Melbourne

Tuesday, October 02, 2007

Heim í heiðardalinn

Jæja jæja - Mín er mætt aftur vegna "fjölda" áskorana :o/ Ég sé nú að teljarinn á síðunni mjakast enn svo það virðist - þó ótrúlegt sé - sem nokkrar hræður slæðist enn hér inn til að tékka á okkur andfætlingunum. Svo nú er best að spýta í lófana og setja inn nokkrar fréttir.

Eftir yndislegt sumar á Íslandi erum við sem sagt mætt aftur til Melbourne. Vorið tók á móti okkur - svona inn á milli alla veganna. Getum alls ekki kvartað í dag því hér er glampandi sól og vel yfir 20 stiga hiti. Ég þurfti meira að segja að kveikja á loftkælingunni í svefnherberginu - í fyrsta sinn langan tíma.

Thelma Kristín fór auðvitað beint í skólann eftir að við komum heim og var fegin að hitta vinkonurnar. Eftir þrjár vikur í skólanum var svo önnin búin og tveggja vikna frí tók við. Skólinn byrjar svo aftur næsta mánudag - bæði hjá Thelmu Kristínu og mér svo þá tekur alvaran við aftur. Við höfum verið mjög rólegar í fríinu enda hefur Maron verið á ferðlagi og við mæðgur höfum því mestmegnis verið heima við - eða hér um kring.

Þið getið nú rétt ímyndað ykkur gleðina þegar við vorum beðnar um að passa lítinn kanínu-unga í nokkra daga. Thelma Kristín sem suðar stöðugt um gæludýr! Mamman hugsaði sér gott til glóðarinnar og ætlaði nú aldeilis að sýna þeirri stuttu ábyrgðina sem fylgir slíku gæludýrahaldi. Það brást yfirleitt ekki að ef Thelma gleymdi sér í leik eða settist fyrir framan sjónvarpið að það "þurfti endilega" að sinna dýrinu NÚNA! Hún lét nú alltaf til leiðast - miskát þó - og svo er bara að sjá hvort suðið muni halda áfram eftir að barnið hefur fengið nasaþef af gæludýrahaldi. Hún "Softie" var nú algert krútt svo það er harla ólíklegt að þetta hafi orðið til þess að minnka áhugann - en maður heldur í vonina!

Elísa vex og dafnar með hverjum deginum og er hvers manns hugljúfi. Hún er orðin voða dugleg að velta sér yfir á magann og hefur gert í þó nokkurn tíma - en svo situr hún pikkföst og orgar! Ætlar ekki alveg að ná þessu með að fara til baka....og þó....ég er ekki frá því að hún hafi farið í heilan hring í gær en mín var bara svo upptekin við að glápa á tölvuskjáinn að ég missti af því - skamm skamm! Litla skvísan var alla veganna farin af maganum hægra megin á teppinu yfir á magann alveg hinum megin - annað hvort hefur hún velt sér eða skriðið!


Verð að bæta því hér við, eftir allar fótboltafréttirnar af Kristófer undanfarna mánuði, að Brighton Beast rúllaði upp deildinni í ár; voru taplausir og slógu nýtt met í stigafjölda - Ekki amarlegt það! Hér er hægt að kíkja á heimasíðu Brighton þar sem fréttin af Beasts er á forsíðunni http://www.brightonsc.org.au/ Það vantar því miður Kristó á myndina því hún er auðvitað tekin eftir að við fórum til Íslands, en það er verið að vinna í nýrri mynd þar sem honum verður smellt inn á.

Jæja - hef nú kannski ekki svo mikið að segja þegar allt kemur til alls. Kannski spurning um að vera duglegri að skella inn fréttum svo ég gleymi hreinlega ekki hvað við höfum haft fyrir stafni!

2 Comments:

  • Takk, takk, takk elsku vinkona fyrir að láta okkur vita aðeins af ykkur. Búin að kíkja mikið inn og hef beðið eftir fréttum og myndum. Þetta er amk mjög góð byrjun.

    Hlakka til að heyra meira.

    Stórt knús til ykkar allra

    Sirrý

    By Anonymous Anonymous, at 9:24 AM  

  • áskorun - hér með færðu áskorun, betra seint en aldrei ;)
    gaman að sjá bloggið lifna aftur við og geta fylgst með ævintýrinu.
    Hafið það gott í sumar :)

    kveðja úr kjallaranum

    Lára nágranni

    By Anonymous Anonymous, at 11:28 AM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter