Melbourne

Monday, April 25, 2005

17. - 25. apríl 2005

Halló halló

Jæja, myndirnar loksins komnar inn - biðst afsökunar a biðinni! Hef aðeins eina afsökun i þessu máli - 24!!! Við keyptum okkur alla fyrstu seríuna á flugvellinum þegar við fórum til Mooloolaba enda höfðum við ekki fylgst með þessu í sjónvarpinu á sinum tíma og því alveg græn um þann klepp sem beið okkar. Höfum sem sagt fórnað hverju einasta kvöldi síðan fyrir framan sjónvarpið... eigum bara tvo þætti eftir svo þessu lýkur í kvöld.

Vikan hefur annars verið róleg. Sú stutta fór á leikskólann á mánudag og miðvikudag eins og venjulega. Hún er enn alveg rosalega ánægð og deildarstjórinn hennar hélt ekki vatni yfir því hvað hún er dugleg þegar við sóttum hana á miðvikudag. Hún hafði komið til hennar um daginn og sagt hátt og skýrt "Follow me" og þegar hún brást ekki við eins og skot sagði hún bara "Follow me, Margie, please!" Svo voru þau að leika einhvern talnaleik en voru ekkert að pressa á Thelmu að segja neitt... þá stóð mín bara upp og sagði "Excuse me!" og svo taldi hún upp að 10 á ensku eins og ekkert væri - börnin misstu vist andlitið og sögðu "She can talk!"

Á mánudeginum hafði hún látið alla setjast niður og sungið fyrir hópinn! Eitthvað var hún nú feimin þegar á hólminn var komið þvi hún söng svo lágt að það heyrðist varla í henni. Allir héldi að hún væri að syngja eitthvað íslenskt lag en þegar ég fór að spyrja dömuna sagðist hún hafa verið að syngja á ensku!

Á föstudaginn fórum við mæðgur á Queen Victoria Market, stærsta markaðinn i Melbourne. Þetta er rosalega flottur markaður opinn flesta daga vikunnar held ég, allt til sölu auðvitað; föt, skart, minjagripir og matur... meira að segja hægt að kaupa kjúklinga og hænur... sprelllifandi. Prófaði nýja aðferð á dömuna til að minnka "mamma, mamma, má ég... viltu kaupa, mamma" áhrifin. Lét Thelmu Kristínu hafa 15 dollara þegar við komum inn (sú stutta auðvitað alveg í skýjunum) og sagði að hún mætti kaupa það sem hún vildi en þegar peningurinn væri búinn fengi hún ekki meira. Sú var spennt og áhugasöm - valið var erfitt en að lokum keypti hún sér barbie-úr og enn einn hundabangsann (þessi labbar, dillar rófunni og geltir - hátt!!!). Nú þarf bara að kenna skvísunni a klukku... það er bara eitt vandamál; ef ég spyr hvert litli vísirinn bendi er svarið bara "á kinnina á Barbie"!!

Keyptum okkur rosalega góðan lax og elduðum um kvöldið. Hafði reyndar líka verið með fisk kvöldið áður.... svo já, góðir hálsar, ég eldaði - óumbeðin - fisk tvo kvöld í röð. Þeir sem til þekkja vita að þetta eru undur og stórmerki - hvað þá þegar maður er i útlöndum!

Helgin var annars róleg. Fórum á laugardaginn og keyptum okkur gasgrill og húsgögn á svalirnar. Loksins getum við notið þess almennilega að vera í góða veðrinu. Við höfum oft saknað þess að eiga ekki grill á góðum dögum - hvað þá að geta ekki borðað á svölunum. En nú stendur það til bóta. Við hugsuðum okkur þvi gott til glóðarinnar því veðurspáin fyrir sunnudag var 30 gráðu hiti og sól. Við höfðum því hugsað okkur að eyða sunnudeginum í grillsmíðí á svölunum... en viti menn .. sunnudagurinn kom með roki og þykkum skýjum sem hótuðu rigningu. Thelma Kristín hélt því reyndar fram að sólin væri alveg að "brjótast inn" en allt kom fyrir ekki. Við dunduðum okkur samt sem áður við að setja saman grillið og fengum svo þessa fínu steik i kvöldmat i gær.

Í dag er frídagur í Ástralíu - svona til að vega upp á móti sumardeginum fyrsta sem var auðvitað vinnudagur hér enda að koma vetur! Dagurinn i dag heitir Anzac day og er herhátiðardagur þar sem gamlar stríðshetjur, lifandi og dánar eru heiðraðar og almenningi er ætlað að hugsa um alla þá vosbúð sem ástralskir hermenn hafa mátt þola i gegnum tiðina og gera enn. Maður er ekki alveg inni á þessari bylgjulengd og ég verð að viðurkenna að við fórum ekki niður i bæ í morgun með hinum Melbæingunum að hlusta á minningarathafnir og horfa á gamla hermenn marsera um bæinn með öll heiðursmerkin i barminum.... alltaf gaman að fridögum samt - sama hvert tilefnið er.

Maron fer til Íslands seint i næstu viku og verður í burtu í tvær vikur. Við mæðgur verðum bara rólegar á meðan. Ég er loksins farin að keyra bílinn aðeins svo við erum nú ekki alveg rúmfastar. Við finnum okkur eitthvað til dundurs.

Það er komin dagsetning á fyrstu gestina okkar... jibbí!! Kristófer og Anna Ólöf ætla að koma til okkar i lok maí og vera hjá okkur þangað til við förum heim til Islands i júní. Það verður þvi 5 manna hópur sem kemur til landsins í sumar. Það verður gaman að hafa þau hjá okkur - við finnum okkur örugglega margt skemmtilegt að gera - hlakka til.

Jæja, ætla að fara niður. Maron og Thelma Kristin eru að búa til jarðaberjashake og ætla að setjast út á svalir... ég ætla að setjast með þeim.

Heyrumst fljótlega
Kveðja
Unnur Gyða

Tuesday, April 19, 2005

Mooloolaba

Hæ hæ

Áttum yndislega langa helgi í Mooloolaba á Sunshine Coast, norðan við Brisbane. Eiginlega er hér um að ræða áströlsku riveríuna; hótel, strendur, veitingastaðir og sól, sól, sól.

Flugum norður á miðvikudagskvöldi og Maron var að vinna á fimmtudeginum og föstudeginum á meðan við mæðgur svömluðum í hótelsundlauginni. Veðurspáin var reyndar ekki til að hrópa húrra fyrir - rigning, rigning, rigning enda monsúntímabilið nýhafið. En sem betur fer varð lítið úr regninu og sólin skein á okkur næstum allan tímann.

Við mæðgur tókum því sem sagt rólega fyrstu tvo dagana. Lágum í sólbaði eftir því sem veður leyfði. Sú stutta var orðin ansi dugleg í sundlauginni, svamlaði um djúpu laugina með handakútana sína og synti fínasta hundasund. Vildi helst halda kúlinu og harðbannaði mömmunni að koma út í - enda fyrsta fólkið sem hún mætti í lauginni flugsyndir jafnaldrar svo nú var um að gera að standa sig.

Á fimmtudagskvöldinu fórum við út að borða á mjög huggulegan ítalskan veitingastað. Fengum rosalega góðar pizzur - við sem vorum næstum búin að missa trúna á að Ástralir gætu búið til pizzur eftir að hafa tvisvar pantað heim í Melbourne með arfaslökum árangri en eftir þessa ferð jókst trú okkar á andfætlingana og við sannfærðumst um að hér væri hægt að fá góðar pizzur - ibland alla veganna.

Byrjuðum laugardaginn á sundspretti enda var Thelma Kristín óþolinmóð að sína pabba sínum hversu dugleg hún væri í lauginni. Röltum síðan niður í bæ, sýndum pabba drekana (stórar eðlur) sem bjuggu undir runnunum við hótelið, fengum okkur samlokur og enduðum svo á ströndinni. Ströndin í Mooloolaba er mjög sérstök, stór partur af fjöruborðinu er klöpp sem gaman er að rölta eftir og dýfa tánum í pollana sem myndast á milli klettanna. Sjórinn var mjög hlýr og notarlegur, öldurnar í stærra lagi og sandurinn svo mjúkur að það brakaði í honum við hvert fótspor eins og maður gengi í kartöflumjöli! Fórum svo heim á hótel og sturtuðum okkur eftir góðan dag. Lágum í leti í sófanum og vorum alveg að gugna á því að fara út að borða þegar bankað var á dyrnar á herberginu okkar - hmmm.... við litum hvort á annað og ég fór til dyra. Fyrir utan stóðu tveir fílefldir slökkviliðsmenn og ein kona sem sögðu að brunakerfið hefði farið í gang á þessu herbergi!!! Bíddu - við vorum að horfa á sjónvarpið! Við gátum nú frætt fólkið um það að nágrannar okkar væru líklega valdir að brunanum enda hefði dýrindis steikingarbræla borist inn um loftræstinguna fyrir nokkrum mínútum. Mér skildist að hersingin hefði þegar farið í heimsókn til nágrannans því annar slökkviliðsmannanna brosti bara og sagði - já, þau voru að elda. Alla veganna kom ekkert út úr þessari heimsókn - gæti verið að það hafi verið nóg að við fórum í sturtu öll þrjú í röð og gufan hafi sett kerfið í gang - já eða nágranninn! Eftir þessa heimsókn vorum við þó orðin nógu vakandi til að rífa okkur upp á afturendanum og koma okkur út úr húsi.

Ákváðum að gera vel við okkur svona á laugardagskvöldi og fórum á frekar fínan veitingastað. Maron pantaði sér blandaða sjávarrétti og ég pantaði mér einhvern fisk (eye fillet) sem ég vissi nú ekki alveg af hvaða meiði var en hann var vafinn inn í parmaskinku með hálfsólþurrkuðum tómötum .. og.. hljómaði alla veganna mjög vel og gikkurinn ég sem aldrei panta fisk ákvað að láta slag standa. Við slógum enn um okkur og ég stóð fyrir því að pöntuð var hvítvínsflaska með matnum. Sátum svo í rólegheitum og sötruðum hvítvín þegar maturinn kom. Maron fékk rosalega girnilega sjávarrétti og ég fékk.... nautasteik!!! Enskukunnáttann ekki upp á fleiri fiska en þetta - þetta var bara venjulegt fillet - nautafillet. Maturinn var rosalega góður, það er ekki það - en mikið óskaplega langaði mig að kyngja steikinni niður með góðu RAUÐvíni! En ég kvarta ekki - þetta var alveg frábær matur - og ekki spilltu eftirréttirnir fyrir. Fórum sem sagt södd og glöð heim þetta kvöld.

Á sunnudeginum þurftum við að skila herberginu okkar klukkan 10 en áttum ekki flug heim fyrr en um kvöldið. Við ákváðum því að fara í "Underwater World" - sædýrasafnið i Mooloolaba. Það var ofsalega gaman og safnið glæsilegt í alla staði. Sérstaklega gaman að skoða fiskana sem eiga heima úti í kóralrifinu mikla því sú stutta þekkti þá alla með nafni; Marel, Dóra, Nemó... (!!) Sáum líka skemmtilega sýningu með selunum á safninu - sem endaði með því að einum áhorfandanum var hent út í laugina með selunum! En upp úr stóð samt risafiskabúr með fullt fullt af alls kyns fiskum, litlum og stórum... og risastórum... og hákörlum. Áhorfendur runnu svo í gegnum búrið á færibandi og manni leið bara eins og maður væri kominn í kafarabúning. Fyrir rétta upphæð var meira að segja hægt að fara ofan í búrið í kafarabúning og synda með hákörlunum. Gallinn var bara sá að um leið og viðkomandi var kominn ofan í búrið varð hann/hún automatiskt eitt stærsta sýningadýrið í búrinu. Alla veganna sagði Thelma Kristín að það hafi verið skemmtilegast að skoða hákarlana.. og kafarana!

Röltum svo um bæinn það sem eftir lifði dags þar til tími var kominn að fara út á flugvöll og þaðan heim í heiðardalinn. Haustið kom í Melbourne á meðan við vorum fyrir norðan - hitinn datt undir 20 gráður - brrrr!!! Daman fór svo á leikskólann í gær og allt gengur sinn vanagang. Maron fer bráðum heim til Íslands en við vitum enn ekki hvenær - við mæðgur þökkum fyrir hvern auka dag sem við höfum hann hér. Set inn myndir í dag eða á morgun. Bið að heilsa...

kveðja
Unnur

Tuesday, April 12, 2005

Allt og ekkert

Hæ aftur

Ég verð nú að viðurkenna að ég er með nettan móral yfir bloggleti síðustu daga og vikna. En reyndar hefur bara ekki svo margt á daga okkar drifið að það hafi tekið því að setjast niður og blogga. Ég er samt að hugsa um að fara að vera með skrifblokk á mér og skrifa niður hugmyndir að bloggi þegar þær skjótast inn í kollinn á mér því þær eru svo skrambi fljótar að hlaupa út aftur - fullt af skondnum og sniðugum punktum sem verða á vegi manns á degi hverjum en svo eru þeir týndir og tröllum gefnir þegar ég sest við tölvuna!

