Melbourne

Saturday, March 30, 2013

Show must go on...


Dagur 17, sunnudagur 24. mars

Héldum sem leið lá fótgangandi í Wet'n Wild vatnsrennibrautagarðinn. Þetta er ansi stór og flottur garður og skemmtum við okkur konunglega fram eftir degi. 

Tveir hlutir sem ég verð að fá að nöldra yfir samt… Númer eitt.. Mikið óskaplega fer í taugarnar á mér þegar fólk kemst upp með að setja handklæði á bekk og eiga þar með bekkinn það sem eftir lifir dags..argggg! Þetta fer nú almennt í taugarnar á mér á sólarströndum en í vatnsrennibrautagarði - Come on! 100% bekkja með handklæði á og ca. 3% í notkun. Hvernig í ósköpunum eigum við að kenna börnunum okkar að skiptast á og deila með hinum á meðan við högum okkur svona sjálf? Ég var mjög ánægð með hótelið okkar á Bali sem var með skýrar reglur um að ef handklæði væru óhreyfð á bekk í hálftíma yrðu þau fjarlægð - hversu einfalt er það? (starfsfólk þarf ekki einu sinn að framfylgja þessu - það dugar að setja regluna og gestir geta sjálfir fylgst með bekkjunum í kringum sig og lagt handklæðin til hliðar eftir ákveðinn tíma)

Nöldur númer tvö - Af hverju þurfa barnasvæði í vatnsgörðum alltaf að hafa þessa blessuðu fötu sem safnar vatni og svo hellist úr henni yfir allt heila klabbið? Auk þess eru alltaf punktar þar sem kalt vatn gusast yfir allt og alla. Ekki finnst okkur þægilegt að láta hella yfir okkur köldu vatni og ég efast um að við færum oft í þá vatnsrennibraut þar sem stöðugt væri verið að sprauta köldu vatni á hausinn á okkur. Af hverju heldur fólk þá að börnunum okkar finnist þetta gaman? Magnús Andri harðneitar að fara inn í þessi leiksvæði af því hann vill ekki láta sprauta köldu vatni í augun á sér og ég lái honum bara ekki neitt.. bara skil ekki þessa áráttu?

Jæja, búin að hella úr þessum skálum. Nú get ég haldið áfram með söguna…

Við vorum búin að sjá dökk ský á himni í kringum okkur allan daginn en létum það ekki á okkur fá á meðan sólin skein á okkur. Um fjögur leytið voru óveðursskýin hins vegar orðin heldur ógnandi og fór að lokum svo að öllum garðinum var lokað fyrirvaralaust á meðan veðrið gengi yfir - enda hæðstu turnarnir ansi háir og kannski ekki bestu staðirnir að halda sig í þrumum og eldingum. Það vildi nú þannig til að við sátum einmitt í skjóli og vorum að klára ísinn okkar þegar þetta gerðist og planið var upphaflega að halda þar kyrru fyrir og bíða af okkur storminn. Eftir nokkrar bollalengingar ákváðum við þó að láta slag standa og freista þess að hlaupa heim áður en herlegheitin skyllu á þar sem við höfðum áhyggjur af opnum gluggum á bílnum og þvotti á snúrum auk þess sem gönguleiðin lá yfir graslendi sem yrði líklega orðið eitt leðjusvað ef við biðum. Þið hefðuð átt að sjá okkur þar sem við hlupum eins og fætur toguðu um 2 km leið heim í bíl með óveðurskýin á hælunum. Maron og Magnús hlupu aðeins hraðar en við Elísa og mátti minnstu muna að þeir næðu að hlaupa með rigninguna á hælunum alla leiðina en við stelpurnar urðum heldur blautar síðasta spottann. Það var þó ekkert miðað við það sem á eftir kom því þvílíka hellidembu hef ég sjaldan séð með tilheyrandi þrumum og eldingum. Á sama tíma kom myrkrið og hundruðir leðurblaka sveimuðu um himininn. Þetta var því heldur tilkomumikil sjón en mikið vorum við nú fegin að hafa drifið okkur af stað heim! 

Wet'n Wild stóð því svo sannarlega undir nafni þennan dag ;-)

Dagur 18, mánudagur 25. mars

Eftir snöggan endi á vatnsrennibrautunum í gær vorum við ekki komin með nóg og skelltum okkur bara aftur (enda búin að festa kaup á 5 daga passa). Veðrið var æðislegt og miklu færra fólk í garðinum. Vorum búin að eyða þarna öllum deginum áður en við vissum af. Skemmtilegast fannst okkur að fara í "bátarennibrautina" sem var með stórum kútum sem við sátum í og hentaði vel fyrir alla fjölskylduna. 

Elísa, sem hefur alltaf verið heldur vatnshrædd, er öll að koma til og var ekki búin að fá nóg af vatni þegar við komum heim og vildi ólm skella sér í sundlaugina á tjaldsvæðinu. Gerðum það og daman var voða dugleg að æfa sig að synda. Magnús, sem telur sig stundum geta allt sem stóra systir getur varð samstundis sannfærður um að hann kynni nú líka að synda og þyrfti sko ekki kút. Áður en við vissum af var kappinn búinn að hoppa út í djúpu og sökk þar að sjálfsögðu beina leið til botns. Þetta endurtók hann nokkrum sinnum áður en hann sannfærðist um að hann væri nú kannski enn þá ósyndur. Eins gott að hafa augu á gorminum á meðan hann er með þessa flugu í hausnum!.

Dagur 19, þriðjudagur 26. mars

"Erum við að fara aftur í tivoli í dag?" spurði Maggi í forundran þegar við vorum að hafa okkur til um morguninn og kannski ekki furða því þessi tilvoli törn er nú líklega eitthvað sem seint verður endurtekið. Krakkarnir byrjuðu nú reyndar á að fá lánaða hjólabíla á tjaldsvæðinu en sú leiga var innifalin í pakkanum sem við keyptum þar. 

Reyndar var veruleikinn búinn að banka upp á hjá Maroni og var hann heima við vinnu á meðan við röltum okkur aftur út í Movie World þar sem við dvöldum fram eftir degi. Maron kom svo og hitti okkur aðeins í eftirmiðdaginn svo við Thelma gætum farið í stóru tækin á meðan hann sá um gormana.

Um kvöldið bauð tjaldsvæðið svo gestum i grillaðar pylsur sem við þáðum með þökkum og á eftir skellti Elísa sér aftur í laugina á meðan mamman sat á bakkanum og horfði á.

Dagur 20, miðvikudagur 27. mars

Pökkuðum saman dótinu okkar og héldum af stað í Sea World; þriðja garðinn í pakkanum okkar. Áttum í smá basli með að komast þangað þó leiðin væru nú ekki mjög löng enda alls staðar vegaframkvæmdir og umferðarhraðinn í samræmi við það. Vorum við það að verða bensínlaus og urðum að gera dauðaleit að bensínstöð þó að við værum inni miðjum bæ og var klukkan að nálgast hádegi þegar við náðum áfangastað. 

Maron sat svo í bílnum á stæðinu við Sea World á meðan vð hin fórum inn í garðinn og eyddum þar eftirmiðdeginum. Margir voru búnir að segja okkur að þessi garður væri sístur þeirra þriggja og væntingarnar hjá okkur ekki miklar. Urðum því ekki fyrir vonbrigðum þar sem við skoðuðum mörgæsir, ísbirni (í 30 gráðu hita!! greyin!), höfrunga, seli og sæljón. Krakkarnir fóru líka á Dóru sýningu og fengu að hitta Diego - það sem Maggi var spenntur að hitta þetta átrúnaðargoð. Atvinnuljósmyndarinn á svæðinu gafst meira að segja upp á að ná mynd af þeim félögum því Magnús fékkst ekki til að hætta að hoppa! 

Þegar garðurinn lokaði klukkan fimm drifum við okkur svo út í bíl til Marons og ókum beina leið fram hjá Brisbane og upp til Mooloolaba. Þarna var Maron með annan fótinn þegar bið bjuggum í Melbourne og við Thelma höfðum fylgt honum þangað nokkrum sinnum. Fallegur bær og gott að koma þangað aftur. 

Vorum komin á áfangastað um átta leytið og drifum okkur út að borða. Gengum beint inn á mexíkanskan stað sem við höfum áður farið á en þar horfði þjónninn á okkur eins og við kæmum frá annarri plánetu þegar hann tilkynnti að búið væri að loka eldhúsinu. Við spurðum hvort hann vissi um einhvern annan stað þar sem enn væri opið (NB við erum að tala um miðbæinn á ferðamannbæ þar sem veitingastaðir liggja hlið við hlið eftir ströndinni) og hann svaraði með þjósti "Ekki á þessum tíma sólarhringsins"!! Okkur leið eins og við hefðum farið út með 3 börn í miðnætursnarl gegn betri vitund! Sem betur fer fundum við þó kósý ítalskan stað sem gat reddað okkur pizzum og var því kvöldinu bjargað.

Ég hef nú aldrei verið fylgjandi því að við tökum upp á því að færa klukkuna upp á Íslandi yfir sumartímann en ég finn það mjög greinilega hér hvað það gerir gott. Hér í Queensland er komið niðamyrkur um sex leytið sem er bara allt of snemmt. Manni finnst eins og það sé komin hánótt upp úr níu! Það munar ótrúlega um þennan klukkutíma í björtu sem fólk fær í New South Wales og Victoriu fylkjum og ég gæfi mikið fyrir að hafa hann áfram hér.

Dagur 21, fimmtudagur 28. mars (Skírdagur)

Eftir göngutúr um bæinn og léttan hádegismat settist Maron við vinnu og við hin röltum okkur niður á strönd þar sem við eyddum eftirmiðdeginum. Parkeruðum okkur óvart beint fyrir framan æfingasvæði lífvarðanna í Mooloolaba og skemmtum okkur ágætlega við að fylgjast með þessu vaska unga fólki við æfingar á brettum, bátum og fjórhjólum.

Í framhaldi af því sem ég var að tala um með klukkuna… Þar sem ströndin hér snýr í austur og sólin hnígur, eðli málsins samkvæmt, til viðar í vestri þá er sólin komin á bak við hús upp úr klukkan fjögur!! Skugga lagði hratt yfir ströndina um hálf fimm og allir tóku saman og fóru heim. Við vorum því heldur fyrr á ferðinni þetta kvöld. Eftir góða sturtu og kvöldverð röltum við inn í bæ þar sem búið var að lofa krökkunum frosinni jógúrt í eftirrétt. Vorum búin að sjá þar ótrúlega flottan og girnilegan stað sem stóðst fyllilega væntingar. 

Nú eru allir skólar landsins búnir að ljúka fyrstu önn ársins og tveggja vikna frí hafið. Það verður því flóknara og dýrara að leigja tjaldstæði næstu dagana og ákváðum við eftir nokkurt japl og jaml að panta okkur ekki pláss um páskana því við viljum ekki binda okkur í 4 nætur á sama stað (algeng lágmarksdvöld yfir páskahelgina). Okkar bíða nefnilega nokkrir keyrsludagar næstu dagana enda planið að komast upp í kóralrif fyrir miðja næstu viku....

... og frá því verður sagt í næsta þætti ...




0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter