Melbourne

Friday, August 18, 2006

Vorið er komið og grundirnar gróa

Jæja, þá er maður bara sestur á skólabekk enn einu sinni! Ég sem var sannfærð um að viðskiptafræði væri eina fagið sem ég myndi aldrei aldrei aldrei leggja stund á! Hugsa enn með hryllingi til viðskiptafræðitímanna í MR sem maður asnaðist til að velja af því kennarinn var ungur og sætur. Þetta lítur nú kannski heldur illa út því viðkomandi kennari er í dag dósent á Bifröst en hann er orðinn gamall og feitur og á ekkert í þessari ákvörðun minni í þetta sinn!

En, ég hugsa að með þessu neikvæða hugarfari og þeirri sannfæringu að viðskiptafræði sé í eðli sínu hundleiðinleg muni námið varla geta gert annað en komið mér á óvart og vonandi orðið bærilegt er fram líða stundir -jafnvel bara doldið áhugavert!

Annars lítið að frétta úr vorinu hér. Fengum heimsókn á sunnudaginn frá íslenskri vinkonu og 6 ára syni hennar. Æðislegt fyrir krakkana að fá að hittast. Þau þurfa bæði á íslenskuæfingunni að halda, verst að við máttum varla líta af þeim þá voru þau farin að tala saman á ensku!

Þó að íslenskan hjá Thelmu Kristínu sé svo sem góð miðað við aðstæður þá á hún t.d. mjög erfitt með að tala um skólann öðruvísi en á ensku. Upplifunin fer jú fram á ensku og því bara aukavinna að snúa þessu yfir á íslensku til að segja mömmu gömlu frá deginum. Hún hefur alltaf blandað mikið saman málunum þegar hún talar um skólann og undanfarið er hún jafnvel alveg farin að svissa yfir á ensku!

En almennt talar hún fína íslensku. Maður heyrir samt oft að hún er að þýða frá ensku í hausnum á sér, notar vitlausar forsetningar og annað í þeim dúr. Ég rak nú upp stór augu um daginn þegar ég sagðist ætla niður að elda matin og daman sagði "nei, ekki með út mér!" Ég horfði bara stóreygð á barnið; "ha?".. skvísan hækkaði róminn og sagði hátt og skýrt, "ekki með út mér!".. ég þurfti enn að hugsa mig um í nokkra stund áður en ég náði að snúa þessu rétt .. not without me .. ekki án mín!

Yfir í aðra sálma. Við höfum ákveðið að setja lykilorð á myndasíðuna. Manni er alveg hætt að standa á sama hvað varðar perra og barnaklám á netinu og alger óþarfi að hafa myndirnar aðgengilegar hverjum sem er. Þið megið alls ekki setja þetta fyrir ykkur... ýtið bara á "register" takkann og skráið ykkur inn. Við munum bara sjá nafið ykkar... ekki lykilorðið sem þið veljið og svo veitum við aðgang... ekkert mál!

Ekki heldur vera hrædd við að skrá ykkur þó þið séuð ekki skild okkur í fyrsta ættlið. Okkur finnst gaman ef fjarskyldir ættingjar, kunningjar og gamlir vinnufélagar nenna að kíkja á okkur. Þetta er bara til að halda óviðkomandi frá... það virðist vera mikill umgangur um síðuna og við viljum bara vera viss um að það sé okkar fólk sem er að flækjast þarna.

Jæja, mín á að mæta út í skóla eftir stutta stund, best að drífa sig. Fer enn á þriðjudögum og þykist vera að hjálpa til. Er svo heppin að mestur tíminn fer í leikfimi og mitt aðalverkefni því að fylgjast með því að kollhnísar og handahlaup séu rétt gerð... vissi að fimleikarnir ættu eftir að nýtast mér.

Njótið síðustu sumardaganna... sérstaklega þið sem ekki ætlið að ná ykkur í ástralska sólargeisla í vor!

Knús
Unnur

3 Comments:

  • Mér líst vel á þig að drífa þig í viðskiptafræðina. Ég man nú ekki bara eftir þessu "sæta" í MR ég fæ nú líka annan kall ofarlega í kollinn þegar ég hugsa um þessa hryllingstíma! Skrítið að maður skuli svo hafa valið þetta í HÍ....en við erum góðar, að gefa þessu annað tækifæri :)

    By Anonymous Anonymous, at 8:39 PM  

  • Húff. nei.. var ekki að hugsa um þann kennara! (bíddu aðeins meðan ég gubba!!) Maron heldur að ég verði fljót að falla á Bifröst fyrst ég er að lýsa því yfir opinberlega að stakir kennarar séu gamlir og feitir! En ég hef nú ekki trú á því að bloggið sé svo víðlesið. Lifi viðskiptafræði.. hún er vonandi skemmtilegri í annað sinn!

    By Blogger Unnur Gyda Magnusdottir, at 8:05 AM  

  • Já þið eruð góðar stúlkur... Eftir að hafa valið viðskiptafræði í MR, því það var svo ægilega praktískt (og m. sætur kennari) og gjörsamlega hatað hana, reyndi ég samt sem áður tvisvar að byrja í HÍ. Entist fyrst í 2 vikur og svo í eina. Þori samt ekki að sverja fyrir að ég muni aldrei reyna aftur!

    By Anonymous Anonymous, at 7:32 PM  

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter