Melbourne

Monday, February 20, 2006

Afmæli.. og fleira

"Selamat pagi" segir dóttir mín á hverjum morgni þegar hún vekur mig og brosir út að eyrum. Hún lærir nefnilega indónesísku í skólanum og er farin að slá um sig með nokkrum orðum! Hún er annars hæstánægð í skólanum, hlakkar til að fara á hverjum morgni. Í morgun fór hún með bangsann sinn með sér því fyrirhuguð er "teddy bear picnic" í hádeginu með vinunum úr 6. bekk. Allir 5 ára nemendur eiga "vin" í 6. bekk sem fylgist með þeim í skólanum. Frábær hugmynd að mínu mati, þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það er spennandi að vera 5 ára og eiga 11 ára vin.. verður ekki mikið betra.

Talandi um að vera 5 ára. Stóri dagurinn á morgun.. að vísu tókum við forskot á sæluna og héldum afmælisveislu á sunnudaginn var. Thelma Kristín bauð nokkrum vinkonum úr skólanum og skemmtu þær sér konunglega. Þetta var nú svolítið skrýtin veisla án ykkar allra... bara 5 börn að hafa ofan af fyrir - pís of keik, bara! Reyndar ágætis fyrirkomulag að hafa bara krakkana, foreldrarnir komu svo og fengu sér kaffibolla á eftir. Með þessu móti hefur maður tíma til að sinna aðalgestunum í stað þess að henda þeim upp í herbergi á meðan maður serverar kaffi fyrir eldri kynslóðina.



Litli sælgætisgrísinn minn er annars voða upptekin af orkubókinni þessa dagana og passar vel hvað hún setur ofan í sig. Bræddi okkur alveg í gegn þegar við skrifuðum undir "samninginn" við hana. Við sögðum að hún mætti óska sér einhvers sem hún svo fengi ef hún yrði dugleg að borða hollan mat í heilan mánuð. Daman hugsaði sig vandlega um og sagði svo: "Mig langar mest í lítinn engil til að hjálpa fátækum börnum í Afríku"!! Er hún ekki sætust??!! Við höfum lengi verið að tala um að "taka að okkur" barn í gegnum áströlsk samtök sem eru mjög virt hérna. Við urðum því ásátt um það að ef Thelma Kristín heldur samninginn munum við finna 5 ára barn í Afríku til að senda peninga til. Held að það geri krökkum gott að fylgjast með jafnöldrum sínum sem hafa það ekki jafn gott, þetta verður spennandi verkefni.

Okkur fannst nú Íþróttaálfurinn farinn að hafa fullmikil áhrif þegar við sátum á Subway á laugardaginn. Röðin lá framhjá borðinu þar sem við sátum og aftastur stóð ungur, hraustur, maður í ermalausum bol. Thelma Kristín horfði vel og lengi á manninn, hallaði sér svo yfir að mér og hvíslaði: "Mamma, sjáðu hvað maðurinn er með fallega vöðva!!!"

Það velta alveg upp úr henni gullkornin þessa dagana, verst maður gleymir helmingnum. Mörg eru tilkomin vegna tungumálaruglings.. eins og að bíða fyrir hlutunum en ekki eftir þeim (e. wait for) og stundum ruglast hún aðeins á íslensku orðunum eins og þegar hún sagði "mamma, halinn á mér fer alltaf upp úr skónum"... átti sem sagt að vera hællinn!

Á sunnudaginn var hún svo að drekka bollasúpu og gekk afskaplega hægt. Ég var margbúin að setja kalt vatn í bollann, súpan var rétt hlandvolg en litli kettlingurinn minn rétt dífði tungunni ofan í. Ég var orðin heldur pirruð, tók gúlpusopa og sagði:"Blessuð, láttu ekki svona, þetta er ekkert heitt", sú stutta horfði á mig sorgaraugum og sagði: "Mamma, hjartanu mínu líður bara ekki eins og hjartanu þínu"!!

Jæja, nóg komið af Thelmusögum. Lítið annað að frétta héðan úr síðsumrinu. Veðrið hefur verið heldur leiðinlegt, rétt um 20 gráðu hiti - en spáir hlýnandi, sem betur fer. Dýralífið í miklum blóma og pöddulífið á heimilinu í samræmi við það. Er nú orðin heldur róleg yfir þessum hlutum sem betur fer, tel það ekki eftir mér að myrða nokkrar köngulær við og við. Þó brast nú þolinmæðin þegar ég fékk óvæntan gest upp í rúm til mín um helgina. Lá hálfsofandi í örmum ástkærs eiginmanns míns og taldi hann vera að strjúka á mér upphandlegginn... brá nú heldur þegar hann strauk niður alla síðuna og langt niður á læri... vissi ekki til þess að hann væri svona fingralangur. Fannst þetta heldur skrýtið, sparkaði kallinum fram úr og skipaði honum að kveikja ljósin. Haldiði ekki að þetta hafi verið kakkalakki sem skreið eftir síðunni á mér!!!!!!! Öðru vísi mér áður brá!!!!!!!!!! Um það bil þarna dreg ég nú mörkin.

Við teljum okkur þó vita hvaðan kauði kom því Maron var að kaupa sér nýja skó og það síðasta sem ég gerði áður en ég skreið upp í var að opna skókassann til að kíkja á þá. Það var víst frétt um það í blöðunum um daginn að óvenju mikið væri af kakkalökkum inni í húsum þessa dagana af því það var svo heitt og rakt í janúar. Við höfum verið að fá einn og einn inn til okkar, alltaf á sama tíma og við tökum á móti einhverjum kössum eða dóti úr vöruhúsum svo það er greinilegt að við erum að fá þetta í kaupbæti, alveg óumbeðið.

Jæja, kveð í bili. Þarf að koma mér niður í bæ og ganga frá flugmiðum. Kristófer ætlar að fá að fljóta með mömmu og pabba til okkar í apríl og vera hjá okkur þangað til við förum heim í lok maí... gaman gaman!

Knús
Unnur Gyða

Thursday, February 09, 2006

Skólastelpan mín

Muniði eftir fyrsta skóladeginum ykkar? Ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir mínum. Man eftir fyrsta árinu svona óljóst, skólastofunni, kennurunum og þegar ég var skömmuð fyrir á mála abstrakt "listaverk" en ekki mynd af einhverju sérstöku. Man líka eftir því að bíða hjá ömmu Fjólu þar til Jónína Ben var búin með morgunleikfimina á Gufunni, þá mátti leggja af stað í skólann - kennslan fór fram frá hálfellefu til tólf.

Held að ekkert barn sem er að byrja í skóla í dag komist hjá því að muna eftir fyrsta skóladeginum, svo vel er allt ferlið "dokumenterað". Það var ekki til það foreldri sem fylgdi barninu sínu í skólann síðast liðinn fimmtudag sem ekki var vopnað a.m.k. einni myndavél. Meira að segja kennarinn gekk um stofuna og tók myndir af nemendum og foreldrum.

Fyrstu skref langrar skólagöngu

Thelma Kristín er annars hæstánægð í skólanum enda ekki við öðru að búast. Um hálfur bekkurinn samanstendur af félögum úr leikskólanum svo hún á fullt af vinum og líður vel. Henni finnst hún auðvitað hafa stækkað um fjóra metra eftir að hún varð skólastelpa, ótrúlega stolt dama.

Á leiðinni út í búð á föstudaginn hittum við einmitt þrjá félaga hennar úr skólanum. Einn strákurinn hrópaði upp yfir sig "Thelma! Funny meeting you here. Give me five" og rétti út arminn. Thelma Kristín brosti vandræðalega... en átti þó erfitt með að fela stoltið og sló á móti!! Oh my... hvernig verða þau 10 ára!!

Fyrstu önnina er kennt fjóra daga í viku, frí á miðvikudögum, sem er mjög þægilegt. Mánudagarnir er frekar hektískir hjá okkur en þá er aðeins hálftími frá því að skólinn er búinn þar til balletttíminn byrjar. Jú, dömunni varð að ósk sinni, og er núna skráð í einn virtari ballettskóla Melbourne. Hún hjólar því í skólann á mánudögum og svo sæki ég hana á mínum hesti og við brunum beint upp til St. Kilda í ballettinn.

Fimleikakonan ég er nú ekki alveg inni í þessum ballettmálum. Það virðist vera frekar mikill agi í þessu öllu og kennarinn hún Fröken Theska uppfyllir algerlega allar kröfur staðalímyndar hinnar rússnesku bellettdansmeyar sem flúði byltinguna og hóf nýtt líf á Vesturlöndum. Kellan er örugglega komin langt á sjötugsaldur, gráhærð með stórt nef og allt of mikið máluð. En stelpurnar hafa gaman af þessu, valhoppa um salinn og rétta úr ristum... þegar þær eru ekki of uppteknar af því að dáðst að sjálfum sér í speglinum... maður er nú doltið flottur í svona ballettpilsi!

Finn strax mun á íslenskunni hjá Thelmu Kristínu eftir aðeins viku í skólanum. Eins gott að við erum á leið heim í sumar .... hún þarf á íslenskuæfingum að halda. Hún notar orðið mikið af enskum orðum inn á milli þegar hún er að tala við mig og oft heyrir maður á máli hennar að hún er að þýða frá ensku yfir á íslensku og setningarnar verða frekar furðulegar. Lengi eftir að við vorum í Svíþjóð talaði Thelma Kristín alltaf um að "plokka" blóm og ávexti (man plockar jo på svenska!) en um daginn talaði hún um að "pikka" ávexti... ég held þetta lýsi því ágætlega hvað er að gerast í kollinum hjá henni.

Áttum rólega helgi annars. Maron var með annan fótinn í vinnunni. Röltum samt á niður í Elwood village á laugardaginn og settumst inn á veitingastað sem er í uppáhaldi hjá okkur núna. Ætluðum bara að fá okkur kaffi og kökusneið en enduðum þarna í kvöldmat. Ég held að þetta sé það sem maður kemur til með að sakna þegar við flytjum aftur heim. Að geta skellt sér í sandalana og rölt á veitingastað, fengið sér bjór og léttan málsverð á skikkanlegu verði og rölt svo heim aftur í sólinni.

Fórum svo í hjólatúr á sunnudaginn. Hjóluðum niður í St. Kilda þar sem allt iðaði af lífi. Á ströndinni fór fram stórmót í strandblaki og mikill mannfjöldi var saman kominn til að fylgjast með ... ja annað hvort íþróttamótinu... eða fáklæddum konunum.. veit ekki alveg!

Þetta er svona það helsta sem er að frétta af okkur hér á Suðurhveli. Mín er svo bara í rólegheitum á meðan sú stutta stritar í skólanum. Er farin að æfa tennis og ætla mér að vera duglegri á golfvellinum... hið ljúfa líf bara! Er nú samt að hugsa um að byrja á grunnrannsókn sem hægt væri að nota í mastersritgerð í framtíðinni... hvort svo sem maður notar hana eða ekki... allt á byrjunarstigi, en ég verð að finna mér eitthvað til dundurs - þýðir ekkert að hanga bara og blogga allan daginn.


 

Website Counter