Melbourne

Saturday, February 23, 2013

Hún á afmæli í dag....

Þessi klára, fallega, duglega (ég er alveg hlutlaus, sko) stelpa er 12 ára í dag. Alveg magnað hvað þessi tími flýgur frá manni.

Við áttum annars hinn ágætasta afmælisdag. Thelma Kristín bauð þremur gömlum vinkonum í Luna Park - lítið tivoli hér inni í St. Kilda (næsta hverfi við Elwood). Við sóttum stelpurnar upp úr fjögur en höfðum litið svo vitlaust á upplýsingarnar á netinu að þegar við mættum á staðinn rétt fyrir fimm komumst við að því að skemmtigarðurinn opnaði ekki fyrr en klukkan sjö! Því var brugðið á það ráð að þræða verslanir í nágrenninu þar sem þessar yndislegu "pre teens" skoðuðu föt og mátuðu eins og enginn væri morgundagurinn - klárlega framtíðar kúnnar hér á ferðinni.

Eftir staðgóðan og næringarríkan kvöldverð (!!) á McDonalds var loks haldið í Luna Park þar sem skvísurnar hlupu um á meðan við foreldrarnir fylgdum gormunum litlu í þau tæki sem þau treystu sér í. Það verður nú að segjast að Elísa er alger töffari í þessum efnum og var hundfúl yfir því að fá ekki að fara í "Sleggjuna" sem snerist á hvolf og fleiri brjáluð tæki. Hún varð að gera sér að góðu ágætis fallturn og víkingaskip sem hefðu nú náð að hræða mörg 5 ára börn. Hún lét að sjálfsögðu ekki sjá sig með mömmu sinni í litlu tækjunum, harðneitaði að stíga fæti þar inn nema ein auk þess sem hún náði að draga pabba sinn í Kolkrabba sem gekk endanlega frá pabbanum en virtist ekki trufla barnið hið minnsta. Bróðir hennar, á hinn bóginn, er með örlítið minna hjarta þó töffari sé. Honum tókst þó í þriðju tilraun að fara alla leið inn í draugalestina og varð frekar montinn með sjálfan sig á eftir. Best þótti honum þó að sitja í þessum flugvélum og veifa konunglega. Við hefðum líklega komist upp með að skilja hann þarna eftir allt kvöldið.


Þessi seinkun varð þó til þess að heldur dróst úr kvöldinu og það var ekki fyrr en um tíu leytið sem ég náði stelpunum út - og var þá ein skvísan orðin frekar illa haldin af ógleði og Thelma Kristín nokkuð blóðug eftir smá atvik sem fól í sér forvitna stelpu, stálrimla og blóðnasir! En Ógisslega gaman samt!

Rétt náðum að draga skvísurnar heim í kökusneið (annars hefði þetta nú ekki flokkast sem afmælisveisla!) áður en við fylgdum þeim heim.


Þannig að hér eru allir sáttir en þreyttir eftir góðan dag. Ætlum að skella okkur í bíltúr á morgun á nýja kagganum okkar áður en haldið verður í partý á ströndinni með nokkrum vinum. Við leigðum okkur nefnilega bíl í gær hjá Budget bílaleigunni fyrir lítinn sem engan pening. Áttum von á ökutæki í samræmi við það en fengum Nissan Qashqai beint úr kassanum - keyrðan 170 kílómetra! Kom skemmtilega á óvart og ég hef vonandi frá fleiri ævintýrum að segja í kjölfarið...

Tuesday, February 19, 2013

Daglegt líf í Elwood

Engar fréttir eru góðar fréttir, ekki satt?  Erum hér í góðu yfirlæti þó það sé smá pása í ævintýrunum. Thelma Kristín hafði einmitt á orði um daginn að henni fyndist alls ekki eins og hún væri í útlöndum. Litla systir var fjót að samþykkja þetta og bætti við: "Sami Guð og hjá okkur... eins og hús og  hjá okkur... þetta er sko ekkert eins og útlönd!" Ein sem er enn hugfangin af guðum hindúa eftir Bali ferðina :-)

Veðrið hefur leikið við okkur þó það hafi kannski verið heldur heitt. En þá er nú heppilegt að íbúðin okkar er alveg niðri við strönd og því stutt að fara ef maður vill kæla sig og höfum við verið nokkuð dugleg við að nýta okkur þetta hvort sem það er bara ég og krakkarnir á virkum degi eða með vinum um helgar. Það var því góð tilbreyting í dag þegar hitinn fór niður í 19 gráður (úr því að vera tæpar 40 gráður í gær - smá munur!!)

Vinir okkar lánuðu okkur hjól fyrir alla krakkana svo við erum líka dugleg að hjóla meðfram ströndinni - sem er bara best í heimi. Ég er líka búin að fá vilyrði fyrir hjóli handa mér sem ég ætla að sækja á næstu dögum. Dagurinn hjá Magnúsi Andra er því ekki flókinn - þegar hann er spurður hvað við eigum að gera í dag er hann fljótur að svara "hjóla á nýjan leikvöll"  - einfalt og yndislegt líf þegar maður er þriggja ára.

Ég var líka fljót að hafa upp á mömmunum í gömlu "play grúbbunni" síðan Elísa var lítli (þökk sé Facebook) - nokkrar þeirra eru með börn á aldri við Magga og hittast enn vikulega ásamt fleiri mömmum þó að stóru stelpurnar séu allar byrjaðar í skóla (og ég á eina mjög móðgaða dóttur yfir þeirri staðreynd).

Við skelltum okkur niður í miðbæ á sunnudaginn. Ég var alveg búin að gleyma hvað það er yndislegt að rölta þar um. Ætluðum okkur ekki að stoppa lengi en enduðum á að koma hingað heim um hálfellefu!

Maður verður nú samt óþægilega var við það hversu blessuð krónan okkar hefur fallið á meðan ástralski dollarinn hefur bara styrkst. Áður margfölduðum við með 50 til að fá upphæðir í íslenskum krónum en núna er dollarinn kominn vel yfir 130 krónur - takk fyrir pent! Að auki hefur allt hækkað í dollurum svo að einfaldir hlutir eins og að skreppa í strætó eða kaupa sér drykk í hitanum fá mann til að súpa hveljur. En.. enn er þó hamborgarinn á McDonalds og blessað bensínið ódýrara hér en heima - sumt breytist víst aldrei.

Thelma Kristín var komin með alvarleg fráhvörf af skautaleysi og var brugðið á það ráð að láta senda skautana á eftir okkur. Erum búin að fara í tvígang í nýja og mjög flotta skautahöll niðri í bæ þar sem daman ætlar að fá að æfa á meðan við erum hér. Aðstaðan er eins og best verður á kosið, tvö skautasvell, risaskjár, kaffihús, búð og meira að segja bar með útsýni yfir ísinn - klárlega eitthvað sem yrði vel þegið í Laugardalnum stundum ;-) Æfingar hérna snúast meira um einkatíma heldur en heima sem hentar okkur svo sem ágætlega. Hóptímar eru aðeins einu sinni í viku (smá tilbreyting frá 7 sinnum í viku) en svo æfir hver og einn með sínum þjálfara. Það lítur því miður ekki út fyrir að TK fái að fara í skólann hérna svo þá er kannski eins gott að spýta bara í lófana með skautaæfingarnar.

Ég fór svo út með tveimur vinkonum mínum á laugardagskvöldið.... eða planið var að fara út sem sagt. Við hittumst heima hjá einni og rétt náðum á veitingastað í næsta húsið áður en eldhúsið lokaði - svo mikill var kjaftagangurinn. Á eftir ákváðum við að setjast aðeins aftur inn í stofu og fá okkur einn drykk áður en við röltum á pöbbana en enn var kjaftagangurinn svo mikill að við komumst aldrei út úr húsi - frekar lélegur árangur í djamminu sem sagt en skemmtilegt kvöld samt sem áður.

Þannig að lífið gengur hér bara sinn vanagang og er mátulega spennandi. Kallinn kominn á fullt í vinnu og ég rölti með krakkana um hverfið - just like old times!




Monday, February 11, 2013

Take the long way home

Þá erum við komin "heim" til Elwood. Erum búin að eiga hér yndislega helgi og hitta fullt af gömlum vinum, knúsa marga og hlæja mikið.

Við eyddum síðasta heila deginum okkar á Bali  (eða svo héldum við þá) í Bali Safari & Marine Park þar sem við skoðuðum mörg dýr og fórum á fílsbak. Ég verð nú að segja að safari ferðin á fílsbaki er meira fyrir myndavélarnar en skemmtunina. Við Thelma Kristín ætluðum með Elísu með okkur en fengum ekki leyfi til að fara þrjár á einn fíl svo Maron tók báða krakkana sem runnu svo til, vinstri hægri, skölluðu stálgrindina og hvort annað svo pabbanum stóð alls ekki á sama og átti fullt í fangi með að halda börnunum á baki á göngu í kringum nashyrninga og fleiri hættuleg dýr. Við Thelma Kristín fundum svo til með aumingja fílunum sem þramma þarna sama hringinn allan daginn með fólk á bakinu að við náðum eiginlega ekki að njóta ferðarinnar. En þá er búið að afgreiða þetta af to-do listanum  í lífinu - Fílareið, been there, done that - have the photo!

Talandi um að eiga myndirnar þá eru Bali búar algerlega búnir að sníða alla afþreyingu í kringum myndatökur. Allt snýst um að láta taka myndir og að þær líti vel út - skítt með aðbúnað dýranna, upplifun af skemmtuninni eða slíkan hégóma - bara ef maður fer heim með flottar myndir!

Alla vega... skemmtilegur dagur þrátt fyrir allt sem endaði í mat niðri á strönd við villuna okkar. Áttum nefnilega eftir að prófa frægt grill á Echo Beach sem stóðst algerlega væntingar. Frábær matur í geggjuðu umhverfi - en myndavélin gleymdist auðvitað.

Daginn eftir áttum við svo næturflug til Melbourne. Við höfum gengið frá því að við fengjum að vera í villunni til klukkan sex og þá myndi bílstjórinn okkar koma okkur á flugvöllinn. Við tókum því rólega "heima við" þennan dag, dóluðum okkur í lauginni og röltum niður á strönd. Fengum svo kvöldmatinn til okkar áður en haldið var af stað. Reyndar hafði Maron fengið tilkynningu um daginn um að flugið okkar hefði verið fellt niður en hann hringdi í flugfélagið og fékk okkur bókuð í flug á sama tíma með millilendingu í Darwin. Við héldum því ótrauð af stað og vorum mætt á ágætis tíma á flugvöllinn. Þar var nokkur ringulreið í gangi því margir höfðu ekki fengið neina tilkynningu um niðurfellinguna á fluginu og þegar kom að okkur í röðinni var okkur sagt að okkar bókun til Darwin fyndist hvergi og að við gætum einungis fengið flug næstu nótt í gegnum Sydney. Við höfðum ekki náð að prenta út neina staðfestingu og heimasíða flugfélagsins lá niðri svo við höfðum ekkert í höndum og starfsfólkið tók fljótt upp á því að skilja ekki ensku þegar við mótmæltum og að lokum var okkur fylgt út í rútu þar sem við fengum að dúsa með krakkana dauðþreytta í nærri tvo tíma áður en búið var að afgreiða alla farþegana og við gátum haldið upp á hótel. Hótelið var sem betur fer ágætt og við fengum fínt herbergi með tveimur svefherbergjum, mat o.þ.h. Þegar við komum upp á herbergi eftir að hafa fengið okkur mjög síðbúinn kvöldverð (um miðnætti sem sagt) hrindi Maron þó í Qantas og fékk þar staðfestingu á að við hefðum víst átt sæti í flugið til Darwin sem að öllum líkindum hafa verið tóm í fluginu. Þeir redduðu okkur sætum í flug í gegnum Perth morguninn eftir svo við sluppum við heilan dag í bið í úthverfi Kuta sem við þáðum með þökkum. Þá sluppum við líka við næturflug sem er bara hið besta mál þegar ferðast er með þrjú börn.

Við fórum svo strax út á flugvöll morguninn eftir og flugið til Perth gekk ágætlega. Maður er nú samt orðinn frekar ofdekraður í flugmálum og því brá okkur svolítið við að koma í flug með lággjaldaflugfélagi. Hið æruverðuga flugfélag Qantas flýgur ekki lengur á svona lágkúru túristapleis eins og Bali og lætur dótturfélag sitt Jetstar um þann heiður (og árangurinn sést hér að framan). Við létum okkur þó hafa 4 tíma flug án sjónvarps og vorum sæmilega nestuð svo þetta gekk nú allt saman upp.

Við höfðum frekar stuttan tíma til að skipta um vél í Perth og þar sem við þurftum að skipta yfir í innanlandsflug skyldum við sækja allan farangur og fara í gegnum vegabréfaskoðun, toll og "innflutninglögguna" sem sér um að ekki sé komið með neitt til landsins sem gæti flutt með sér líf frá öðrum heimsálfum. Við höfðum í sakleysi okkar tekið með okkur nokkra hatta af hrísgrjónaökrum Bali sem okkur áskotnuðust í fílareiðinni og hvarflaði ekki að okkur að tilkynna neinum um slíkt. Verðirnir voru nú fljótir að koma auga á þá hjá okkur, slógu þeim hraustlega í borðið og út duttu þó nokkur kvikindi sem hlupu í öngum sínum um borð löggunnar. Það er skemmst frá því að segja að þarna urðu hattarnir eftir - en þá er nú gott að eiga myndir :-)

Innanlandsflugið í Perth er í öðrum terminal og þurftum við að bíða heillengi eftir rútu til að flytja okkur þangað. Þegar þarna kom við sögu vorum við orðin mjög tæp á tíma og þegar við loksins komum í innanlands-terminalinn hlupum við eins og skrattinn væri á hælunum á okkur með 7 töskur og 3 börn (við sko, ekki skrattinn) í 30 stiga hita að innritunarborðinu bara til að láta segja okkur að við værum búin að missa af vélinni. Þarna biðum við svo á milli vonar og ótta á meðan afgreiðslukonan fór til hliðar og talaði við kollega sinn. Mikið urðum við glöð þegar hún kom hlaupandi með töskumiða og sagði "I don't normally do this..but..." Eitthvað hafði þá fluginu seinkað og konan séð aumur á okkur svo áfram hlupum við og rétt náðum áður en vélin hélt til Melbourne.

Melbourne tók svo loksins á móti okkur undir miðnætti - um 30 tímum eftir að við lögðum af stað frá Canggu. Mikið var gott að koma hingað - næstum eins og að koma heim. Við erum búin að koma okkur fyrir í lítilli íbúð í hverfinu "okkar" og höfum eytt helginni í að hitta gamla vini, hlæja og knúsa eins og áður sagði.

Thelma Kristín er búin að hitta þó nokkra gamla vini og á ekki í neinum vandræðum með að tengjast þeim aftur. Við erum að vinna í því að koma henni í skólann hér og hún er búin að fá loforð um skautakennslu sem við ætlum að kíkja betur á í vikunni. Lífið er því óðum að detta í sinn vanagang hérna megin. Maron farinn að vinna og Elísa kvartar sáran yfir því að fá ekki að fara í skóla eins og "vinkonur" hennar - sem hún sá síðast þegar hún var 14 mánaða.

Þannig að.... við sluppum heilu og höldnu með 3 börn út úr Asíu sem ég veit að gleður áhyggjufullar ömmur og frænkur og erum nú komin í "öryggi" Vesturlanda. Spurning hvenær maður heyrir næst yndisleg gullkorn frá börnunun sínum í líkindum við "Mamma, þinn fíll kúkaði"

PS. Ég er búin að setja fullt af myndum inn á Facebook í albúm sem heitir Hong Kong og Bali. Ef ykkur langar að kíkja á myndir en sjáið ekki albúmið sendið mér þá bara póst.

Wednesday, February 06, 2013

"Mamma, af hverju fengum við hús með engum veggjum?"

Úha! Talandi um að upplifa tvær ólíkar hliðar á Bali. Erum komin í villu hér úti á miðjum hrísgrjónaökrum þar sem hefðbundið líf Bali búa og heilagar kýr blandast saman við lúxusvillur nútíma ferðamannsins í bland við gamla ástralska og bandaríska hippa sem hingað hafa komið árum saman með brimbrettið eitt að vopni.

En svona til að halda ferðasögunni í réttri tímaröð þá fórum við á balinesísku sýninguna á laugardagskvöldið og höfðum mjög gaman af. Allt mun einlægara og skemmtilegra en fyrri sýningin.

Stelpurnar lærðu að útbúa fórnir til guðanna og við horfðum á indónesískan dans á meðan við gæddum okkur á ýmsu góðgæti eins og hnetusalati, suckling pig o.fl. Elísa hefur síðan verið hugfangin af daglegum fórnum Hindúa og krefst þess að leggja til blóm og ávexti á hverjum morgni sem hún fær að sjálfsögðu að gera.

 Næsta morgun skelltum við Thelma Kristín okkur í Sea Walker þar sem 37 kg. hjálmi er skellt á hausinn á manni og þyngdin ýtir manni niður á botn, í okkar tilfelli á 4 metra dýpi. Þar stóðum við svo bara við kóralrifið og horfðum á lífið í kringum okkur

Eftir hádegismat vorum við svo sótt af honum Grey, bílstjóranum okkar næstu 4 dagana. Förinni var heitið norðar á eyjuna til Canggu á vesturströndinni. Hér gistum við svo í "villu" á Echo beach sem er nokkuð fræg strönd fyrir þá sem hafa áhuga á brimbrettareið.

Villan er byggð í balinesískum stíl sem þýðir opin svæði - engir veggir sem sagt. Nema á svefnherbergjunum sem betur fer. Samt er öllum nútíma þægindum fyrir að fara, við erum hér með fínasta eldhús, klósett í öllum svefnherbergjum og meira að segja okkar eigin sundlaug. Það er ótrúlegt að sjá hvernig þessar lúxus villur hafa sprottið hér upp á ökrunum á undanförnum árum og gera umhverfið hálf súrrealískt með samblöndu af gömlum og nýjum tímum.

Við skelltum okkur svo niður á strönd fyrsta kvöldið okkar og fengum okkur að borða. Okkur brá heldur í brún þegar við komum aftur heim og myrkrið hafði tekið völdin því dýralífið í húsinu er eðli  málsins samkvæmt aðeins meira en við eigum að venjast. Titillinn á blogginu í dag er tekinn frá Thelmu Kristínu sem átti svolítið bágt með að sætta sig við froskana sem hoppuðu um allt svo ekki sé minnst á eðlur upp um alla veggi, leðurblökur og alls kynst lítil dýr önnur sem maður kann ekki einu sinni að nefna. Það hefur nú samt tekist ágætlega að venjast þessu og hef ég nú heyrt nokkrar setningar frá börnunum mínum sem ég átti kannski ekki von á að heyra þau segja eins og "mamma, það er froskur í ruslatunnunni okkar", "eðlur eru bara kúl" eða "oh, ég steig í apaskít"!!

Í gær var ferðinni svo heitið í WaterBom á Kuta beach. Nettur en mjög fallegur vatnsrennibrautagarður sem var bara yndislegt að eyða heitum og rökum deginum í. Umhverfið var allt mjög fallegt, mikill gróður o.þ.h. Við erum reyndar alltaf hálf leiðinleg í þessum efnum eftir að hafa prófað Wild Wadi rennibrautagarðinn í Dubai - það kemst bara enginn með tærnar þar sem sá garður hefur hælana. En, samt sem áður skemmtum við okkur konunglega þó að Maggi með litla hjartað hafi þurfti svolítið "push" áður en hann hellti sér í fjörið.

Við pöntuðum svo bara kvöldmat inn á villuna okkar. Þá sér starfsfólkið um að versla, elda og ganga frá - bara gargandi snilld þegar maður er með svona litla gorma. Miklu betra en að láta þau sitja kyrr á einhverjum veitingastað. Maturinn var líka alls ekki verri og hafði Thelma Kristín á orði að þetta væri besta spaghetti sem hún hefði smakkað. Foreldrarnir voru líka mjög sáttir með rækjurnar sínar og var ákveðið að leikurinn skyldi endurtekinn næsta kvöld.

Sama á svo sem við um morgunmatinn hjá okkur - hann er innifalinn í villunni og hér mætir bara her manns á morgnana, hreinsar laugina og setur morgunmatinn á borðið. Kemur svo að sjálfsögðu og vaskar upp á eftir. Það er rigningartími á Bali og frekar fáir ferðamenn á ferli. Fyrir vikið er verðið á gistingu mun lægra en á sumrin og nýting á gistirýmum dræm. Við erum t.d. ein á okkar "hóteli" en almennt er verið í 4 villum. Starfsfólkið stjanar því við okkur eins og enginn sé morgundagurinn og í hvert sinn sem við komum í hús bíður okkar her manns sem tekur krakkana út úr bílnum og ber farangurinn inn. Það mæta 3 í uppvaskið og svo fram eftir götunum. Fyrir þetta greiðum við sama verð og á meðal hóteli. Í villunni eru 3 aðskilin svenherbergi og höfum við mikið rætt hvað þetta væri nú skemmtilegt fyrir þrenn hjón saman - dæmið væri þá hræódýrt á mann - hver og hver og vill??

En.. áfram með söguna... Í dag skelltum við okkur til Ubud sem helst er frægur fyrir að vera listamannbær Bali. Röltum þar aðeins um - svona eins mikið og hægt er að rölta með 3 börn og eina kerru í 35 stiga hita og raka og næstum engar gangstéttar. Hápunktur dagsins var þó heimsókn í Sacred Monkey Forest þar sem um 700 apar ráfa um, ferðamönnum til skemmtunar - eða stríðni ef menn passa sig ekki. Aparnir eru ótrúlega forvitnir og hrekkjóttir og þeir eru duglegir við að leita sér að mat sama þó að það sé ofan í töskum og bakpokum gestanna. Það er líka eins gott að passa sig því að þeir hafa tekið bæði myndavélar og síma af þeim sem sveifla þeim of glannalega. Á meðan við vorum í garðinum sáum við apa grípa bakpoka aftan af einni stelpu og tæta svo upp úr honum hverja flíkina af annarri og hlaupa svo í burtu með sólarvörnina í kjaftinum. Ég sá líka einn hoppa upp á konu sem hélt á opnum taupoka, skríða ofan í pokann og ná sér í eitthvað góðgæti áður en hann stökk niður aftur. Þeir voru ótrúlega snöggir að þessu og frábærlega fyndið að fylgjast með þeim - svona á meðan maður sat ekki sjálfur í súpunni.

Komum svo heim í eftirmiðdaginn, skelltum okkur í sund og fengum meira að segja nuddara til okkar við laugina (allt er þetta innifalið í dvölinni). Maturinn var svo borinn á borð stuttu síðar og nú sitjum við skötuhjúin hér afslöppuð og södd og gerum vaskskýrslur! Já, þetta var víst ekki bara frí alla leið!

Sunday, February 03, 2013

Frá Hong Kong til Bali

Þetta lítur ekkert svo illa út, er það? Hingað komum við sem sagt á fimmtudaginn eftir 5 tíma flug frá Hong Kong.

Þessi vika verður líklega næst því að flokkast sem "frí" í ferðinni okkar góðu. Ætlum að dveljast í léttri leti hér á Bali og njóta sólarinnar, matarins, dýralífsins og gestrisninnar. Note to self, samt - ekki skipuleggja aftur svona viku yfir mánaðarmót og virðisaukaskil með tilheyrandi hausverk - þetta fer bara svo svakalega illa saman við regnhlífardrykk á sundlaugabakkanum!

Á miðvikudag fórum við krakkarnir annars í göngutúr í Hong Kong á meðan bóndinn þræddi allnokkra fundi. Fórum frekar seint af stað eftir aðra andvökunótt en hálfslysuðumst upp í grasagarðinn í miðborg Hong Kong. Þar hittum við fyrir nokkrar apategundir, skjaldbökur, fugla, þvottabjörn og fleira skemmtilegt. Um kvöldið var okkur svo boðið í mat af íslenskum félaga Marons og hans fjölskyldu sem býr í Hong Kong ásamt vinkonu minni hér og hennar fjölskyldu. Þá gafst okkur tækifæri til að bregða okkur aðeins út úr miðbænum og sjá aðra hlið á Hong Kong.

Ótrúlega gaman að hitta þetta góða fólk og gúffa í okkur ljúffengri fiskisúpu. Ég held ég gæti alveg vanist þessum lífsstíl sem vesturlandabúar í Asíu (og á fleiri stöðum svo sem) njóta, þ.e. að hafa húshjálp á heimilinu - helst eina í eldhúsinu og hina í barnaherberginu. Þá myndi ég sko aldeilis splæsa í matarboð eins og enginn væri morgundagurinn og njóta þess að sitja með gestunum mínum og spjalla.

Börnin voru svo rifin á lappir fyrir allar aldir á fimmtudagsmorgun og dregin út á flugvöll. Ferðin gekk vel og það var ljúft að komast í hitann og rakann á Bali. Hótelið er mjög fínt og þjónustan svo góð að manni líður hálf illa. Vorum sótt út á flugvöll og dregin inn í prívatherbergi við komu til að tékka inn. Þar stjönuðu tveir starfsmenn við okkur á meðan innritun stóð; færðu okkur heita þvottapoka og ferska drykki. Eiginlega var þetta svo yfirdrifið "nice" að maður hugsaði bara um að hafa augun á öllum verðmætum því það hlyti eitthvað að vera einhver önnur ástæða á bak við þjónustuna en bara góðmennska - en þetta var víst bara hin rómaða balinesíska gestrisni. Við fengum svo fylgd upp á herbergi og urðum sko ekki fyrir vonbrigðum. Fengum flotta svítu (þeir koma víst ekki aukarúmi inn í "venjulegu" herbergin), ótrúlega flott innréttaða í balinesískum stíl og hér lifum við eins og blóm í eggi.

Um kvöldið fóum við í mat og sýningu hér út í garðinn. Þemað var "latino". Hlaðborðið var fínt en það er bara eitthvað hræðilega hjákátlega krúttlega kjánalegt við að sjá hálfnakta Indónesa dansa salsa. Eitthvað höfðu þeir líka vanmetið eyrun okkar því allt hljóð var svo hræðilega hátt stillt að ég gat ekki heyrt í börnunum þó ég bograði yfir þeim og skæri ofan í þau matinn svo það var enginn leið að halda uppi einföldum samræðum við matarborðið og ekki leið á löngu þar til krakkarnir voru farnir að grátbiðja okkur um að koma þarna í burtu.

Í gær dóluðum við okkur svo bara hér á hótelinu. Sem betur fer var skýjað svo hitinn var vel þolanlegur. Reyndar rigndi svolítið um morguninn og notuðu Magnús og Elísa tækifærið og heimsóttu krakkaklúbbinn. Maggi var alveg sáttur við að við færum aðeins frá (eða reyndar var svarið þegar ég spurði hann "Ég er upptekinn" enda hafði sá stutti fundið sér eitthvað að leika með) en við - og allir aðrir hótelgestir - heyrðu skýrt og greinilega þegar hann skipti um skoðun. Við heyrum öskrin alla leið niður á strönd svo mamman var fljót að hlaupa til og endurheimta dauðskelkað barnið. Stelpurnar eru hins vegar himinlifandi með klúbbinn enda mikið föndur í boði sem þeim leiðist sko ekki. Æðislegt að geta slappað aðeins af þar í loftkælingunni þegar nóg er komið af sólinni. Maron og Thelma Kristín skelltu sér í siglingu á hraðbát en annars var þetta mjög rólegur dagur.

Í dag vöknuðum við svo nokkuð snemma í glampandi sól og 35 stiga hita og fórum með litlum bát með glerbotni úti til "Turtle Island" sem er um 15 mín. sigling. Þar var hægt að skoða skjaldbökur af ýmsum stærðum og gerðum og ýmis önnur dýr. Thelma Kristín var hetja dagsins þegar hún lét sig hafa það að halda bæði á leðurblöku og snák. Myndir væntanlegar!

Annar letidagur fylgdi svo í kjölfarið þar sem skipst var á að vera í sundlauginni, á ströndinni, leikvellinum eða í krakkaklúbbnum. Magnús lét sig hafa það að vera skilinn eftir þar í hálftíma ef stóra systir fylgdi með svo við hjónin náðum 30 mín. í afslöppun við laugina með svalan drykk í hendi - Algjör lúxus. Við splæstum á okkur "all inclusive" pakka svo við löbbum hér á milli bara og veitingastaða og fáum okkur ferskar kókoshnetur, ananas og melónudjús og ýmislegt annað sem hugurinn girnist. Get alveg mælt með þessum stað fyrir ykkur sem langar í gott frí :-) Maron og Thelma Kristín skelltu sér líka á "banana boat" í dag og á morgun ætlum við mæðgurnar í klukkutíma "sea walking" hvað sem það nú er!

Jæja, nú er víst kominn tími til að hafa sig til fyrir sýningu kvöldsins. Þemað í kvöld er sem betur fer "Balinese Village" - ég hef trú á að það verði mun einlægari og áhugaverðara en sýning en sú á fimmtudaginn.



 

Website Counter