Melbourne

Sunday, September 18, 2005

Markaður o.fl.


Hæ hó

Við mæðgur skelltum okkur sko heldur betur á markaðinn á fimmtudaginn. Þetta eru í raun leifar af gömlu "fair", þið vitið, þegar bændur komu til borgarinnar með dýr og hvers kyns afurðir til sölu eða til að sýna hinum bóndunum, keppast og metast. Það má segja að þetta hafi verið allt í senn dýragarður, landbúnaðarsýning, matarkynning, markaður, tivoli og leikhús. Við tókum lestina um morguninn og eyddum þarna mörgum klukkustundum í góðu yfirlæti. Kíktum á hin ýmsu dýr, bæði rollur, lamadýr og beljur. Svo var sérstakt hús með ungviði sem mátti klappa, meira að segja sauðburður og eggjaútungun í beinni svo ekki sé minnst á gæludýrabásinn þar sem við fengum að klappa eðlu o.fl.

Svo fórum við á barnaleiksýningu, Madagascar live, þar sem hetjurnar úr Disneymyndinni stigu á stokk og sungu nokkra slagara. Ég hef nú ekki séð myndina en verð að segja fyrir mitt leyti að þessar Disney myndir miða meira og meira að því að skemmta foreldrunum (það eru jú þeir sem koma með börnin í bíó). Lögin sem þessar fígúrur voru að syngja voru frá sokkabandsárum foreldra minna og héldu athygli barnanna svona mátulega. Ég hefði miklu frekar vilja sjá þá taka nokkur barnalög og fá krakkana með sér í stað þess að syngja "Born to be wild" og "New York New York" og tala um að mörgæsirnar séu haldnar ofsóknarbrjálæði!

Við sáum líka í fyrsta sinn fyrirbæri sem kallast "Show bags" og eru plastpokar frá hinum ýmsu framleiðendum og heildsölum með samansafni af alls kyns dóti eða sælgæti í ákveðnu þema. Það var t.d. hægt að fá allar Disney karaktera sem maður gat hugsað sér auk annarra teiknimynda, flest sælgætismerki o.s.frv. Thelmu Kristínu hafði verið lofað að kaupa einn poka og ég reyndi af öllum mætti að sannfæra hana um að kaupa eitthvað annað en Disney Princess en án árangurs. Daman var hins vegar alsæl með sinn prinsessu show bag sem innihélt m.a. prinssessusápukúlur, prinsessumyndaramma, prinsessutösku og prinsessuskartgripaskrín (getið þið ímyndað ykkur hamingjuna á einum bæ??!)

Mest spennandi af öllu var svo auðvitað tívolíið. Við mæðgur skelltum okkur í parísarhjólið og svo fékk Thelma Kristín að velja sér nokkur tæki sem hún fór sjálf í. Við vorum orðnar ansi lúnar, en ánægðar samt, í lok dags þegar við tókum lestina heim aftur.

Thelma Kristín fór svo í leikskólann á föstudaginn. Verð að segja ykkur eitt megafyndið. Þegar ég fór með dömuna á föstudagsmorgun kom maður á móti mér út af leikskólanum sem ég kannaðist eitthvað við... og fljótt rann upp fyrir mér ljós. Þetta var hann "Max" úr Nágrönnum!! Haldiði ekki bara að barnið mitt sé með barninu hans á leikskóla. Mætti honum einmitt aftur þegar ég sótti Thelmu Kristínu og það er ekki um að villast, þetta er hann "Max". Ef einhver hefði sagt mér það fyrir 15 árum, þegar ég var einlægur aðdáandi "Nágranna", að einn daginn ætti ég eftir að búa í Melbourne og barnið mitt ætti eftir að vera með barni eins leikarans á leikskóla... þá held ég bara að ég hefði dottið niður dauð úr spennu og undrun...svo það er víst eins gott að maður veit ekki ævina fyrr en öll er!

Í gær, laugardag, var veðrið með því móti að maður var best geymdur innandyra. Við tókum því afskaplega rólega fyrir utan einn hjólatúr. Hann var hins vegar ansi stuttur því það var svo hvasst að Thelma Kristín átti í mesta basli við að halda jafnvæginu. Hún er annars að verða ansi flink daman, vorum að æfa okkur í að bremsa í gær og það gekk nokkuð vel.

Í dag fórum við svo í langan göngutúr í yndislegu veðri. Löbbuðum í gegnum grasagarðinn upp til St. Kilda. Þar er alltaf líf og fjör á sunnudögum, sérstaklega þegar veðrið er gott. Löbbuðum um listamarkaðinn sem þarna er á hverjum sunnudegi. Hann er mjög sérstakur að því leyti að aðeins listamennirnir sjálfir mega hafa básinn svo maður getur verið viss um að fá frábæra þjónustu og upplýsingar um vöruna frá þeim sem býr hana til. Fengum okkur bita niðri á höfn og löbbuðum svo strandlengjuna heim aftur með viðkomu á öllum róluvöllum sem við fundum. Þetta er alveg ofsalega skemmtilegur hringur en gangan sjálf er um 2 tímar, fyrir utan öll stopp, svo maður er aðeins farinn að finna fyrir lærunum þegar maður kemur heim (sem er auðvitað hið besta mál).

Erum sem sagt í afslöppun núna og stefnum að kvöldmat fljótlega. Á morgun er enginn dans því skólarnir eru að fara í frí og þá detta danstímarnir líka niður. Kínverskan er hins vegar enn á dagskrá og Ela ætlar að koma aftur og passa Thelmu Kristínu.

Eins og þið hafið kannski tekið eftir þá hefur myndasíðan okkar verið tekin niður. Það var einhver andsk... hakkari sem fór inn á serverinn og því varð Maron að loka öllu heila klabbinu. Ég get lítið gert í málinu sem stendur, enda kerfisfræðingurinn í Japan, en þessu verður kippt í lag þegar Maron kemur heim ... er það ekki ástin mín?? ;o)

Ég gerði meira að segja heiðarlega tilraun til að hlaða niður myndum úr símanum mínum en gekk ekki að tengja hann við tölvuna... það verður líka að bíða betri tíma. Lét því, að gamni, fylgja með gamlar myndir af skottunni minni, svo þið gleymið ekki alveg hvernig hún lítur út.

Bestu kveðjur úr sólinni
Unnur Gyða

2 Comments:

  • Sælar mæðgur. Takk fyrir innlitið á heimasíðuna okkar :) Gaman að geta fylgst með ykkur og gott að heyra að vel gengur...
    Hlökkum til að sjá ykkur annað hvort á klakanum eða vonandi einhvern tímann í Ástralíu ;)
    Hafið það sem best,
    kveðjur og knús,
    Ísak :) og Ragga

    By Anonymous Anonymous, at 7:20 PM  

  • Hey ##NAME##, I was out searching the net today for information on ##LINK## and found this site. Even if ##TITLE## was not what I was searching for, the site got my attention. I can see why I founf this site, when I was looking for related information. Keep up the good work and thanks.

    By Anonymous Anonymous, at 4:47 PM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter