Melbourne

Monday, January 02, 2006

Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár og takk fyrir allt gamalt og gott!

Áttum hér ágætis áramót litla fjölskyldan. Gamlársdagur var vægast sagt bjartur og fagur því hér fór hitinn upp í litlar 44 gráður á celcius!! Lágum á ströndinn fram eftir degi.. reyndar aðeins í ca 35 gráðum en svo, með einni vindhviðu, rauk hitinn yfir 40 gráðurnar og hækkaði enn á næsta hálftímanum. Hef aldrei upplifað annað eins. Bæði það hvað þetta gerðist hratt og svo hitt.. að standa í 44 gráðu hita. Líktist því einna mest að standa inni í hárblásara, ef þið þekkið þá tilfinningu!

Á tímabili var tvísýnt með flugeldasýningu kvöldsins og á nokkrum stöðum í Ástralíu var slíkum sýningum frestað vegna hættu á skógareldum. Flugeldunum í Melbourne var þó öllum skotið upp af pöllum úr Yarra ánni. Það gefur auga leið að í slíkum hita og skraufþurrki er kannski ekki sniðugt að vera að skjóta upp ragettum. Það má ekki einu sinni kveikja sér í sígarettu í almenningsgörðum landsins á dögum sem þessum.

Ástralir hafa einmitt þurft að berjast við þó nokkra skógarelda vítt og breytt um landið undanfarna daga. Einn maður hefur látið lífið og þó nokkrir misst aleiguna í slíkum hamförum síðustu 3 daga. Í gær, nýársdag, rigndi þó í Victoriu, sem betur fer, en það var of seint fyrir suma því í fylkinu brunnu 5 hús til grunna á gamlárskvöld.

En snúum okkur aftur að áramótunum. Vegna hitans var ákveðið að bjóða einungis upp á forrétt og eftirrétt þessi áramót! Í raun fór þó svo að við höfðum bara list á forréttinum og eftirrétturinn varð að bíða betri tíma. Við drifum okkur svo í bæinn, ásamt hálfri milljón Ástrala, og sáum barnaflugeldasýninguna klukkan korter yfir níu. Þetta var bara flott sýning og ég var glöð að við drifum okkur því um leið og sprengingarnar byrjuðu áttaði ég mig á því hversu miklu máli þær skipta upp á stemninguna um áramót. Ég hef aldrei þótt mjög sprengjuglöð en um leið og lætin byrjuðu kom yfir mig svona "áramótatilfinning" sem hafði í raun alveg vantað í sólinni. Allt í einu hugsaði maður "hey, já, það er gamlárskvöld"!

Við höfðum nú ekki þolinmæði til að ösla mannhafið lengi og vorum fljólega komin upp í sporvagn á heimleið. Vorum því bara hér heima við þegar 2006 gekk í garð. Sú stutta sofnuð í sófanum og við hjónin skáluðum í freyðivíni fyrir framan vefmyndavélina með félagsskap að heiman.

Höfðum svo auðvitað ómælda ánægju af því að hringja í vini og vandamenn og gantast með það að við værum nú stödd framar í tilverunni. Allir að óska okkur gleðilegs árs og við bara glottum og sögðum, "já, takk!". Þegar við vöknuðum á nýársdagsmorgun upplifðum við svo áramótin aftur í gegnum vefmyndavélina... laptoppinn settur í gluggann í Melbænum á meðan sprengingarnar gengu yfir og svo skáluðum við aftur á kampavíni og buðum mannskapinn velkominn inn á okkar tímabelti! Ekki verra að upplifa sömu áramótin tvisvar.

Höfum svo bara legið í leti í gær og í dag (í dag, mánudag, er frídagur í Ástralíu þar sem nýársdag bar upp á sunnudag). Eins og áður sagði kom langþráð rigning í gær og hitinn datt niður í 24 gráður (NB 20 gráðu mismunur á milli daga!). Þegar ég spurði þá stuttu hvað hún vildi helst gera sagðist hún vilja fara út, mín varð alveg agndofa og benti út um gluggann. "Ég vil fara út í rigninguna", sagði barnið og þá rankaði mín aðeins við sér. Maður er orðinn svo góðu vanur hvað veðrið snertir að um leið og rignir hættir maður sér ekki út þó hitinn sé yfir 20 gráðum. Auðvitað vildi barnið bara fara út í rigninguna.... og hún hefði ekki stoppað nokkuð heilbrigt íslenskt barn! Ég gat því lítið sagt nema ókei, farðu upp í pollagallann þinn. Barnið mundi nú ekki einu sinni hvernig gallinn leit út og það er skemmst frá því að segja að hann var allt of lítill og engin stígvél til á heimilinu... þvílíkt ástand! Létum okkur samt hafa það, í gallann fór barnið og smellti gömlum útslitnum strigaskóm á fæturnar. Það er ljóst að við verðum að gera bragarbót á útifatnaðinum áður en við förum í sumarfrí til Íslands.



Vinnuvika framundan hjá bóndanum en áframhaldandi sumarfrí hjá okkur mæðgunum. Finnum okkur örugglega eitthvað til dundurs. Í næstu viku er daman svo að fara með Inku vinkonu á sundnámskeið - það verður spennandi.

Óska ykkur aftur gleði og friðar á nýja árinu.
Knús
Unnur

3 Comments:

  • Vá ekki allir sem fá tvenn áramót! Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir öll þau gömlu og góðu!

    By Anonymous Anonymous, at 9:41 PM  

  • Var að skoða myndirnar ykkar og verð að bæta einu við sem þið hafið líka í vinning miðað við okkur hér heima (fyrir utan tvenn áramót)......þið eruð MIKLU BRÚNNI!!!! Vá það væri nú eitthvað fyrir mig, sólstrandarpæjuna að halda svona jól og áramót!

    By Anonymous Anonymous, at 9:58 PM  

  • Hæ Unnur mín, mig langaði bara að óska þér og þínum gleðilegt ár. Takk fyrir jólakortið, voðalega sæt mynd af stelpunni. En hafðu það nú gott og ég er alltaf að fylgjast með ykkur úr fjarlægð. Ég var alveg til að kíkja í heimsókn. Alveganna að dreyma það. EN hafðu það gott kveðja Hulda

    By Anonymous Anonymous, at 10:25 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter