nokkrar bækur.

St. Kilda er svo ótrúlega fyndið hverfi. Í gamla daga var það svolítið út úr bænum og það var vinsælt að koma þangað í dagsferðir á ströndina. Fólk kom á hestvögnunum sínum og seinna með lestum og sporvögnum. Svo þróaðist þetta nú svo að þetta hverfi varð eitt helsta "slumbið" í Melbourne þar til fyrir 10 árum þegar borgaryfirvöld ákváðu að hreinsa þarna til og St. Kilda endurheimti forna frægð. Þarna er hægt að fara á ströndina, í tivoli, leikhús og út að borða á einum af endalausum veitingastöðum. Í dag er þetta eitt helsta "skemmtunarhverfi" Melbourne hvort sem er fyrir fjölskyldur eða partýdýr. Þrátt fyrir að þetta sé frekar "trendy" og dýrt hverfi þá er líka svolítill "slumb" fílingur í manni þegar maður gengur þarna um. Mikið af skrítnu fólki og ósjarmerandi húsum. Við mættum t.d. konu á götuhorni sem var svo lítið klædd að það læddist nú að manni ákveðinn grunur... en svo hugsaði ég nei.. ekki hér... ekki um hábjartan dag, konunni finnst bara flott að vera í pilsi sem nær ekki niður fyrir rass.. hún er bara að bíða eftir að kærastinn sæki sig. Tveimur tímum seinna þegar við löbbuðum þarna fram hjá aftur stóð hún þar enn... svo ég hafði líklega rétt fyrir mér.. viðskiptin bara verið róleg þann daginn. Allaveganna, ótrúlega mótsagnakennt hverfi sem veit ekki alveg hvernig það á að vera.

Kristófer varð 12 ára á þriðjudaginn... til hamingju með afmælið Kristó! Hrindum í hann strax um morguninn til að vera vissar um að vera fyrstar til að óska honum til hamingju með daginn (enn mánudagur á Íslandi ;o). Thelma Kristín hefur nú smá áhyggjur af bróður sínum, vill fá að vita hvort hann sé að verða unglingur... sem er auðvitað grafalvarlegt mál!

Á þriðjudagskvöldið var okkur boðið í mat til Susönnu hinnar finnsku. Maður hennar var líka í vinnuferð og við höfðum það bara gott, sötruðum rauðvín á meðan stelpurnar léku sér..... svona á þetta að vera! Áfram húsmæður!

Thelma Kristín fór svo í leikskólann í gær og mín þreif húsið hátt og lágt.. og ekki orð um það meir! Í dag fórum við svo í Kringluna að kaupa sumarföt á þá stuttu. Versluðum helling af fötum í Target og daman alveg hæstánægð (þó ég hafi neitað að kaupa bleika satín Barbiekjólinn!) Hún er nú orðin soddan tískufrík að hún er farin að velja föt fyrir mömmu sína á morgnana! "Sko mamma" segir hún og fer inn í fataskápinn minn á meðan ég að að staulast á lappir "mér finnst að þú eigir að vera í þessu og þessu í dag"!!! Halló, hver ræður á þessu heimili! Svo liggur hún ekkert á skoðunum sínum ef hún er ekki sátt við fatavalið mitt "Mamma, mér finnst þú ekkert voðalega fín í þessum buxum, farðu frekar í pilsið"!

Í fyrramálið þarf ég að vinna á dótasafninu sem er svo sem alveg ágætt. Þar sem Thelma verður í leikskólanum pantaði ég mér tíma í strípur og klippingu eftir hádegið svo maður verður alger skvísa um helgina... eins gott að Thelma Kristín kunni að meta það ;o)

Daman er annars að verða svo flink í enskunni að ég bara stari með opinn munninn þegar ég heyri hana tala. Ótrúlegt hvað þetta er þeim tamt á þessum aldri. Íslenskan er því miður að verða ansi enskuskotinn og það liggur við að það þurfi túlk á skvísuna sama hvaða mál hún talar! Eitt það skemmtilegasta sem Thelma Kristín gerir á leikskólanum er eltingaleikur. Ég man í Svíþjóð þegar hún talaði alltaf um að strákarnir hefðu verði að "jaga" þær vinkonurnar... í dag eru strákarnir alltaf að "tjeisa" þær. Svo er hún að "kípa" höndum hreinum og á rosalega "softan" bangsa. Svo sagði hún mér líka að á Íslandi hefði hún tínt ber sem voru ekki froskuð (veit ekki alveg hvaðan þetta kom!)

Ég lærði trix þegar Thelma Kristín var lítil sem hefur komið í veg fyrir mörg rifrildi. Í stað þess að spyrja hana t.d. hvað hún vilji borða þá spyr ég hana hvort hún vilji brauð eða jógúrt. Á þann hátt heldur hún að hún hafi eitthvað vald sem hún í raun hefur ekki. En viti menn, daman er búin að fatta þetta og reyndi um daginn að fella mig á eigin bragði. Hún spurði mig sko ekki hvort hún mætti horfa á video heldur sagði hún: "Mamma, hvort má ég horfa á mynd á íslensku, ensku eða sænsku"!

Talandi um videospólur. Ég held ég sé búin að koma upp um Siggu og Maríu í Söngvaborg. Fyrir ykkur sem eigið börn og hafði þar af leiðandi líklega hlustað á diskana þeirra þá eru þar nokkur ný lög sem maður hafði aldrei heyrt áður, sérstaklega á síðasta disknum. Hér í Ástralíu er til mjög vinsæl barnahljómsveit sem heitir "The Wiggles" og er um það bil að verða heimsfræg. Því meira sem Thelma Kristín hlustar á þá, því fleiri lög þekki ég af Söngvaborg. Ég þori nú ekki alveg að hengja mig upp á að þær stöllur hafi fengið lögin "lánuð" frá Wiggles eða hvort báðir séu að fá lánað frá þriðja aðila .... á eftir að gera nánari rannsókn á þessu :o)

Jamm og jæja, þá er maður búinn að tékka inn fyrir vikuna.. þó lítið hafi nú gerst. Best að fara að elda ofan í barnið - ætla að vera góð og gera uppáhaldið - spakk og hakkedí!

Skilst þið séuð farin að skafa af bílunum þarna uppi á Fróni - verði ykkur bara að góðu! Ég skal ekkert vera að bæta því við að hér spáir 20 gráðum og sól á morgun ;o)

Knús
Unnur






Thursday, September 22, 2005

Ilmur í lofti

Gaman að búa þar sem árstíðaskiptin gerast svona hratt. Einn daginn vaknar maður bara og öll tré eru orðin græn... ekki prósess sem tekur 6 vikur eins og sums staðar (hmhm). Skrítið samt hvað það er sterk lykt af vorinu hér. Í gær kom ég niður og skildi ekkert í þessari lykt sem var í húsinu.... fattaði svo að hún kom að utan. Sterk lykt eins og af liljum, eins og mér finnst þær falleg blóm hata ég lyktina af þeim (eitthvað til að hafa í huga næst þegar þið viljið kaupa blóm handa mér ;o) ) Fyrir svona konu eins og mig með stórt nef og lyktarskyn frá ... ja, ég veit ekki hvaðan, þá er þetta nú ekkert til að hrópa húrra fyrir. Finnst eiginlega bara bölvuð fýla af þessu vori! Var einmitt að horfa á einhvern túristaþátt um París þar sem þáttastjórnandinn fór inn í svona "parfumerie" þar sem framleidd var lykt, hvort sem hún var í formi ilmvatns eða klósetthreinsiefnis. Ég held að þar hafi ég í fyrsta sinn séð starf sem ég væri líklega "gifted" í ... held ég yrði bara alveg brilljant í þessu. Ætti kannski að fara að breyta um stefnu hvað varðar starfsvettvang hihi.

Höfum það annars fínt í vorilminum ;o) Dúllumst bara hér í góða veðrinu. Hittum finnsku vini okkar bæði á þriðjudag og svo aftur í dag. Í gær fór Thelma Kristín á leikskólann og ég sló þessu upp í kæruleysi og skellti mér í Kringluna og keypti mér sumarföt. Maður hefur aldrei áður þurft að eiga sumarföt til skiptana svo við þurfum líklega öll að endurnýja fataskápinn að einhverju leyti. Ég ætla að fara aftur fljótlega með þá stuttu með mér og versla á hana ... svo er líka spurning hvort Maron komist í verslunarferð í Kína, líklega ódýrast að versla flíkurnar á heimaslóðum!

Luma á einni skemmtisögu sem ég ætlaði að vera löngu búin að setja hér inn. Það var nefnilega þannig að stuttu eftir að við komum frá Íslandi þurfti ég að skreppa hér út að kvöldi til og sá þá "possum" klifra upp í tré, sem er svo sem ekki í frásögu færandi þar sem þeir eru hálfgerð plága hér. Ég dreif mig samt inn og sagði Thelmu Kristínu frá því að ég hefði séð "possum". Ég mundi ekki hvað þeir heita á Íslensku (pokarotta held ég samt eftir á að hyggja) og notaði því alltaf orðið "possum". Við ræddum þetta heilmikið, hvað hann hafi verið að gera upp í tré, hvað hann borði, hvort hann borði fugla, eða bara lauf o.s.frv. Seinna um kvöldið sagði svo Thelma við pabba sinn, "Pabbi, veistu hvern mamma sá klifra upp í tré?" "Nei, sagði pabbinn" og sú stutta var fljót að svara "Tarzan"!!! Smá misskilningur hjá okkur mæðgum sem ég var fljót að leiðrétta, hélt ég. Svo um daginn var ég aftur á ferð í myrkrinu og sá pokarottu í tré hér fyrir utan hjá okkur og ákvað nú að sækja bara Thelmu Kristínu og leyfa henni að sjá kvikindið. Hún var voða spennt að fá að fara út og sagði eitthvað á þá leið að kannski væri hann alveg eins og á púslinu hans bróa. Kristófer á nefnilega Tarzan púsl hér hjá okkur en ég hélt að hún væri að tala um eitthvað af dýrunum sem eru líka á myndinni. Við fórum út og ég benti og benti upp í tré en Thelma Kristín harðneitaði fyrir það að sjá nokkuð. Svo loksins þegar hún skildi á hvað ég var að benda sagði hún, "já, en hann er ekkert eins og maður!" Þá var daman enn að leita að Tarzan í trénu, hafði greinilega ekki náð þessu síðast! Vona að hún sé búin að læra þetta núna og haldi ekki að konungur apanna sveifli sér í trjánum hér í Melbourne.

Jæja, vildi bara láta heyra í mér örstutt, hef einhvern veginn nægan tíma til að blogga þessa dagana ;o) Ég setti meira að segja upp teljara á síðunni svo ég sjái hvort einhver sé að lesa þetta röfl í mér. Var bara frekar hissa að sjá hve margir kíkja í heimsókn! Vandamálið er nú bara það að ég á það til að vera svo helv.. langorð að líklega meikar enginn að lesa allt til enda, hihi! Setti líka inn gestabók svo nú geta allir kvittað fyrir komuna!!

Knús
Unnur

Tuesday, September 20, 2005

Teljarinn minn

Free Hit Counters

Hafa skoðað síðuna síðan 20. september 2005

Counter

Sunday, September 18, 2005

Markaður o.fl.


Hæ hó

Við mæðgur skelltum okkur sko heldur betur á markaðinn á fimmtudaginn. Þetta eru í raun leifar af gömlu "fair", þið vitið, þegar bændur komu til borgarinnar með dýr og hvers kyns afurðir til sölu eða til að sýna hinum bóndunum, keppast og metast. Það má segja að þetta hafi verið allt í senn dýragarður, landbúnaðarsýning, matarkynning, markaður, tivoli og leikhús. Við tókum lestina um morguninn og eyddum þarna mörgum klukkustundum í góðu yfirlæti. Kíktum á hin ýmsu dýr, bæði rollur, lamadýr og beljur. Svo var sérstakt hús með ungviði sem mátti klappa, meira að segja sauðburður og eggjaútungun í beinni svo ekki sé minnst á gæludýrabásinn þar sem við fengum að klappa eðlu o.fl.

Svo fórum við á barnaleiksýningu, Madagascar live, þar sem hetjurnar úr Disneymyndinni stigu á stokk og sungu nokkra slagara. Ég hef nú ekki séð myndina en verð að segja fyrir mitt leyti að þessar Disney myndir miða meira og meira að því að skemmta foreldrunum (það eru jú þeir sem koma með börnin í bíó). Lögin sem þessar fígúrur voru að syngja voru frá sokkabandsárum foreldra minna og héldu athygli barnanna svona mátulega. Ég hefði miklu frekar vilja sjá þá taka nokkur barnalög og fá krakkana með sér í stað þess að syngja "Born to be wild" og "New York New York" og tala um að mörgæsirnar séu haldnar ofsóknarbrjálæði!

Við sáum líka í fyrsta sinn fyrirbæri sem kallast "Show bags" og eru plastpokar frá hinum ýmsu framleiðendum og heildsölum með samansafni af alls kyns dóti eða sælgæti í ákveðnu þema. Það var t.d. hægt að fá allar Disney karaktera sem maður gat hugsað sér auk annarra teiknimynda, flest sælgætismerki o.s.frv. Thelmu Kristínu hafði verið lofað að kaupa einn poka og ég reyndi af öllum mætti að sannfæra hana um að kaupa eitthvað annað en Disney Princess en án árangurs. Daman var hins vegar alsæl með sinn prinsessu show bag sem innihélt m.a. prinssessusápukúlur, prinsessumyndaramma, prinsessutösku og prinsessuskartgripaskrín (getið þið ímyndað ykkur hamingjuna á einum bæ??!)

Mest spennandi af öllu var svo auðvitað tívolíið. Við mæðgur skelltum okkur í parísarhjólið og svo fékk Thelma Kristín að velja sér nokkur tæki sem hún fór sjálf í. Við vorum orðnar ansi lúnar, en ánægðar samt, í lok dags þegar við tókum lestina heim aftur.

Thelma Kristín fór svo í leikskólann á föstudaginn. Verð að segja ykkur eitt megafyndið. Þegar ég fór með dömuna á föstudagsmorgun kom maður á móti mér út af leikskólanum sem ég kannaðist eitthvað við... og fljótt rann upp fyrir mér ljós. Þetta var hann "Max" úr Nágrönnum!! Haldiði ekki bara að barnið mitt sé með barninu hans á leikskóla. Mætti honum einmitt aftur þegar ég sótti Thelmu Kristínu og það er ekki um að villast, þetta er hann "Max". Ef einhver hefði sagt mér það fyrir 15 árum, þegar ég var einlægur aðdáandi "Nágranna", að einn daginn ætti ég eftir að búa í Melbourne og barnið mitt ætti eftir að vera með barni eins leikarans á leikskóla... þá held ég bara að ég hefði dottið niður dauð úr spennu og undrun...svo það er víst eins gott að maður veit ekki ævina fyrr en öll er!

Í gær, laugardag, var veðrið með því móti að maður var best geymdur innandyra. Við tókum því afskaplega rólega fyrir utan einn hjólatúr. Hann var hins vegar ansi stuttur því það var svo hvasst að Thelma Kristín átti í mesta basli við að halda jafnvæginu. Hún er annars að verða ansi flink daman, vorum að æfa okkur í að bremsa í gær og það gekk nokkuð vel.

Í dag fórum við svo í langan göngutúr í yndislegu veðri. Löbbuðum í gegnum grasagarðinn upp til St. Kilda. Þar er alltaf líf og fjör á sunnudögum, sérstaklega þegar veðrið er gott. Löbbuðum um listamarkaðinn sem þarna er á hverjum sunnudegi. Hann er mjög sérstakur að því leyti að aðeins listamennirnir sjálfir mega hafa básinn svo maður getur verið viss um að fá frábæra þjónustu og upplýsingar um vöruna frá þeim sem býr hana til. Fengum okkur bita niðri á höfn og löbbuðum svo strandlengjuna heim aftur með viðkomu á öllum róluvöllum sem við fundum. Þetta er alveg ofsalega skemmtilegur hringur en gangan sjálf er um 2 tímar, fyrir utan öll stopp, svo maður er aðeins farinn að finna fyrir lærunum þegar maður kemur heim (sem er auðvitað hið besta mál).

Erum sem sagt í afslöppun núna og stefnum að kvöldmat fljótlega. Á morgun er enginn dans því skólarnir eru að fara í frí og þá detta danstímarnir líka niður. Kínverskan er hins vegar enn á dagskrá og Ela ætlar að koma aftur og passa Thelmu Kristínu.

Eins og þið hafið kannski tekið eftir þá hefur myndasíðan okkar verið tekin niður. Það var einhver andsk... hakkari sem fór inn á serverinn og því varð Maron að loka öllu heila klabbinu. Ég get lítið gert í málinu sem stendur, enda kerfisfræðingurinn í Japan, en þessu verður kippt í lag þegar Maron kemur heim ... er það ekki ástin mín?? ;o)

Ég gerði meira að segja heiðarlega tilraun til að hlaða niður myndum úr símanum mínum en gekk ekki að tengja hann við tölvuna... það verður líka að bíða betri tíma. Lét því, að gamni, fylgja með gamlar myndir af skottunni minni, svo þið gleymið ekki alveg hvernig hún lítur út.

Bestu kveðjur úr sólinni
Unnur Gyða

Wednesday, September 14, 2005

Einar á ný

Úff, það er orðið langt síðan ég hef látið heyra í mér.. og margt skemmtilegt.. og annað minna skemmtilegt.. búið að gerast.

Eftir ferðina okkar til Port Lincoln tók hversdagurinn við með vinnu og leikskóla. Helgina eftir buðum við til okkar vinnufélögum Marons í tilefni af því að einn kollegi hans frá Japan var í Melbourne. Hann kom sagt til okkar ásamt áströlskum vini sínum og japanskri unnustu hans og svo kom Nirgia, nýja stelpan af Melbourne skrifstofunni svo við vorum 6 fyrir utan Thelmu Kristínu. Skemmtum okkur konunglega yfir grilluðum nautalundum og góðu rauðvíni.

Daginn eftir var Thelma Kristín, sem hafði verið kvefuð í nokkra daga, komin með bullandi hita og var lasinn fram eftir vikunni og svo tók mamman við í kjölfarið. Thelma Kristín er enn með slæman hósta, svo slæman að ég fór með hana til læknis á þriðjudaginn til að tryggja að hún væri ekki með bronkítis, kíghósta eða eitthvað þaðan af verra. Svo var sem betur fer ekki en læknirinn vildi meina að hóstinn gæti verið í 4 vikur að fara. Hann taldi dömuna svo spræka að hann bólusetti hana í leiðinni. Ég vildi líka fá áfyllingu á lifrarbólgu A og B sprauturnar sem við fengum á Íslandi í vetur. Læknirinn var splunkunýr og mjög óöruggur fannst mér og var heila eilífð frammi að leita að bóluefnunum og þurfti að fara margar ferðir. Þegar hann var að fara að sprauta Thelmu kom hjúkrunarfræðingur inn og tilkynnti að börn í Ástralíu fengju ekki bólusetningu við lifrarbólgu A. "Nei, þau fá það ekki heldur á Íslandi" sagði ég "en af því við vorum að ferðast fékk hún sprautu á Íslandi og vil viljum fá ábót (sem tryggir bólusetningu fyrir lífstíð)". Hjúkrunarfræðingurinn var sármóðgðuð yfir því að íslensk yfirvöld skyldu telja nauðsynlegt að bólusetja barnið við lifrarbólgu A vegna ferðar til Ástralíu og endurtók skýrt að Ástralía væri mjög örugg hvað þetta varðar og Thelma þyrfti sko ekki þessa sprautu. Svo skellti læknirinn í hana sinni hvorri sprautunni í lærið og einni í handlegginn. Thelma Kristín hefur alltaf staðið sig eins og hetja í bólusetningum en að fá nálina í lærin var "too much" fyrir mína dömu og hún öskraði af öllum lífs og sálar kröftum. Ég hef aldrei heyrt hana öskra svona áður, ég varð að halda henni niðri með öllu mínu afli á meðan læknirinn sprautaði síðustu sprautunni. Ég vil auðvitað meina að þetta þýði að barnið sé svona vel upp alið.. ég meina.. ég hef aldrei heyrt hana öskra svona, eins hátt og hún getur - það hlýtur að þýða að hún hafi aldrei tekið almennilegt frekjukast! (kannski er ég bara of eftirlátssöm :o( ) Áður en að læknirinn gaf henni þriðju sprautuna (hún var líka búin að fá eitthvað ógeð sem hún þurfti að kyngja) mundi ég eftir Tahiti ferðinni. Ákvað að nota það ferðalag sem ástæði til að fá lifrarbólgu A sprautuna (þá fengi hún sem sagt A og B í sömu sprautu í stað bara B) en læknirinn vildi meina að það væri óþarfi, lifrarbólga A væri hvort eð er ekki banvæn. Svo skellti hann síðustu sprautunni í hana en þegar við fórum að undirbúa mína sprautu þá fór hann allt í einu að tala um að sprauta Thelmu Kristínu við lifrarbólgu A. Þá var ég nú búin að fá nóg fyrir hönd barnsins og sagði hingað og ekki lengra. Litli kroppurinn væri búinn að fá alveg nóg í bili takk fyrir, við kæmum seinna fyrir A sprautuna.

Veit ekki hvað þetta er með þessa lækna hérna. Síðast þegar við fórum til læknis leið okkur eins og við værum stödd í Jerúsalem, það voru eintómir Gyðingar á stofunni og núna hittum við á einhvern nýliða (kínverskan nýliða svo ég haldi nú fordómunum áfram) sem varla talar ensku og virðist ekkert vita í hvorn fótinn hann á að stíga. Ég er búin að biðja 2 vinkonur mínar að mæla mæð læknum fyrir mig svo ég mun prófa þriðju stofuna næst þegar við þurfum á lækni að halda.

En hið góða er að við mæðgur erum orðnar sprækar þrátt fyrir flensur og bólusetningar. Thelma Kristín fór á leikskólann strax á miðvikudaginn. Það eru hvort eð er öll börnin hóstandi hvert ofan í annað. Þetta hefur verið hræðilegur flensufaraldur hér.. eins og ég segi.. á sama tíma og Íslendingar liggja í sólbaði, liggur Ástralinn í flensu.

Á fimmtudaginn kom svo að því að Maron fór aftur í ferðalag, hann verður í burtu í tæpan mánuð í þetta sinn. Ég verð nú samt að segja að ég finn mikinn mun á því að vera ein með Thelmu Kristínu núna miðað við í maí. Maður er einhvern veginn dottinn meira inn í lífið hér, á fleiri vini, hefur meira að gera o.s.frv. Þetta er bara ekkert mál - með fullri virðingu fyrir ástkærum eiginmanni sem ég sakna auðvitað "heaps"!

Strax á föstudeginum var partý á leikskólanum hjá Thelmu við lok skóladags. Leikskólastjórinn er búinn að stjórna þarna í 20 ár og því var foreldrum og börnum boðið til veislu. Veðrið var yndislegt og við sátum úti í garði í 23 stiga hita og sötruðum freyðivín og bjór (ekki börnin þó!). Thelma Kristín á orðið 2 mjög góðar vinkonur á leikskólanum, Vanessu og svo hana Sophiu. Við mamma hennar Vanessu erum orðnar ágætar vinkonur og svo kemur mér líka mjög vel saman við foreldra hennar Sophiu. Við notuðum einmitt þetta tækifæri til að skiptast á símanúmerum og ætlum að hittast og borða saman fljótlega.

Við höfum líka umgengist finnsku vini okkar þó nokkuð undanfarið. Við mömmurnar höfum hist nokkrum sinnum á róló og við Thelma Kristín höfum einu sinni farið i heimsókn til þeirra. Á sunnudaginn fórum við svo með þeim í sund hér í nágrenninu (já mín keyrði!) og í gærkvöldi komu þau svo í mat til okkar, öll familían. Þau eru rosalega fín. Það er líka alltaf gott að komast í samband við aðra útlendinga því þeir eru í svo svipaðri stöðu og maður sjálfur; engin fjölskylda, nýtt umhverfi o.s.frv. Susanna er líka heimavinnandi eins og ég og ég sé fyrir mér að við förum að skella okkur saman í ræktina og tennis og allt það sem maður á að vera að gera þegar maður er heimavinnandi húsmóðir.

Á mánudaginn fór ég í kínverskuna og fékk konu af leikskólanum til að passa þá stuttu. Thelma Kristín var voða spennt yfir þessu, enda hefur hún ekki verið í pössun síðan við fluttum.. held hún sé alveg komin með nóg af mömmu sinni. Þetta gekk allt mjög vel eins og við var að búast, enda þekkti Thelma konuna og ég heppin að fá svona reynslubolta til að passa í stað þess að þurfa að redda einhverjum táningi sem maður þekkir ekki neitt.

Thelma Kristín fór í leikskólann í morgun og ég skellti mér í vinnuna. Þrátt fyrir að ég sé orðin ansi lunkin í að keyra hef ég enn ekki safnað kjarki til að fara á bílnum í vinnuna. Til að komast þangað þarf að keyra í gegnum miðbæinn með tilheyrandi traffík, þrengslum, sporvögnum o.s.frv. Ég ákvað því að prófa að taka sporvagn í vinnuna og athuga hvort ég kæmist ekki á leiðarenda. Það gekk ágætlega, ekki hratt, en ágætlega. Fór smá vitleysu á leiðinni niðureftir en það tilheyrir svona í fyrsta túrnum. Lenti nú í svolitlu fyndnu á heimleiðinni. Í sporvögnunum eru vagnstjórarnir með míkrafón og láta vita um nöfnin á helstu stoppustöðvum en vagnstórinn í þessum vagni notaði hins vegar míkrafóninn til að halda uppi fjöri í sporvagninum. Hann var bara að segja brandara: "Ladies and gentlemen, take your seats or hold on tight, for we are rollin' and rocking!" og svo fór hann bara að syngja! Farþegarnir litu hver á annan og flissuðu vandræðalega. Svo hélt kallinn bara áfram að segja alls kyns vitleysu eins og: "This is the best time to come home, just before the big rain!" og "Just a reminder guys, if you want to get off, don't be shy to give me a buzz" og svo hringdi einhver bjöllunni og þá fór vagnstórinn að syngja "That's the way - ah ah - I like it!! Svo fór sjúkrabíll fram úr okkur með blikkandi ljós (hér nota sjúkra- og löggubílar sporvagnaakreinina til að komast hraðar áfram því þar sleppa þeir við traffík) og þá sagði vagnstjórinn "Guys, we're gonna follow the ambulance!!" Farþegarnir vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að taka þessu, flestir bældu niður hláturinn en aðrið lágu í kasti yfir þessu öllu saman - Maður var alla vegann skælbrosandi þegar maður steig af vagninum þrátt fyrir að ferðin heim hafi tekið einn og hálfan tíma!

