Melbourne

Wednesday, January 11, 2006

Sumarfrí

Hæ hó

Höfum það nú aldeilis gott hér í sól og sumri. Hitinn hefur verið að rokka á milli 25 og 35 gráða - sem er óskaplega þægilegt. Við mæðgur höfum það notalegt í sjálfskipuðu sumarleyfi á meðan bóndinn vinnur!

Höfum brallað ýmislegt undanfarna daga. Fórum t.d. í verslunarleiðangur í Hringluna að kaupa skóladót fyrir þá stuttu. Nú styttist heldur betur í að skólagangan hefjist. Erum búnar að fjárfesta í pennaveski, öllum stærðum og gerðum af litum, blýöntum, strokleðri, nestisboxi og brúsa. Eigum aðeins eftir að kaupa tvo hluti á skóla-innkaupalistanum - tisjú og sólarvörn!

Við mæðgur brugðum undir okkur betri fætinum á fimmtudaginn var og lékum túrista í Melbænum. Ég taldi mig nú vera búna að sjá alla helstu túristastaði borgarinnar en komst að því, mér til mikillar furðu, að einn sá skemmtilegasti hefur alveg farið fram hjá mér þegar við skoðuðum Melbourne Museum og Imax (þrívíddarbíó). Safnið stendur við eina fallegustu byggingu borgarinnar, Royal Exhibition Building, sem er ein elsta og fallegasta sýningarhöll heimsins, hún er meira að segja á Heimsminjaskrá UNESCO. Ég hef nú oft heyrt minnst á þetta hús, oftast í tengslum við umræðu um tákn (symbol) Melbourne borgar, en mér hefur, á ótrúlegan hátt, tekist að ferðast hring eftir hring um húsið án þess að komast nógu nálægt til að sjá það. Verð að viðurkenna að ég varð mjög imponeruð og verð að éta ofan í mig þá skoðun mína að í Melbourne vanti gamlar, virðulegar byggingar.

En ferðin okkar snerist nú ekki um þessa sýningarhöll í þetta sinn. Aðaltilgangurinn var að sjá Wild Safari í Imax. Þrívíddarleiðangur um frumskóga Afríku með tilheyrandi dýralífi. Ég held ég hafi ekki farið í svona þrívíddarbíó eða nokkuð þvílíkt síðan sýndar voru myndir innan í lofti Laugardalshallarinnar upp úr 1980. Sú minning er meira að segja svo óljós í huga mér að ég veit ekki hvort hún er ímyndun ein eða ekki. En hvað um það, við mæðgur settum upp þessi fínu þrívíddargleraugu og fylgdumst með ljónum og nashyrningum að því er virtist við hlið okkar, enda vorum við að horfa á stærsta þrívíddarskjá í heimi. Thelma Kristín gat ekki hætt að teygja hendina fram til að klappa dýrunum aðeins, svo raunveruleg voru þau.

Eftir bíósýninguna fórum við yfir á Melbourne Museum sem staðsett er í sama húsi. Ég hafði nú mátulegan áhuga á safninu sem slíku, vissi varla um hvað það snerist, en hafðí heyrt að í hluta safnsins væri sýning ætluð 4-8 ára börnum. Það er skemmst frá því að segja að safnið kom mér mjög skemmtilega á óvart, líklega af því væntingarnar voru engar, og eyddum við rúmum 2 tímum þar inni án þess að ná að sjá nema brot af öllu því skemmtilega sem til sýnins var. Barnasýningin var alveg frábær, hélt þeirri stuttu alveg frá sér numdri af gleði í einn og hálfan tíma. Þarna var t.d. sandkassi fullur af skeljum, kuðungum, þurrkuðum krossfiskum og þar fram eftir götunum. Mikið af uppstoppuðum dýrum sem voru oft þannig fram sett að börnin þurftu að skríða inn í hólf og kíkja inn um glugga þar til að sjá dýrin. Það var mikið gert úr ungviðum alls kyns dýra og þau sýnd á ólíkum þroskastigum (t.d. lirfa, púpa, fiðrildi) og allt fram sett á svo skemmtilegan hátt, t.d. var hægt að vigta og hæðarmæla börnin, ekki til að meta slíkt í kílóum og metrum heldur það hversu margir wombats (veit ekki hvað þessi dýr heita á íslensku) þyrftu að standa í röð, hver ofan á öðrum, til að vera janfstórir og börnin ... og á sama hátt, hversu margir wombatar væru samanlagt jafn þungir og þau. Úti var líka afgirt leiksvæði fullt af sippuböndum, húllahringjum og fleiri góðum og gamaldags leikföngum. Við röltum svo um hinn hluta safnins á eftir og, eins og áður sagði, náðum ekki að skoða allar sýningarnar sem þar voru í boði svo við verðum bara að skella okkur aftur næst þegar við fáum gesti. Þarna var t.d. pöddusýning, fiskasýning, sýning um þróun mannsins, önnur um hug og líkama, frumbyggja sýning og almenn sýning um ástralskt líf og menningu. Inni í miðju safninu er svo skógarsýning, opið svæði með trjám og plöntum. Við náðum ekki þar inn og ég bíð spennt eftir að sjá þetta allt aftur við tækifæri.

Á laugardaginn var svo farin langþráð ferð til gullbæjarins Ballarat. Höfum ætlað þarna uppeftir síðan við fluttum hingað en aldrei orðið neitt af því. Tæpra tveggja tíma keyrsta er til Ballrat sem er í hjarta gullhéraðsins í Victoriu fylki. Þarna fannst gull árið 1851 og í kjölfar þess flykktust að gullgrafarar hvaðanæva af úr heiminum til að freista gæfunnar. Í kringum leitarsvæðið byggðust hratt upp blómlegir bæir sem standa enn - og er Ballarat eitt besta dæmið. Þess má til gamans geta að stærsti gullmoli sem fundist hefur í heiminum, The Welcome Stranger, 72 kíló takk fyrir, fannst einmitt í héraðinu árið 1869 (og sá næst stærsti líka!).

Í Ballarat er starfrækt eitt vinsælasta safn Ástrala, Sovereign Hill, þar sem gerð hefur verið eftirmynd af Ballarat í gullæðinu. Þetta er vægast sagt alveg frábært safn sem lætur manni líða eins og maður sé staddur í miðju æðinu enda iðar bærinn af lífi. Allar verslanir eru t.d. opnar og starfsemi í fullum gangi. Þarna var hægt að kaupa gamaldags brauð og sælgæti, fatnað og ýmsa minjagripi. Fullt af fólki vinnur við að labba um safnið í tilheyrandi búningum til að auka á raunveruleikann og stemninguna. Hápunktur dagsins, að mínu mati, var þegar við sáum starfsmann safnsins bræða niður gullstöng að andvirði 70 þúsund dollara (3,5 milljónir) og kæla hana svo aftur. Thelma Kristín fékk líka að lita kerti og skrifa með bleki og fjaðurstaf. Enduðum daginn á að freista gæfunnar og leita að gulli í árfarvegi sem rann í gegnum bæinn.. en því miður - ekkert gull, gengur bara betur næst!

Það sama gilti um þetta safn og Melbourne Museum, við náðum ekki að skoða það allt og bíður það frekari ferðalaga með góðum gestum.

Thelma Kristín er svo daglega á sundnámskeiði þessa vikuna með Inku vinkonu. Hún er búin að fara tvistar og gengur vel. Ég verð að segja að þó daman sé hæstánægð þarf hún að hafa sig alla við að ráða við æfingarnar. Mér finnst kennarinn frekar ákafur fyrir minn smekk þegar hann hrópar á eftir krökkunum "eyes in water, eyes in water" og lætur þau sparka sér áfram yfir alla laugina. Hinum megin við bandið er kona með annan hóp, sem á að heita á sama level, og hún er að ausa yfir þau vatni með lítilli könnu og láta þau leggja eyrað í vatnið! En Thelma Kristín er ofsalega dugleg og alveg að rifna af stolti yfir eigin afrekum eftir tímann. Það er víst það sem skiptir máli.

Erum búin að panta okkur ferð með "Spirit of Tasmania", sjöttu stærstu farþegaferju heims (las ég einhvers staðar), yfir til Tasmaniu í lok þessa mánaðar. Ætlum að hafa með okkur bílinn og keyra um eyjuna. Erum þessa dagana að reyna að gera upp við okkur hvort við eigum að keyra um alla eyjuna eða aðeins hluta hennar og taka lífinu með ró. Siglingin tekur eina nótt hvora leið, brottför á miðvikudagskvöldi. Við höfum svo fjóra daga til umráða áður en við siglum heim aftur á sunnudagskvöldi. Erum að færast yfir á þá skoðun að keyra bara um austurhlutann og skoða hann nokkuð vel í stað þess að rjúka enda á milli. Að vísu þýðir það að við sjáum ekki stærsta þjóðgarð eyjunnar, sem er víst á heimsminjaskrá UNESCO, en þar sem nærri engir vegir liggja um garðinn þýðir það í raun að eina leiðin til að skoða hann er að hafa tíma til langra gönguferða og það höfum við ekki.

Jæja, best að hætta þessari langloku og fara að koma einhverju í verk hérna megin. Úti er grenjandi rigning en yfir 20 stiga hiti. Gott að sundnámskeiðið er innnanhúss.

Sendum bestu afmælisóskir til Söru sem á afmæli í dag, 11. janúar!!

Knús
Unnur Gyða

1 Comments:

  • Hæ frænka og gleðilegt ár! Það er alltaf jafngaman að fylgjast með þessu ævintýri ykkar! Það er nú ekki slæmt að vera í sumarfríi í janúar...
    Hafið það sem allra best - Bestu kveðjur frá Frakklandi (þar sem ég er að vinna fyrir þinn fyrrverandi yfirmann :D)

    Lilja

    By Blogger Lilja, at 1:51 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter