Melbourne

Tuesday, January 23, 2007

Sól, sól, skín á mig

Ég elska fjarnám! Er búin að sitja við sundlaugabakkann á hóteli á Sunshine Coast í Queensland í morgun og lesa stjórnunarbókhald. Maron er hér í vinnuferð þessa vikuna og þar sem föstudagurinn næstkomandi er þjóðhátíðardagur Ástralíu ákváðum við mæðgur að skella okkur með honum með það að markmiði að vera hér saman í fríi þessa löngu helgi sem framundan er. Planið er þó að færa okkur yfir á Gold Coast á fimmtudagskvöld en það er “Flórída” Ástrala, staðsett um tveggja tíma akstur héðan.

Fengum fína hótelíbúð með útgangi af svölunum, beint út í sundlaug. Internet í íbúðinni, nýja tölvan og skólabækurnar með í för og þá er ég klár í flestan sjó. Thelma Kristín er orðin svo dugleg að synda að ég get orðið setið nokkuð róleg á mínum sólbekk þó svo að hún sé kútalaus í djúpu lauginni. Gæti ekki verið betra!

Erum annars rétt að ná okkur niður eftir frábæra Íslandsferð. Ferðin heim gekk mjög vel. Gistum á fínu hóteli í London þessa einu nótt og mættum eldspræk út á völl næsta morgun, tilbúin í langa flugið. Maður þarf nú líka að vera upp á sitt allra besta til að komast heill á geði í gegnum Heathrow þessa dagana. Þessar öryggisreglur þeirra ganga út í svo miklar öfgar að það hálfa væri yfirdrifið. Ég hafði nú lært af reynslunni og látið allar snyrtivörur í glæran poka .. en hvað er þetta með einn handfarangur á haus...rétt á meðan maður gengur í gegnum öryggishliðið??? Ég held nú að Bretar myndu ná miklu meiri árangri í sinni baráttu gegn hryðjuverkum ef starfsmenn Heathrow fengju eitthvað annað að gera en að sjá til þess að ég troði handtöskunni minni ofan í leikfangatöskuna hjá Thelmu Kristínu...bara til að kippa henni upp úr aftur þegar í gegnum hliðið er komið...sorry...ég er ekki að fatta þetta!!

Við ætluðum líka í sakleysi okkar að fá okkur létta hressingu í lounge-inu fyrir flug eins og við gerum ævinlega....en nei....Maron mátti aðeins hafa með sér einn gest takk fyrir og hann var sko með tvo!! Við höfum farið inn á lounge um allan heim á þessu korti og þó svo að strangt til tekið megi aðeins hafa með sér einn gest hafa allir flugvallastarfsmenn fram að þessu (og eftir þetta, ef út í það er farið) horft í gegnum fingur sér með 5 ára barnið við hlið okkar....en nei, barngóði Bretinn samur við sig, inn færum við ekki!

Þetta var nú sem betur fer allt í upphafi ferðalags og við höfðum enn þolinmæði til að hlæja að þessari paranoju. Vöktum svo allt flugið til Hong Kong, barnið komið með ferköntuð augu af sjónvarpsglápi en fyrir vikið sváfum við næstum af okkur næsta legg, frá Hong Kong til Melbourne. Thelma Kristín var sofnuð fyrir flugtak og við vöktum hana svo í morgunmat fyrir lendingu í Ástralíu.

Vorum svo þessa venjulegu 3 daga að koma okkur aftur á samt ról. Vorum vöknuð fyrir allar aldir og áttum í basli með að halda okkur vakandi eftir klukkan fimm. En þetta tekur allt enda og lífið gengur nú aftur sinn vanagang. Thelmu Kristínu var boðið í afmæli á laugardeginum eftir að við komum og hitti þá alla vinina aftur. Helgin var einnig notuð til að kaupa jólagjöfina hennar frá okkur Maroni og Kristófer. Nýtt hjól fékk daman loksins og getur nú brunað um hverfið án þess að keðjan detti af eða loftið leki úr dekkjunum. Haldiði það sé munur!

Skólinn byrjaði svo aftur hjá mér um miðjan mánuðinn. Thelma Kristín fékk fyrir vikið að fara á leikjanámskeið tvo daga í síðustu viku með tveimur vinkonum sínum og líkaði mjög vel. Þær voru á lífvarðanámskeiði á ströndinni fyrir hádegi en svo var frjáls leikur í eftirmiðdaginn....aldrei of snemmt að byrja að æfa Baywatch taktana! Ég notaði dagana vel og hef haldið áætlun í skólanum, bara spurning um að halda því marki.

Það var nú smá munur á loftslagi að koma frá Íslandi til Ástralíu aftur þó að við höfum nú misst af þessum snjóskelli sem þið fenguð að finna fyrir eftir að við fórum. Hitinn fer varla undir 30 gráðurnar og reglulega yfir 40 gráður. Skógareldarnir geisuðu enn þegar við komum og brunnu meðal annars rafmagnslínur sem urðu til þess að Melbourne borg varð meira og minna rafmagnslaus um tíma....i 42 stiga hita var ekki gott að missa lofkælinguna!!

En núna um helgina rigndi svo mikið að horfði til vandræða, sérstaklega í suður Ástralíu þar sem flóð voru talsverð. Við erum eins og fyrr segir stödd í Queensland og vitum því í raun ekki hvernig ástandið er heima...þar rigndi víst eldi og brennisteini í þrjá daga. Ekki veitti nú samt af og vonandi verður þetta til þess að að eldarnir minnki og létt verði á vatnshömlunum sem við höfum búið við undanfarið.

Þetta er svona undan og ofan af því sem á daga okkar hefur drifið eftir að við fórum af Klakanum. Gleymdi að minnast á ferðina okkar í dýragarðinn hans Steve Irwin heitins á sunnudaginn. Mjög flottur garður og gaman að koma þarna. Meira gert út á sýningar og návígi við dýrin heldur en fjölda tegunda í garðinum. Sáum frábæra sýningu með krókódílum, fuglum og snákum og klöppuðum kóalabjörnum, kengúrum og eðlum. Mjög góður dagur í alla staði.

Planið er svo að heimsækja einn stærsta skemmtigarð Ástrala þegar við komum niður til Gold Coast um næstu helgi. Spenningurinn á heimilinum er mikill enda hefur sú stuttað suðað um þessa heimsókn í rúmt ár.

Sendum góðar sólarkveðjur til ykkar í snjóinn og kuldann....lofa að hugsa til ykkar við sundlaugabakkann...en hey...aumingjans ég er auðvitað bara að strita í skólanum!


 

Website Counter