Melbourne

Saturday, October 21, 2006

Heimilislausir námsmenn

Bara nokkrar línur úr rólegheitunum á Tennyson. Maron er í Japan, búinn að vera síðan um síðustu helgi og kemur aftur á miðvikudag. Við mæðgur því einar í kotinu í hinni daglegu rútínu.

Reyndar var nú rútínan brotin upp á þriðjudaginn þegar Thelma Kristín fór með skólanum í vettvangsferð. Ferðinni var heitið í Ripponlea Estate, herragarð sem byggður var árið 1868. Í dag er húsið í eigu borgarinnar og hægt að koma þarna og ganga um garðana og skoða húsið.

Þessi landareign er um 10 mínútna gang frá húsinu okkar en við höfum aldrei séð þetta, þrátt fyrir að hafa þó nokkrar helgar planað ferð þarna upp eftir. Mamman var því fljót að bjóðast til að hjálpa til, enda þriðjudagur og ég vön að vera viðloðandi skólann þann dag. Þrömmuðum af stað með næstum 100 börn strax um morguninn. Leiðin lá m.a. yfir stóra götu, ja hraðbraut næstum því, sem liggur hér ofan við húsið okkar. Á góðum degi má ég hafa mig alla við að ná að hlaupa yfir akgreinarnar 12 á einu grænu ljósi svo þið getið ímyndað ykkur hvernig það er að fara með 100 börn þarna yfir. En skólinn var auðvitað búinn að hugsa fyrir því... við fengum sko lögreglufylgd!! Tveir bílar fygldu okkur alla leiðina og stoppuðu umferð við hverju einustu götu sem þurfti að fara yfir. Ég held að þetta hafi verið hápunktur ferðinnar hjá allflestum nemendum!

Dagurinn var annars yndislegur í alla staði, úti var 28 stiga hiti og glampandi sól. Krakkarnir gengu um garðana, útbjuggu listaverk af því sem þótti mest spennandi og fengu að leika sér með gömul leikföng eins og krokket, gjarðir, sippubönd og fleira (hm hm.. mín lék sér nú af flestu þessu dóti í GAMLA daga!)

En það var ekki nóg með að skóladagurinn færi í þessa fínu vettvangsferð heldur var afmælisveisla hjá Vanessu vinkonu á eftir! Það var því þreytt en sæl Thelma Kristín sem lagðist til svefns á þriðjudagskvöldið - úrvinda á sófanum upp úr klukkan sjö!!

Það er alveg vitlaust að gera í afmælum í október. Thelma er þegar búin að fara í tvær veislur, missa af einni og er að fara í þá fjórðu um næstu helgi - þessir vinir hennar eru ekkert að dreifa þessu yfir árið.

Voða lítið að frétta héðan annars, ég reyni að læra yfir daginn, aginn er mismikill auðvitað - en almennt gengur bara vel. Maður er auðvitað að nota tækifærið á meðan bóndinn er í burtu og bíllinn í skúrnum að útrétta allt sem mig langar til. Ég bara VERÐ að skjótast aðeins í Kringluna í dag.. ég verð!!

Fengum heimsókn eftir skólann í gær. Tvær mömmur kíktu til okkar með skvísurnar sínar. Stelpunar dúllluðust í barbie og við kjöftuðum yfir kaffibolla - alveg eins og húsmóðurstarfið á að vera, ekki satt?

Reyndar er ég að gleyma að segja ykkur aðalfréttirnar. Við erum að verða heimilislaus!! Búið að selja Tennyson Street og við verðum að vera komin héða út 18. desember - Gleðileg jól! Erum á fullu að reyna að finna okkur leiguhúsnæði í grennd við skólann en þegar maður heimtar fjögur svefnherbergi og garð er úrvalið ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Skoðaði eitt hús í gær sem var svo yndislegt, á sinn hátt. Það hefur líklegast verið byggt milli 1960 og 70, haldið vel við en ekkert endurnýjað. Mér varð nú bara hlýtt um hjartarætur þegar ég kom þarna inn. Leið eins og lítilli stelpu aftur. Allir þessir brúnu, grænu og appelsínugulu litir, þeir voru bara æði! Eiturgrænt gólfteppi, bleik og gul klósett, betrekktir veggir og cowboyhurð í eldhúsinu. Gerist ekki betra.

Skoðuðum annað hús í síðustu viku sem hafði marga góða kosti en ég gat bara ekki litið fram hjá eldhús- og baðinnréttingunum - sem voru allar bleikar!

Þetta er sem sagt aðalverkefni næstu vikna, að finna nýjan samastað. Viljum helst vera í göngufæri við skólann svo við þurfum ekki að kaupa okkur annan bíl - en kannski sláum við bara til - kaupum okkur lítinn skrjóð og stækkum radiusinn af tilvonandi heimilum um 3 km.