Svo eru það Osama bin Landen og félagar í Al Qaida sem hóta árásum á Los Angeles og Melbourne. Fólki brá nú óneitanlega í brún við fréttirnar en yfirvöld láta ekki á neinu bera og segja viðbúnaðarstig í borginni vera "medium" alveg eins og áður var. Fólk er hvatt til að láta þetta ekki hafa áhrif á daglegt líf enda tilgangurinn að hræða fólk... og ef við látum þá hræða okkur, er tilgangi þeirra náð.. svo ég hafi nú beint eftir Howard!

Verð líka að láta fylgja með sorglega fyndna sögu af síðasta Ástralanum sem fannst eftir að Katrín reið yfir. Eins manns var enn saknað eftir nærri viku og foreldrarnir farnir til Bandaríkjanna að leita. Kreditkort mannsins hafði verið notað eftir fellibylinn í nálægum bæ við New Orleans en löggan komst að því að kortinu hafði verið stolið og það var alls ekki Ástralinn sem var að nota það. Þetta leit því mjög illa út á tímabili og allir orðnir mjög stressaðir. Þegar foreldrarnir lentu í Bandaríkjunum fengu þau þó þær góðu fréttir að kauði væri fundinn.... í fangelsi! Minn hafði farið út að skemmta sér kvöldið fyrir Katrínu, lent í slagsmálum og verið kastað í steininn þar sem hann sat af sér fellibylinn umkringdur harðvígum glæpamönnum.

Yfir í allt aðra sálma...

Á morgun er að hefjast 10 daga hátíð í bænum "Royal Melbourne Show". Leifar af gömlu mörkuðunum sýnist mér, enda er þetta í 150 sinn sem þetta er haldið. Mikið á boðstólnum og sú stutta er búin að slefa yfir auglýsingunum í marga daga og mamman búin að lofa að fara með hana. Ég er að hugsa um að skella mér með hana á morgun því í næstu viku hefst skólaleyfið og ég er viss um að þá verður miklu meira fólk á staðnum. Veðrið hefur nú verið jafnleiðinlegt í þessari viku og það var gott í þeirri síðustu. Menn segja að vorið hafi bara verið að stríða okkur í síðustu viku með því að sýna sig eitt augnalok og hlaupast svo á brott... en við höldum nú enn í vonina að það láta sjá sig fljótlega. Við Íslendingar látum annars ekki 15 stiga hita og skúrir stoppa okkur - svo allt stefnir í að við skellum okkur á morgun.

Annars eru allir að fara á skíði í kringum okkur, maður verður hálföfundsjúkur. Við fórum og hittum Vanessu og mömmu hennar í gær og þá kom í ljós að þær eru að fara í næstu viku hér upp í Alpana á skíði. Við notuðum auðvitað tækifærið og lánuðum þeim vetrarfötin hennar Thelmu, nóg er til af þeim inni í skáp að skreppa saman. Meira að segja mamman labbaði út með skíðagallann minn, gott að einhver getur notað hann! Svo eru finnsku vinir okkar líka að fara á skíði um helgina. Við verðum að drífa okkur næsta vetur, ætli það sé ekki bara best að skella sér yfir til Nýja Sjálands og skíða?

En þrátt fyrir alla drauma um ferðalög liggur ljós fyrir að mitt næsta ferðalag liggur einmitt inn í draumaheim. Best að skella sér í háttinn, klukkan er orðin margt.. og stór dagur framundan ef við mæðgur förum á markaðshátíðina miklu á morgun.

Sendum kveðjur í heiðardalinn
Knús
Unnur Gyða


 

Website Counter