Melbourne

Saturday, December 15, 2007

Kerra óskast!

Er stödd á flugvellinum í Melbourne - 40 tíma ferðalag framundan - yesss! Reyndar er fínt að vera hér - bóndinn er svo duglegur að fljúga með Qantas að hér stjana margir starfsmenn við okkur. Thelma Kristín er svo imponeruð að hún segist sífellt gleyma því að við séum að fara í flugvél - það sé svo fint hérna, ólíkt öðrum flugvöllum (enda engir aðrir flugvellir sem hleypa okkur inn í fyrsta klassa lounge!)

Ég lofaði Ásu vinkonu gönguferð niður Laugarveginn í vikunni - fór svo að hugsa um hvernig ég ætlaði mér að útfæra það með eina regnhlífarkerru! Það vill svo til að næstum allir vinir okkar og fjölskyldumeðlimir í allar áttir hafa eignast börn á þessu ári og því allar kerrur og vagnar í notkun. Ég ætla því hér með að auglýsa eftir kerru/vagni til láns á meðan við erum á Klakanum. Ef þið þekkið einhvern sem á sæmilega kerru sem situr í geymslunni og bíður betri tíma þá megið þið gjarnan hafa samband við mig - annað hvort með kommenti hér, tölvupósti eða sms (verð með gamla símann á Íslandi).

Jæja, nú er kallað út í vél - sjáumst á Íslandi ;o)

Monday, December 10, 2007

Svona Stór

Mig hefur lengi langað til að prófa að setja vídeó hér inn og læt verða af því núna. Þessi ræma er tekin á Vanuatu þann 22. nóvember 2007.

Sunday, December 09, 2007

Framtíðin er núna

Ég fór í verslunarleiðangur í vikunni - sem er nú ekki í frásögu færandi svona fyrir jólin...en í einni af stóru búðunum (svipað K-Mart eða Target) var komin sjálfsafgreiðsla - Ég fór bara að minni stöð og skannaði inn mitt dót og setti í poka, renndi svo kortinu í gegn og labbaði út. Framtíðin er mætt á svæðið!

Það var meira að segja komin sjálfsafgreiðsla í eftirlitið á flugvellinum í Brisbane. Þeir sem hafa ástralska passa geta sjálfir skannað hann inn og brosað svo framan í myndavél áður en þeir labba í gegn - bíðið bara þangað til við verðum komin með örflögu aftan við hægra eyrað, mikið verður það þægilegt!

Ég keypti mér lekahlífar í umræddri verslunarferð - sem er nú heldur ekki í frásögu færandi fyrir konu með barn á brjósti! Tegundin sem ég kaupi venjulega var ekki til svo ég keypti það eina sem í boði var - Rite Aid hlífar. Ég er nú yfirleitt ekkert að skipta mér af þessari æskudýrkun sem viðgengst í okkar þjóðfélagi þó ég fagni því að fyrirtæki og skipuleggjendur tískuviðburða séu farnir að setja aldurstakmörk á sínar fyrirsætur en OMG - þeir hafa nú eitthvað gleymt sér hjá Rite Aid

Hvert er málið að láta fyrirsætu sem ekki er orðin kynþroska auglýsa barnavörur!!!

Sunday, December 02, 2007

Whitsundays og Vanuatu

Jæja, jæja..... þá er nú lífið allt að falla í ljúfa löð og rútínu aftur eftir yndislegt frí. Maron og Thelma Kristín fóru til Brisbane þann 8. nóvember, hittu þar tengdó og áttu með þeim 2 daga áður en þau flugu upp til Hamilton eyju í Whitsundays eyjaklasanum. Við Elísa flugum hins vegar beint upp í Kóralrif og hittum gengið þar. Tókum við skútunni á afmælisdaginn minn (btw - takk elskur fyrir allar kveðjurnar - þær dúkkuðu upp á hinum ýmsu netföngum, heimasíðum og símanúmerum, mætti halda að þetta hefði verið stórafmæli - bara gaman hehe!) og lögðum úr höfn eftir að hafa sótt vistir og mettað svanga maga.

