Melbourne

Saturday, August 05, 2006

Hamstur á heimavelli

Ég er hamstur! Fór í endajaxlatöku á þriðjudaginn og hef setið í rólegheitum heimavið síðan, etið súpur og jógúrt og lít út eins og appelsína í framan. Er nú samt öll að koma til, borðaði meira að segja hakk og spagetti í kvöld og jarðarber á eftir. Held mig samt að mestu inni við til að fyrirbyggja orðróm um heimilisofbeldi þar sem ég er blá og marin á kjálkunum!



Ég hélt (og held reyndar enn) að svona jaxlatökur séu frekar lítið mál á Íslandi, þ.e. þær fela auðvitað í sér sömu grunnaðgerð og hér á Suðurhveli - en fara menn ekki bara í stólinn hjá tannsa, eru deyfðir almennilega, gefið smá hlátursgas og svo er bara látið vaða??? Ástralinn er nú ekki svona léttur á bárunni, nei nei.. við erum að tala um innlögn á einkasjúkrahús, skurðstofu, svæfingu og tilheyrandi pakka. Ég var að verða gráhærð á símtölum frá starfsmönnum sjúkrahússins sem hringdu hingað í tíma og ótíma dagana fyrir aðgerð til að kanna öll smáatriði og ganga úr skugga um að ég lumaði ekki á einhverjum ósvöruðum spurningum. Svo þegar á hólminn var komið þurfti ég að ganga í gegnum viðtöl við hjúkku, tannlækni, svæfingalækni og einhvern annan karl sem ég veit ekki hvað var að gera þarna, skipta yfir í skjúkrahússgalla og svo var maður bara settur á borðið á skurðstofunni, 5 starfsmenn í kringum mig, ljós, sótthreinsað andrúmsloft, leggur í handarbak og tilheyrandi... var alltaf að bíða eftir að Clooney mætti! Man svo auðvitað ekki meira fyrr en ég vaknaði X mínútum seinna. Var bara tiltölulega spræk og fljót að ranka við mér. Gekk svo á verkjalyfjum í nokkra daga (hefði ég tekið ráðlagðan skammt af dópi væri ég nú á hraðferð inn á Vog!!) og er bara alveg að verða stálslegin.

Girnilegur kvöldverður???


Eins gott því við erum að fara í 2 ára afmæli til Jespers hins finnska á morgun svo maður verður að vera orðinn klár í kökurnar! Það verður ljúft að komast í gott kökuboð. Við Jesper erum líka svo góðir vinir.. hann segir nú ekki mörg orð gæinn.. en hann segir sko Unnur ;o)

Síðasta laugardag héldum við íslenskt matarboð ... köllum það bara stofnfund yngri deildar Íslendingafélagsins (inntökuskilyrði ... að vera Íslendingur.. og helst undir fertugu!!). Erum búin að hafa upp á 3 íslenskum krökkum hér í grenndinni (já, þeir leynast sko hér ef maður leitar vel), góður hópur sem skemmti sér vel yfir góðum mat og drykk, íslenskum lakkrís, tópasskotum og íslenskri tónlist fram eftir kvöldi. Hittumst vonandi aftur sem fyrst. Í hópnum leynist líka einn 6 ára Ístrali sem verður örugglega góður leikfélagi fyrir Thelmu Kristínu og svo fengum við meira að segja tilboð um barnapössun... jess!! Munum pottþétt þekkjast það boð hið snarasta.

Talandi um barnapössun. Sá það nú í þessum veikindum mínum að maður er búinn að eignast marga góða vini hérna. Það rigndi yfir mig tilboðum um barnapössun fyrir og eftir skóla á meðan ég lá fyrir. Góð tilfinning að sjá að maður er kominn með gott tengslanet í kringum sig.

Það styttist svo í skíðahelgina okkar góðu. Leggjum af stað á föstudaginn og gerum ráð fyrir að skíða laugardag, sunnudag og vonandi mánudag áður en farið verður aftur í bæinn. Maron fór í vikunni og græjaði sig upp enda búinn að vera á sama snjóbrettinu síðan 1990 ... svo ekki verður kvartað yfir endingunni. Kíktum á skíðin hennar Thelmu en þau ná henni rétt í mitti.. hún var nú líka frekar mikil dúlla þegar hún var á þeim, stóð ekki úr hnefa og hjálmurinn stærri en skíðamaðurinn! Við ætlum bara að leigja á hana græjur í þetta sinn.. borgar sig ekki að fjárfesta í miklum búnaði á meðan við erum að fara á skíði einu sinni á ári. Kannski kallinn dragi okkur í fleiri ferðir núna þegar hann á svona flott bretti!

Talandi um dúlluna mína. Þegar við vorum að grafa í geymslunni í leit að skíðadóti fann ég gamla vídeospólu af Thelmu Kristínu sem tekin er upp á ýmsum tímabilum á fyrstu tveim árunum eftir að hún fæddist. Við erum búin að liggja í kasti yfir þessum myndum, sérstaklega þeim sem eru teknar upp í kringum 2 ára afmælið. Mín situr sposk á svip i stólnum sínum og syngur um loníetturnar og svo er ég að spyrja hana alls kyns spurninga og hún svarar eftir bestu getu; "Hvað heitirðu"... "í Veghúsum"!!.. "Nei, hvað heitirðu?"... "í Veghúsum"!! Hmm! Hún náði þessu nú rétt fyrir rest, vissi líka hvað hún væri gömul (einsáss) og hvenær hún ætti afmæli, hvað brói væri gamall, hvaða staf hún ætti og ég veit ekki hvað og hvað.

Svo var þetta óborganlega atriði sem tekið var upp nokkrum vikum seinna, greinilega, því nú var svarið "tveggjára" þegar ég spurði hvað hún væri gömul. Hún sat sem fastast á koppnum með poka af klósettrúllum fyrir framan sig og stafaði samviskusamlega S-A-L-E-R-N-I-S-R-Ú-L-L-U-R!!! Bara yndisleg!

Jæja, nóg mont. Best að koma þessari dúllu í rúmið, þegar komið korter fram yfir háttatíma.

Góða verslunarmannahelgi

0 Comments:

Post a Comment

<< Home


 

Website Counter