Veðrið hefur verið alveg geggjað undanfarnar vikur. Ástralarnir hrista bara hausinn á meðan hvert hitametið á fætur öðru er slegið. Eftir ömurlegt sumar hefur veðrið í haust verið alveg frábært - hitinn alltaf á milli 23 og 33 gráður yfir daginn og varla komið rigningardropi síðan við komum til landsins. Loksins kom sem sagt sumarið til Melbourne!

En nóg af innantómu bulli - komum okkur að efninun. Eins og áður sagði hefur ekki margt gerst í okkar lífi undanfarnar vikur - bara þetta venjulega; éta, sofa vinna! Thelma Kristín er ofsalega ánægð á leikskólanum. Hún er búin að eignast bestu vinkonu sem heitir Vanessa. Sem betur fer er hún bara á leikskólanum með Thelmu á miðvikudögum því þær eru algerlega óaðskiljanlegar - mér skilst á starfsfólkinu að Vanessa dragi Thelmu Kristínu með sér eins og hún væri taskan hennar! Það var bara grátur og gnístan tanna þegar þær voru sóttar á miðvikudaginn svo mikil var sorgin yfir aðskilnaðinum. En við mömmurnar erum búnar að skiptast á símanúmerum og erum tilbúnar í "playdate" þegar skólafríið er búið.

Síðustu viku og þessa hefur verið frí í öllum grunnskólum. Ég held að skólaárið sé byggt upp þannig hér að börn séu í skólanum í 6 vikur og svo sé frí í tvær vikur. Ég hef sko afskaplega öruggar heimildir fyrir þessu eins og flestu sem fram fer í Melbourne - þetta var nefnilega svona í Nágrönnum! Eins gott maður fylgdist með Grönnum í 10 ár - þvílík æfing fyrir komandi átök!!

Við familían fórum í bólusetningu nr. 2 við lifrarbólgu B á föstudaginn fyrir rúmri viku. Maður þarf að fara í 3 með ákveðnu millibili og svo er maður góður í 10 ár. Við hringdum í læknamiðstöð hér nálægt og pöntuðum tíma. Brostum nú út í annað þegar við mættum á staðinn því þetta er greinilega læknastöð gyðinga hér í hverfinu. Læknirinn tók á móti okkur, með kolluna og allt, dældi í okkur bóluefni og rukkaði svo þrefalt komugjald plús bóluefnið - með réttu hefðum við getað setið hjá honum í 45 mínútur (3x15 mín.) Sorry fordómana í mannfræðingnum - en þvílíkur gyðingur!

Bóluefnið fór nú ekki betur en svo í húsbóndann að hann lá steinflatur alla helgina á eftir og var í raun langt fram eftir vikunni að jafna sig. Það er kannski ekki síst þess vegna sem lítið blogghæft hefur gerst undanfarið. En karlinn er nú kominn á ról og við erum á fullu við að bæta upp tíðindalitla daga.

Ótrúlegt hvað sú stutta er nægjusöm og dugleg að dunda sér hér heima við þegar lítið er að gera. Hún hefur verið ótrúlega iðin við að hugsa um hundana sína fjóra - fjóra "hundabangsa" sem hún á og hefur lengi haldið því fram að séu sprelllifandi. Foreldrunum var nú hætt að standa á sama á þessu hundastandi og ég nefndi það við Maron að það væri skrítið að hún léki sér svona mikið með hundana en nær ekkert með dúkkurnar sínar - það er ekki eins og við séum miklir dýravinir. En nú er öldin önnur og daman sér ekkert nema dúkkurnar sínar tvær; Ingibjörgu og Heklu. Hún harðneitar hins vegar að vera mamma þeirra - segir að þær séu systur sínar og að við Maron eigum nú þrjár stelpur. Þetta hefur orðið til þess að ég fæ dúkkur í fangið í tíma og ótíma með skipunum um að hugsa um barnið mitt, dúkkurúmið er staðsett við hliðina á MÍNU rúmi enda vill Ingibjörg sofa hjá mömmu sinni og Thelma segir hverjum sem heyra vill að hún sé orðin stóra systir! Svo ef þið heyrið orðróm um að það hafi fjölgað í familíunni þá er þetta skýringin!

Eftir tíðindalitla viku fórum við í risabíltúr á laugardaginn. Að þessu sinni var ferðinni heitið niður Great Ocean Road sem liggur meðfram ströndinni vestan af Melbourne. Þetta er með hrikalegri vegum landsins en landslagið gerir ferðina þess virði. Framan af keyrir maður meðfram "Surf Coast" þar sem strendurnar eru með bestu brimbrettaströndum Ástrala og seinni hlutann keyrir maður svo meðfram "Shipwreck Coast" með háum klettadröngum sem eru að klofna í sjó fram - líkt og við Vík í Mýrdal. Eftir um klukkutíma bíltúr út úr borginni fengum við okkur hádegismat í bæ sem heitir Anglesea. Bærinn er einna frægastur fyrir golfvöllinn sem þar er því þar rölta kengúrur óáreittar með golfurunum um græna grasbala. Við slepptum golfinu í þetta sinn og pöntuðum okkur focaccia á hugglegum veitingastað inni í bænum. Þegar við komum inn var setið á einu borði en þrátt fyrir það tók það 35 mínútur að búa til samlokurnar - eins gott við pöntuðum ekki lambaskankana! Sem betur fer bragðaðist maturinn vel og við héldum ferðinni áfram niður þann kræklóttasta veg sem ég hef nokkru sinni farið - og taldi ég þó að við Íslendingar værum ýmsu vön í þessum efnum. Við keyrðum reyndar fram á ljótt bílslys þar sem móturhjól hafði keyrt utan í bíl. Móturhjólakappinn lá í götunni með opið beinbrot og ég verð að segja að maginn á manni sneri öfugt í nokkurn tíma eftir að hafa horft á þetta. En sjúkrabílinn var nýkominn á staðinn og maðurinn í góðum höndum, vonandi að hann hafi sloppið með eitt fótbrot.

Við keyrðum svo sem leið lá eftir Great Ocean Road og skoðuðum "the 12 Apostles", 12 klettadranga sem liggja við ströndina - mjög tilkomumikið. Gengum líka niður á strönd sem lá inni í lítilli klettavík. Það var með fallegri stöðum sem ég hef séð - alveg ótrúlega magnað. Þar settumst við niður með teppið góða og borðuðum nesti. Thelma Kristín er nefnilega svo hrifin af pick-nick tösku sem við fengum gefins eftir að hafa eitt aleigunni í raftækjabúð hér í nágrenninu. Það er mest spennandi í heimi að fara með nesti - þó ekki sé nema út í "park" og sitja á teppi í sólinni - Lítið er ungs manns gaman!

Heimleiðin lá svo aðeins fyrir norðan Great Ocean Road, að miklu leyti í gegnum regnskóg - og eftir einn góðan borgara á KFC komum við svo heim þegar leið á kvöldið eftir vel heppnaða ferð.

Áttum svo von á nágrönnum okkar í bjór á sunnudagseftirmiðdag en því miður varð ekkert úr því. Þó varð þetta til þess að við hengdum upp myndir og gerðum ýmislegt sem við áttum eftir að gera í íbúðinni - besta mál.

Á morgun er svo ferðinni heitið á Sunshine Coast, norðan við Brisbane. Maron er að fara að vinna þar í Mooloolaba (ég hélt hann væri að grínast þegar hann sagði mér nafnið á bænum!) á fimmtudag og föstudag svo við mæðgur ætlum að skella okkur með og sleikja sólina á meðan hann vinnur og svo verður hann með okkur um helgina - ekki amarlegt! Ég kem því með margar nýjar (og vonandi skemmtilegar) sögur eftir helgina. Lofa líka nýjum myndum þá.

Best að fara að pakka niður bikiníinu - heyrumst fljótt aftur.

Afmæliskveðjur til Ásu og Ágústs Mána - til hamingju með daginn á morgun. Ása - ég fæ mér Pina Colada á ströndinni á morgun - þér til heiðurs!

Sólarkveðjur
Unnur


 

Website Counter