Whitsundays eru ólíkar svæðinu sem við sigldum um á Tahiti forðum daga að því leyti að í raun býr enginn þarna - þetta er algert túrhestasvæði sem er einungis uppbyggt af misflottum hótelum og "resortum". Það voru því smá vonbrigði að veðurguðirnir ákváðu að stríða okkur aðeins og sáu okkur fyrir roki (og ansi mikilli rigningu) alla vikuna! Ekkert alvarlegt óveður en samt ekki þessi póstkortasigling um spegilslétt lón í sól og sumaryl. Rokið var svo mikið að við gátum ekki farið út fyrir eyjarnar alla vikuna heldur urðum að sigla hlémegin! En hvað um það - ekki hægt að kvarta yfir því að sigla á skútu um Kóralrifið mikla, stoppa hér og þar og snorkla eða fara í land á fínu hóteli og eyða þar eftirmiðdeginum!

Stelpurnar stóðu sig eins og hetjur - engin sjóveikispúki í þeim. Thelma Kristín dúllast bara í skútunni eins og hún sé heima hjá sér - rambar inn og út hvort sem við erum á siglingu eða ekki - hún hefur greinilega sjófæturna úr föðurættinni, þær koma sko ekki mín megin frá! Elísa tók þessu öllu með stóískri ró - fannst bara notarlegt að láta öldurnar rugga sér og ömmu og afa stjana við sig.

Eftir einnar nætur stopp í Brisbane var svo haldið til Vanuatu eyja. Verð að játa að ég, eins og nær heimbyggðin öll, hefði nú ekki geta bent á þetta land á korti ef ekki væri fyrir Survivor forðum daga! Eyjarnar komu þó nokkuð á óvart. Eyjarskeggjar hafa oft verið kosnir hamingjusamastir allra þjóða og sást það vel. Þeir voru svo ánægðir með sitt. "Allt vex á Vanuatu" segja þeir - hér býr fólk í sínum þorpum með stórfjölskyldu og vinum, eldar í sameiginlegu eldhúsi mat sem ræktaður er á staðnum. Allir hafa nóg í sig og á og eru sáttir við lífið og tilveruna - skilja ekki alveg stressið í okkur hinum. Gott að sjá svona líf öðru hvoru til að minna okkur á það sem máli skiptir.

Ég ætlaði nú heldur að nota tækifærið og sýna eldri dótturinni hversu gott hún hefði það í sínu stóra húsi með öll þessi veraldlegu gæði. Benti hvað eftir annað á hrörlega kofana og spurði "myndir þú vilja búa þarna". Kennslan missti marks því Thelmu Kristínu fannst þetta alveg frábært - krakkarnir gengu um sjálfala, stukku niður af brúm ofan í ár og vötn sér til dægrastyttingar og borðuðu ávexti sem þau tíndu af trjánum þegar þau urðu svöng - þetta var auðvitað bara himnaríki og daman var tilbúin að flytja inn á morgun!

Það var nú samt gott í lok dags að koma inn á sitt fína hótel með öllum þeim þægindum sem við erum vön. Vorum á fínu "resorti" með sundlaugum, strönd, sjósporti, veitingastöðum, börum og krakkaklúbb - ekki hægt að biðja um það betra.

Ég mun reyna að koma myndum inn á tölvuna fljótlega. Verð samt að viðurkenna að þær eru á tölvunni hans Marons og það vita þeir sem til þekkja að hún er algert svarthol! Vona samt að ég nái einhverju út - verð í versta falli að setja þær inn á Facebook því áskriftin af myndasíðunni okkar er útrunnin. Svo ef við erum ekki enn orðnir vinir á Facebook er tími til að bæta úr því núna.


 

Website Counter