Melbourne

Wednesday, August 16, 2006

Á skíðum skemmti ég mér tralalala...

Var nú að hugsa um að kalla bloggið ferkar "Allur lurkum laminn..."!! Held samt að núna, í dag.. á þriðja degi, geti ég fyrst gengið án þess að líta út eins og ég hafi kúkað í buxurnar. Skrítið hvað maður finnur mikið af nýjum vöðvum sem maður vissi ekki að maður ætti til þegar maður tekur upp á einhverri nýrri skemmtun.. snjóbrettaiðkun í mínu tilfelli!

Áttum sem sagt yndislega helgi í Mt. Buller. Vorum komin upp í fjall seint á föstudagseftirmiðdag og áttum notarlegt kvöld með finnsku vinunum. Vorum saman í 4ra herbergja hótelíbúð á frábærum stað í þorpinu. Í Mt. Buller er þorpið skipulagt við og í kringum lyftur og skíðabrekkur svo maður er með stemninguna beint í æð, bara að labba úr og spenna á sig skíðin.

Stelpurnar fóru í skíðaskóla hálfan daginn, bæði á laugardag og sunnudag og þá fengum við Maron tækifæri til að skíða saman í rólegheitum. Var á skíðunum fyrri daginn og hætti mér því úr byrjendabrekkum upp í hærri hæðir.. alveg meiriháttar gaman. Settumst á veitingastað í miðju fjalli í hádeginu og skíðuðum svo niður að sækja dömuna.



Aðstaðan fyrir krakkana var alveg frábær, bæði skíðasvæðið úti sem og inniaðstaða sem þau fengu að nota inn á milli til að þau yrðu nú ekki alveg útkeyrð. Nesti og hádegismatur innfalinn í pakkanum svo uppúr hádegi var ekkert að gera nema sækja dömuna og halda aftur í brekkurnar.

Eftir nokkrar ferðir í barnalyftuna með skvísunum tók ég þær upp á hótel á meðan Maron og Kim skelltu sér nokkrar ferðir. Hættum frekar snemma og skelltum okkur í heita pottinn áður en við fórum út að borða.

Á sunnudeginum herti mín svo upp hugann og fór á snjóbrettið, að ég held í fyrsta sinn síðan Thelma Kristín fæddist!!! Fékk mér einkakennara og hélt af stað. Náði sæmilegum tökum á þessu á fyrsta klukkutímanum, alla veganna var fullt af fólki í brekkunum sem var verra en ég!!! Maron fékk sér líka kennara, enda þurfti hann víst að læra alla brettatækni upp á nýtt eftir að hafa endurnýjað gamla brettið sem var frá síðustu öld.

Ég ætlaði svo að kíkja á dömuna í skíðaskólanum eins og ég hafði lofað en fann hana hvergi í brekkunni sem skíðaskólinn er með. Þegar ég fór að spyrjast fyrir var mér tjáð að hún hafi verið færð upp um hóp og væri komin upp í almenningsbrekkuna! Ég tölti þangað yfir til að horfa á skvísuna sem var auðvitað að rifna úr monti yfir því að hafa verið færð yfir til "the big kids!". Eftir skólann fórum við saman í brekkuna og áður en degi lauk var hún farin með okkur í stólalyftuna og skíðaði eins og herforingi á eftir mér í essum niður brekkuna! Ótrúlegt hvað krakkar eru fljótir að ná þessu.

Við erum auðvitað alveg veik að skella okkur aftur núna í vetur, bæði okkar vegna og líka til að styrkja Thelmu Kristínu enn frekar. Hún hafði ótrúlega gaman af þessu og var sko ekki tilbúin að hætta þegar ég vildi fara heim um fjögur leytið. Þrátt fyrir að vera búin að skíða síðan 9 um morguninn. Hins vegar hefur vertíðin verið hin versta í 30 ár, lítill sem enginn snjór og nú er orðið svo heitt að það er orðið erfitt að framleiða snjó.. eins og gert hefur verið í vetur. Sem dæmi má nefna að á skíðasvæðinu voru 10 lyftur opnar af 25 og því frekar mikil örtröð í brekkunum, en fyrir vikið skíðuðum við í 7 stiga hita og glampandi sól báða dagana.. verður ekki mikið betra.

Ókum svo heim á mánudeginum í gegnum Kinglake National Park. Ákváðum að taka smá krók fyrst við höfðum daginn fyrir okkur. Daman vildi auðvitað frekar fara á skíði fram að hádegi en við ákváðum að geyma það til betri tíma. Fengum okkur göngutúr í skóginum og skoðuðum Mason Falls.. mjög rólegt og notarlegt. Hitinn er um 16-18 gráður þegar maður kemur niður af fjallinu þannig að það er kominn vorfílingur í mann hérna megin.

Sem sagt.. æðisleg ferð í alla staði. Myndir komnar á netið. Ekki spurning að við munum aftur fara saman í skíðafrí fjölskyldan... bara spurning um hvar í heiminum það verður.

Knús
Unnur snjóbrettagella

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter