Melbourne

Tuesday, February 19, 2013

Daglegt líf í Elwood

Engar fréttir eru góðar fréttir, ekki satt?  Erum hér í góðu yfirlæti þó það sé smá pása í ævintýrunum. Thelma Kristín hafði einmitt á orði um daginn að henni fyndist alls ekki eins og hún væri í útlöndum. Litla systir var fjót að samþykkja þetta og bætti við: "Sami Guð og hjá okkur... eins og hús og  hjá okkur... þetta er sko ekkert eins og útlönd!" Ein sem er enn hugfangin af guðum hindúa eftir Bali ferðina :-)

Veðrið hefur leikið við okkur þó það hafi kannski verið heldur heitt. En þá er nú heppilegt að íbúðin okkar er alveg niðri við strönd og því stutt að fara ef maður vill kæla sig og höfum við verið nokkuð dugleg við að nýta okkur þetta hvort sem það er bara ég og krakkarnir á virkum degi eða með vinum um helgar. Það var því góð tilbreyting í dag þegar hitinn fór niður í 19 gráður (úr því að vera tæpar 40 gráður í gær - smá munur!!)

Vinir okkar lánuðu okkur hjól fyrir alla krakkana svo við erum líka dugleg að hjóla meðfram ströndinni - sem er bara best í heimi. Ég er líka búin að fá vilyrði fyrir hjóli handa mér sem ég ætla að sækja á næstu dögum. Dagurinn hjá Magnúsi Andra er því ekki flókinn - þegar hann er spurður hvað við eigum að gera í dag er hann fljótur að svara "hjóla á nýjan leikvöll"  - einfalt og yndislegt líf þegar maður er þriggja ára.

Ég var líka fljót að hafa upp á mömmunum í gömlu "play grúbbunni" síðan Elísa var lítli (þökk sé Facebook) - nokkrar þeirra eru með börn á aldri við Magga og hittast enn vikulega ásamt fleiri mömmum þó að stóru stelpurnar séu allar byrjaðar í skóla (og ég á eina mjög móðgaða dóttur yfir þeirri staðreynd).

Við skelltum okkur niður í miðbæ á sunnudaginn. Ég var alveg búin að gleyma hvað það er yndislegt að rölta þar um. Ætluðum okkur ekki að stoppa lengi en enduðum á að koma hingað heim um hálfellefu!

Maður verður nú samt óþægilega var við það hversu blessuð krónan okkar hefur fallið á meðan ástralski dollarinn hefur bara styrkst. Áður margfölduðum við með 50 til að fá upphæðir í íslenskum krónum en núna er dollarinn kominn vel yfir 130 krónur - takk fyrir pent! Að auki hefur allt hækkað í dollurum svo að einfaldir hlutir eins og að skreppa í strætó eða kaupa sér drykk í hitanum fá mann til að súpa hveljur. En.. enn er þó hamborgarinn á McDonalds og blessað bensínið ódýrara hér en heima - sumt breytist víst aldrei.

Thelma Kristín var komin með alvarleg fráhvörf af skautaleysi og var brugðið á það ráð að láta senda skautana á eftir okkur. Erum búin að fara í tvígang í nýja og mjög flotta skautahöll niðri í bæ þar sem daman ætlar að fá að æfa á meðan við erum hér. Aðstaðan er eins og best verður á kosið, tvö skautasvell, risaskjár, kaffihús, búð og meira að segja bar með útsýni yfir ísinn - klárlega eitthvað sem yrði vel þegið í Laugardalnum stundum ;-) Æfingar hérna snúast meira um einkatíma heldur en heima sem hentar okkur svo sem ágætlega. Hóptímar eru aðeins einu sinni í viku (smá tilbreyting frá 7 sinnum í viku) en svo æfir hver og einn með sínum þjálfara. Það lítur því miður ekki út fyrir að TK fái að fara í skólann hérna svo þá er kannski eins gott að spýta bara í lófana með skautaæfingarnar.

Ég fór svo út með tveimur vinkonum mínum á laugardagskvöldið.... eða planið var að fara út sem sagt. Við hittumst heima hjá einni og rétt náðum á veitingastað í næsta húsið áður en eldhúsið lokaði - svo mikill var kjaftagangurinn. Á eftir ákváðum við að setjast aðeins aftur inn í stofu og fá okkur einn drykk áður en við röltum á pöbbana en enn var kjaftagangurinn svo mikill að við komumst aldrei út úr húsi - frekar lélegur árangur í djamminu sem sagt en skemmtilegt kvöld samt sem áður.

Þannig að lífið gengur hér bara sinn vanagang og er mátulega spennandi. Kallinn kominn á fullt í vinnu og ég rölti með krakkana um hverfið - just like old times!




2 Comments:

  • Frábært að heyra :) Knús og kveðja á línuna ;)

    By Blogger Unknown, at 12:18 AM  

  • Alltaf jafn skemmtilegt að lesa pistlana þína og fylgjast með. Knús og kveðja frá Nairóbí :-)

    By Anonymous Birna frænka, at 6:00 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter