Melbourne

Friday, October 26, 2007

Hún á afmæli í dag....svona næstum

Elísa á semi-afmæli í dag, hálfsárs skvísan! Héldum upp á afmælið með hrísmjölsgraut, að sjálfsögðu. Snúllan var yfir sig hrifin, kláraði allan matinn og hefði sko alveg verið til í meira - upprennandi matargat hér á ferð!


Við Elísa skelltum okkur í Myers í miðbænum í vikunni. Myers er Harrods Ástrala. Verslunin í miðbænum er risastór og algert völundarhús. Hún nær yfir margar byggingar og þrjár götur (þ.e. það eru göng yfir göturnar og svo heldur búðin áfram hinum megin). Fyrir mömmur með stórar kerrur sem ekki geta farið í rúllustigann liggur leiðin í lyfturnar á svona stöðum, þó að maður þurfi ekki að fara upp nema eina hæð. Myers í bænum er alveg kafli út af fyrir sig í lyftusögu landsins. Þarna eru 5 lyftur til staðar - gamlar lyftur - svo gamlar að þær eru MANNAÐAR af LYFTUVÖRÐUM (starfsheiti sem ég hélt að væri löngu útdautt - nema helst á 7 stjörnu hótelum). En þar sem mikill meirihluti kúnnanna notar rúllustigana er greinilega ekki rekstrargrundvöllur fyrir fleiri en einn lyftuvörð í senn - svona á þriðjudagsmorgni alla veganna. Þannig að 4 lyftur standa auðar og fara ekki fet. Það er ekki hægt að styðja á hnapp og panta lyftu - nei, það þarf að bíða á meðan lyftuvörðurinn ekur lyftunni frá fyrstu hæð og alveg upp, svo niður aftur sömu leið. Svona stýra þeir samviskusamlega upp og niður allan daginn, stansa á hverri hæð og þylja upp allt sem þar er að finna "Fourth level; Children's chlothing, shoes and toys; toilets and changing room" - alveg sama þó enginn þurfi að fara út á þessari hæð - og enginn sé á leiðinni inn! Ef Myers myndi skipta út þessum 5 elliærum lyftum og vörðunum með fyrir nýjar lyftur (sem koma þegar maður ýtir á takkann), hvað ætli þeir væru lengi að safna fyrir kostnaði nýju lyftanna með sparnaðinum af því að reka lyftuverðina???? Gamalgrónum Áströlum finnst voða sjarmerandi að hafa þetta fyrirkomulag á þessu - en ég verð BARA pirruð af að standa hálfan daginn og bíða eftir lyftu!

Við erum að vinna í að endurnýja alla myndasíðuna - það skýrir skortinn á nýjum myndum þar. Við hjónin getum vonandi gefið okkur tíma í þetta mjög fljótlega. Skólinn og vinnan aðeins að stríða okkur núna. Á meðan læt ég hér fljóta með aðra af snúllunni. Hér er hún að hjálpa mömmu við þvottinn.



...og hér er ein af hinni snúllunni að gera hjólið hreint eftir vetursetu í bílskúrnum (af því við vorum á Íslandi en ekki af því það væri ekki hægt að hjóla hér í vetur).



Knús í bili
Unnur

Monday, October 15, 2007

Óboðinn gestur og framtíðarpælingar

Það var ráðist á barnið mitt! Moskítófluga ruddi sér óboðin leið inn í herbergið hjá Thelmu Kristínu í fyrrinótt og barnið var svo útbitið eftir nóttina að ég hef aldrei séð annað eins (og verð ég nú frekar slæm sjálf) - Meira að segja nefið á henni var tvöfalt og annað augað sokkið - ekki falleg sjón. Maron hafði sem betur fer hendur í hári árásarflugunnar, vonandi áður en hún kom sér upp stórfjölskyldu á svæðinu!

Þetta er nú líklega bara bragð af því sem koma skal - sumarið á næsta leyti og allt það. Bara svona til að vera með almenn leiðindi, þá var hér í dag 27 gráðu hiti og glampandi sól. Elísa greyið veit ekki alveg hvernig hún á að vera í svona hita. Það er smá huggun harmi gegn að áströlsku börnin vita það ekkert frekar. Við fórum aftur í playgroup í dag og allur hópurinn var hálf illa upplagður - örugglega vegna hitans. Þetta venst vonandi.

Fórum í bíltúr í gær að skoða hús! Hér getur maður nebblega keypt eitt stykki byggt hús fyrir fyrirframákveðna upphæð - hvar sem maður vill. Þ.e. maður útvegar sér fyrst lóðina og kaupir svo staðlað hús til að planta niður. Þessi stórfyrirtæki sem þennan bisness stunda hafa svo komið sér upp heilu hverfunum sem eru til sýnist svo maður geti nú valið réttu "bragðtegundina". Viljið þið vita hvað 300 fm einbýli kostar? Ja, svona 12 milljónir uppsett - haldiði það væri munur ef maður gæti bara plantað efninu í gáma og fengið svo bræðurna til að styrkja húsið og reisa! Í ljósi síðustu daga verðum við bara að finna blómabeð í Kópavogi eða Mosfellsbæ - er ekki svo gott að vera í Kópavogi?

Knús
Unnur

Monday, October 08, 2007

Svo leikandi létt....

Jibbí jei - það les einhver þetta blogg :o) Sirrý og Lára - þið hafið blásið mig innblæstri - tek áskorunum fegins hendi og skelli hér með inn nýrri færslu úr æsispennandi lífi hinnar heimavinnandi húsmóður!

Skólinn byrjaði aftur í dag - æðislegt að fá tveggja vikna frí en jiminn góður hvað maður er alltaf feginn þegar rútínan byrjar aftur!

Við Elísa skelltum okkur í "playgroup" í fyrsta sinn í dag. Ég hélt að mér yrði vísað í playgroup grúbbu í ungbarnaeftirlitinu en hjúkkan hafði ekkert minnst á þetta (og ég gleymdi alltaf að spyrja) svo ég fór að forvitnast um þetta hjá kunningjum og komst þá að því að maður fær víst ekki slíka þjónustu nema með fyrsta barn - maður þarf sjálfur að bera sig eftir björginni. Ég hélt í sakleysi mínu að þetta væri ekki byrjað en á 5 mánuðum hafði víst myndast mjög rótgróin grúbba og mér fannst, þegar ég spjallaði við forsprakkann í síma, að mín væri nú ekkert allt of velkomin. Mér leið eins og ég hefði beðið aðal skvísuna í skólanum kæruleysislega um að fá að vera hluti af vinsælu klíkunni! En ég setti undir mig hausinn, staðráðin í að mæta í dag, enda um opinbera samverustund að ræða - Alveg tilbúin með ræðuna ef ég fengi ekki inngöngu - eins gott að ég væri ekki einmana mamman með fæðingarþunglyndi á háu stigi og allt það - en þess gerðist nú sem betur fer ekki þörf því þetta voru hinar fínustu konur og við Elísa skemmtum okkur konunglega. Fyndið samt að þessar eru allar að eiga sín fyrstu börn - og loksins hitti ég mæður á sama reki og ég! Frábært að vera ekki 10-20 árum yngri en hinar kellurnar. Fengum okkur kaffi á eftir og lágum yfir slúðurblöðum - ræddum landsins gagn og nauðsynjar, þ.e. hvort Britney ætti að fá börnin sín aftur og hver væri í flottasta kjólnum - Jibbí, loksins eitthvað fyrir minn smekk ;o)

Jæja, thats all for today folks (...eða Sirrý og Lára alla veganna!!) - það allra nýjasta úr lífi húsmóðurinnar - missið ekki af næsta þætti!

Tuesday, October 02, 2007

Heim í heiðardalinn

Jæja jæja - Mín er mætt aftur vegna "fjölda" áskorana :o/ Ég sé nú að teljarinn á síðunni mjakast enn svo það virðist - þó ótrúlegt sé - sem nokkrar hræður slæðist enn hér inn til að tékka á okkur andfætlingunum. Svo nú er best að spýta í lófana og setja inn nokkrar fréttir.

Eftir yndislegt sumar á Íslandi erum við sem sagt mætt aftur til Melbourne. Vorið tók á móti okkur - svona inn á milli alla veganna. Getum alls ekki kvartað í dag því hér er glampandi sól og vel yfir 20 stiga hiti. Ég þurfti meira að segja að kveikja á loftkælingunni í svefnherberginu - í fyrsta sinn langan tíma.

Thelma Kristín fór auðvitað beint í skólann eftir að við komum heim og var fegin að hitta vinkonurnar. Eftir þrjár vikur í skólanum var svo önnin búin og tveggja vikna frí tók við. Skólinn byrjar svo aftur næsta mánudag - bæði hjá Thelmu Kristínu og mér svo þá tekur alvaran við aftur. Við höfum verið mjög rólegar í fríinu enda hefur Maron verið á ferðlagi og við mæðgur höfum því mestmegnis verið heima við - eða hér um kring.

Þið getið nú rétt ímyndað ykkur gleðina þegar við vorum beðnar um að passa lítinn kanínu-unga í nokkra daga. Thelma Kristín sem suðar stöðugt um gæludýr! Mamman hugsaði sér gott til glóðarinnar og ætlaði nú aldeilis að sýna þeirri stuttu ábyrgðina sem fylgir slíku gæludýrahaldi. Það brást yfirleitt ekki að ef Thelma gleymdi sér í leik eða settist fyrir framan sjónvarpið að það "þurfti endilega" að sinna dýrinu NÚNA! Hún lét nú alltaf til leiðast - miskát þó - og svo er bara að sjá hvort suðið muni halda áfram eftir að barnið hefur fengið nasaþef af gæludýrahaldi. Hún "Softie" var nú algert krútt svo það er harla ólíklegt að þetta hafi orðið til þess að minnka áhugann - en maður heldur í vonina!

Elísa vex og dafnar með hverjum deginum og er hvers manns hugljúfi. Hún er orðin voða dugleg að velta sér yfir á magann og hefur gert í þó nokkurn tíma - en svo situr hún pikkföst og orgar! Ætlar ekki alveg að ná þessu með að fara til baka....og þó....ég er ekki frá því að hún hafi farið í heilan hring í gær en mín var bara svo upptekin við að glápa á tölvuskjáinn að ég missti af því - skamm skamm! Litla skvísan var alla veganna farin af maganum hægra megin á teppinu yfir á magann alveg hinum megin - annað hvort hefur hún velt sér eða skriðið!


Verð að bæta því hér við, eftir allar fótboltafréttirnar af Kristófer undanfarna mánuði, að Brighton Beast rúllaði upp deildinni í ár; voru taplausir og slógu nýtt met í stigafjölda - Ekki amarlegt það! Hér er hægt að kíkja á heimasíðu Brighton þar sem fréttin af Beasts er á forsíðunni http://www.brightonsc.org.au/ Það vantar því miður Kristó á myndina því hún er auðvitað tekin eftir að við fórum til Íslands, en það er verið að vinna í nýrri mynd þar sem honum verður smellt inn á.

Jæja - hef nú kannski ekki svo mikið að segja þegar allt kemur til alls. Kannski spurning um að vera duglegri að skella inn fréttum svo ég gleymi hreinlega ekki hvað við höfum haft fyrir stafni!


 

Website Counter