Melbourne

Sunday, March 26, 2006

Larry, Samveldisleikar og Djamm!

Jæja, þá er fyrsta skólaleyfið á enda og alvaran tekur við í fyrramálið. Höfum haft það ansi náðugt mæðgurnar enda hefur Maron verið á hvolfi í vinnunni og lítið sést heima við.

Höfum haft reglulega gaman af að rölta um bæinn á meðan Samveldisleikarnir hafa staðið yfir. Ég hef aldrei séð Melbourne iða af jafn miklu lífi og undanfarið. Alls staðar eru svið og risaskjáir sem bjóða upp á hina ýmsu skemmtun og mannhafið er svo mikið að það þarf sérþjálfaðan mannskap til að stjórna "umferðinni".

Hef nú lítið fylgst með íþróttahliðinni af þessu öllu. Veit þó að Ástralir eru að rúlla upp mótinu með LANGflest verðlaunin. Þeir eru að rifna úr stolti yfir þessu öllu en með fullri virðingu, þá er meiri hluti keppanda frá þjóðum sem ekki meika það á smáþjóðaleikana svo ég veit ekki alveg hversu mikilfengleg þessi íþróttaafrek eru. Þó hafa verið sett einhver heimsmet í sundi og ekki má gleyma því að hér eru örfáar stórar þjóðir að keppa s.s. Indland, Kanada og Bretland (í mörgum pörtum þó, England, Skotland o.s.frv.)

Fellibylurinn Larry hljóp yfir Norð-austur strönd Ástralíu í vikunni, af meiri krafi en Katrín gerði í USA í fyrra. Einskær heppni að enginn skuli hafa látið lífið en eyðileggingin er mikil á þeim stöðum sem urðu verst úti og margir hafa misst allt sitt. Hér á suðurhliðinni fundum við lítið fyrir látunum, munum helst verða vör við áhrifin í hækkuðu verði á bönunum enda eyðilagðist meiri hluti bananaakra Ástrala.

Í gærkvöldi var svo U2 kvöldið góða! Áttum bókaða miða með margra mánaða fyrirvara en tónleikunum var frestað eftir að Bono var mættur til landsins með allt gengið. Sagan segir að 7 ára dóttir The Edge sé alvarlega veik og því var öllu showinu frestað fram í nóvember. Vonum að þetta fari allt vel. Miðarnir eru vel geymdir hér í skúffunni hjá okkur.. og við eigum auka miða fyrir þá sem vilja ferðast hingað í nóvember!

Við höfðum bókað barnapíu í samráði við finnsku vini okkar fyrir löngu síðan og ákváðum að láta U2 ekki stoppa okkur í því að kíkja út á lífið. Fórum út að borða á Crown Entertainment Complex á mjög huggulegan stað. Hættum okkur því miður út úr húsi á eftir í von um að geta sest inn á einhvern huggulegan pöbb í bænum en það hefðum við ekki átt að gera því mannhafið var slíkt á götum borgarinnar að erfitt var að komast leiðar sinnar, hvað þá fá sæti á barnum!

Enduðum á local pöbbnum okkar þar sem nokkrar hræður sátu og skemmtu sér. Barþjónninn var meira að segja svo elskulegur að bjóða okkur upp á sterkari efni en áfengið, fannst það nú ekki mikið mál - og brosti bara góðlátlega þegar við afþökkuðum pent. Greinilega afkastameiri bar hér á horninu hjá okkur en ég gerði mér grein fyrir!

Sátum svo í garðinum hjá finnsku vinum okkar fram eftir nóttu. Thelma Kristín fékk að gista þar í nótt svo við vorum aftur mætt til þeirra í morgunsárið til að sækja þá stuttu. Sátum þar í morgunkaffi ásamt kunningjum þeirra sem höfðu ætlað með okkur út í gærkveldi en ekki komist og skemmtum okkur konunglega. Mjög hresst og skemmtilegt par sem við vonumst til að hitta aftur sem fyrst.

..og nú sit ég hér inni í 30 gráðu hita og hangi í tölvunni... nóg komið af hinu góða, best að drífa barnið út í hjólatúr.

Tuesday, March 14, 2006

Margmenningin í allri sinni dýrð

Fórum að sjá hina árlegu Moomba skrúðgöngu í gær. Þvílík fjölbreytni, þvílík mannlífsflóra; Íþróttahetjur, kínverskir drekar, löggur, lúðrasveitir, spænskar senjorítur, leikarar, fimleikafólk, indverjar, brimbrettakappar, sjúkraflutningamenn, gleði, frumbyggjar, litir, barnastjörnur, dansarar frá Tonga, fuglar, fígúrur, bændur, indónesar, taikvondó, þjóðdansar, sendiráð, eldri borgarar, slökkviliðsmenn, tónlist, suður-amerískt salsa, línudansar... á ég að halda áfram? Melbourne í hnotskurn!

Þvílíkt líf í borginni þessa dagana. Allt að verða vitlaust í undanfara Samveldisleikanna. Mætti halda að hér ætti að segja Olympíuleika á morgun, slík er spennan. Einn og einn hugaður blaðaritari hefur vogað sér að kalla leikana sínu rétta nafni... annars flokks íþróttaviðburð... en sá hinn sami er fljótt púaður niður.

En er ekki um að gera að fljóta bara með straumnum og njóta vel... 50 ár síðan hér voru haldnir Ólympíuleikar hvort eð er? Leikar sem eru Íslendingum í fersku minni enda kom Vilhjálmur Einarsson heim með silfur, man það eins og gerst hafi í gær?! Setningarhátíðin verður annað kvöld og þó við eigum nú ekki miða á athöfnina fer hluti hennar fram úti fyrir leikvellinum, á Yarra ánni hér í borg, og er gert ráð fyrir að um 600 þúsund Ástralir muni gera sér ferð í bæinn til að fylgjast með. Spurningin er bara, á ég að drífa mig með dömuna í fjörið... sem er líklega eitthvað sem maður mun aldrei upplifa aftur... eða horfa á athöfnina í öruggum stofusófanum?? Get ekki ákveðið mig - hvað mynduð þið gera?

Friday, March 03, 2006

Karlmannslaus í kulda og trekki....

Sit hér ein í yfir 30 gráðu hita og rafmagnsleysi.. lengi lifi batteríið í fartölvunni! Veit eiginlega ekki af hverju rafmagnið fór því þrátt fyrir blauta veðurspá hefur enn ekki komið dropi úr lofti, hvað þá þruma eða elding. En nágrannarnir lifa í sama myrkrinu og ég og því lítið fyrir mig að gera í málinu í bili.

Höfum annars haft það fínt mæðgurnar í einverunni. Maron er búinn að vera í Chile í tæpar tvær vikur og von á honum heim á föstudag. Þrátt fyrir ævintýri bóndans höfum við Thelma Kristín lifað ansi hversdagslegu lífi. Daman er farin að mæta í skólann 5 daga í viku (smá misskilningur í mömmunni um að hún yrði 4 daga alla fyrstu önnina.. wishfull thinking!) og því ríkir óvenju mikil regla og rútína á heimilinu þessa dagana. Reyndar lauk fyrstu önninni nú á föstudag og tveggja vikna frí framundan. Helgin er ekki liðin og sú stutta er strax farin að spyrja hvenær hún fari í skólann, stynur þungan og segist sakna Thess (kennarans)!!

Hef tvö undanfarin miðvikudagskvöld sótt námskeið í skólanum til þess að verða s.k. “classroom helper”. Hér lifa skólarnir á sjálfboðastarfi og almennum fjáröflunum. Þeir foreldrar sem hafa tök á, mæta í skólann ca 2 tíma á viku og hjálpa kennaranum í kennslustofunni. Flestir foreldrar borga bæði efnisgjald og “frjálst framlag” til skólanna og í hverjum mánuði er haldinn markaður á skólalóðinni sem fjáröflun fyrir skólann. Þá eru enn ónefnd ótal önnur störf við skólann sem unnin eru af foreldrum í sjálfboðavinnu, t.d. að vinna í búðinni sem selur skólabúninga, lóðafrágangur, aðstoð við gerð námsefnis og svo mætti lengi telja. Í raun myndi skólastarf hér ekki ganga upp án fjárhagsaðstoðar og vinnuframlags foreldranna. Held það myndi nú heyrast hljóð í íslenskum foreldrum ef ástandið væri svona á Íslandi!

En í skólaleyfinu iðar Melbourne af lífi. Íþróttamenn teknir að streyma til borgarinnar vegna Samveldisleikanna sem hér verða settir á miðvikudag. Undirbúningur hefur verið gríðarlega strangur undanfarna vikur og mánuði.... jah, í raun hefur um lítið annað verið rætt síðan við fluttum hingað fyrir ári síðan! (Haleluja.. nú kom rafmagnið) Herþotur og þyrlur sveima yfir hverfinu okkar og fólk sem vinnur í borginni má eiga von á því að erfitt verði að komast til og frá vinnu á meðan leikarnir standa. Íþróttafólkið tekur lífinu með mátulegri ró og sitt sýnist hverjum; Kanadamenn hafa pantað loftkælingu í íbúðir sínar á meðan liðið frá Fiji eyjum heimtar hita element. (Þar fór rafmagnið aftur!)

Við Thelma Kristín fórum í bæinn um síðustu helgi og skelltum okkur á sædýrasafnið. Á leiðinni þangað gengum við eftir Soutbank Prominade, fram hjá frægum gosbrunni hér í borg sem er þannig gerður að í gangstéttinni eru ansi mörg göt og upp um þau sprautast vatn í ákveðnu (en þó ansi óútreiknanlegu) mynstri. Í nærri 30 stiga hita hoppuðu borgarbörnin auðvitað þarna um og ég hafði það ekki í mér að neita Thelmu Kristínu um fjörið þrátt fyrir að engin varaklæðnaður væri með í för. Daman fór þó úr skónum og bolnum og stökk í leikinn. Ofsalega var þetta skemmtilegt í sólinni, krakkarnir réðu sér ekki fyrir kæti en mikið var dóttir mín líka blaut á eftir! Til allrar lukku var hún í pilsi og því hægt að klæða hana úr því og nærbuxunum.. sitt í hvoru lagi.. og vinda vel, en allan tíman á loftkældu sædýrasafninu var barnið í rennblautum fötum, verð að viðurkenna að mamman var nú með nettan móral.

Haustið hefur lítið látið kræla á sér. Hjóluðum á ströndina í gær í yfir 30 gráðu hita en í dag flúðum með vinum okkar á “innileikvöll” í 36 gráðum. Eins ljúft og það er að liggja við sundlaugabakka með kokteil í hönd í slíkum hita er nær ógerningur að hlaupa á eftir krökkunum á róló í þessari mollu og almennt frekar óþægilegt að athafna sig í daglegu lífi. Ég kvarta nú samt ekki því við erum með loftkælingu hjá okkur og það eru forréttindi sem ansi margir eru án hér.

Jæja, rafmagnið komið á aftur (vonandi til að vera í þetta sinn) og hægt að snúa sér aftur að .. tatarata...sjónvarpinu. Betri tíð með blóm í haga framundan, 5 dagar í húsbóndann og svo styttist óðum í að Kristófer og mamma og pabbi kíki í heimsókn, þá verður sko fjör í kotinu.


 

Website Counter