Jæja, best að nota tækifærið á meðan daman dundar sér í barbie að kíkja í bækur. Ætlaði í verslunarleiðangur með hana í dag að kaupa sumarsandala en ég voga mér ekki að trufla hana á meðan hún dúllar sér inni í herbergi - nota bara friðinn til lærdóms. Við erum hvort eð er að fara í matarboð klukkan fjögur svo það er fínt að taka því rólega þangað til... það er ekki eins og við fáum nóg að rólegheitum þessa dagana!

Minni á bloggið hjá stráknum sem eru komnir til Sidney - það er linkur hér til hliðar.

Thursday, October 12, 2006

Grampians þjóðgarðurinn

Sko mína.. bara blogg í hverri viku, haldiði það sé framför!

Vorið er heldur betur komið til Melbourne, 33 stiga hiti í gær og 36 stig í dag. Þetta hlýtur að vera ávísun á ALLT of heitt sumar!! Verst að við nutum ekki góðs af þessari hitabylgju í ferðalaginu um helgina.

Thelma Kristín fór í afmæli á laugardeginum í bongóblíðu. Afmælið var haldið á róluvellinum á móti húsinu okkar, öllum bekknum boðið og fjörið eftir því. Mér skilst að það hafi verið fjör hjá foreldrunum frameftir kvöldi en við misstum af því þar sem við lögðum af stað í Grampians þjóðgarðinn á laugardagseftirmiðdeginum.

Óli og Halldór lögðu af stað niður Great Ocean Road deginum áður. Þeir hættu við þau áform sín að kaupa druslu í ferðalagið og leigðu sér ágætis húsbíl með öllum græjum. Miklu þægilegra fyrirkomulag held ég.. og öruggara auðvitað. Ef eitthvað bilar er bara komið með nýjan bíl! Strákarnir óku sem sagt sem leið lá vestur Great Ocean Road og svo norður úr yfir í Grampians þjóðgarðinn. Við höfðum þar leigt sumarhús á Tjald/húsbíla/sumarbústaðasvæði. Slíkt er mjög vinsælt hér... fólk getur mætt með tjaldið eða húsbílinn eða leigt sér lítinn, já eða stóran, kofa. Ef maður velur flottan garð er útiaðstaðan oft mjög skemmtileg (þó að húsin séu kannski ekki alltaf 1sta flokks). Í þessum garði var t.d. sundlaug, tennisvellir, róló og hoppudína (sem vakti mikla lukku hjá yngsta ferðalanginum).

Veðrið á sunnudeginum var því miður ekkert í líkingu við blíðuna á laugardeginum. 18 stiga hiti, rok og skúrir. Við tókum því rólega fram eftir morgni en ákváðum þá að fá okkur bíltúr um þjóðgarðinn. Í fyrrasumar urðu miklir skógareldar á þessu svæði og stór hluti garðsins eyðilagðist. Það var alger guðsmildi að bærinn sem þarna stendur, Halls Gap, slapp því það brann allt í kringum hann. Alls brunnu 130 þúsund hektarar lands!!! Það var vægast sagt mjög áhugavert að sjá eyðilegginguna og ekki síst hvernig skógurinn er að byrja að lifna við aftur. Eldurinn hefur greinilega farið hratt yfir og helst eyðilagt gróður nálægt jörðu. Sá gróður er nú óðum að koma aftur. Stór tré hafa staðist eldinn en allar smærri greinar hafa brunnið. Því eru nú að koma laufblöð á stofnana en það vantar flestar greinar á trén, mjög sérstakt. Gróðurinn var auðvitað ekki þéttur þar sem hafði brunnið og því sérstaklega auðvelt að sjá dýrin sem lifa í skóginum. Það var ekki þverfótað fyrir kengúrum sem stukku óhræddar yfir veginn og við fengum í eitt skiptið að bremsa fyrir allan peninginn.. fínar bremsur á bílnum okkur, sem betur fer fyrir viðkomandi kengúru og ungann hennar litla. Sáum líka mauraætu, snák (steindauðan sem betur fer), dádýr, allt kyns páfagauka og kookaburra.

Veðrið daginn eftir var miklu fallegra og við hófum daginn á góðum göngutúr. Fengum okkur svo hádegismat í Halls Gap áður en lagt var af stað í bæinn. Góð ferð í alla staði. Við sjáum alltaf eftir svona helgi að við verðum að vera duglegri við að skella okkur í svona helgarferðir.

Ég var svo sofandi þegar ég pakkaði niður fyrir ferðina að við vorum hálfbúin fyrir svona rigningardag, enda er maður hættur að reikna með slíkum dögum hér. Enginn var regngallinn með eða úlpan.. og verst af öllu. Ég gleymdi myndavélinni!!! Ég verð því að vísa ykkur yfir á síðuna hjá strákunum fyrir myndir.. kíkið á www.afjoll.blogspot.com til að sjá myndir úr ferðinni.. þar getið þið líka fylgst með ævintýrinu hjá bræðrunum.

Vikan hefur svo flogið hjá eins og óð fluga. Allt gengur sinn vanagang. Nóg að gera í skólanum hjá okkur Thelmu Kristínu og í vinnunni hjá húsbóndanum. Hann er á leið til Japans um helgina og verður í viku svo það verður rólegt í kotinu.

Jæja, best að snúa sér aftur að bókunum. Eyddi deginum í að lesa vitlausan kafla svo nú er best að spýta í lófana.

Friday, October 06, 2006

Af veiðimönnum og öðru ævintýrafólki

Ég veit nú ekki hvort það kíkir nokkur hingað inn enn þá... líklega flestir búnir að gefa upp vonina! En ég ákvað nú samt, eftir nokkrar áskoranir, að láta heyra stuttlega í mér.

Helsta ástæða bloggleysis er auðvitað sú að það hefur verið í nógu að snúast eftir að skólann byrjaði. Það gengur bara vel og ég hef furðu gaman að þessu enn sem komið er. Óli og Halldór komu svo í heimsókn fyrir ca. 10 dögum og því hefur verið sérstaklega kátt í kotinu.

Strákarnir hafa verið að dúllast hér í Melbourne en leigðu sér húsbíl í dag og lögðu af stað í leiðangur. Reyndar ekki mjög langt í þetta sinn. Þeir ætla niður Great Ocean Road í kvöld og á morgun og við ætlum svo að hitta þá í Grampians þjóðgarðinum á morgun þar sem við höfum leigt okkur sumarhús. Planið er að dvelja þar í tvær nætur áður en haldið verður aftur í Melbæinn. Strákarnir ætla svo til Tasmaníu í næstu viku og líta svo við hjá okkur áður en þeir leggja í ferðina upp með austurströnd Ástralíu.

Allt gott að frétta af skvísunni, að sjálfsögðu. Hún tekur miklum framförum í skólanum þessa dagana og er að verða fluglæs bæði á íslensku og ensku... ekki slæmt fyrir 5 ára kríli. Strákarnir hlæja nú doldið að ísl-enskunni hennar enda er hún svo rugluð eftir skóladaginn að það þyrfti helst að fylgja með henni túlkur. Mér finnst reyndar fyndnast þegar hún er að tala góða og gilda íslensku en er greinilega að þýða frá ensku í kollinum.

Ég hef til gamans punktað hjá mér nokkrar setningar sem ég hef munað lengur en 5 mínútur:
"Ég lít fyrir höfrunga og þú lítur fyrir seli"
"Cameron er í ást á mér"
"Mamma, á ég að segja þér sögu sem ég gerði upp?"

Ég leyfi ykkur svo að finna út úr því hvað er að gerast í kollinum á henni ;o)

Ástæðan fyrir höfrunga og sela kommentinu er sú að fyrir nokkru fórum við með frænda Marons í sjóstangaveiði. Það var hin besta skemmtun þó veiðin hafi ekki verið neitt til að monta sig yfir. Höfrungar fylgdu okkur á útsiglingunni og mörgæsir svömluðu í fjarska. Ástæða dræmrar veiði var fyrst og fremst selsskratti sem hringsólaði um bátinn og hafði af okkur allan fisk, lék sér svo að honum í kringum okkur - bara til að núa okkur þessu um nasir.

Thelma Kristín var nú heldur óþolinmóður veiðimaður og vildi sífellt vera að draga upp línuna. Eftir að hafa verið að banna henni það mestalla ferðina ákvað ég að láta hana eiga sig síðustu mínúturnar. Hún dúllaðist við að draga upp línuna og það hvarflaði ekki að mér annað en að hún kæmi ekki upp með annað en vel baðaðan smokkfisk sem við notuðum í beitu. En viti menn.. mín dró bara upp ágætis "Flathead". Landaði honum sjálf og var auðvitað að rifna úr stolti með árangurinn. Setti inn fleiri myndir af hetjudáðinni á myndasíðuna svo þið getið sjálf séð.



Setti líka inn nokkrar myndir af heimsókn okkar á Royal Melbourne Show um helgina. Gamalgróin landbúnaðarsýning með góðum aukaskammti af tivolitækjum og fjöri. Röltum þarna um í bongóblíðu og höfðum gaman af.

Jæja, loksins komnar smá fréttir .. og nokkrar myndir af okkur familíunni. Reyni að láta í mér heyra eftir helgina, vonandi með skemmtilegar myndir af helgarferðinni. Eigum að skila hópverkefni á mánudag svo það er best að ég þykist krukka eitthvað í þessu áður en ég sting af yfir helgina!!

Vona að fólk hafi ekki algerlega gefist upp á mér og að einhverjir líti hér enn inn öðru hverju. Lofa að láta ekki líða jafnlangan tíma fram að næsta fréttaskeyti.

Knús
Unnur


 

Website Counter