Melbourne

Friday, March 15, 2013

Framhaldssagan mikla...

jæja, áfram með smjörið...

Dagur 3, sunnudagur 10. mars

Pökkuðum saman og héldum á braut. Ferðinni var heitið til Lakes Entrance, fallegs sumarleyfisbæjar austarlega í Victoriu fylki þar sem eru miklir árósar og höfn sem var mikilvæg hér áður fyrr.

Stoppuðum í bænum Sale í Gippsland og keyptum í matinn.  Fengum okkur svo hádegismat á við rólóvöll í bænum. Ég verð að segja að þessi ferðamáti er betri en ég átti von á fyrir barnafólk. Ég átti algerlega von á að fá netta innilokunarkennd eftir nokkra daga, grípa um hausinn og hugsa "sex vikur... hvað í ands.. er ég búin að koma mér í" en það örlar ekki á þeirri tilfinningu enn. Að geta stoppað við næsta rólóvöll (og það er sko nóg af þeim í Ástralíu) og horft út úm gluggann á krakkana leika á meðan ég útbý léttan hádegisverð er einfaldlega þægilegasti ferðamáti sem ég hef prófað. Við höfum líka upplifað það að vera á hraðferð og gefa liðinu léttan bita á meðan pabbinn dælir bensíni og fyllir á vatn. Þessar 5 mínútur voru alveg nóg til að brjóta upp stemninguna, róa magann, leyfa krökkunum að standa aðeins upp og allir voru  klárir í klukkutíma enn í bílnum - alger snilld!

..en áfram með söguna...

Komum inn til Lakes Entrance um miðan dag. Aðkoman að bænum var ótrúlega falleg og vel skiljanlegt af hverju íbúar Victoriu fylkis velja þennan bæ sem einn af sínum uppáhalds sumarleyfisstöðum.

Enn var verslunarmannahelgi en við vorum nógu heppin til að fá pláss á ágætis tjaldsvæði inni í bænum. Eftir sundsprett (mörg tjaldsvæði eru með litlum sundlaugum) og góða sturtu ákváðum við að gera vel við okkur og skella okkur út að borða. Fórum á mjög góðan og huggulegan sjávarréttastað og nutum kvöldsins. Meira að segja ormarnir mínur höguðu sér þokkalega og við gengum skammlaust út af staðnum ;-)

Dagur 4, mánudagur 11. mars

Ætlunin að ganga út á Ninety Mile Beach en hluti hennar er rifið sem þið sjáið hægra megin á myndinni til vinstri en þvi miður runnum við út á tíma og náðum því ekki. Oftast þarf að tékka sig hér úr af tjaldstæðnum fyrir klukkan 10 á morgnana sem er hálf hallærislegt því maður nær ekkert að gera úr seinni deginum. Ferðinni var líka heitið nokkuð norðar og ansi löng keyrsla sem beið okkar. Stressið var til komið þar sem við vorum búin að mæla okkur mót við vinafólk, bæði í Sydney og líka nokkru norðar.

Við keyrðum sem leið lá til Mallacoota þar sem við skruppum á yndislega strönd eins og sjá má á þessari mynd. Lékum okkur við árósa í dúnmjúkum sandinum - ekki leiðinlegt það. Vorum að hugsa um að gista þarna í bænum en þar sem hann er nokkuð úr leið var ákveðið að flýta fyrir okkur og keyra aftur upp á þjóðveg. Vorum svo heppin á fá frítt tjaldstæði í bænum Genoa - síðasta bænum í Victoriu fylki. Ekki býr bærinn nú yfir sjarma nafna síns á Ítalíu en fær þó plús í kladdann fyrir að veita frían aðgang að afburðar tjaldsvæði með leikvelli, lítilli strönd (eða árbakka réttara sagt), grilli og klósetti - ekki kvörtum við yfir því. Áttum þarna notalegt kvöld og nótt áður en haldið var yfir til New South Wales morguninn eftir.

Dagur 5, þriðjudagur 12. mars.

Okkur hafði verið sagt að það væri lítið að sjá þegar ekið væri frá Lakes Entrance til Eden í New South Wales og komust nú að raun um að það er mikið til í því. Keyrsludagur um regnskóga þar sem útsýni var mjög takmarkað. Hádegismatur í Eden á meðan Maron dældi á bílinn og áfram var ekið. Ætluðum upp til Batemans Bay en enduðum í Broulee, litlum bæ nokkru sunnar þar sem við fengum inni á æðislegu tjaldsvæði. Lögðum þar bílnum á milli sundlaugabakkans og stórrar hoppudýnu sem gerði dvölina afar afslappaða fyrir foreldrana. Hoppað og synt, kroppar og föt þvegin og allir fóru hreinir og glaðir í rúmið.

Dagur 6, miðvikudagur 13. mars. 

Annar keyrsludagur en þó um fallegra svæði. Ókum upp með ströndinni í gegnum iðagræna dali og skógi vaxnar hæðir - vorum alveg dolfallin yfir allri þessari fegurð. Sáum þó nokkra elda sem enn brenna hér um slóðir þó ástandið sé orðið viðráðanlegt. Ókum beint í gegnum Ulladulla en stoppuðum í Woolongong þar sem fórum inn í verslunarmiðstöð til að sinna nokkrum erindum. Stóðum í Kmart og hálfgörguðum yfir búðina eins og Íslendingum í útlöndum sæmir  þegar ung kona kemur til okkar og segir á okkar ástkæra, ylhýra... "Ég varð bara að stoppa ykkur".. Jamm, þarna var þá á ferðinni saklaust íslenskt konugrey sem átti nú ekki von á að hitta okkur vitandi það að hún og maðurinn hennar eru einu Íslendingarnir í bænum. Ykkur finnst þetta kannski ekkert merkilegt - Íslendingar eru jú alls staðar að flækjast - en á þeim rúmlega þremur árum sem við bjuggum í Ástralíu heyrði ég einu sinni íslensku (og það var á týpískum túristastað í Melbourne). Þessi kona hafði sömu sögu að segja, búin að búa þarna i þrjú ár og hafði aldrei áður hitt Íslendinga á förnum vegi. Þannig að þetta var heldur skondinn fundur.

Ókum svo sem leið lá í gegnum alla Sydney til að komast á tjaldsvæði þar í norðurhlutanum. Mikið vorum við nú fegin þegar þangað var komið því síðustu kílómetrarnir sem lágu í gegnum borgina þvera voru MJÖG seinfarnir; upp hæðar og hóla í mikilli umferð sem er nú ekki það skemmtilegasta þegar ekið er um á sjö metra húsbíl og ekki bætti úr skák að þegar bensínljósið kviknaði í öllum hasarnum. En allt reddaðist þetta nú sem betur fer.

Dagur 7,  fimmtudagur 14. mars. 

Dóluðum okkur fram undir hádegi á tjaldsvæðinu. Maron reyndi að vinna og krakkarnir léku sér í skemmtilegu vatnslandi sem þarna var að finna. Reyndar hafði nú kólnað verulega og hitinn ekki nema um 23°C og grár, hótandi himinn, sem okkur þykir nú heldur slæmt (erum við orðin of góðu vön??). Okkur var svo boðið í hádegisverð af gömlum vinnufélaga Marons í golfklúbbi í Sydney. Ég var nú heldur stressuð yfir börnunum mínum á svona settlegum stað enda kannski ekki rólegustu börn bæjarins en stelpurnar stóðu sig eins og hetjur og hefðu getað látið hvern mann halda að hér væru vel upp alin fyrirmyndarbörn á ferðinni. Maggi - já hann var bara þriggja ára strákur fyrir allan peninginn (ekkert of alvarlegt þó).

Eftir huggulegan hádegisverð var svo löng ferð framundan enda planið að hitta vinafólk okkar og fara með þeim á South West Rock sem er um fimm klukkustunda akstur norður af Sydney! Þannig að við réðumst nú ekki á garðinn þar sem hann var lægstur í gær. Vorum auk þess á hraðferð, bæði vegna þess að við ætluðum að hitta á þetta blessaða fólk og líka þar sem klukkan var orðin svo margt þegar lagt var af stað. Það er skemmst frá því að segja að við náðum að keyra þetta með einu 10 mín. stoppi og eiga börnin mín hrós skilið fyrir lágmarks grátur og rifrildi. Við héldum að Maggi myndi sofna strax þegar við lögðum af stað því hann hafði farið seint að sofa kvöldinu áður en það var ekki fyrr en eftir klukkan sjö sem hann loks sofnaði og náði því um klukkutíma orkublundi áður en við komum á áfangastað sem varð til þess að hann ætlaði aldrei að sofna um kvöldið!!

Kvöldið fór að mestu leyti í að koma okkur fyrir og svæfa börnin enda skemmtilegri dagar framundan þar sem tvö börn hafa nú bæst í hópinn þar af ein skvísa jafn gömul Thelmu Kristínu sem gleður hana ósegjanlega.

Dagur 8, föstudagur 15. mars

Eftir svefnlitla nótt fyrir foreldrana sem sofa illa við gargið úr pokarottunum hér í trjánum (mikinn óskapar hávaða geta þessu dýr framleitt) voru spennt börnin komin snemma á fætur og fóru stelpurnar fljótt ásamt nýju vinum sínum í könnunarleiðangur um tjaldsvæðið. Við erum nú staðsett á mjög skemmtilegu tjaldsvæði með alls konar afþreyingu í boði. Hér er hægt að velja um allan skalann þegar kemur að tjaldsvæðum og þau bestu eru eins konar "mini resort" þar sem hægt er að tjalda eða leigja lítinn sumarbústað. Á svæðinu hér er lítil en flott sundlaug, barnasundlaug, eldhús, sjónvarspherbergi, bíósalur, mini golf, trampolín, hoppudýna, leikvellir, inni leikherbergi með litlum hoppukastala, leikföngum og fl. Hér er líka hægt að leigja kanó og hjól, ganga á ströndina og svo mætti lengi telja.

Eftir skoðunarferð um svæðið var ákveðið að halda á ströndina þar sem við eyddum lunganum úr deginum. Litlu börnin mokuðu í sandinum á meðan þau eldri æfðu listir sínar á brimbretti. Krakkarnir sem eru með okkur (8 og 12 ára) eru nokkuð lunkin en Thelma Kristín var að stíga sín fyrstu skref. Hún stóð sig auðvitað eins og hetja og var farin að standa upp á brettinu áður en dagurinn var liðinn.

Eftir skoðunar- og verslunarferð inn í bæinn hélt ég svo með krakkana inn í leikherbergi til að bóndinn fengi smá vinnufrið. Við grilluðum svo saman og nú sit ég hér í rólegheitum með fartölvuna í fanginu inni í bíl. Kvöldin á tjaldsvæðunum hér eru nú heldur rólegri en við eigum að venjast í útilegunum heima og hafði Thelma Kristín á orði eftir nokkrar nætur á slíkum svæðum að ef þetta væri á Íslandi væri nú einhver komin(n) út með gítar og krakkarnir væru afskiptalausir að grilla sykurpúða! En hér eru öll ljós slokknuð um 10 leytið en fyrir vikið er allt komið á fullt fyrir klukkan átta. Sem hentar reyndar mjög vel fyrir fólk á ferðinni með þrjá gorma :-)


2 Comments:

  • Þú ert svo skemmtilegur penni Unnur :) Gaman að lesa og ég hlæ stundum upphátt og les glefsur fyrir Stefni. Dásamlegt að fá að fylgjast með. Ótrúlega spennandi ævintýri, hlakka svo til að fá að heyra sögurnar sem standa uppúr hjá krökkunum líka þegar þið komið heim. Knús og kramar á línuna og kær kveðja frá Önnu frænku ;) <3

    By Blogger Unknown, at 11:39 PM  

  • Frábært að fylgjast með ykkur hér á síðunni..Emma spyr hvort hægt sé að sjá myndir af róluvöllunum.....Kveðja úr Hraunbænum (við erum held ég þau einu í Árbænum sem eru vöknuð klukkan 5:50!!!) ÁSa

    By Blogger Ása, at 5:51 PM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter