Melbourne

Sunday, March 24, 2013

Á sandölum og ermalausum bol...

Dagur 13, miðvikudagur 20. mars

Ókum sem leið lá í gegnum sykurakra, regnskóga og bananaekrur upp til Byron Bay í norðurhluta New South Wales. Byron Bay er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Ástrala og er það skiljanlegt því hér er að ferðinni mjög skemmtilegur bær með frábærum ströndum og líflegum miðbæ.

Komum okkur fyrir á látlausu tjaldstæði inni í miðbænum og hófum dvölina á stuttum göngutúr um bæinn til að skoða okkur um og kaupa í matinn. Veðrið, sem hingar til hefur leikið við okkur, hefur aðeins verið að stríða okkur undanfarna daga og þarna gekk á með skúrum. Við héldum því fljótt til baka og höfðum hægt um okkur inni í bíl, elduðum mat, lærðum, spiluðum, unnum og lásum.

Dagur 14, fimmtudagur 21. mars

Vinnudagur hjá Maroni. Við gormarnir fengum okkur göngutúr inn í bæ, röltum í búðir og lékum okkur á leikvelli. Eftir hádegismat fórum við niður á strönd með fötur og skóflur og eyddum þar eftirmiðdeginum við sandkastalagerð (sumir smíðuðu reyndar klósett og aðrir krókódíla). Sandurinn var svo mjúkur að það ískraði í honum þegar við gengum á honum, líkt og gengið væri á kartöflumjöli. Eftir rigningu næturinnar var hann líka mátulega blautur og því var æðislegt að leika með hann - meira eins og við værum að leira en moka.

Maron átti fund í bænum seint um eftirmiðdaginn svo við hin skelltum okkur í góða sturtu og gerðum okkur fín áður en við röltum inn í bæ og fengum okkur að borða á Hog's Breath veitingastaðnum en sú keðja er í uppáhaldi hjá okkur. Maron hitti okkur svo þar eftir fundinn sinn og á eftir röltum við um bæinn sem var mjög gaman enda óvenju líflegur miðbær á ferðinni.

Byron Bay er líka frægur fyrir að vera party staður unga fólksins. Þegar við sátum á ströndinni fyrr um daginn var nokkuð um að verið væri að dreifa armböndum til fólks þar sem boðið var upp á tilboð á börum og klúbbum bæjarins. Ég hef greinilega ekki þótt mjög líkleg til þess að mála bæinn rauðan því enginn bauð mér svona armband þar sem ég sat með skóflu og bjó til bílagöng í sandinn :-(  Þó er ekki öll von úti því ung kona nálgaðist mig í bænum og rétti mér miða þar sem boðið var upp á barnapíuþjónustu. Gott og blessað en seint mun ég nú senda börnin mín í pössun hjá ókunnugri manneskju sem réttir mér miða úti á götu :-/

Dagur 15, föstudagur 22. mars. 

Pökkuðum saman og vorum komin af stað fyrir klukkan tíu. Ókum upp að fallegum vita sem er táknmynd Byron Bay en vorum komin í heldur miklar ógöngur á húsbílnum á þröngum, hallandi vegum upp á hæð þar sem var mikil umferð bæði bíla og gangandi vegfaranda og hvergi hægt að leggja. Snerum við við fyrsta tækifæri og kvöddum Byron Bay.

Héldum örlítið norðar yfir fylkjamörkin til Queensland upp á Gold Coast - Benidorm Ástralíu. Stoppuðum og versluðum og fórum inn til Surfer's Paradise (vinsælasta ferðamannabæjarins) til að komast í banka. Borðuðum hádegismat úti í vegkanti á meðan Maron hljóp inn í banka (var ég búin að segja ykkur í dag hvað þetta er þægilegur ferðamáti með  börn??!!)

Thelma Kristín var búin að liggja á Netinu og finna handa okkur flott tjaldstæði á góðu verði rétt við helstu skemmtigarðana. Á Gold Coast er að finna stærstu tivolí og vatnsrennibrautagarða landsins og Thelma Kristín búin að hlakka til að komast hingað síðan áður en lagt var af stað frá Melbourne. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum með valið hjá skvísunni því hér er að finna rosalega flott tjaldstæði með æðislegri sundlaug með rennibraut og sundlaugabar og meira að segja heitum potti (sem maður sér mjög sjaldan hérlendis en gladdi mömmuna mikið).

Tókum því svo rólega, skelltum okkur í sund og settum börnin snemma í rúmið. Fengum þá ákvörðum aðeins í hausinn því Maron mundi allt í einu eftir því rétt eftir að þau voru komin upp í um átta leytið að yfirvöld í Queensland fylki sjá engan tilgang með því að færa klukkuna fram á sumrin og því er fylkið klukkustund á eftir New South Wales og Victoriu þó það liggi heldur austar ef eitthvað er. Klukkan var því ekki nema sjö þegar krakkagreyin voru send í rúmið - sem skilaði sér að sjálfsögðu í ræsi klukkan sex næsta morgun!

Gamla settið hafði því nægan tíma til að elda Peking önd og sötra hvítvín. Fengum okkur meira að segja göngutúr um tjaldsvæðið í þeirri trú að við gætum fengið okkur drykk á barnum en þegar þangað var komið um 10 leytið var allt lokað og læst og allir farnir að sofa!

Dagur 16, laugardagur 23. mars

Langþráður dagur upp runninn. Loksins komið að því að heimsækja skemmtigarða Gold Coast. Fjárfestum í pakka sem veitir okkur aðgang að þremur görðum í 5 daga: Warner Bros Movie World, Wet'n Wild vatnsrennibrautagarðinum og Sea World.

Tjaldsvæðið er í göngufjarlægð við tvo stærstu garðana sem er mjög hentugt því búið var að vara okkur við því að þjófar herji á húsbíla við garðana enda vita þeir vel að þarna leggur fólk sem ætlar sér að vera í burtu í nokkra tíma og því gott tækifæri til að láta greipar sópa. Við gengum því sem leið lá út í Movie World þar sem við eyddum deginum í rússibönum, hringekjum og öðru skemmtilegu.

Elísa er alger ofurhugi og vill helst fara í öll tæki en það sama verður seint sagt um bróður hennar. Okkur tókst þó eftir miklar fortölur og hótanir að sannfæra hann um að fara í pinkulítinn fallturn en hann var þó mjög ánægður með sig eftir á og vildi helst hvergi annars staðar vera. Ég gerði heiðarlega tilraun til að fá hann með okkur lítinn rússibana en varð frá að hverfa þó við værum sest í tækið því hann gargaði af öllum lífs og sálarkröftum. Elísa greyið var of lítil til að fara ein og fékk far með ókunnugri fjölskyldu sem ættleiddi hana í 5 mínútur.

Á meðan þessu stóð hlupu Thelma Kristín og Maron í stóru tækin - sum hver svo rosaleg að þau voru á mörkum þægindarammans.

Fengum okkur svo sundsprett þegar heim var komið - eða krakkarnir og pabbinn fengu sér sundsprett og mamman sat á barnum og sötraði einn kaldan - er það ekki þannig sem lífið á að vera?

Ég er loksins búin að setja inn fleiri myndir á Facebook. Þær eru í albúmi hjá mér sem heitir Elwood og eru reyndar bara frá tímanum okkar þar. Næsta verkefni er svo að setja inn húsbílamyndir - kemst vonandi í það á næstu dögum.

Yfir og út

2 Comments:

  • Oh, ljúfa líf hjá ykkur. Sit hér græn af öfund en hlakka um leið til að hitta ykkur í maí, alveg ótrúlegt hvað tíminn líður hratt....Emma spurði mig í dag hvort að Elísa gæti komið í heimsókn, haha, eitt augnablik búin að gleyma hvar vinkonan er......knús a ykkur flott fjölskylda. Ása

    By Blogger Ása, at 7:49 AM  

  • Alltaf jafn gaman að lesa pistlana þína Unnur mín og fylgjast með ykkur. Kom heim á fimmtudaginn og er að komast niður á jörðina. Knús og áfram góða skemmtun :-)

    By Anonymous Birna frænka, at 11:33 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter