Gleðilega páska!

Gleðilega páska! Höfum átt hér yndislegan páskadag.... meira um hann seinna. Ég lumaði hér á gömlu bloggi sem ég hafði ekki póstað því ég átti eftir að tæma myndavélina. Gerði það loksins í dag svo ég ætla að láta þetta fljóta núna og skrifa fljótlega um páskahelgina okkar. Það er svo mikið að gera þessa dagana að mér líður eins og ég sé komin á eftir í framhaldssöguskrifum!
.........
Var ég ekki að lofa einhverri ferðasögu?? Það er bara svo mikið að gera í þeim efnum að ég veit ekki hvar ég á að byrja.
Byrjum því bara á byrjuninni......
Þarsíðasta helgi var verslunamannahelgi hérna megin, frí á mánudegi og veðurspáin með allra glæsilegasta móti. Maron hélt reyndar að hann þyrfti að fara til Queensland frá og með sunnudeginum svo við höfðum ekki þorað að plana neitt. Það kom svo í ljós á föstudeginum að hann færi ekki strax svo við okkur blasti löng og galtóm helgi. Við vorum ákveðin í að skella okkur í svo sem eina dagsferð en áttum erfitt með að ákveða hvert skyldi haldið. Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur og familían stefndi á góðan bíltúr. Bóndinn lenti að sjálfsögðu í smá vinnu og sífellt leið á morguninn..... þá tók kellan málin í sínar hendur og notaði internetið góða til að athuga hvort ekki væri hægt að fá sæmilegan "last-minute" díl á gistingu á skemmtilegum stað og viti menn, rottur og mýs.... mín fann þessa fínu íbúð mitt á milli tveggja staða sem mig hefur alltaf langað að skoða: Gippsland Lakes og Wilson's Promontory.
Við tókum því slaginn, hentum ofan í ferðatöskur og rukum út. Vorum komin í bæinn Sale (pælið í að búa bara í Útsölu!! - hélduð þið að Gísli á Uppsölum hefði verið eitthvað merkilegur??) rétt fyrir kvöldmat, í þessa fínu íbúð. Röltum niður í bæ og fengum okkur kvöldmat áður en haldið var í bólið.
Á sunnudeginum keyrðum við niður að 90-mile-beach - sem Ástralir vilja meina að sé lengstra strönd í heimi en Google heldur því fram að til séu tvær lengri. Rétt innan við ströndina eru stöðuvötn - sem reyndar hafa verið opnuð og tengd út í sjó svo hægt sé að sigla þar inn. Þetta samspil myndar auðvitað meiriháttar strandlíf - sjór á eina höndina og stöðuvötn á hina. Verð samt að viðurkenna að ég varð fyrir pínkulitlum vonbrigðum með svæðið - þessi bölvuðu tré eru auðvitað alltaf að skyggja á útsýnið svo maður naut þessa kannski ekki eins og maður hafði vonað - svo voru bæirnir sem við heimsóttum sannkallaðir "white trash" bæir með illa förnum gömlum húsum og litlum sjarma..... en gaman að koma þarna samt sem áður.






Lögðum svo tímanlega af stað í Melbæinn á mánudeginum enda ætluðum við löngu leiðina heim með viðkomu í Wilson's Promontory þjóðgarinum (eða "The Prom" eins og Ástralir kjósa að kalla hann). Hef heyrt endalaust lof um þennan þjóðgarð og stelpurnar í mömmuhópnum mínum keppast við að fara þarna og tjalda. Það kom því ekki á óvart að þarna stigum við inn í paradís á jörð. Um er að ræða syðsta hluta meginlands Ástralíu, tanga sem umlukinn er sjó á þrjá vegu (og þar með ströndum), skógi vaxnar hæðir með miklu dýralífi og lítilli á sem rennur þarna til sjávar. Þessa nutum við alls í 30 stiga hita og glampandi sól. Höfðum reyndar bara tíma til að ganga aðeins niðri á stönd í þeim mýksta sandi sem ég hef séð - (þetta var næstum eins og leir) og svamla aðeins í ánni auk þess sem við náðum einum stuttum göngutúr. Thelma Kristín var að leita að emúa en við fundum því miður aðeins nokkrar smákengúrur.
Ströndin og áin sem þar rann til sjávar voru engu lík. Thelma Kristín hljóp upp með ánni og elti fiskana sem þar svömluðu - hún náði meira að segja einum þeirra með berum höndum - frekar stolt dama! Litla skottið skreið um lækinn, buslaði og gruflaði í sandinum. Náðum nokkrum myndum en því miður ákvað myndavélin á þessum tímapunkti að verða batteríslaus!!





Héldum svo heim um eftirmiðdaginn eftir vel heppnaða helgi, allir þreyttir og grútskítugir, en alsælir með ferðina.
...............
Svona var nú ferðasagan sú. Ég enn eftir að dokumentera brúðkaupsferðina og páskahelgina - best að fara að bretta upp ermar ;o)
3 Comments:
Vá, ég bíð spennt....
Gleðilega páska, greinilega "aðeins" betra veður hjá ykkur en okkur !!!
By
Anonymous, at 1:06 AM
Oh, bara öfund við að skoða þessar myndir. Hérna bara snjóar og snjóar, alveg glatað þar sem það á nú að vera komið "vor" hérna.
Við erum einmitt ennþá að reyna að ná sætri systkinamynd og hún er orðin rúmlega 14 mánaða, ekki að ganga mjög vel :D
Fylgjumst spent með fjölskyldusögunni og bíðum eftir framhaldi ;)
kv. frá Randers :D
By
Anonymous, at 8:35 AM
Ohhhh, hvað þetta hljómar vel. Gott veður og strönd. Hefði ekkert á móti smá sumarfíling núna. Fór áðan út með hálfblautt hárið og það fraus að hluta til, ég sver það. Sætar myndirnar, þetta eru nú meiri drottningarnar sem þú átt Unnur. Knús og kossar á línuna. Emma hlakkar til að hitta vinkonur sínar þegar þið komið heim í sumar. Hæ hó jibbí jei.
Ása
By
Anonymous, at 8:53 AM
Post a Comment
<< Home