Melbourne

Monday, January 30, 2006

Under Down Under

Mikið var gott að flýja 40 gráðurnar og skógareldana fyrir rólegheit, náttúrufegurð og þægilegt hitastig í Tasmaníu. Áttum alveg yndislega daga þarna "under Down under" á eyjunni litlu sem líklega státar af hreinasta lofti í heimi. Verð, sem Íslendingur, að játa mig sigraða í þessum efnum því ekki þola Tasmanir yfirsveimandi mengun frá löndum í kring eins og við gerum á Íslandi. Að auki liggur eyjan á 40. breiddargráðu þar sem stöðugur vestanvindur sér til þess að loftið stendur aldrei kyrrt.

Lögðum upp frá Melbourne á miðvikudagskvöldi í farþegaferjunni "Spirit of Tasmania". Þetta var fínasta fley og eftir að hafa fylgst með því leggja úr höfn áleiðis út Port Phillip flóa settumst við niður á betri veitingastað skipsins og nutum góðs matar og víns. Skriðum að því loknu í koju enda fann maður um leið og skipið kom út fyrir flóann hvernig veltingurinn jóks margfalt. Ekki bætti úr skák að vegna hafnarbreytinga í Tasmaníu varð kapteinninn að vera klukkustund fljótari á áfangastað en vant er og keyrði því allt í botni. Þetta hafði það í för með sér að við lentum í Devonport, Tasmaníu klukkan sex að morgni í stað sjö!

Hófum dvölina í Tasmaníu á klassískan máta.. með morgunmat á McDonald's! Planið fyrir daginn, sem var einmitt þjóðhátíðardagur Ástralíu, var að koma okkur suður eyjuna til höfuðborgarinnar, Hobart. Sáum tvær leiðir færar í þessum efnum, beinan og breiðan þjóðveg sem tekur um 3 klst. að aka og svo seinfarnari leið yfir fjöll og firnindi, meðfram stóru stöðuvatni með regnskóga á báða bóga. Á bensínstöð bæjarins var okkur ráðlagt að taka þjóðveginn enda líklegt að umferð myndi aukast er liði á þjóðhátíðardaginn og hlýddum við þeim ráðleggingum. Mér var nú hugsað til hans karls föður míns þá. Sá hefði verið fljótur að pakka svala og kexi og taka fjallabaksleiðina! Við gæddum okkur hins vegar bara á Opal brjóstsykri sem við fengum senda fyrir jólin á meðan við þutum um þjóðveginn. Veltum því fyrir okkur hvort þetta væri það íslenska sælgæti sem lengst hefur ferðast frá heimahögunum á Hesthálsi ... endilega látið vita ef þið getið toppað þetta.

Ferðin gekk annars í alla staði vel. Gerðum pissustopp í bænum Bagdad... þar var allt með kyrrum kjörum! Dýralífið í Tasmaníu virðist vera með líflegasta móti ef marka má dýrahræ á vegum úti. Hef aldrei á ævinni komist nálægt því að sjá jafn mörg dauð dýr og ég gerði síðustu daga, það liðu líklega að meðaltali um 500 m. á milli hræjanna á götunni, kengúrur, tasmaníu púkar (Tasmanian Devil), possums, quolls og hvað þau heita nú öll þessi dýr sem ramba hér um þessar slóðir. Sá líka einn snák sem næstum var skriðinn undir bílinn hjá okkur og svo verð ég að bæta við einni þeirri furðulegustu sýn sem ég hef upplifað. Ókum fram hjá engi þar sem rollur voru á beit.. sem er nú ekki í frásögu færandi... nema á baki næstum hverrar einustu ær stóð einn fugl! Ef einhver kann skýringu á slíku fyrirbæri ... endilega látið heyra í ykkur.

Komum til Hobart um hádegisbil og fengum okkur djúpsteiktan fisk í hádegismat. Veitingastaðurinn var niðri við höfn og þar gat maður fylgst með bátunum koma með aflann að landi og beint inn í eldhús... gerist ekki mikið ferskara en það. Á dauða okkar áttum við nú von áður en við fyndum séríslenska kokteilsósu á veitingastað hinum megin á hnettinum en það gerðist nú samt ... Coctail sause... seldu þeir með fiskinum, og hún var bara alveg eins á bragðið og okkar. Tommi hefur greinilega ferðast um Tasmaníu áður en hann opnaði Tommaborgara (eða Magnús á Aski eða hver það nú var sem eignaði sér heiðurinn af kokteilsósunni) - ja, eða öfugt!

Eftir að hafa tékkað okkur inn á hótelið okkar fórum við í göngutúr um bæinn og fengum okkur léttan kvöldverð í einum líflegasta borgarhlutanum áður en við tókum smá rúnt um ytri borgarmörkin. Hobart er borg Einstefnanna..með stórum staf. Þar eru meira og minna ALLAR götur einstefnur... 2-4 akreinar... en allar í sömu átt!!! Ég held líka að borgin státi af bröttustu brekkum veraldar. Borgin er byggð utan í fjallshlíðum og vegirnir niður.. boy ó boy... manni fannst maður bara vera að keyra fram af!

Vorum snemma á fótum á föstudeginum. Fengum okkur léttan morgunverð á hótelinu...það hefðum við nú ekki átt að gera því verri morgunmat höfum við sjaldan fengið...og það var sko ekki í samræmi við verðið sem við borguðum fyrir hann. Maron pantaði sér t.d. rándýrt jógúrt með múslí og ávöxtum. Miðað við uppsett verð héldum við að hann fengi þetta fína ferska ávaxtasalat en nei... súrmjólk, þurrt, gamalt múslí og niðursoðnar ferskjur var það sem í boði var!

Ókum síðan suður fyrir Hobart niður til Port Arthur, frægasta túristastaðar eyjunnar. Þar eru gamlar fangelsisrústir síðan á 19. öld. Þegar glæpamennirnir sem sendir höfðu verið frá Bretlandi til Sidney brutu aftur af sér í Ástralíu voru þeir sendir til Port Arthur. Þarna voru sem sagt geymdir harðvítugustu glæpamennirnir enda var þeim þarna engrar undankomu auðið. Allt um kring er sjór sem frægur er fyrir hákarlana sem þar svamla um að undanskildu litlu eyði sem tengist landi... þar voru grimmir, hálfsveltir hundar sem sátu fyrir flóttamönnum.

Vegna einangrunarinnar myndaðist þarna hálf sjálfbært samfélag þar sem mikið var um vinnuafl, þ.e. fanga, sem byggðu stór og glæsileg hús, þ.á.m. kirkju og sjúkrahús. Fangelsið er eitt það fyrsta í heiminum sem hafði þá stefnu að uppfræða fangana á meðan dvöl þeirra stóð, þá helst með því að kenna þeim einhverja iðn, svo þeir gætu bjargað sér sjálfir eftir að afplánun lauk.

Því miður komst þetta safn í fréttirnar árið 1996 fyrir allt aðrar sakir en þá voru þarna framin verstu fjöldamorð sem framin hafa verið á friðartímum þegar óður byssumaður skaut á fjölda manns, drap 35 og særði 12. Maður hefði nú haldið að Ameríkaninn ætti heimsmet í slíkum æfingum.. en svo er víst ekki. Nú hefur verið reistur minningarreitur í safninu um þennan atburð en gestir eru beðnir um að spyrja starfsfólkið ekki frekar út í málið. Margir sem þarna vinna misstu nákomna, enda samfélagið lítið og þrír starfsmenn safnsins á meðal þeirra látnu. Þetta er allt svo nálægt manni í tíma að maður fékk nú bara illt í hjartað við að ganga um minningarreitinn.

Á leiðinni til og frá Hobart stoppuðum við á nokkrum útvöldum náttúrufegurðar-stoppum og nutum vel.

Fengum okkur svo Crayfish í kvöldmat. Ekki hægt að vera í Tasmaníu án þess. Ég get nú ekki frætt ykkur um muninn á Crayfish og risahumri.. hann er lítill ef einhver... en góður var hann.

Höfðum vaðið fyrir neðan okkur á laugardag og fórum niður í bæ í morgunmat. Gengum um Salamanca markaðinn sem haldinn er á laugardagsmorgnum. Það var líflegur og skemmtilegur markaður, margt að sjá og auðvelt að eyða peningum! Tasmanir eru sérstaklega þekktir fyrir skóga, skógarhögg, góðan við og fallegan útskurð. Pabbi hefði haft gaman af að rölta þarna um... við hugsuðum meira segja svo stíft til þín pabbi, að það bíður þín gjöf þegar þú kemur um páskana!

Eftir markaðsröltið ókum við sem leið lá upp eftir austurströnd Tasmaníu. Þessi hluti eyjunnar er oft kallaður leikvöllur Tasmaníu enda fallegar strendur og gott brim. Dóluðum okkur inn að Freysnesi (Freycinet National Park) þar sem við gengum upp að Wineglass Bay sem þykir með fallegri ströndum í heimi. Gangan var rúmur klukkutími fram og til baka... púra fjallganga en sú stutta var sko ekki að kvarta. Hoppaði þetta með okkur eins og ekkert væri. Það hjálpar nú til við gönguna þegar maður mætir einni og einni eðlu eða kengúru á leiðinni. Útsýnið var ægifagurt, bæði var ströndin falleg, eins og við var að búast en mér fannst þó meira til fjallanna koma. Ætla mér ekki út í nánari lýsingar á þeim... þið verðið bara að skoða myndirnar.

Það var langt liðið á kvöld þegar við komum á næturstað, St. Helens, þar sem við áttum bókað herbergi á hóteli bæjarins. Við vissum hins vegar ekki að þennan dag var siglingarkeppni í bænum og hátíðarhöld að henni lokinni. Bærinn iðaði af lífi, skemmtidagskrá, ferðativoli og flugeldasýning. Þegar skipulagðri dagskrá var lokið var hótelið svo auðvitað miðpunktur áframhaldandi skemmtanahalds okkur til lítillar ánægju. Lítið sofið þá nótt.

Í gær dóluðum við okkur svo um norðaustur hluta Tasmaníu með viðkomu á helstu túristastoppum. Röltum t.d. niður að Binalong Bay sem var víst valin næst besta strönd í heimi - að sögn bæjarbúa reyndar... við tökum því nú með fyrirvara... en falleg var hún nú samt. Mjallahvítur sandur sem var svo mjúkur að manni leið eins og maður væri að ganga í kartöflumjöli. Ókum í gegnum Elephant Pass .. yfir fjallgarð með þröngum og kræklóttum vegum... loksins kom sér vel að eiga jeppa. Alls staðar sem við fórum göptum við yfir náttúrufegurðinni... verð að segja að Tasmanía er vel geymt leyndarmál.

Fórum svo aftur um borð í ferjuna í gærkveldi. Vorum komin snemma í koju eftir svefnlitla nótt kvöldinu áður og vorum svo eldspræk við komuna til Melbourne í morgun. Þurftum reyndar að snúa aftur í ferjuna þegar við vorum hálfnuð heim þegar uppgötvaðist að Hekla gleymdist um borð. Hún fékk að sofa í efri koju og í flýtinum gleymdist litla greyið. Við héldum því í björgunarleiðangur og vorum komnar með nokkra fíleflda öryggisgæslumenn í lið með okkur þegar dúkkan var endurheimt. Uppskárum ansi mörg góðlátleg bros í aðgerðinni.

Húff.. þetta var nú ferðasagan okkar. Myndirnar eru á tölvunni hans Marons svo ég verð að fá hann í lið með mér áður en þær verða settar á Netið.... vonandi á morgun.

Knús
Unnur Gyða

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter