Melbourne

Friday, April 27, 2007

Lítil snúlla fædd

Litla prinsessan lét sjá sig viku á undan áætlun, snemma á fimmtudagsmorgun. Vaknaði um miðnætti við að vatnið fór og daman kom í heiminn tveimur og hálfum tíma síðar. Allt gekk mjög hratt en vel. Snúllan er vær og góð - bara yndisleg. Stóru systkinin standa sig líka eins og hetjur, eru voða dugleg að hjálpa til og pinkulítið montin af litlu systur.

Myndir eru komnar inn á myndasíðuna.

Knús
Unnur og co.

Wednesday, April 18, 2007

Páskafrí

Jæja, nú er skólinn byrjaður aftur, bæði hjá mér og krökkunum. Ágætt að fá aftur smá rútínu á heimilið. Áttum annars fínt frí í kringum páskana þar sem hápunkturinn var ferðalagið til Sorrento yfir hátíðarnar.

Fórum með Finnunum okkar og gistum í gömlu húsi í bænum Sorrento sem liggur við munnann á Port Phillip flóa. Þetta er týpískur rólegur sumarleyfisbær - voða kósý en samt hægt að finna sér mart til dundurs. Maron og Kristófer fóru t.d. á brimbrettanámskeið og skemmtu sér konunglega og á páskadag fórum við öll í siglingu þar sem hægt var að snorkla með höfrungum og selum. Sú ferð vakti auðvitað mikla lukku þó að Thelma Kristín hafi ekki snorklað nema stutta stund. Ég fékk handa henni blautbúning í stærð 8 sem var heldur stór því að stærð 6 var einungis með hálfum ermum og skálmum og sjórinn kaldur. Það sem ég fattið ekki var að sjórinn lak auðvitað inn í víðan búninginn um leið og sú stutta stökk út í svo henni var skítkalt. Barnið er auðvitað gerspillt - hefur einungis snorklað í Kóralrifinu mikla og á Tahiti - svo kaldur sjórinn frá Suðurskautslandinu var einum of!

Húsið var annars ágætt - ef maður lætur ekki nokkrar köngulær trufla sig - og ef maður kærir sig kollóttan um mýs og pokarottur uppi á þaki og á milli veggja!!! Garðurinn var lokaður og yngri börnin dunduðu sér vel við leik þar úti - og stóru börnin líka reyndar. Fórum tvisvar út að borða inni í bæ - vorum sérstakelga heppin með einn veitingastaðinn sem var vel búinn billjard og borðtennisborði sem við höfðum svo til út af fyrir okkur. Ekki oft sem hægt er að njóta tapas rétta í 3 tíma á veitingastað með 3 lítil börn - en það tókst okkur þó í þetta sinn.

Veðrið var alveg frábært alla páskahelgina. Hitinn fór mest upp í 28 gráður á annan í páskum og því stoppuðum við á ströndinni í bænum Rosebud á heimleiðinni. Yndisleg strönd með miklum grynningum sem gott er að leika sér á. Krakkarnir dunduðu sér við að veiða síli, marglyttur og skeljar; spila fótbolta og byggja sandkastala. Mín sat hins vegar hin rólegasta og sleikti sólina.

Við gerðum nú ekki mikið þar sem eftir var af fríinu. Skólinn byrjaði hjá mér strax á þriðjudeginum svo við vorum mikið heima við. Kristófer var voða duglegur að passa litlu systur svo ég fengi frið til að læra - ekki amarlegt að hafa einn svona duglegan á heimilinu! Fórum reyndar í sund og í verslunarleiðangur en ég held að þar með sé það upp talið.

Fótboltinn er líka kominn á fullt hjá Kristófer og fer hann nú á æfingar tvisvar í viku og keppir á sunnudögum. Fyrsti leikurinn var um síðustu helgi og var hálf vandræðalegt að horfa á hvernig strákarnir rúlluðu yfir heimaliðið. Leikurinn vannst 7-1 og greinilegt að Brighton liðið er sterkt og á örugglega góða leiktíð framundan.

Myndir úr páskaferðinni eru á myndasíðunni okkar.
Biðjum að heilsa héðan úr rigningarlausu haustinu.
Knús
Unnur Gyða

Thursday, April 05, 2007

Gleðilega páska!

Örstutt "gleðilega páska" færsla. Erum á leið í sumarbústað með vinum okkar yfir páskana. Ætlum að slaka vel á og borða mikið súkkulaði. Mamma og pabbi sendu Kristófer út með alvöru páskaegg til okkar - svo nú á að njóta vel. Planið er líka að fara í siglingu á páskadag og ef heppnin er með okkur - snorkla með höfrungum.... eða réttara sagt - allir hinir ætla að snorkla með höfrungum, ég held ég verði með báða fætur á þurru landi (eða bát alla veganna).

Allt gott að frétta annars. Krakkarnir eru í 2ja vikna páskafríi svo við höfum aðallega dúllast hérna heima við í vikunni. Ég hef líka verið í semi-páskafríi í mínum skóla en þar fer allt á fullt í næstu viku.

Læt heyra í mér eftir páskana - vonandi get ég líka hent inn fleiri myndum þá.

Gleðilega páska!!

Unnur


 

Website Counter