Melbourne

Saturday, March 17, 2007

Haustfréttir

Uuuuhhhnnnn uuuhhhnnnn uuuhhhhnnnn.....formúlan er hafin - sit hér með niðinn af kappakstursbílum í bakgrunni. Þetta er þriðja formúlukeppnin sem haldin er síðan við fluttum til Ástralíu. Mér finnst ég vera búin að vera hér ofsalega lengi þegar árlegir viðburðir eru farnir að eiga sér stað í þriðja sinn!!

Heimsmeistaramótið í sundi er einnig að hefjast hér í Melbourne um helgina. Stjórnvöld hér leggja mikið upp úr því að borgin hljóti orðspor sem íþróttahöfuðborg heimsins og hafa undanfarin ár engu til sparað til að ýta undir þessa þróun. Opna ástralska mótið í tennis er haldið hér í janúar ár hvert og í fyrrahaust voru Samveldisleikarnir haldnir í borginni. Mig rámar líka í heimsmeistaramótið í fimleikum, endalausar kappreiðar, stórmót í krikket og svo mætti áfram telja. Aðstæður til íþróttaiðkunar og stórmótahalds eru hér til mikillar fyrirmyndar en sitt sýnist þó hverjum um þessar áherslur stjórnvalda þar sem bein útgjöld hins opinbera eru í flestum tilfellum miklu hærri en tekjur þegar kemur að stórviðburðum í íþróttum - hvað sem segja má um margfeldiáhrif út í þjóðfélagið.

Alla veganna....þetta var alls ekki það sem ég ætlaði að blogga um! Lífið hér á Wave street gengur sinn vanagang. Mikil afmælisveisla var haldin um daginn á innileikvelli hér skammt frá. 14 krakkar hlupu og hoppuðu, róluðu, dönsuðu og renndu sér - á milli þess sem þau gúffuðu í sig mat og afmælisköku. Þetta var mjög vel heppnað og án ef sú allra einfaldasta afmælisveisla sem ég hef haldið. Við löbbuðum inn hálftíma fyrir partý, hjálpuðum til og fylgdumst með krökkunum í tvo tíma og settum svo niður með nokkrum foreldrum á kaffiteríunni á eftir - svo þurfti bara að draga upp visa kortið og fara heim á meðan aðrir sjáu um frágang og þrif - þvílíkur munur!!

Félagslífið hefur annars verið frekar líflegt hjá okkur mæðgum undanfarnar vikur. Thelma Kristín fór í afmælisboð í síðustu viku þar sem öllum bekknum var boðið í "fimleikastrætó" - Tveggja hæða London-strætó hafði verið breytt í fimleikasal þar sem krakkarnir róluðu fram og aftur og gerðu alls kyns kúnstir. Þið sjáið að afmælisveislur hér og heima eiga svo til ekkert sameiginlegt - hér snýst allt um skemmtanagildið fyrir krakkana en ekki um veitingar fyrir fullorðna fólkið! Veitingar samanstanda oftast af ávöxtum, snakki, fairy bread (brauð með smjöri og kökuskrauti!!) og einni köku sem pöntuð er úr bakaríinu. Ef eitthvað er haft fyrir foreldrum á annað borð er þeim boðið upp á bjór eða freyðivín - Svona er Ástralinn - No worries mate!

Thelmu Kristínu er einmitt boðið í annað afmæli á morgun sem haldið verið í garði hér rétt hjá okkur. Þemað er boltar, hjól og kylfur (you guessed it - strákaafmæli!) og allir eiga að mæta með hjól, hlaupahjól, bolta, línuskauta, krikketgræjur eða eitthvað þess háttar. Það verða örugglega þreytt og ánægð börn sem fara að sofa annað kvöld.

Erum að fara í annars konar afmæli í dag - Elwood Primary School er 90 ára í ár og í dag verður haldin veisla í skólanum. Mér sýnist nú á dagskránni að um sé að ræða frekar formlegan viðburð sem er frekar stílaður inn á fyrrverandi nemendur en núverandi...en sú stutta er ákveðin í því að við verðum að mæta í veisluna svo við fáum okkur göngutúr þarna úteftir í eftirmiðdaginn - við fáum kannski kökusneið ef við verðum heppnar.

Foreldrar og nemendur í 1. bekk í skólanum söfnuðust saman á leikvelli eftir skóla í gær og sátum við í góðu yfirlæti fram á kvöld. Við pöntuðum pizzur á línuna og krakkarnir hlupu um og léku sér á meðan fulllorðna fólkið ræddi landsins gagn og nauðsynjar yfir pizzu og bjór.

Foreldrahópurinn í Thelmu árgangi virðist vera mjög aktívur og það líður varla sú vika að ekki sé eitthvað skemmtilegt skipulagt. Fór t.d. á mömmukvöld á pöbbnum í síðustu viku og á miðvikudag munu foreldrar barna í Thelmu Kristínar bekk aftur hittast í bekkjarpartýi - þar sem foreldrum er líka boðið. Partýið það er reyndar til komin af því einhver krukka í kennslustofunni er orðin full (af teiknibólum held ég) - sem þýðir að kennarinn hefur gert mistök jafnoft þeim bólum sem þarna er að finna! Mér skilst að krakkarnir fái að bæta í krukkuna í hvert sinn sem kennarinn ruglar nöfnunum þeirra saman eða eitthvað í þeim dúr - svo þegar krukkan yrði full skyldi haldið partý - og nú er sem sagt komið að skuldadögum.

Annar stórviðburður er svo í pípunum og verður haldinn í lok apríl en það er svo kallaður Bazar - sem er stór fjáröflun sem haldin er í skólanum annað hvert ár. Mér skilst að skólalóðinni sé umturnað í tivolí, bazar og veitingastað samstundis. Allt undirbúið, skipulagt og mannað af foreldrum. Vinnan er að fara á fullt og nú þegar sitja foreldrar sveittir við sultugerð á milli þess sem þeir taka til í geymslunum til að athuga hvað þeir geta látið af hendi rakna til sölu á bazarnum. Þetta er hin allra besta skemmtun segja mér foreldrar með reynslu - nú er bara að vona að mín verði ekki á fæðingardeildinni þegar fjörið skellur á.

Frídagur verslunamanna var á mánudaginn og brugðum við mæðgur undir okkur betri fætinum og fórum inn til borgarinnar. Horfðum þar á árlega skrúðgöngu og héldum því næst niður í grasagarð þar sem búið var að seta upp heljarinnar tivoli. Reyndar var svo mikið af fólki í bænum að við nenntum ekki að bíða eftir að komast í mörg tæki..en sú stutta suðaði og suðaði í mömmu sinni um að fá að taka þátt í einverjum leik þar sem átti að hitta 2 boltum ofan í tunnu til að vinna verðlaun. Mín hafði nú enga trú á barninu, sagði henni statt og stöðugt að þetta gæti hún ekki gert og ætlaði ekki að gefa eftir - reyndi eftir besta megna að sýna barninu hvernig notaðir væru sérhannaðir boltar sem skoppuðu beint upp úr tunnunum aftur væru menn almennt svo heppnir að hitta ofan í - en daman gaf sig ekki og fórnaði ferð í tivolitæki fyrir þátttöku í leiknum. Mamman hefði nú kannski átt að hafa aðeins meiri trú á barninu því 3 boltar af 4 fóru ofan í tunnu - og 2 sátu þar sem fastast! Sú stutta fékk að velja sér hvaða verðlaun sem var og kom út með bleikan bangsa sem var næstum jafnstór henni! Við urðum svo að ganga um bæinn með þetta ferlíki það sem eftir lifið dags sem varð reyndar til þess að við gáfumst fljótlega upp og fórum upp í næstu lest. En Thelma Kristín var hæstánægð með árangur daginsins og hafði helst áhyggjur af því að við borguðum ekki í lestina fyrir bangsann - sem að sjálfsögðu þurfti sér sæti!

Maron er búinn að vera í Boston og Noregi undanfarna viku og er núna í London að sækja Kristófer. Þeir ætla að skella sér á Chelsea leik með Söru og Davie á morgun... Kristófer er ekkert mjög spenntur ;o) Þeir feðgar halda svo áfram til Melbourne á sunnudag. Við eigum sem sagt von á fyrstu umferð fjölskyldustækkunar á mánudaginn - bara gaman! Planið er að Kristófer byrji í skólanum í lok næstu viku - vonandi að hann nái að kynnast einhverjum krökkum áður fyrsta skólaleyfið hefst 10 dögum síðar.

Ég ætla að svindla og reyna að koma myndunum sem eru á myndavélinni inn á gömlu tölvuna mína og smella þeim á netið. Ég verð svo að halda í vonina að maðurinn minn fái einhvern tíma á næstu vikum til að kíkja á stillingarnar á nýju tölvunni svo ég geti komið öllum myndunum sem þar eru inn á netið - mér hefur hingað til ekki tekist það þrátt fyrir all nokkrar tilraunir. Ef þið eruð búin að gleyma lykilorðinu inn á myndasíðuna verðið þið bara að skrá ykkur aftur.

Knús Unnur feitabolla


 

Website Counter