Melbourne

Sunday, May 01, 2005

Haustkveðjur

Jæja, þá er heimilið orðið húsbóndalaust og við mæðgur tvær eftir í kotinu. Maron fór áleiðis til Íslands í dag. Hann átti bókað flug kl. 2 til Sidney en Qantas hringdi í morgun og sagði að fluginu frá Sidney til Bankok seinkaði um 4 tíma og buðu honum að taka flug kl. 6 til Sidney í staðinn - Svo við græddum 4 tíma saman á sunnudagseftirmiðdegi sem var auðvitað bara hið besta mál.

Höfum verið róleg í vikunni... félagslega alla veganna. Brjálað að gera í vinnunni hjá Maroni og alltaf óvíst hvenær hann færi til Íslands. Við höfum verið dugleg að nota nýja grillið - dýrindis steikur kvöld eftir kvöld - best við mæðgur borðum bara salat á meðan Maron er í burtu! Ég er nú svolítið fúl út í veðurfræðingana hér því tvo daga hef ég ætlað mér að sitja á svölunum í 30 stiga hita og sól eins og þeir hafa lofað en svo hefur bara verið skýjað þegar á hólminn er komið ... og ekkert sólbaðsveður.... og nú er haustið komið. Eftir heitasta aprílmánuð frá upphafi mælinga snarlækkaði hitinn núna um helgina og datt undir 20 gráðurnar. Reyndar á hann aðeins að hækka í vikunni en fer síðan lækkandi frá og með næstu helgi. En við þessu var víst alltaf hægt að búast, að það kæmi haust að loknu sumri!

Við mæðgur skelltum okkur á dótasafnið á föstudaginn. Safnið er staðsett í húsinu góða hér hinum megin við götuna, á sama stað og Thelma fór í dansinn áður en hún byrjaði í leikskólanum. Þarna var hægt að fá lánuð alls kyns leikföng, allt frá fótboltamörkum niður í púsluspil. Alveg frábær uppfinning, krakkar verða hvort eð er leiðir á leikföngunum sínum eftir 3 vikur - þá er nú líka aldeilis frábært að geta bara skipt þeim út. Sú stutta fékk lánaðan dúkkustól, búðarkassa, Bubba Byggir spil og púsluspil - sú var lukkuleg! Áhugavert að sjá hvaða dót var hægt að fá lánað, dótið sem stenst tímans tönn - gamla góða Brio og Fisher Price dótið. Pabbinn fékk hláturskast þegar við komum heim með búðarkassann.... hann hafði víst átt nákvæmlega eins!

Fórum aðeins í bæinn í gær því Maron þurfti að ganga frá flugmiðanum sínum. Fórum líka niður í Upplýsingamiðstöð ferðamanna og fengum fullt af bæklingum til að fá hugmyndir að því hvað við viljum gera þegar fyrstu gestirnir koma, náðum okkur í lesefni fyrir næstu daga og vikur. Nóg hægt að gera hér ef maður ber sig eftir því.

Settumst inn á japanskan skyndibitastað eftir hádegið. Þegar við vorum að bíða eftir matnum sagði sú stutta: "Mér finnst þetta ekki nógu fínn veitingastaður"!!!!!!!!!!! Halló! Ein 4ra ára með kröfur! Foreldrarnir vissu ekki hvort þau ættu að hlæja eða gráta. "hm... afhverju finnst þér það?" Daman vildi sko hafa dúka á borðinu og svona huggulegt,sko! Talandi um veraldarvana heimskonu. Hún krafðist þess líka að borða með prjónum, þrátt fyrir að þjónninn hafi komið með gaffal handa henni. Mamman varð að gefa sig og láta eftir prjónana sína. Við brostum nú í kampinn þegar hún byrjaði með prikin en urðum fljótt agndofa því sú stutta gerði sér bara lítið fyrir og borðaði sinn mat með prjónum eins og hún hefði aldrei gert annað. Mikið sáum við eftir því að vera ekki með myndavélina með okkur.

Er búin að hafa upp á íslenskri stelpu hér í Melbourne. Hún á þriggja ára strák og við ætlum að hittast í vikunni og leyfa krökkunum að leika. Það verður gaman að fá félagsskap í einverunni á meðan bóndinn er að heiman. Vonandi að við getum svo bara hitt þau sem fyrst aftur. Ég þarf líka að hringja aftur í konsúlinn. Ég held hún hafi týnt símanúmerunum okkar því hún ætlaði að hringja í okkur fyrir löngu síðan en við höfum ekkert heyrt. Ég er alla veganna að vona að það sé skýringin, hún getur varla strax verið orðin þreytt á okkur, hún verður nú að hitta okkur fyrst!

Jæja, best að fara að halla sér. Daman fer í leikskólann á morgun og þar sem Maron verður á flugi geri ég ekki ráð fyrir að vinna þennan dag eins og ég er orðin vön að gera þegar Thelma Kristín er á leikskólanum. Best ég taki bara eins og einn dag fyrir mig. Sú stutta hefur auðvitað engan hér nema okkur Maron og er doldið dugleg að tala og spyrja um allt milli himins og jarðar. Getur satt að segja orðið smá þreytandi á köflum. Ég fann nú samt upp ráð við því... Thelma er svo dugleg að leika Frúna í Hamborg að við fundum upp nýjar leikreglur... bannað að segja "mamma" og "af hverju" ... miklu skemmtilegri leikur! Nei, grínlaust, hún er alveg yndisleg, ótrúlegt hvað hún er hamingjusöm í gegnum allar þessar breytingar. Hef vonandi nýjar skemmtisögur af leikskólanum í vikunni.

Biðjum að heilsa héðan úr haustinu..
Unnur

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter